sunnudagur, 18. desember 2016

fjórði


ég get ekki vanist því að fjórða í aðventu beri ekki alltaf upp á aðfangadag. það er einhver skekkja í þessu. þörf á að endurreikna tímatalið. og taka heilagleikann inn í dæmið. hann er alls fjarverandi. sama hvert er litið. á morgun þarf ég að halda litlu jól með nemendum mínum. guð veit að heilagleikinn verður ekki þar. 

sunnudagur, 11. desember 2016

þriðji

þriðji í aðventu og ég er ekki búin að setja upp seríurnar. það virðist vera eitthvert sambandsleysi við árstímann hér á heimilinu. ég skrifa það á regnið. þessi vætutíð vekur með manni grun um einhvern risavaxinn misskilning. ég ætla að reyna að leiða þetta hjá mér. síðustu agnir ársins leysast upp í myrkrinu og ég safna kröftum með fiðluleik og kryddilminum sem stígur upp með loganum á stofuborðinu. ég er í fullu starfi við að leiðrétta skekkjuna milli dags og nætur með kertaljósi. stundum held ég að ég gæti lifað á ilmkertum. ef ég hefði efni á því, það er að segja. en eins og staðan er verð ég að láta mandarínurnar og jólateið nægja. og treina mér þetta litla ilmljós yfir hátíðirnar. 

sunnudagur, 4. desember 2016

annar

ég er hugsi. þegar guð ákvað að birtast sínu meingallaða sköpunarverki ákvað hann að gera það sem hvítvoðungur. sem algjörlega ósjálfbjarga og varnarlaus brjóstmylkingur. talandi um traust! það verður ekki af guði haft að hann kann að fella varnirnar. þetta er aðventuhugvekjan í ár. ég þarf að læra af þessu.

sunnudagur, 27. nóvember 2016

fyrsti

ég hjó dánu höfuðin af fúskíableiku liljunni en leyfði þessum tveim sem ekki höfðu opnað sig að standa. það hljómar eins og lygi en er engu að síður sannleikur að ég hafði vart fleygt afskorningunum í lífræna sorpið þegar hin tvö eftirlifandi tóku að rétta úr sér og myndast við að slíta krónblöðin hvert frá öðru. þegar ég kom fram í morgun höfðu þau þanið sig út eins og litfagrir lúðrar í móttökunefnd mér til heiðurs. ég læt þetta ekki stíga mér til höfuðs. alla vega ekkert að ráði. líkast til er það einfaldlega eins með liljur og menn að stundum eru bara of mörg höfuð á einum og sama búknum. 
við erum að horfa fram hjá því að það rignir á fyrsta í aðventu og að okkur vantar kerti í englaspilið. en kransinn er tilbúinn. hann er gerður úr grannri marggreindri grein, fínlegur og fagurgrænn og minnir örlítið á þyrnikórónu krists án þess þó að vekja of mikil hugrenningatengsl við sársauka – það er ekki meiningin að skyggja á fagnaðarerindið með gáleysislegri notkun á kristilegum táknum. það logar á spádómskertinu. loforðinu um hinn mesta kærleika hefur verið sleppt út í andrúmsloftið og við höfum náð samkomulagi um að treysta því að allt rati til ljóssins, konur, refir og villuráfandi bænir. og um það greindi ég reyndar skýrt teikn í fyrradag á leið til vinnu. að venju var ég á hraðferð en þar sem loftið var öllu kaldara en ég hafði gert ráð fyrir staldraði ég við á dyraþrepinu til að setja á mig kanínukransinn. sem ég smokra úfnum feldinu yfir hnútinn á hnakkanum lyfti ég höfðinu til að hagræða kransinum betur við eyrun og sé þá, svo ég hrópa upp yfir mig af fögnuði, að úrverkið hafði um nóttina komið fyrir á himninum skáhallri mánasigð, líkastri skínandi vöggu, og yfir henni, eins og barni sem veit að það verður gripið, sólbjartri stjörnu í stærra lagi. nú getur vel verið að einhverjum þyki maður lifa með skáldlegasta móti en ég er engu að síður á því að ef slík sýn að morgni dags er ekki fyrirboði þá veit ég ekki hvað.  
á meðan við tínum til smáfugla og köngla og títuber til að hafa með kransinum hugsum við að það væri óneitanlega skemmtilegra að eiga tiltæka biblíu á heimilinu. sér í lagi þessa rauðu í flaueliskápunni. hún er ekki eins þunglyndisleg og sú svarta sem ég man eftir úr æsku minni. við ákveðum að hafa tónlist með kransagerðinni fyrst við eigum enga biblíu og gerumst svo bíræfin að kveikja á útvarpinu. anton er í banastuði þessa dagana. þá á ég við stuði af því taginu sem gæti þá og þegar banað okkur refnum. við vogum okkur ekki að svo mikið sem gjóa augunum í áttina að jólaplötunum. í útvarpinu er einmitt að fara í loftið lokaþátturinn í röð sem við höfum undanfarið fylgst með af áhuga og fer nokkuð nákvæmlega ofan í saumana á lífi og list mozarts. anton virðist geta hlustað á mozart án þess að finnast hann nauðsynlega þurfa að prjóna eitthvað við tónsmíðarnar. mér aftur á móti getur ekki annað en þótt það örlítið niðurdrepandi að hlusta á frásagnir af afrekum undrabarnsins þegar mér sjálfri, fertugri manneskjunni, hefur ekki enn tekist að ná lágmarksfærni í einföldum aðgerðum eins og að leggja saman þvottagrindina án þess að klemma á mér fingurna svo ég tali nú ekki um að hengja grenigrein í glugga þannig að hún virðist svífa í lausu lofti. á þessu heimili snúast jólaskreytingarnar að stórum hluta um að storka þyndaraflinu og eiga það því til að vera full verkfræðilegs eðlis. mozart er ágætis mótvægi í þeirri glímu. einhvern veginn hafðist þetta samt og það tiltölulega slysalaust ef frá er talið að ég kom stólfæti aðeins of harkalega fyrir á vísitánni og stakk mig í þumalinn með blómavírnum. þetta síðartalda er aðventuklassíker. 
annars vorum við lygilega hófsöm í grenikaupunum í ár. eyddum ekki nema þrjúþúsundogfimmhundruð krónum í blómabúðinni. eða ég, það er að segja. refurinn beið heima og ber enga ábyrg á þessu. hann veigrar sér orðið við heimsóknum í blómabúðina. indælu hjónin sem reka búðina eiga labradortík í, hvernig á ég að orða þetta, umtalsverðri yfirvigt sem hefur ásett sér, þannig að ekki er um að villast, að vinna ástir refsins. þetta gerir hann taugaóstyrkan. eðlilega. hreyfingar dömunnar eru álíka fínlegar og hún sjálf. þannig að oftast nær snýst veran í blómabúðinni upp í það að hann æðir um með stórgerðan aðdáandann á hælunum og reynir að finna sér undankomuleið, smeygjandi sér á milli rósabúnta og leirpotta og glerfígúra, sveiflandi fjöðrinni ótt og títt svo allt umhverfis rambar á vonarvöl og ég hef ekki undan við að forða okkur frá óþarfa fjárútlátum. sem eins og ég kom inná áðan eiga ekki að vera nein þessa aðventuna. þar með talið er að láta það alfarið eiga sig að kaupa hreindýrahorn á refinn eins og ég impraði á að gæti verið skemmtilegt í ár. taka mynd og senda sem jólakort og kveðju á feisbúkk. hann var ósammála. þetta snertir á, eins og hann orðar það, „réttinum til að halda sjálfsvirðingunni yfir hátíðirnar“. ég á ekkert svar við þessu. þannig að við kaupum bara nýtt slifsi. höfum það svart. einfalt. elegant. það getur einhver annar tekið það að sér að vera trúðurinn þessi jól.

