fimmtudagur, 28. maí 2009

guð hvað mig vantar að enduruppgötva mig (svona eins og madonna er alltaf að gera), er eitthvað svo geðveikt leið á  þessari 34 ára konu sem ég neyðist til að eyða öllum mínum tíma með

í enn eitt skiptið er ég gjörsamlega komin í þrot með hina árlegu gestaþraut "ammælisgjöf handa eiginmanni", hvað lífið væri mikið einfaldara ef það væri hægt að leysa suma hluti í eitt skipti fyrir öll! 


ég á of marga prófa og verkefnabúnka

ég bakað of margar kökur í gær

ég svaf of lítið í nótt

borðaði of lítið í morgun

en ég er ofofofofofofurstelpa

miðvikudagur, 27. maí 2009

af hverju má maður ekki bara liggja og lesa...?

föstudagur, 22. maí 2009

fimm á dag

í dag er ég þakklát fyrir...

fersku ávextina og grænmetið sem nærðu kroppinn minn í dag

skemmtilegt samtal við ljúfan vinnufélaga

setu í heitum potti með unglingnum mínum

að maðurinn minn hugsaði fyrir litlu hlutunum

sófakúr með skottunni minn

fimmtudagur, 21. maí 2009

afsakið hvað ég hef verið þurr á manninn upp á síðkastið, samkeppnin um tölvuaðgengið hefur bara harnað svo svakalega síðustu daga enda eiginmaðurinn búinn að vera helsjúkur og þá á ég við af flensu en ekki bara af sinni vanalegu sófasýki, í þokkabót bilaði talva unglingsins svo þið getið rétt ímyndað ykkur umsátrið um litla eplið mitt, ég hef svo sem ekki látið þetta pirra mig neitt að ráði þökk sé geislandi birtunni þarna úti, hver hangir í tölvunni þegar hann getur verið að drekka í sig d vítamín á fjöruhlaupum, ef fyrstu einkenni frjóofnæmis væru ekki farin að gera vart við sig hugsa ég að ég væri hreinlega búin að splundrast úr gleði, nú veit ég ekki hvort þig þekkið böl frjóofnæmis frá fyrstu hendi eða hafið einhverja innsýn inní hinn kvalafulla heim frjóofnæmissjúklingsins, frjóofnæmi er alvarleg skerðing á lífsgæðum og frjóofnæmissjúklingar eru minnihlutahópur sem nýtur lítillar samúðar í samfélaginu, ég á til dæmis ekki kost á að lækka rafmagnsreikninginn minn yfir sumartímann með því að hengja þvottinn út á snúru, frekar myndi ég nudda klór í augu, eyru, munn og nasir með tannbursta, nú svo hefur sífelldur handþvottur vond áhrif á húðina, skorpin handarbök eru ekki smart, ekki frekar er rauðhlaupin augu og sírennsli úr nefi, svo byrjar tryllingslegur kláðinn í vörum, tannholdi, hálsi og eyrum og tilveran skreppur saman í þá athöfn eina að klóra sér, ekkert kemst að nema þörfin fyrir að færa fingurgóma og neglur fram og til baka yfir slímhúð sem logar líkt af milljón býflugnastungum, klóra og nudda og reka fingur í eyru, ræskja sig og hósta og hnerra þangað til maður verður hinn fullkomni samruni fíkniefnaneytanda í fráhvörfum og túrettsjúklings, klóra nudda hósta hnerra klóra nudda hósta hnerra klóra nudda hósta hnerra aftur og aftur og aftur og aftur...verst er þegar maður vaknar í tjaldi, þá veit maður alveg hvernig það er að vera með lungnaþembu á lokastigi, hryllilegt alveg, hef oftar en einu sinni skjögrað út úr tjaldi langt fyrir allar aldir með allann heiminn hvílandi á brjóstkassanum og dragandi andann með hveinum og ískri líkt og einhver hafi sett lungun mín í loftpressu, allir hinir steinsofa og finnst þetta alveg sjúklega huggulegt að kúra svona útí guðsgrænni náttúrunni en hafa ekki hugmynd um að fyrir utan tjaldið þeirra stendur manneskja í andaslitrunum og berst fyrir lífi sínu, svona rétt til að æra óstöðugan kosta frjóofnæmislyf ógeð marga peninga og virka svo ekki einu sinni almennilega, en fyrirgefiði sjálfsvorkunnarvælið, almennt séð er maður nú bara tryllingslega glaður og hugsar um allt hvítvínið sem maður ætlar að drekka á pallinum eftir þrjár vikur þegar hið guðdómlega sumarfrí gengur í garð, þess á milli spáir maður svo í eitthvað sem kemur málinu svo sem ekkert við, eins og til dæmis það hvað vísundar eru undarlega skepnur!!!

