föstudagur, 29. mars 2013

tólf vörður í átt að ástarljóði




(kona situr í agnarsmáu húsi í austur-landeyjum og hlustar á plötuna boatman´s call með nick cave en það gerir hún alltaf á páskum, umhverfis er óbærileg fegurð, víðátta og kyrrð, enginn nærri nema nokkur hross, guð er næsti nágranni)

                       


ég skulda ljóðmagnara mínum sigurði pálssyni ástarljóð, ljóðið átti ég að senda honum með tölvuskeyti síðastliðin pálmasunnudag (ástarljóð í tölvuskeyti! john keats hringsnýst hugsanlega í gröfinni í þessum skrifuðu orðum) en nú að kvöldi skírdags hef ég enn ekki sett niður staf um nokkurn skapaðan hlut sem kalla má ást

           but I believe in love

            það skal tekið fram að ljóðið átti ekki að vera ort til sigurðar sjálfs, hann er aðeins lærimeistari minn í ljóðlist og þar af leiðandi tilneyddur til að taka þátt í mínum miklu glæpum gegn ljóðlistinni, sem hann gerir af undraverðum skilningi og nærgætni, stundum tekst honum meira að segja að láta mér líða eins og ég sé ekki ótýndur glæpamaður

            there is a hand that protects me

            en mér er ekki rótt, í stuttu máli sagt get ég ekki hugsað mér að skrifa slíkt ljóð og þó ég skuldaði ríkisskattstjóra alla peninga í heiminum væri ég töluvert rólegri yfir skuldastöðu minni, ástarljóð eru eitt af þessum fyrirbærum sem eru svo viðkvæm að fólk eins og ég (með vægast sagt afar lélegar fínhreyfingar) á ekki að snerta á þeim, (brothljóð)

3            but that´s just bullshit, baby

            nick cave hvíslaði því að mér nýlega undir fjögur eyru að öll ástarljóð hverfist um djúpstæða löngun eftir guði, við nick erum mjög náin, hann hringir stundum á næturna og gaukar einhverju svona að mér, sérstaklega í kringum páska, það er orðin hefð fyrir því heima hjá mér að hann blessi páskalambið þegar það er komið í marineringuna, en hann vill sem sagt meina að ég skuldi úniversinu þetta ástarljóð, ekki sigurði, ég þakkaði honum fyrir ábendinguna og spurði hvort hann héldi virkilega að þetta léti mér líða eitthvað betur, eins og maður standi ekki nú þegar í bullandi skuld við guð

         and I wish that I was made of stone
            so that I would not have to see
            beauty impossible to define
            beauty impossible to believe

            hjartkæra kosmos, kosmíska hjarta!
            fegurðin bjargar heiminum, því trúi ég, undrið mun taka yfir í lífi okkar allra, því trúi ég einnig, hið undursamlega er í mikilli nálægð, ég efast ekki um það

        such is my faith for your
            such is my faith

            samt get ég ekki skrifað ástarljóð

            out of longing great wonders have been willed


            ég hef gengið í minn eigin sértrúarsöfnuð, einkunarorðin eru: löngun er sjöunda grunntilfinningin, ég er eini meðlimurinn, í löngunarsöfnuðinum mínum skírist fólk í eigin nafni, boðorðin eru átta af því það er tala eilífðarinnar og ekkert þeirra inniheldur orðið ekki (dæmi: þú skalt trúa á mátt góðseminnar). ástarljóð, bæði í hefðbundnum skilningi (sem ég veit reyndar ekki hver er) sem og í skilningi vinar míns nc, skipa svo sannarlega veglegan sess í manifesto safnaðarins, þau hafa bara ekki verið skrifuð ennþá

         breathing tea and biscuits
            and the serenity prayer

            þegar á móti blæs verður maður að muna eftir æðruleysinu, líkninni og upprisunni, þakka fyrir fegurðina í hversdagsleikanum, þetta kemur allt til manns að lokum, ástarljóð sem og annað, jafnvel ástin sjálf, allt nema helvítis peningarnir, jesú þurfti aldrei að díla við hið sataníska fyrirbæri lánasjóð íslenskra námsmanna, heppinn hann

            and meows „he loves you“ then meows again


            að morgni föstudagsins langa er himininn yfir höfði mér dýrlega vatnsblár en rennur útí fölfjólublátt og bleikt við sjóndeildarhringinn, mig langar að koma við hann, meistari hinnar fullkomnu litapallettu elskar mig skilyrðislaust, samt get ég ekki skrifað ástarljóð, ég þarf að ræða þetta við sálfræðinginn minn

9          the smell of it is heavy
            it is charged with life

            nc dregur hvert ástarljóðið af öðru upp úr sálinni af sama áreynsluleysinu og maður sem seilist ofan í brjóstvasa eftir vasaklúti, hann segir mér að skrifa bara eitthvað um heitar hendur í dökku hári, það klikki aldrei

10             glory, hallelujah 

            en mig langar ekki að skrifa neitt um hendur og hár, á hverju einasta andartaki er ég að verða vitni að einhverju mjög merkilegu, mig langar að skrifa eitthvað um að vera gegndræp himna sem allt streymir í gegnum, ást og guð og birta


11            you are so far from me

            allt er bil, á milli allra hluta er bil, á milli blýants og blaðs, hugar og heims, en ekki líkama og sálar, í löngunarsöfnuðinum er tvíhyggjunni hafnað, það er lykillinn að því að vera, ég er ekki búin að skrifað ástarljóð, en núna þegar ég sit undir fullkomlega bláum himni að morgni föstudagsins langa finnst mér ég vera ástarljóð


12        this morning will be wiser
            then the evening is

            allt er ást



Dýpið

Til eru ljóð
svo voldug og djúp að engum
tekst að yrkja þau. Sönnunin
fyrir tilvist þeirra
er að þau eru
óort. Við
þreifum á veggnum
sem skýlir þeim, en finnum ekki
glufu á hvítri örkinni.
Á eftir sanna skáldskapar-
tilraunir okkar, fingraför á veggnum,
að hann er til.
(Gösta Ågren
þýðing Jóhann Hjálmarsson)

miðvikudagur, 20. mars 2013

er eitthvað að brenna?