sunnudagur, 20. nóvember 2016

frá einu til annars milli ljóss og myrkurs um mjóa línu


við erum stödd á norðurhveli í nóvember. nóttin er stökkur kristall og það kvarnast úr himinum við ljósaskiptin svo þunnar flögurnar sáldrast hljótt til jarðar og leggja ljóseindunum lið í morgunglímunni. fyrsta skíman af sunnudeginum, huguð eins og sakleysið, gerir tilraun til að smeygja sér í gegnum þunna blúndugardínuna og vekja konu og ref sem eru óvenju morgunsvæf og þung í kroppnum eftir andvökur og byltur næturinnar. þrátt fyrir að tilraunin geti varla talist sannfærandi hefur skímuskottið erindi sem erfiði, enda má taugakerfi þeirra sem að er sótt ekki við miklu og lætur jafnan fátt fram hjá sér fara – veri það í svefni jafnt sem vöku. ég skynja breytinguna á birtumagninu í gegnum augnlokin og læt rifa milli hvarma í nokkra stund áður en ég legg í að opna alveg fyrir ljósopið. húsið er dauðahljótt. umgangur nágranna minna er oftast minni fyrir hádegi á helgidögum en á næturnar þegar ég ligg og greini hvert hljóð milli veggja og lofts; í næstu íbúð magnast deilur persóna í kvikmynd þar til einhver er nægilega ósáttur til að hleypa af skotvopni; á efri hæðinni eru borðstofustólar dregnir til líkt og risavaxnir taflmenn og eitthvað þungt dettur í gólfið svo undir tekur. þetta síðasttalda olli mér nokkrum áhyggjum. ég hugleiddi að hringja á lögregluna en ákvað að láta það eiga sig þegar kennslan í mannganginum hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist. ég veit ekki hvenær ég festi svefn. 
þegar ég kemst örlítið betur til sjálfrar mín skreiðist ég fram úr rúminu og faðma refinn áður en ég fer í ullarsokkana og síða peysu yfir náttkjólinn. líkaminn er stirður af þreytu og mig langar mest að leggjast aftur upp í en þar sem ég veit að þar færi ég erindisleysu drösla ég mér fram í stofu og býð antoni góðan daginn um leið og ég kveiki á sítrónuljósinu í hillunni við hliðina á búrinu hans. hann svarar ekki en horfir á mig á milli mjórra rimlana. anton þegir oftast þunnu hljóði þar til ég skrúfa frá krananum. það er eitthvað við rennandi vatn sem espar upp í honum samkeppnisandann – rennandi vatn og etíður philip glass ... sem reyndar hljóma margar eins og seytlandi vatn þegar ég hugsa út í það. frammi í eldhúsi uppgötva ég að nautabaninn og friðardúfan hanga naumlega á veggnum eins og þau, líkt og nágrannar mínir, hafi staðið í ströngu fram eftir nóttu og séu ekki til nokkurs líkleg næstu tímana. ég festi þau varlega til að beygla ekki stífan pappírinn og kveiki svo á þremur kertum sem í kompaníi við sítrónuljósið fara langleiðina að því að lýsa upp íbúðina þannig að sjá megi handa sinna skil við að hella upp á kaffið. ég er eitthvað aum í sálinni og reyni að skæla ekki við uppáhellinguna. það er þreytan, segi ég við sjálfa mig og sæki afþurrkanarklútinn og kveiki á útvarpinu til að heyra ekki í taugaboðefnunum æða um í myrkri kúpunni. 
í útvarpinu er að hefjast útsending frá fjölmenningarmessu fríkirkjunnar og ég bæði meyrna og eflist yfir predikuninni um mýkt og manngæsku mannsonarins sem ævinlega hélt sig á jaðrinum og svaraði engu nema kalli dúfunnar. það er gott að þurrka af og hlusta á bænir og sálmasöng barna og áður en ég veit af hef ég smellt mér í gúmmískóna og er farin út með vatn í fötu að þrífa gluggana. birtan á nógu erfitt uppdráttar á norðurhveli í nóvember þó maður bæti ekki á með skítugum gluggum. því næst skúra ég gólfið og vökva blómin. eitt hefur tilhneigingu til að leiða af öðru. mér til hrellingar sé ég að okkur refnum hefur tekist að drepa einn af þremenningunum á stofuborðinu; litlu þykkblöðungunum sem okkur þykja svo sætir og skemmtilegir í marglitu leirpottunum innan um kertaljósin og hálflesnu bækurnar. mér er ekki vært með dauð blóm á heimilinu. ég klæði mig í kuldaskó og úlpu og set kanínukransinn á höfuðið með hundinn hoppandi í kringum mig af spenningi. hann getur aldrei vanist því að fólk, ólíkt hundum, þurfi að hafa sig sérstaklega til áður en farið er út. 
við röltum í litlu blómabúðina þar sem við fyrirhafnarlítið skiptum dauðum út fyrir lifandi auk þess að kaupa ægifagra fúskíubleika lilju; hvorki meira né minna en sex blóm á einni grein, hvert og eitt á stærð við höfuð refsins og minna má það ekki vera eftir margra tíma þrif undir sunnudagssálmum og blessunarbænum. á heimleiðinni göngum við rösklega í skörpu frostloftinu mót esjunni og þar sem ég virði hana fyrir mér er ég skyndilega slegin yfir því að ummmerkin um átökin sem áttu sér stað þegar hún skapaðist séu enn jafn sýnileg eftir allan þennan tíma. samt stendur hún þarna ennþá. ég ferja hund og blóm yfir þröskuldinn og hugsa með mér að það megi ýmislegt læra af reisn fjalla. 
á meðan ég saxa grænmetið og kem örsmáum lambahrygg fyrir í steikingarpottinum spila ég etíðurnar og sendi anton inn í herbergi að „hugsa sinn gang“. refurinn, sem gleðst alltaf dálítið í laumi þegar „tökubarnið“ er sett afsíðis, situr prúður og hemur munnvatnið. hann veit hvað það merkir þegar eigandinn hefur lambahrygg í matinn og betra að leggja sig allan fram í kurteisinni. sér í lagi eftir að potturinn er kominn úr ofninum og eigandinn byrjaður að borða. það verður ekki af spiki sauðkindarinnar haft að það bragðast vel og styrkir í manni sálina. enda deili ég því greiðlega með refnum sem veitir ekki af öllum þeim sálarstyrk sem völ er á; nágranninn með ónýta hljóðkútinn fer yfirleitt á ról eftir kvöldmat og ferfættlingurinn getur ekki á heilum sér tekið af ótta. drunurnar í nóvembermyrkrinu eru meira en hans smáa hjarta þolir. stundum talar hann um að flytja. taka okkur upp með þykkblöðungana og hálflesnu bækurnar og flytja út á land. það myndi gera okkur gott, segir hann. ég bendi honum á að það sé líka nóvembermyrkur úti á landi. en mögulega engir nágrannar með risavaxna taflmenn og ónýta hljóðkúta, segir hann. en samt, segi ég. nóvembermyrkur. og engar blómabúðir. og kannski léleg útvarpsskilyrði. hann horfir á mig með brúnustu augum í heimi. ég horfi á móti og hvorugt lítur undan í nokkra stund. svo blæs ég á kertin og læsi bakdyramegin fyrir nóttina. ég er ekki viss, refur. ég er alls ekki viss. 