 lifið heil

sunnudagur, 17. maí 2009

ég geng of mikið um allsber til að geta búið í þessu húsi

góða nótt  

miðvikudagur, 13. maí 2009

þetta er nýja mantran mín, í huga mínum búa töfrar, hugur minn er töfratæki, ég er ævintýrið, jájájájájájájájájájájájájájájájájá...töfrandi töfratöfratöfratöfratöfratöfrastelpa

er þetta lag ekki töfrandi, nick cave er líka töfrastrákur...algjör ástarsjaman!!!

sunnudagur, 10. maí 2009

óóóóóóóóguuuuuuððððð moleskine fást í litum!!! ég verð að eignast þessa dökkbleiku og þessa limegrænu og þessa bláu og væææææææl...bara allar!!!

ég er að reyna að læra að prjóna, það gengur illa, í stuttu máli sagt er ég svo ótrúlega léleg í að prjóna að ég þarf að hringja í tengdamömmu mína eftir hverja einustu umferð og fá hana til að leiðrétta allar vitleysurnar sem ég er búinn að gera, það væri fljótlegra að láta hana bara prjóna þennann húfuandskota, systir mín reynir að telja mér trú um að þetta sé ekki ég heldur prjónastíllinn, klukkuprjón sé bara svo rosalega erfitt prjón að flinkasta fólk sé í botnlausu veseni með að mastera það, jájá einmitt segi ég með tungubroddinn út í öðru munnvikinu og vísifingurinn sem heldur um bandið alveg pinnstífur og ískaldur af því þetta er allt svo þvingað og krampakennt, alla vega er ég alveg á barmi uppgjafar og sjálfsmyndin alveg í klessu, eftir svona hrikalega persónulega ósigra er nærtækast að leita í öryggi þess sem maður þekkir og demba sér bara beint í uppvaskið, tiltektina og þvottahrúguna, haltu þig við það sem þú kannt best konukjáni hvað helduru að þú getir lært að prjóna!!! sem er mesta synd af því að stóra, svarta húfan mín með gullröndinni á enninu hefði orðið alveg óskaplega falleg og sómt sé einkar vel á mínum illa greidda ruglukolli, þetta var svona "fallni engillinn" þema, svartur kollur með gylltan geislabaug, hmmmmm fallegt... en dauðadæmt!!!   

laugardagur, 9. maí 2009

stundum er maður heimskur, og áhrifagjarn, sérstaklega þegar maður er soldið fullur og lendir í slæmum félagsskap, í gærkveldi var ég til dæmis stödd í smart partýi og fullt af fólki sem mér finnst mjög smart var að reykja, ég klíni því alfarið á kampavínið sem ég var búin að drekka að ég ákvað að það væri mjög smart fyrir stelpur eins og mig að reykja líka, fyrir vikið vaknaði ég klukkan fimm í morgun með alveg agalegt astmakast, lá uppí aaaaalein þar sem maður og börn smelltu sér út úr bænum yfir helgina og sá fyrir mér að ég væri að drepast ein heima með hundinum, enginn myndi finna mig fyrr en familían kæmi heim á sunnudag og þá væri hundurinn kannski búinn að naga af mér hálfa löppina og kannski hárið líka, hugsaði með mér að það væri eins gott að ég sofnaði með glimmerælænerinn og í sæta náttkjólnum því ef maður ætlar að láta góma sig steindauða úr astmakasti uppí bæli þá sé svona skemmtilegra að vera þokkalega huggulegur, mér til undrunar vissi ég svo næst af mér klukkan hálfellefu í morgun og bara alveg sprelllifandi, svona er maður stundum heppinn, fyrir vikið var ég svo rífandi glöð það sem eftir lifði dags að elskulegur hundurinn var alveg ringlaður yfir gleðiganginum í mér, ég var bara svo yfir mig lukkuleg að hafa sloppið frá svona púkalegum dauðdaga að ég gat ekki hætt að knúsa kvikindið og við skelltum okkur í langan hlaupatúr til að þakka guði fyrir okkar hundaheppni og afbragðs fúnkerandi lungu, er búinn að lofa sjálfri mér að gera aldrei neitt svona hryllilegt aftur, aldrei, aldrei, aldrei!!! til að gera gott betra átti ég svo tíma seinni partinn í kellingadekri á besta kellingadekurpleisi bæjarins, brjálæðislegt hvað það er heilandi að láta maka alls konar drullu framan í sig við kertaljós og kósímúsík og hella svo dáldið í sig á eftir, unaður alveg hreint, húsmæðraorlof heima hjá sér er skítgott gaman!!!