þeim fáu vökustundum sem ég eyði ekki í að klóra mér af spenningi yfir því sem liggur fyrir í vikulok eyði ég í göngutúra, og þar sem ég hef þegar skrifað ýmislegt misspennandi um göngutúra á þessa síðu og gef mér þar af leiðandi að fólk sé búið að fá nægju sína af því umræðuefni er best að ég vindi mér í þetta sem liggur fyrir í vikulok, nú sperrir fólk auðvitað eyrun ... eða augun öllu heldur, hvað stendur eiginlega til? hvað getur hafa gerst í kosmosinu sem hefur svo afgerandi og ófyrirséð áhrif? hvað getur orsakað slíkt tilhlakkelsi hjá hinni deprímeruðu konu að hún bókstaflega iðar í skinninu eins og eitthvað sem aktúallí er með lífsmarki? ef svarið væri fgl (já einmitt, frederico garcia lorca, en allt viti borið fólk áttaði sig auðvitað strax á því) væri vísbendingin sítrónur og grenada, en svarið er ekki fgl, svarið er vg (nei ekki vinstri grænir, ég hef alfarið yfirgefið allar spekúlasjónir um þennan andskotans veruleika) og vísbendingin er rauðir kettir og strandir ... já! já það er rétt, sko þig, þú hefur komið með hárrétt svar (enda einungis afburðagreindir sem lesa þetta blogg), ég er á leið í þjálfunarbúðir fagurskrifara hjá vigdísi grímsdóttur ofurskrifara á ströndum, með í för eru my fellow poets og ótæplegt magn af áfengi, ég hef næstum ekki hugmynd um hvar strandir eru á kortinu og er satt að segja nákvæmlega sama, ég myndi glöð dvelja ævilangt í hvaða aparassi alheimsins sem er ef það þýddi nálægð við madame vg, skilst samt að strandir séu hinu megin við hausinn á rollunni ... altso séð mín megin frá skiljiði ... hvað er ég að þvaðra, allir í veröldinni fyrir utan mig (sem veit ekki einu sinni hvert minn eigin rass vísar í þessum  heimi) vita uppá hár hvar þetta er á kortinu, en já ég er sum sé á leið í ferð inní innspírasjónina sjálfa, beint af augum og inná við, þetta vona ég að hafi í för með sér í það minnsta annað af tvennu en þó helst hvoru tveggja: a) að ég tendrist til skrifa sem hafa óneitanlega verið í daprari kanntinum síðustu mánuði og afköstin alls ekkert til að hreykja sér af (til glöggvunar: sjá þessa síðu sem uppá síðkastið hefur verði sorglega lítið uppfærð), b) að dýrlegt vestfirskt vetrarloftið hreinsi hjarta mitt, sál og búk af hvers kyns óværu og geri mig splunkunýja svo ég megi upp stíga á þriðja degi og verða það sem kosmosið upphaflega ætlaði sér að ég yrði, það er jú það sem liggur fyrir; að verða það sem maður er, ég vil segja það eitt að ég trúi, ég trúi, ég trúi

þriðjudagur, 12. mars 2013

nýr og endurbættur sveimhugi – nú enn hæggengari


ég hef náð því stigi að lifa í algjöru tengslaleysi við tímann, hlýtur það ekki að teljast einhvers konar andleg fullkomnun? ég vissi alltaf að það kæmi að því að ég virkilega brilleraði í einhverju, ég þurfti bara að gefa þessu tíma

fimmtudagur, 7. mars 2013

hjartað getur aldrei verið hálft, aðeins hugurinn



mín kona ... 
ég var illa sofin í dag, þegar maður er illa sofin er minnsta hreyfing á við að reyna að hagræða vötnunum með berum orðum, hver þykist þú vera? ég sat í ljóðatíma í dag og hlustaði á yndislega kennarann og bekkjarfélagana tala um ljóðið mitt, eins og svo oft áður gerðu umræðurnar lítið annað en að staðfesta það sem ég þegar veit: stundum vitum við í hjartanu uppá hár hvað við viljum segja en hugurinn nær ekki að koma því í heildstætt form, hugsunin er alltaf klístraður þráður, ljóðið hljómaði svona:

þú ert stödd á sýrópsdökku engi. silfurþráður bylgjar loftið og einhver talar lágum rómi, líkt og í návist hvítvoðunga eða syrgjenda. útundan þér sérðu þá dánu teyma ókunna hesta og þessi grunur um að eitthvað hafi farið úrskeiðis, lætur þig ekki í friði.   

 ... æh mig auma

miðvikudagur, 6. mars 2013

(þ) ung (l) yndi - hismið og kjarninn


þó ég sjái ennþá allt í móðu oft á dag sé ég ekki lengur myrkrið, ef sjáöldrin væru sýningartjald hugans myndu þau ekki birta ýkja fjölbreyttar myndir: fallegi bróðir minn sem verður aldrei aftur fyrir framan augun en er alltaf á bak við þau, autt form sem er framtíðin og ég hef ekki ákveðið með hverju ég ætli að fylla, fylgihnötturinn minn með bláklukkuaugun og glitskýið á höfðinu, þetta sem ég vil gleyma

sorgin getur verkað eins og raflost, ég ætla að vera á lífi með öllum tiltækum ráðum