laugardagur, 12. nóvember 2016

það er það sem það er, eða, skór eru skór eru skór eru skór


ég var að leita mér að skóm í alla nótt. kannski ég taki það fram að leitin átti sér stað í draumi. þó intróvertinn í mér sé fram úr hófi fyrirferðarmikill hefur hann ekki enn náð þeim hæðum (eða lægðum) að versla í hagkaup á nóttunni. ég var ekki einu sinni stödd í hagkaup í draumnum. á því meðalkaupfélagi og þeirri draumaboutique sem ég verslaði við í nótt er slíkur reginmunur að það er engin leið að fara út í það nánar. þetta var verulega sérstök búð. mínímalisminn var slíkur að þarna var ekki einu sinni afgreiðslukassi og innviðirnir svo blindandi hvítir og flekklausir að ég, sem að jafnaði tel mig framúrskarandi þegar þrif eru annars vegar, fann hreinlega til minnkunnar. allt í þessari búð virtist upphugsað af skóhönnuði bjarkar guðmundsdóttur. á einhverjum tímapunkti draumsins mátaði ég skó úr gleri. reyndar ekki með hæl og mjórri tá eins og í ævintýrinu um leiðitömu stjúpdótturina – sem mér finnst eindregin vísbending um að ég hafi í alvörunni engan áhuga á að eignast kærasta og húrra fyrir mér með það – heldur voru þetta forláta dr. martens skór úr grænu flöskugleri. mjög sérstakir. en voru því miður ekki til í minni stærð. þeirra í stað valdi ég uppreimaða skó úr fölbleiku silki. fljótlega kom í ljós að það val hefðu verið mistök. bleikt silki er skítsælt. og væmið. ég kann ekki að ráða í þennan draum. og er búin að ákveða að ganga í leku kuldastígvélunum einn vetur í viðbót. ég á enga peninga hér í raunheimum. núorðið versla ég aðeins í draumi. að öllum skókaupum slepptum er engin leið að afneita því að heimurinn er á hliðinni. í höllinni hefur hirðfíflinu verið réttur valdasproti og kóróna, plastumbúðir eru enn stærsti hluti heimilissorpsins þrátt fyrir allan minn góða vilja til hins gagnstæða og leonard cohen er dáinn. á örlítið persónulegri nótum þá þarf ég að láta fjarlægja vörtu af hálsinum á mér. mér er ekki stætt á að tala um þetta sem útstæðan fæðingarblett lengur. þetta er varta. maður á að orða hlutina eins og þeir eru. ég er að æfa mig í því. og ef ég væri alveg heiðarleg væri það einmitt umfjöllunarefni þessarar færslu hversu erfitt það er að orða hlutina eins og þeir eru. og hversu illa það kemur sér fyrir þann sem vill vera rithöfundur. innra með mér ríkir djúp þögn. sem ég er að breiða yfir með því að tala um skókaup í draumi (svo ég bendi á hið augljósa). að lýsa draumförum sínum er skýrasta leiðin til að opinbera andleysi í vöku. ég er stödd í einhverju bili. eins og þvottur á snúru að þorna. eða kaka í ofni að bakast. ég get ekki lýst þessu betur. þannig að ég læt það vera. eða öllu heldur leyfi því að vera. ég er hrifnari af því. let it be is the new let it go. maður er nú einu sinni allur á dýptina. og þó maður viti ekki vel hvert maður er að fara er víst betra að eiga skó. ég skil bara ekki hvers vegna þeir þurfa að vera úr jafn viðkvæmu efni og silki?

sunnudagur, 23. október 2016

einfaldar ályktanir


enn verður mér ekkert ágengt í að skilja strengjafræði. mögulega er þetta vonlaust verk. og þó ég sé öll að vilja gerð veit ég heldur ekki almennilega hvernig ég ætla að snúa mér í því að breyta lífi mínu. en ég vil láta brenna mig eftir andlátið. og gefa vindinum öskuna. um þetta er ég viss. ég hef að vísu ekki nennt að fylla út tilskylda pappíra þessa efnis en nú hef ég í það minnsta rætt þetta opinberlega. altsvo hér á internetinu. þið hin fáu eruð til vitnis. því fylgir óneitanlega einhver ábyrgð. að vísu er þeirri ábyrgð þröngvað uppá ykkur óforspurð en það er ekki eins og maður hafi val um allt í þessu lífi. ég valdi það til dæmis ekki að fæðast – alla vega rekur mig ekki minni til að það hafi verið borið sérstaklega undir mig – það einfaldlega henti mig. eins og eitt og annað hendir mann. það kemst enginn undan þeirri ábyrgð að taka því sem að höndum ber. maður fæðist. og einn daginn mun maður deyja. og þá vil ég láta brenna mig. einfalt. stundum er gott að nálgast hlutina með keðjusög occams. fyrst maður skilur ekki strengjafræði. annars er ég mest með hugann við músík þessa dagana. married to music. það er mín hjúskaparstaða. og hefur kannski alltaf verið. frá því ég var barn hefur lúrt með mér áköf löngun til að læra á píanó. ég held ég hafi talað um þetta áður – nema ég hafi aðeins hugsað það ... nýlega las ég einmitt grein um þá hvimleiðu tilhneigingu intróverta til að sleppa því að yrða þriðju hverju setningu þegar þeir tala. þeir hugsa hana aðeins. þannig vantar alltaf einn þriðja uppá það sem þeir eru að reyna að segja. þetta kemur eðlilega töluvert niður á skýrleika. ég held það borgi sig fyrir mig að útbúa spjald með þessum upplýsingum og ganga með um hálsinn sjálfri mér til varnar. en ég var að tala um píanó. og það sem mig langaði að segja um píanó er að það er eitthvað ómótstæðilega þokkafullt við það að leika á slíkt hljóðfæri – og reyndar öll strengjahljóðfæri ef út í það er farið – píanó eru nefnilega strengjahljóðfæri. ég var komin vel yfir þrítugt þegar einhver uppfræddi mig um þá staðreynd en hún kom mér ekki á óvart; píanóleikarar hafa þetta yfirbragð sem einkennir strengjaleikara. ég veit ekki hvort það eru straumlínurnar í formi hljóðfæranna eða tilfinningin í hljómi þeirra sem gera það að verkum að það réttist úr hryggsúlu þess sem fer um þau höndum og hreyfingar hans fyllast af munúðarfullri mýkt og ofsa allt eftir inntaki tónanna sem hann ætlar að seyða úr strengnum og inn í hlustir þeirra sem heyrt geta en eitthvað er það. það húkir enginn yfir strengjahljóðfæri. það er einfaldlega ekki hægt. ég er handviss um að ef ég hefði verið fjórtán ár í píanónámi en ekki dansnámi væri ég samt alltaf svona bein í baki. bara ekki svona fáránlega útskeif. ég ætla að læra á píanó áður en ég dey og verð að ösku sem vindurinn tekur. ég hugsa að ég geti lært á píanó. ég er alla vega bjartsýnni á það en að mér takist að skilja strengjafræði. svona fyrst maður er að munda keðjusög occams.

laugardagur, 8. október 2016

að draga mörkin með mjúkri línu er svar kærleikans við reglustikunni


það eru einhver teikn á lofti. ég ætla ekki að fara nánar út í það en svona kýs ég að lesa í atburði líðandi stundar. og nú bý ég um rúmið mitt. að búa um rúmið sitt er víst einn af þessum einföldu hlutum sem rannsóknir sýna að geri fólk hamingjusamt. þetta hef ég lengi vitað. maður hefur ekki tekið almennilega ákvörðun um að fara á fætur fyrr en maður hefur búið um rúmið sitt. ég myndi vilja bæta því að strjúka yfir gólfin fyrir morgunmat á þennan lista. það er einhver gjörningur í því að „hreinsa flötinn“ í upphafi dags. einhver ætlun um að vera heiðarlegur. okkur konunni sem er að breyta í mér heilanum sammæltist reyndar um það nýlega að ég þyrfti að grinnka eitthvað á öllum þessum ritúölum. það er alveg að fara með mig á köflum að vinna eftir regluverki samúræjans sem sinnir því hlutverki að halda óreiðunni í lífi mínu innan skikkanlegra marka. það er ofboðslegt álag á honum. í framhaldi af samtali okkar heilabreytingarkonunnar sendi ég hann á japanskt heilsuhæli. þess vegna hef ég ekki vaskað upp í nokkra daga. það angrar okkur ekki að ráði. ég lít stundum til með honum þarna á hælinu og það gleður mig að sjá að hann virðist hafa gott af dvölinni. hann hefur braggast töluvert – hann sem var vart annað en skinn og bein – og unir sér löngum stundum í jarðbaðinu sem ég lét gera í litla garðinum fyrir utan herbergið hans. þetta er gott svona. hann hvílir sig og ég get þá einbeitt mér að lestri og skrifum á meðan. í gærkvöldi byrjaði ég að lesa steinsteypu eftir thomas bernhard. hvað það er fáránlega fyndin bók! ég er búin að eiga þessa bók í mörg ár og dauðsé eftir að hafa ekki lesið hana fyrr. hún er svo fyndin að ég óttast mest að hún eyðileggi mig sem höfund. ég hætti að skrifa af því ég geti aldrei orðið jafn fyndin og thomas bernhard. hætti að skrifa og snúi mér alfarið að þrifum því ég muni aldrei geta byggt upp jafn langar og taktmiklar setningar og thomas bernhard. ég má ekki láta þennan þanka ná tökum á mér. og ég þarf að minnka við mig magnesíumskammtinn. ég er að verða húðlöt á morgnana. það er orðin regla fremur en tilfallandi að ég komi mér ekki á lappir fyrr en klukkan sjö. mögulega borgar sig að trappa mig niður í ráðlagðan dagsskammt. nema þetta skrifist á dvöl samúræjans á hælinu? getur það verið? ég viðurkenni að ég óttast örlítið að kannski komi hann aldrei til baka og lífi mínu skoli út í fallvatnið fyrir vikið. þótt ég hafi sent hann á þetta hæli þýðir það ekki að ég þurfi ekki á honum að halda. ég þarf virkilega á honum að halda. hann verður bara að læra að lesa í aðstæður og hætta að tala til mín í boðhætti. en hann ræður ekki við það eins og er. þannig að hann verður eitthvað áfram á þessu hæli. í millitíðinni ætla ég að hlusta meira á nýju bon iver plötuna því ég á að segja eitthvað um hana í útvarpinu á mánudaginn. og samúræjinn á ekki skipta sér af því verkefni. hann má hlusta á meðan hann baðar sig en hann á ekki að tala. ég er að tala. og nú vitum við bæði hvað það þýðir.        

