laugardagur, 9. apríl 2022

Í upphafi var orð, um miðbikið voru orð ... að lokum verða orð.

Leslíf mitt er undirlagt af Gyrði Elíassyni. Þetta orðalag "undirlagt af" er auðvitað ekki viðeigandi. Það er ekki eins og það sé eitthvert skítadjobb að stafa sig í gegnum höfundarverk G.E. - djúpt og tært sem það er og einhver þéttasta vörn gegn geislavirkni engilsaxneskra áhrifa á íslensk mál sem völ er á. Ég kemst nánast ekkert áfram við lesturinn því ég staldra við í þriðju hverri línu og punkta hjá mér orð og orðasambönd og hugsa: Ég tala enga íslensku. Eins og mér hafi ekki verið þetta nægilega ljóst fyrir.

Orðasambandið "undirlagt af" er þó viðeigandi í vissum skilningi. Og þá í tengslum við taugakerfi mitt.  Málið er að ég hef tekið að mér að skrifa yfirlitsgrein um höfundaverk G.E. frá árinu 2000 fyrir Bókmenntavef Borgarbókasafnsins. Möguleikarnir á því að mistakast eru nánast óþrjótandi. Hvað í veröldina ætla ég að segja af viti um skrif þess sem líklega er best skrifandi á íslenska tungu á vorum tímum? Þar fyrir utan kemst Gyrðir sem höfundur hættulega nálægt þeirri skilgreiningu á guðshugmyndinni að þar fari vera sem gerir ætlun sína ljósa með því að dyljast. Hvernig fangar maður í orð það sem er ferjað frá einni vitund til annarrar af slíku látleysi og einfaldleika að hafi maður ekki varann á sér - með öðrum orðum, gerist maður sekur um leti - fer maður á mis við skilaboðin? Ef einhver er með svarið við ofangreindum spurningum má sá hinn sami senda mér tölvupóst. 

Lestur er fyrst og fremst reynsla. Lesið og þér munuð upplifa/skilja/sjá/(fyllið inn af eigin þörfum og geðþótta). Að því leytinu til er það að lesa hliðstæða þess að lifa. Stundum er þetta ekki flókið. Til að mynda ætti ég ekki í vandræðum með að kjarna það sem sagan af Galdrakarlinum í Oz vill segja: Það eina sem kona þarfnast er par af smart skóm og afar tryggur hundur. Hvað Gyrði varðar ... það þarfnast meiri yfirlegu.