laugardagur, 29. desember 2007

jæja þá er frelsarinn fæddur eitt árið í viðbót og eldist bara andskoti vel, alveg klassík bara þessi gæi, ég er soddan sökker fyrir ást, kærleika og frið á jörð og finnst ekkert verra þó það fylgi smá glimmer með, talandi um glimmer, hér á bæ er allt í það hátíðlegasta, þökk sé því að á þorláksmessu fóru aðeins fimm staukar af glimmeri í gólfið, hafið þið prófað að sópa upp glimmeri, í stuttu máli sagt er það vonlaust, álíka vænlegt til vinnings og að háma í sig loft með sigti og gerir lítið annað enn að dreifa vandamálinu í stað þess að fjarlægja það (svipað og viskastykki sem þurrkar ekki heldur makar bleytunni út um allt), fyrir vikið hefur fjölskyldan verið sveipuð óvæntum ljóma yfir hátíðirnar, glimmer í eyrum, glimmer í nærbuxum, glimmer í skeggi (minn karlmannlegi eiginmaður ber það vel og er alls ekkert hommalegur, varist eftiröpun þetta er ekki á allra færi!!!, ég fyrir mitt leiti kannast ekki við það að vera maddama með mústas), krían ákvað svo að hnikkja örlítið á þessu atriði með því að dreifa glitrandi álfadufti sem leyndist í jólapakkanum á alla bletti sem hugsanlega höfðu ekki fengið sinn glimmerskammt, allt gleður sem glóir og víst eru allir glaðir, nema kannski blessaður hundurinn sem fór illa út úr jólastessinu og löngum verslunarferðum fjölskyldunnar til borgarinnar, þegar við bætast flugeldar er hryllingurinn orðinn algjör fyrir lítinn hund með hjarta á stærð við lús, svona þegar nýja árið andar niður um hálsmálið á manni er víst til siðs að líta yfir farinn veg og í framhaldinu fram á við, þarf að velta þessu aðeins fyrir mér, hmmm...meira af því síðar

mánudagur, 3. desember 2007

mitt í öllu myrkrinu hefur stungið niður lítilli ljóstýru, litlu loforði um fegurð og gleði, jafnvel...já svei mér þá nokkurn glamúr, nei gott fólk það er ekki jesúbarnið sem ég tala um af slíkri undrun og nánast lotningu, þó vissulega sé það ávallt jafn velkomið og ég taki á móti því með barnslegu fasi og djúpu þakklæti, nei það er annað, lítil grein í dagblaði, aðeins nokkur orð, en hvílíkt fagnaðarerindi, ójá,,.RUFUS KEMUR, RUFUS KEMUR, ég verð á fremsta bekk í háskólabíó, opinmynnt og stóreyg, held mér svo fast í sætið að hnúarnir hvítna til að missa mig ekki í vandræðalegt grúpppíukast, skæli kannski pínu ef hann tekur maker makes, óóó þetta er of gott til að vera satt, gleði, gleði, gleði, þangað til þá stytti ég mér stundir og hlusta á algjörlega guðdómlegan hippakontrídisk sem ég var að versla með allison kraus og robert plant, allir að versla þetta, hreinasta dásemd, debetkortið var svo þungt eftir útborgun að ég varð að strauja það dáldið í mínum uppáhaldsbóka-plötu-sokkabuxna-drasl í baðiðbúðum, rosa eyðast peningar hratt, eins og maður er ógeð lengi að vinna fyrir þeim og leiðist alveg morð á meðan