sunnudagur, 2. október 2016

margföldunaráhrif verka mínus tími


það var ekki ég sem borðaði súkkulaðið úr krúsinni í búrskápnum. ég er höfð fyrir rangri sök. það var ekki heldur ég sem hellti rauðvíni í glasið áður en klukkan sló fimm. einhver virðist staðráðinn í að bregða fyrir mig fæti. það er lægð yfir landinu og ég man ekki hvað mig dreymdi síðastliðna nótt. infrastrúktúrinn er á sjálfstýringu þessar vindasömu haustnætur og ég sef varla svo heitið geti. ég er ekki ein um það; á efri hæðinni eru húsgögn dregin til upp úr 02:40; handan götunnar þenur einhver ónýtan hljóðkút; hundurinn er órólegur. stundum virðist sótt að manni úr öllum áttum samtímis. stundum er eins og breiddarbaugarnir í lífi manns raði sér skyndilega skipulega upp, eftir að hafa bylgjast stefnulaust um á jaðri sjónsviðsins, og teygi sig út í hið óendanlega þar sem allt ýmist lýsist upp eða eyðist út á meðan maður sjálfur dregst saman í örsmáan punkt, flöktandi og máttvana. hversdagsverkefni fimm daga vinnuviku geta lagt mann í læsta hliðarlegu á skemmri tíma en hægt er að ímynda sér þegar dimmir á morgnana og loftþrýsingurinn fellur án fyrirvara. þetta kallar á eitthvað fyrirbyggjandi. ég er að hugsa um að kaupa mér sólarupprás í klukkuformi. ég hef heyrt um slíkar klukkur; töfragripi sem læða dagsbirtu inn til manns löngu áður en hún lætur sjá sig opinberlega. þetta er kannski bíræfið. að ætla að leika á sjálfa sólina. en ég tek áhættuna. ég hef engu að tapa.         

sunnudagur, 18. september 2016

það vindur ofan af keflinu en styttist í þræðinum


... en allt byrjar í miðjum klíðum. maður er alltaf í miðjum klíðum. það dregur úr mér allan mátt. stundum tel ég mig vera fyllilega meðvitaða um framvinduna og hafa alla þræði í hendi mér en áður en ég veit af og án þess að ég fái nokkuð við ráðið máist sú kennd út og vettvangur daglegra athafna fer aftur að minna á ógnarstóra vinnustofu þar sem öllum hlutum virðist ranglega fyrirkomið. það er á þessu stigi sem heimsókn frístundamálara í söluherferð vekur svo harkaleg viðbrögð að seinna, mögulega strax og ég loka hurðinni, mun ég sjá eftir því ...         

miðvikudagur, 14. september 2016

að láta sig málið varða

nei, nú fer ég þarna út og segi vindinum að hætta að djöflast í trjánum. 

laugardagur, 10. september 2016

það er sem ég segi


hrossaflugurnar hríðfalla í gluggakistunni. það virðist ekki í mínum höndum að bjarga þeim. yfirleitt standa bakdyrnar opnar megnið af deginum svo ef þær hefðu einhvern raunverulegan áhuga á að forða sér ætti þeim að vera hægt um vik að flögra út í haustrakann. en þær velja að deyja í gluggakistunni minni. dag eftir dag kem ég að enn einum andvana líkamanum þegar ég aðgæti rakastigið á hortensíunni og nóvemberkaktusnum. undantekningarlaust liggur sá látni á hliðinni; afkáralega langir fæturnir – þurrir og stökkir í dauðanum – og fíngerðir vængirnir sem standa beint upp úr búknum gera það að verkum að viðkomandi á bágt með að liggja á bakinu. jafnvel þótt hann glaður vildi. sem ég dreg reyndar í efa að nokkur vilji tilheyri hann ekki menginu homo sapiens. mannfólk getur vissulega legið á bakinu án þess að það komi niður á virðuleika þess en mér dettur ekki í hug ein einasta dýrategund, hvað þá skordýr, sem kemst vel frá því að snúa kviðnum upp í loft. sú líkamsstaða hefur undantekningalaust í för með sér algjört tap á reisn. og uppgjöf. og einmitt þess vegna finnst mér eitthvað fallegt við það þegar ég finn hrossaflugurnar liggjandi á hliðinni í „kistunni“. eins og þær hafi valið að leggjast til svefns einmitt þarna fremur en að gefast upp fyrir lífinu. sjálfsagt er ég að lesa of mikið í þetta. ég reyni að hafa það fyrir reglu að lesa frekar of mikið í en of lítið. oftúlkanir gera lífið áhugaverðara. og eru holl hreyfing fyrir heilann.

þriðjudagur, 6. september 2016

an intelligence that incorporates hiddenness into making its point.


á fimmta degi í flensu finnur maður sig á þeim stað að hugleið guð. ég er hrifin af þessari yrðingu hér ofar. hún fangar eitthvað um auðmýkt og yfirvegaðan ásetning sem mér finnst mikilvægt í samhengi við hugmyndina um skapara heildarskipulagsins. ég heyrði þessa setningu í uppáhalds hlaðvarpinu mínu í morgun. ég smíðaði hana sem sagt ekki sjálf – svo það sé á hreinu. mér hefur aldrei tekist að yrða neitt vitrænt um guð. eðlilega ekki. samt líður held ég ekki sá dagur að ég hugsi ekki um guð. en að hugsa er ekki það sama og að skilja. og þó ég hugsi linnulaust um allt mögulegt þá veit ég mjög fátt. nánast ekki neitt. sér í lagi ekki um guð. ég er bara venjuleg manneskja sem dreymir um að minnka kolefnisfótsporið mitt og fá einhvern örlítinn botn í það áður en ég dey hvernig pláneturnar fara að því að svífa um af slíkri stillingu og þokka að það kemur engan veginn heim og saman við stærð þeirra. og mig langar óskaplega til að skilja strengjafræði. sem ég geri alls ekki. miðað við hversu lítið ég veit um þá grein eðlisfræðinnar – sem sumir vilja meina að sé hreinasta póesía – ætti ég í raun ekki að hafa neitt um hana að hugsa. samt held ég að ég hugsi um strengjafræði á hverjum degi rétt eins og ég hugsa um guð á hverjum degi. og oftast á þeim nótunum að ef mér takist að skilja þau lögmál sem að baki henni liggja muni leyndardómur tilveru minnar ljúkast upp fyrir mér og öll mín mál leysast farsællega. með öðrum orðum; ég muni finna guð. þetta verður dálítið þráhyggukennt á köflum. ég hef jafnvel velt fyrir mér að táldraga einhverja menn uppi í háskóla mér til framdráttar í þessu máli. en sem betur fer hef ég ekki látið verða af því. sem betur fer þeirra vegna á ég þá við.  