mánudagur, 4. maí 2009


ætlaði mér út að hlaupa rétt í þessu en varð þá litið út um gluggann, hugsaði með mér að betra væri að leggjast í sófann og éta eitthvað gott, opnaði skápana og sá mér til ómældrar óhamingju að það er ekkert til sem er þess virði að stelast til að éta, hvernig væri þá að leggjast í bað hugsa ég með mér, nei unglingurinn er í sínu margra tíma bjútítrítmenti á baðherberginu, samtal við eiginmann virðist þá góður kostur en hann reynist of þreyttur til að tala, fjölskyldan getur ekki komið sér saman um hvað skuli hafa í matinn nema allir eru sammála um að grænmetisrétturinn minn sé alls ekki málið, suma daga er hreinlega allt á móti manni!!!

sunnudagur, 3. maí 2009

ætlaði alls ekki að geta ákveðið hvað ég ætti að gera við þennan dag, var svo skyndilega leyst undan þeirri áþján að þurfa að upphugsa eitthvað skemmtiatriði ofaní familíuna þegar kríuunginn rauk upp í hita og ógurlegum höfðuverk, sjaldan ef þá nokkurn tímann finnur maður eins mikið til eigin mikilvægis og þegar afkvæmið liggur í rúminu sjúkt á búk og aumt í anda, rauk í betri matvöruverslunina hér í bæ til að kaupa lífræna ávexti og framandi grænmeti þó maður ætti varla að veita sér slíkt sökum ómegðar, stoppaði allt á kassanum því blessað barnið sem afgreiddi mig þekkti hvorki haus né sporð á öllu þessu papaya og fennel og guð má vita hverju, skiljanlega var maðurinn fyrir aftan mig orðinn nett pirraður á þessari konu með allt þetta fönkí grænmeti enda var hann sjálfur í alleinfaldari erindagjörðum og vildi bara fá að borga hálfan líter af kók og stóran poka af maltesers, eins og iðullega þegar ég fer fótgangandi í búðina tókst mér að ofmeta stórkostlega afl minna umfangslitlu tvíhöfða, lagði af stað heim með tvo úttroðna poka, reikul í spori og útfjólublá á puttunum af áreynslu og kulda, bílfarþegar sem keyrðu framhjá snéru sér við og störðu sem gerist undantekningarlaust við þessar aðstæður, einu sinni hélt ég að þeir væru að horfa á rassinn á mér en svo fattaði ég að það er bara mjög mjög sjaldgæft að sjá fólk skjögra heim til sín svo klifjað af matvörum að það helst varla upprétt, mér hefur meira að segja verið boðið far af indælli konu sem stóð hreinlega ekki á sama, en þá var reyndar mígandi rigning, í dag bauð mér enginn far svo ég hrasaði inn um útidyrnar heima hjá mér og hefur ekki orðið nokkur skapaður hlutur úr verki síðan fyrir utan að skjóta tveim stílum uppí bossann á sjúklingnum, stíll í bossa er ekki vænlegur til vinsælda og kostaði ísmútur og óheftan aðgang að sjónvarpi, slíkt frelsi er ekki endilega ávísun á fjölbreytileika í myndavali og fyrir þau ykkar sem hafið verið að velta því fyrir ykkur þá get ég sagt ykkur það að svampur sveinson tapar alveg sjarmanum eftir þrítugustu spilun!!!   

laugardagur, 2. maí 2009


ég þrái...

fullkomna hugmynd

íslenskt grænmeti

óhagganlega, óvefengjanlega fullvissu

sólarljós

fölskvalausa gleði

að læra eitthvað nýtt 

að stöðva tímann


föstudagur, 1. maí 2009

myndi fólk vilja gjöra svo vel að hætta að sleikja svín svona eitt augnablik eða svo