mánudagur, 5. september 2016

veröldin breytir í lauf og ég held mig á dýpinu


ég fer ekki ofan af því að enginn árstími er eins vel til þess fallinn og haustið að senda mann út að ganga í hægðum sínum með hund sér við hlið. ég tala ekki um eftir að hlaðvarpið kom til sögunnar. í gamla daga þegar ég var minni og það var ekki til neitt hlaðvarp fór ég stundum með bók út í móa og las á fallegum dögum. þetta gerði sig reyndar aldrei almennilega. mér varð svo fljótt kalt á höndunum. þetta virkaði betur sem hugmynd. en svo rann þessi svokallaði nútími upp – það umdeilda fyrirbæri – og mögulega er hann ekki jafn ömurlegur og ég hef tilhneigingu til að hafa hátt um í eyru samferðamanna minna. í það minnsta get ég einfaldlega geymt hendurnar í vösunum núna á meðan ég rölti í litabreytingunum með ýmislegt í eyrunum sem svarar þeirri kröfu að mér þyki það seriously entertaining, eins og ég kýs að kalla það, og á þá við að eitthvað sé hvoru tveggja entertaining and educational. mér finnst ég aldrei tala mig nógsamlega út um það hvað ég er skelfilega leiðinleg kona svo ég ætla að fara aðeins dýpra í þetta atriði. ég hef ekkert umburðarlyndi, eiginlega algeran ímugust, fyrir „hreinni“ skemmtan, einhverju til að „stytta sér stundir“ yfir. hlutirnir verða að hafa merkingu ef ég á að endast yfir þeim. kenna mér eitthvað. stytta sér stundir? hvers konar rugl er þetta? hefur fólk endalaust af tíma á milli handanna? ég er kannski ekki í hópi þeirra sem hugsa um dauðann í tíma og ótíma en þegar ég geri það er helst þrennt sem skelfir mig. tilhugsunin um að deyja í ljótum nærbuxum (ég hef komið inn á þetta áður), tilhugsunin um að deyja frá tölvunni minni og fólk komist yfir alla hálfskrifuðu textana mína (eiginlega sami óttinn og með nærbuxurnar) og tilhugsunin um að deyja einskis vísari. þetta síðasttalda skelfir mig mest af öllu. ég get lifað með óttanum við að deyja í ljótum nærbuxum og myndinni af fólki að ygla sig yfir stefnuleysinu í „skjalaskápnum“ en þegar ég hugsa til alls þess sem ég mun að öllum líkindum ekki komast að, sjá, lesa eða heyra áður en ég leggst lárétt í síðasta sinn ætla ég hreinlega að verða vitlaus af hræðslu. þegar þetta er sem verst finnst mér ég hreinlega vera dáin. altsvo andlega. sökum fáfræði. en ég vil helst ekki vera að tala mikið um þetta? það gerir mig taugaveiklaða. einhverju sinni nýlega ræddi ég þetta við vinkonu mína sem glímir við svipað vandamál, að þurfa alltaf að vera á dýpinu, og okkur sammæltist um að reyna framvegis að hleypa léttleikanum meira inn í líf okkar. ég hef aldrei vitað til þess að nokkur kona eða maður setti sér eins glórulaust óraunhæft markmið. ég þarf ekki að taka fram að mér hefur mistekist fullkomlega. síminn minn hefur sjaldan verið jafn fullur af hlaðvarpi um hin ýmsu tilvistarlegu og andlegu málefni. og ég ver orðið nánast öllum frítíma mínum í göngutúrum.  

sunnudagur, 4. september 2016

... en það er haust. og bráðum verða laufin eins og brúnn pappír


ég ætla að skrifa það hér, svo það standi einhvers staðar, að þetta salvíute sem ég hitaði rétt í þessu er með því verra sem ég hef bragðað um ævina. eina ástæðan fyrir því að ég læt mig hafa það að drekka þennan hrylling er sú að ég er mikið lasin og allt tekyns uppurið í skápunum. hingað til hef ég haldið því fram að þessi hefðbundnu ensku te, melrose og earl grey, séu þau verstu í heimi – og ein og sér ástæða til hafa horn í síðu engilsaxneskra (þó skulum við vel merkja að sá ættbálkur hefur ýmislegt á samviskunni) – en svo virðist sem ég hafi haft bresku þjóðina fyrir rangri sök. þetta salvíute kemur frá þýskum framleiðanda sem ég hef oft átt viðskipti við og yfirleitt farsæl enda merkir hann allar sínar vörur lífrænt vottaðar og virðist í því máli segja satt og rétt frá. en ég óttast að nú verði breyting á. ég er ekki viss um að ég hafi lyst á að skipta við þetta fyrirtæki oftar, svo hryllilegt er þetta te. í því máli toppar eitt annað. ofan á þurrkinn og beiskjuna sem situr eftir á tungunni stendur skýrum stöfum utan á pokanum að innihaldið sé útrunnið. ég hef nýlega keypt þetta te. þetta er ótækt. samt neyðist ég til að koma þessu ofan í mig með einhverjum ráðum. ég á engra kosta völ. það er ekki eins og ég eigi kærasta sem ég geti sent út í búð eftir almennilegu tei. og refurinn fengi ekki afgreiðslu þó hann sé allur að vilja gerður. mér skilst reyndar að salvía sé mjög hreinsandi. en jafnvel þó mér hafi sjaldan legið jafn mikið á að komast í bað þá langar mig minna en ekkert til að klára úr tekatlinum í þeirri von að hárið á mér verði hreint. þegar ég mölvaði allt út af baðherberginu utan salernis og handlaugar – án þess að eiga fyrir endurbótunum – sá ég það ekki fyrir að þessi staða gæti komið upp; að ég yrði svo fársjúk að ég kæmist ekki út af heimilinu í fleiri daga til að nýta mér steypiböð sundlauga. þetta er ófremdarástand. það þyrfti að verða að minnsta kosti 100% breyting á útliti mínu svo ég færi að minna þó ekki væri nema örlítið á sjálfa mig. mér til hugarhægðar les ég dulnefnin hans braga ólafs. elsku maðurinn var svo indæll að senda mér þá bók í pósti nú á dögunum í þakkargjöf fyrir pennavináttu okkar á vef rithöfundasambandsins. gjöfin beið mín í póstkassanum eitt síðdegið þegar ég kom heim úr vinnunni og eins og innihaldið eitt og sér hefði ekki nægt til að kæta mig upp úr skónum um ókomna tíð þá hafði því verið smeygt í dásamlegt brúnt umslag; umslag af allra mest sjarmerandi sort; umslag af því taginu sem lætur manni líða eins og maður sé að lifa gamla tíma þegar heimurinn var snauðari af óþarfa og fólk gerði oftar eitthvað fallegt – eins og til dæmis að senda svo gott sem ókunnri manneskju bók í pósti í dásamlegu brúnu umslagi. kannski er þetta full rómantísk afstaða. mér hættir til að fara dáldið langt með hlutina. en ég kann því samt betur en að fara of stutt. hvað varðar passlega þá hef ég aldrei kunnað á neitt sem er passlegt. eiginleg skil ég ekki merkingu þess orðs.  

miðvikudagur, 31. ágúst 2016

vinnufötin keisarans

ég hef verið að hugsa það í nokkurn tíma að mig bráðvanti langröndóttar buxur og þverröndóttan bol. altsvo sem sett. brókin þyrfti að vera sítrónugul og fjólublá en bolurinn fúskíableikur og límónugrænn. þessi þörf er óþægilega áleitin. eins og ekkert er jafn óþægilega áleitið og tilfinning sem nær að finna sér form í hugmynd. það er svo hættulegt að fá eitthvað á heilann. einu sinni fékk ég svo hættulega hugmynd á heilann að heiminum eins og ég þekkti hann skolaði burt. þetta sirkúsdress er ekkert að fara að hvolfa himninum í hafið og sáldra salti í grunnvatnið. í versta falli myndi það valda vægu uppnámi í heimabankanum og á vegum úti. á hvoru tveggja má jafna sig á tiltölulega skömmum tíma. talandi um tíma. nákvæmlega núna, á þessum miðvikudagsmorgni í bláenda ágústmánaðar, er engin leið að það fari framhjá manni að það haustar. ég er einkennilega sátt við þá breytingu. reyndar er ég einkennilega sátt við flest þessa dagana. nýja geðheilbrigðismeðferðin sem á að breyta í mér heilanum virðist vera að skila sér. ég ferðast tiltölulega átakalaust á milli tölustafanna á klukkuskífunni; stundum þegar róast með kvöldinu átta ég mig á að ég hafi hvorki þvælst eftir gömlum stígum né dröslað líkinu af sjálfri mér á milli staða þann daginn. ég get ekki sagt að ég sakni þess. lífið er mun fyrirhafnarminna svona; fátt kemur mér úr jafnvægi. það er helst að umsóknin um listamannalaun sendi mig út á hina ystu nöf; þá sem ég vil helst af öllu forðast; þaðan sem ég horfi beint inn í kviku minnar eigin örvæntingar og ótta; þar sem sköpunargleði mín sefur kæfisvefni svo dauðahryglurnar bergmála í gínandi tóminu. kannski væri best að láta þessa umsókn eiga sig. jafnilla og mér er við að játa mig sigraða. sérstaklega fyrir sjálfri mér. ég er samt dáldið hrædd um að ég verði með þessa umsókn á heilanum allt þar til umsóknarfresturinn rennur út eftir nákvæmlega mánuð. á því tímabili er allra veðra von. og þá held ég að það gæti komið sér vel að eiga þetta röndótta dress. til að létta dálítið stemninguna. 

laugardagur, 27. ágúst 2016

á dýpri djúpum


ég var að tala um drauma. kannski ég haldi mig á þeim þræði. eina nóttina nýverið hélt ég í hreint mustískt ferðalag. ég tók mér far með rútubifreið eitthvert út á land og finn mig undurfljótt í miklu fjallalandslagi; djúpum dal fleyguðum af vatnslítilli á, farvegurinn varðaður stórum steinum svo fyrirhafnarlítið má finna sér leið yfir. lyngbreiðurnar liggja eins og hnausþykkt, bládoppótt teppi upp eftir bröttum hlíðunum og himininn er svo gott sem heiður. ekki sála í augsýn. hvað þá hýbýli. ég dáist að fegurð landslagsins en finn samt áþreifanlega fyrir því að ég er þarna alein – úti í miðjum óbyggðum. ég virðist eiga mér einhvern áfangastað – þetta var einn af þessum draumum þar sem maður líkt og fylgist með sjálfum sér, líkt og sjálf manns klofni og persóna manns í draumnum búi yfir alls kyns upplýsingum sem maður sjálfur hefur ekki aðgang að (alltaf mjög óþægileg tilfining) – í það minnsta tipla ég yfir ána og arka yfir berjamóann beint af augum inní hið óþekkta. en nú gerist draumurinn óskýr. einhvern veginn er eins og ég (ég sem fylgist með mér í draumnum) fái að vita það eitt að við (ég sem fylgist með og ég í draumnum) höfum farið erindisleysu. og snúum því við sem leið liggur. gerir nú vont veður. það þykknar upp. hvessir. og það fer að vætla úr bólgnum himninum. við göngum stutta stund og komum þá aftur að ánni sem hefur tekið hreint undarlegum hamskiptum. það sem við okkur blasir er meira í ætt við straumhart fljót en á. við skimum eftir steinunum sem við höfðum stiklað á þegar við fórum yfir í fyrra skiptið en þeir virðast allir sem einn hafa orðið vatninu að bráð. við stöndum þarna á bakkanum ráðvilltar og getum ekki nema áætlað sem svo að við hljótum að hafa gengið vitlausa leið og komið að ánni á öðrum stað en þar sem við fórum yfir. en fljótið virðist jafnbreitt svo langt sem augað eigir. þessir vatnavextir eru lyginni líkastir. svo við sjáum okkur ekki annað fært en að vaða útí. og nú gerist nokkuð merkilegt. sem við finnum vatnsborðið stíga upp eftir fótleggjunum er eins og skilin á milli mín sem fylgist með og mín í draumnum skolist til og hverfi. mögulega er það óttinn sem rennir okkur saman; gerir okkur eina, ég veit það ekki, ég veit bara að þetta gerir draumreynsluna einhvern veginn beinni og enn óþægilegri en áður. eftir því sem við vöðum lengra útí verður okkur æ ljósara að þetta muni ekki ganga. áin er vægast sagt brjálæðileg. það verður okkur til lífs þegar við komum að háskalegum flúðum að einhver hefur komið þar fyrir (guð má vita hvernig) nokkurs konar girðingu úr steypustyrktarjárni. við ákveðum að snúa við en verður ekki um sel þegar við sjáum að á kafla hefur strauminn enn hert svo í ánni að ekkert virðist komast yfir nema fuglinn fljúgandi. gerist nú draumurinn aftur óskýr, mögulega sökum skelfingar, en næst veit ég af mér við lyngvaxinn árbakkann. ég er holdvot en heil á húfi og nú bætir enn í undrun mína þegar ég sé að hátt fjall virðist hafa sprottið upp úr jörðinni þarna við bakkann þar sem ég stóð rétt áður á algeru flatlendi. ég sé því fram á að þurfa að fikra mig áfram eftir mjórri grasræmu milli fjallsins og fljótsins til að finna mér leið til baka. mér fallast hálfpartinn hendur yfir þessari nýju þraut og ekki laust við að mér sé farið að finnast þetta orðið gott af þessu ruglingslega ferðalagi. og þá gerist eitt undrið enn því nú birtist hið þekkta söguminni „guð í vélinni“ (deus ex machina) – eins og þessi draumur sé ekki löngu orðinn ofhlaðinn af bókmenntalegum minnum – þegar björgunarþyrla föður míns flýgur lágflug yfir höfði mér svo loft og vatn gárast og skjálfa. ég finn fyrir ómældum létti sem staldrar stutt við í brjósti mér því í stað þess að slaka niður til mín kaðli eða sigmanni heldur þyrlan fluginu áfram inn dalinn og hverfur mér að lokum sjónum. ég er í allri hreinskilni hálf kjaftstopp en tek þann pólinn að móðgast ekki við föður minn heitinn fyrir að hafa snuðað mig um far út úr vandræðum mínum. einhvern veginn finnst mér eins og sú ályktun hafi verið dregin af áhöfninni að mér sé borgið og ég þarfnist ekki frekari aðstoðar. held ég nú för minni áfram meðfram fjallinu og aftur inní hinar berjabláu óbyggðir. enn gerist draumurinn óskýr og nú er eins og ég komi að einhvers konar sjoppuskála – óbyggða útgáfu af litlu kaffistofunni eða eitthvað þess háttar. þar er enginn fyrir utan þrjá skálaverði, þrjá miðaldra karlmenn, gráleita af stöðnun og ryki, sem hver verður öðrum meira forviða yfir komu minni. ég rek farir mína mjög svo ekki sléttar. þeir hlusta agndofa. það sem stendur fyrst og fremst í þeim er sú ótrúlega bíræfni að ég hafi upphaflega vogað mér yfir hina dularfullu á. þeir líta til skiptis á hvern annan, gapandi og bendandi á brjálæðinginn (moi). skyndilega finnast mér viðbrögð þeirra fremur hlægileg. ég sé aftursnúin alveg í heilu lagi með bakpokann minn og allt og algjör óþarfi að fara svona á hliðina þó ég hafi rennblotnað frá hársrótum og niður úr. svo kveð ég. og held för minni áfram ...  

 ... kannski fer ég fullgeyst í köldu böðin þessa dagana. en nú sting ég mér til svefns.

föstudagur, 26. ágúst 2016

á tilraunastofu fegurðarinnar


 ég mætti aftur til vinnu fyrir mánaðarlöngum tveimur vikum síðan. vinnufélagar mínir höfðu á því orð hversu gott það væri að komast aftur í rútínuna. svipur minn lýsti skilningsleysi. að mæta til vinnu er í mínu tilviki gríðarleg truflun á rútínu. það er fullt starf að vera á lífi. og ríflega það ef maður ætlar að gera það af einhverju viti. þannig að ég er mjög upptekin manneskja. á milli þess sem ég hita kaffið og fylgist með þroskastigi bláberja les ég mér til gagns og heilsubótar um frestunaráráttu, sjö leiðir til að halda sköpunargáfunni kvikri, það eina sem maður þurfi að vita til að öðlast meiri hamingju og bloggið hans braga ólafs. svo hlusta ég á franska útvarpið. og einhvers staðar þarf að finna tíma fyrir víxlböðin og sprettæfingarnar, vökva tómataplöntuna, líta til með litlu þykkblöðungunum sem ég lét loksins verða af að kaupa og detta í dagdrauma með reglulegu millibili. mig dreymir einhver ósköp þessa dagana. í svefni, meina ég þá. yfirleitt man ég ekki drauma mína – og hef reyndar haldið því fram að mig dagdreymi svo mikið að það sé ekkert afgangs fyrir rökkurstundirnar – en það er eins og svefnhringurinn hafi hnikast örlítið til í sumarnóttinni og fært mér draumfarir nær morgunsárinu þar sem auðveldara er að teygja sig eftir þeim. það sem ég dreg áleiðis inn í meðvitundina, ofurvarlega, líkt og ég ætli að draga til mín þungan hlut með næfurþunnum þræði, er undantekningalaust eitthvað mun tilþrifameira en mitt eigið hversdagslega líf. innri veruleiki minn er töluvert meira krassandi en ytra byrðið. eða; nei, ég er ekki ein af þessum módellöngu stelpum með endalausa leggi; ég, gott fólk, er öll á dýptina.


miðvikudagur, 20. júlí 2016

það er ekki ég sem er vandamálið, heldur samhengið.


ég er ekki lengur í parís. ég er í mosfellsbæ. eftir tólf tíma ferðalag frá ítalíu, í lest, rútu og flugvél, sveif ég yfir "heimavelli" mínum – þeim sem jafnan gerir lítið fyrir geðheilsuna – og einbeitti mér af öllum kröftum að því að snúa vélinni aftur til parísar með hugarorkunni. það gekk ekki eftir. líkast til vegna þess að aðrir farþegar vélarinnar unnu svo markvisst gegn mér; uppnumdir útlendingar súpandi hveljur yfir bjartri júlínóttinni; nef og enni samlanda minna þétt upp við sporöskjulaga glugga flugvélarinnar í því sem virtist agndofa lotningu yfir fegurð vestmanneyja: "við erum komin heiiiiiimmmm!". ég lokaði augunum og lagði jakkann yfir höfuðið. frá flugvellinum að dyraþrepinu að heimili mínu gafst mér svo færi á að virða fyrir mér úrval ljótustu byggingareininga evrópu vestan megin við tjald. mér til mikilli vonbrigða höfðu húsakynni kjúklinga fyrir crackfíkla (kfc) ekki molnað til grunna á meðan ég brá mér frá. það illfygli stendur ennþá handan götunnar með allri þeirri sjónmengun sem af því hlýst. hvað get ég sagt. kona er ofurefli borin. það hefur fjölgað í fjölskyldunni. ég geri mér grein fyrir að þessa setningu megi skilja sem svo að ég hafi látið barna mig á meginlandinu. en ég er ekki átján ára. og nýja "barnið" er ekki dökkhært og brúneygt. það er gult. og fiðrað. maður þarf virkilega að fara varlega með orð. ekki nema þrír mánuðir síðan ég fór ljóðrænu offari um sólgula fugla hér á síðunni og voilà! hér sé sólgulur fugl! þetta hlýtur í alvörunni að teljast nokkuð stórkostlegt. og til merkis um ótvíræða spádómsgáfu mína ef ekki hreinlega telekinesíska hæfileika. furðulegt samt að þetta virki ekki með sama hætti á fólk. ég er búin að kalla eftir áhugaverðum, fyndnum og hjartahlýjum kærasta í umtalsvert lengri tíma en þrjá mánuði og í stuttu máli sagt hefur lítið gerst í því máli. hann heitir anton. fuglinn það er. kannski eru það örlög mín að sanka að mér því sem svarar mér ekki með orðum þegar ég yrði á það. en maður hefur þá alltaf útvarpið. í morgun fann ég meira að segja heimasíðu uppáhalds útvarpsstöðvarinnar minnar í parís. mögulega fer ég aldrei framar út úr húsi. nema einhver ætli að kosta mig til parísar. þá getum við talað saman. 

sunnudagur, 26. júní 2016

myndin ætti að vera yfirlýst en framkallast þess í stað ekki


... þegar ég kom til baka stóð fallega klæddur karlmaður við innganginn að markaðnum. ég hafði skroppið í hraðbankann eftir lausafé og hann hafði alls ekki staðið þarna þegar ég snaraði mér út um þennan sama inngang örstuttu áður. það hefði ekki farið framhjá mér. utan þess að vera vel til fara var þetta maður af því taginu sem konur taka eftir. fallega eygður. hæfilega kæruleysislega greiddur. hann stóð þarna á sólbakaðri gangstéttinni undir bogadregnum innganginum og virti fyrir sér götulífið; geymdi hægri hendina í buxnavasanum en þá vinstri hafði hann hringað utan um stórt búnt af fúskíableikum bóndarósum innvöfðum í karamellubrúnan verksmiðjupappír. í eitt augnablik hvarflaði að mér að manninum hefði verið komið fyrir þarna sérstaklega fyrir mig. ég er í parís. svona hlutir gerast. en svo tók ég eftir kærustunni hans sem stóð skammt frá, bograndi yfir lásnum á hjólinu sínu. ég gæti ekki logið því oft að ég hafi ekki orðið vonsvikin. ég mun aldrei eignast kærasta. þessi staðreynd er að teiknast mjög skýrt upp fyrir mér hér borg ljósanna. og ástarinnar. þetta, ásamt ýmsu öðru sem ég veit ekki hvort ég eigi að hafa smávægilegar eða töluverðar áhyggjur af. eins og til dæmis því að skrítni fæðingarbletturinn á innanverðu hægra lærinu er í alvörunni frekar skrítinn og að ég hef ekki enn komið sjálfri mér í skilning um að maður skrifar ekki bók á meðan maður vaskar upp. þannig að ég bregð mér reglulega inn í búðir súkkulaðimeistara og kökugerðarmanna á flandrinu um hverfin hérna í parís. mér dettur einfaldlega ekkert frumlegra í hug. parís er svo falleg að stundum finnst mér eins og ég hljóti að missa sjónina af einmanaleika. ég fann svo sterkt fyrir þessu í dag að ég var konunni í næstu íbúð innilega þakklát fyrir að öskra á manninn sinn bróðurpartinn af eftirmiðdeginum. eða ég gef mér að þetta hafi verið maðurinn hennar sem hún brýndi svona raustina við. ég veit að þetta var ljótt af mér. konunni var mikið niðri fyrir. um stund heyrðist mér hún gráti nær. ég hef ekki hugmynd um hvað maðurinn gerði af sér. þótt hrópin í henni bærust mjög greinilega inn um opinn stofugluggann, sem vísar einmitt að stofuglugga þeirra hjónanna hver stóð sömuleiðis galopinn, skil ég því miður ekki orð í frönsku. og tala hana enn síður. í matvörubúðinni hef ég gert tilraun til að biðja afgreiðslufólkið um ýmsa einfalda hluti, eitt og annað sem mig hefur vanhagað um það sinnið, til dæmis kanil. maður segir kanill nánast nákvæmlega eins á frönsku og ítölsku (á þeirri tungu get ég gert mig prýðilega skiljanlega): canelle. ég bar þetta mjög skýrt fram við afgreiðslustúlkuna í minni fyrstu heimsókn í hverfisbúðina. þetta var einlægur gjörningur af minni hálfu. stúlkan horfði á mig allt að því slegin. líkt og ég hefði sagt eitthvað svo fjarri nokkru orði í franskri tungu að það væri hreinasta vitfyrra að ætla einhverjum að reyna að skilja mig. í framhaldinu kallar hún um alla búð eftir aðstoð. starfsfólk og viðskiptavinir eru allir sama spurningamerkið þegar ég ber kurteislega fram þessi þrjú atkvæði. fólk kemst í uppnám. hvað í veröldinni getur þessi útlenska kona verið að fara? loks réttir hávaxin kona upp hönd og kveðst tala ensku. ég bið um cinnamon. aaahh, segir konan. og endurtekur nákvæmlega það sem ég hafði í það minnsta títekið við afgreiðslustúlkuna og meðhjálpara hennar. allir fórna höndum og ranghvolfa augum. aaaahh, canelle! af hverju sagðirðu það ekki strax! frakkar geta verið óþolandi. mér er alveg sama þótt ég sé að alhæfa. það er eitthvað verulega bogið við hlustina í þessu fólki. þetta hlýtur hreinlega að eiga sér einhverja þróunarsögulega skýringu. svona líffræðilega, meina ég þá. það borgar sig ekki að reyna að gera þessu fólki til geðs. betra að láta því líða illa yfir slakri enskukunnáttu. þetta er ekki sérlega stórmannlegt af mér. ég veit það. sjálfsagt er ég bara eitthvað miður mín út af manninum með fúskíableiku bóndarósirnar í fallega brúna pappírnum. fúskíableikar bóndarósir eru uppáhalds blómin mín. það hefur aldrei neinn gefið mér svoleiðis.  

miðvikudagur, 8. júní 2016

vinsamlegast forðist rask á mosa og rótum


á leiðinni upp fellshlíðina í gærmorgun var mér svo þungt um hjartarætur að líkara var að ég bæri fellið í poka á bakinu en að ég klifi það. þannig að ég tók til fótanna. hljóp þangað til mig sveið í lungun og æðakerfið virtist hafa tekið sér bólfestu í andlitinu. svo fór ég í sund. það hrökk til. suma daga þarf maður aðeins þetta einfalda; hlaupa milli lúpínubreiða; dvelja í vatni; þvo sér um hárið; standa nakin undir berum himni. og þá kemst maður út í búð að kaupa í salat. aðra daga er þetta flóknara. mig langar ekki að tala um þá daga. ég var að byrja í þúsundustu geðheilbrigðismeðferðinni. ég vona að hún virki. annars drepst ég mögulega úr depurð. sem væri töluvert leiðinlegt fyrir alla málsaðila. heimurinn er grænn núna. og brúnn. á líkama mínum eru óljós för þar sem sólarljósið komst ekki að húðinni í gegnum sundfötin. það er dáldið sniðugt og mér fannst ég ósköp falleg svona röndótt og rennblaut þegar ég striplaðist um útiklefann eftir víxlböðin og gufuna. að lifa lífi sínu einn. af því maður kann ekki annað. að lifa hvern dag eftir reglum ritúalsins. því annars liðast dagarnir í sundur. þegar það gerist eltir refurinn mig á röndum og leggst niður hvar sem ég hvíli fæturnar. hundurinn minn starfar ekki einn. um það er ég sannfærð. hann á sína samstarfsaðila þótt þeir tilheyri ekki hinni sýnilegu vídd. en þeir eru þarna. og vinna sín verk af þolinmæði. rétt í þessu rigndi og aspirnar anda inn um stofugluggann. ég sest á bænapúðann og anda með þeim. það er gott að einfalda tilveruna niður í grunneiningar; innöndun; útöndun. moka frá hjartarótunum. hleypa dálitlu súrefni að þeim. bæta vaxtaskilyrðin. án þess að hugsa of mikið um það. yfirleitt er ekki til bóta að hugsa of mikið. þetta vita hundar. hundur lætur sér alltaf nægja að klífa fellið. honum myndi aldrei detta til hugar að burðast með það á bakinu.     

þriðjudagur, 10. maí 2016

skynjuð hreyfing


héðan frá séð virðist sjónarspilið löturhægt. nánast eins og það gerist aðeins því sá sem horfir veit á hverju má eiga von. endurtekningin er öllum lærimeisturum lúmskari. suma morgna er loftið svo sláandi kalt að maður týnir tíma og rúmi. við erum stödd efst á bláu spiladósinni, þeirri sem snýst um möndul sinn. hér blómstra engin kirsuberjatré og fólk á stöðugt von á næstsíðustu snjókomunni. í dag gekk ég fram á þúfu af tærbleiku blóðbergi í fellshlíðinni ... eða var það lambagras? ég get aldrei greint á milli með góðri vissu. enda hefði sú vitneskja litlu breytt. engu reyndar um hversu fallega litur blómsins talaði við himininn og jarðveginn. mér varð svo um að mér skrikaði fótur í lausamölinni og rann nokkurn spöl niður hlíðina hraðar en mér þótti óhætt. ég hugleiddi að setja steinvölur í vasana. styrkja jarðsambandið. en fugl fældist upp við fætur mér og ég leiddist út í aðrar vangaveltur – ef fugl lætur berast með vindi, flýgur hann þá eða fýkur? ég veit fátt um fugla. eins og ég veit fátt um flest. ég tel smáaurana á botni handtöskunnar og gullin í brjóstvasanum. af hvoru tveggja á ég mismikið til skiptanna. öðru sáldra ég milli fingranna þar sem ég stend. hinu gæti ég með öllum skilningsvitum. og hef hugann við umbreytinguna. þá sem gerist löturhægt. þannig að hún er vart greinanleg. og í raun ekki til nema sem grunur. það verður að duga. í bili.

fimmtudagur, 21. apríl 2016

skil – vetur/sumar/líf/dauði (– brothljóð)



það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna og sest upp í rúminu er að stinga nefinu í hálsakotið á hundinum. lyktin af honum er mildasta leiðin inn í daginn. við föðmumst nokkra stund áður en ég tek endanlega ákvörðun um að fara á fætur og smeygi mér í mjúka, bláa bómullarbolinn yfir náttkjólinn. núorðið þarf ég yfirleitt ekki að fara í ullarsokkana. það vorar. morgnarnir eru undurbjartir. ég tipla berfætt út á pallinn til að hleypa hundinum út í garð og hristi höfuðið þegar hann biðlar til mín með augunum að koma með. hann biður mig þessarar sömu bónar á hverjum degi. ég hristi alltaf höfuðið. en á morgun mun hann samt reyna aftur. af því vonin er rammasta taugin. hvort sá sem vonar er maður eða hundur gildir einu. ég blanda sítrónuvatnið og drekk það í einum teyg með hörfræolíunni áður en ég strýk yfir gólfið og kalla á hundinn að láta kött nágrannans í friði. úr hátölurunum heyri ég tom waits halda því lágstemmt fram að ekkert geti haldið aftur af vorinu. eitthvað í laglínunni vekur með mér þá tilfinningu að hann sé að tala um eitthvað meira en venjuleg árstíðarskipti. og að það tengist að einhverju leyti því sem ég var að segja um vonina. ég get ekki gert upp við mig hvort ég eigi að vera honum sammála. stundum er eins og tilveran sé úr örþunnu gleri. ég greiði svefnflókann úr hárinu með fingrunum og borða bát af appelsínu með járnmixtúrunni samkvæmt læknisráði. appelsína og járn ganga víst sérstaklega vel í efnasamband í líkamanum. ég hef ákveðið að ástæðan sé sú að járnið leysist samstundis upp í ljósinu frá appelsínunni, sem líka nefnist glóaldin, og streymi þannig mun hraðar en ella út í blóðrásina. ég hef ekkert fyrir mér í þessu. en mér finnst skýringin sennileg. einföld og eðlileg. jafn einföld og eðlileg og sú staðreynd að mér þykja appelsínur góðar og að það veitir mér hugarró að strjúka yfir gólfið fyrir morgunmat. út um eldhúsgluggann merki ég breytingar á öspunum. þær eru næstum ósýnilegar auganu en ég greini þær samt. tom virðist vera að segja satt. ég verð að hætta að efast um alla hluti. það stíflar orkuflæðið. þess vegna er ég alltaf þreytt. þrátt fyrir birtuna og járnið og appelsínurnar ... nákvæmlega núna, núna á meðan ég horfði út um eldhúsgluggann, niðursokkin í hugsanir um mitt eigið magnleysi, flaug þrastapar á rúðuna með háum skelli ... ég ætla að skrifa þetta aftur ... það flaug þrastapar á eldhúsgluggann rétt í þessu, ekki einn þröstur, heldur tveir. par. kannski hjón. þau liggja þarna á pallinum mínum. innan um allt rotnaða laufið sem ég ætlaði að grafa í dag. tveir snúnir hálsar. blóðugur goggur. krepptir fætur. skyndilega hefur dagurinn breytt um tón. að grafa rotnað lauf er eitt. að grafa spörfugla er örlítið annað. mig langar ekki að skrifa neitt meira. það er sem ég segi. stundum er tilveran lítið annað en örþunnt gler.    

föstudagur, 15. apríl 2016

að gefa kosmosinu það sem því ber.



þrá

leita að berjum á bjargbrún
svimandi hæð

kyngi lofthræðslunni og læt
eftir mér að
horfa á þig

hugsa um ber og bragð
þegar þú setur tunguna í
munnvikið

koss
berjakoss og bragð
af safa

mig langar stöðugt
ekki stundum
stöðugt

móki á brúninni
hálfrænulaus af ást
hlustin sprungin

raddbylgjan skellur á húðinni
og viljinn gefur sig
                   eins og sölnað sprek