laugardagur, 22. september 2012

(r)ugla

ég get ekki sofið, um leið og ég dett út af dreymir mig brjálaðan mann sem æðir um og æpir eitthvað sem ég fæ engan botn í af því hann talar svo hratt, ég held að þetta sé taugakerfið, altso maðurinn, einhvers konar táknmynd taugakerfisins, svo hrekk ég upp, það er sem sé trylltur maður inni í mér sem heldur fyrir mér vöku, mér leiðist fólk sem æpir og þó ljóðameistari minn sigurður pálsson hafi einhverju sinni haldið því fram við mig að svefnleysi sé mjög örvandi fyrir skrif get ég ekki sagt að ég finni fyrir því, alla vega er mér ekki að takast að láta fólkið í leikritinu mínu tala saman, það þegir bara, mögulega verður þetta mjög leiðinlegt leikrit 

þriðjudagur, 18. september 2012

laugardagur, 15. september 2012

dveljandi hlustun

má ég minnast á það einu sinni enn að tónlist bjargar mannslífum, keyptu þér nýja diskinn hennar fionu apple, keyptu þér líka nýja diskinn hans cohen sem er yndislegt afturhvarf til einhvers sem ég veit ekki alveg hvað er en mig langar að dvelja þar á meðan ég fer í hænuskrefum í gegnum dagana og leyfi tímanum að vinna sitt verk í hljóði, allt gerist mjög mjög hægt, ég hugsa hægt, ég les hægt, ég skrifa hægt, sárin gróa hægt og depurðin fjarlægist mig hægt, ég er eilíflega annars staðar, á þeim stað er ekkert nema tónlist og stundum finnst mér það alls ekki svo fjarstæðukennt að ég muni aldrei mæla eitt aukatekið orð upphátt framar, sem væri kannski allt í lagi ef ég gæti komið þeim í blek en staðurinn innra með mér þar sem orðin verða til virðist hjúpaður þykku slími, svo ég hlusta, hlusta hlusta hlusta    

þriðjudagur, 11. september 2012

rof

í haustsólinni í dag fannst mér allt í einu eins og ég væri stödd á nýjum stað, tilfinningin var svo sterk að það var engu líkara en skipt hefði verið um æðar og augu í mér, eins og ég væri loksins að ganga úr þykkum og þungum ham, ég man þessa sömu haustsól fyrir nákvæmlega ári síðan, hvernig hún skein í augun á mér, kveikti glóð sem vill ekki slokkna og heldur stundum ennþá fyrir mér vöku, ég vissi strax þá það sem ég hef fullreynt núna; að eitthvað yrði ekki umflúið, ég væri lent á leið sem lægi aðeins í eina átt og ég yrði að ganga til enda, bróðurpartinn í tryggum félagsskap ferðafélaganna örvæntingu og depurðar, mér hefur veist erfitt að ganga þá af mér, það er ekki lengra en vika síðan ég hélt að þeir ætluðu að fylgja mér drjúgan spöl í viðbót, ævina út jafnvel, en í dag var eins og þeir hefðu dregist aðeins aftur úr, í dag fannst mér ég sjá handa minna skil

sunnudagur, 9. september 2012

ólaghenti vinnumaðurinn


ég er að verða dáldið örvæntingarfull við að koma innviðum sálarinnar í skikkanlegt horf, hvað sem það nú þýðir, alla vega ekki í eitthvert upprunalegt horf, það er ekkert upprunalegt horf, þess vegna eru engar teikningar að styðjast við, sem er slæmt, þetta gengur hvorki né rekur, samt er maður alltaf að og ekkert nema vinnusemin, bjástrar eitthvað við verkið alla daga eftir bestu getu, skjálfhentur reyndar en reynir samt, ég heimsæki stundum smið sem gefur mér góð ráð en þetta virðist engu að síður ætla að taka einhvern heljarinnar tíma, ég er ekki handlaginn, fínhreyfingarnar eru ekki mín sterkasta hlið og fyrir vikið hef ég lítið átt við áhöldin í verkfærakassanum sem kalla á mikla natni og nærgætni, bestur er maður með sleggjuna, í að kenna sjálfum sér um og beina öllu lauslegu gegn sér – það er að segja svo lengi sem það er nógu oddhvasst og heppilegt til að valda sem mestum skaða, óskaplega lýjandi iðja en maður lætur sig hafa það, það er sjálfsaginn sjáiði til, leiðinlegt hvað rýmisgreindin virðist vera miklu slakari í vinnu með innra rýmið heldur en hið ytra, ég á ekki í neinum vandræðum með að hafa fallegt í kringum mig en svo er allt í vitleysu þarna fyrir innan, stærðarhlutföllin öll bjöguð og allt fullt af einhverju drasli sem hvorki fegrar né nýtist að neinu viti, sumt hreinlega alveg út úr öllu korti, og ég sem hef ekkert umburðalyndi fyrir sóðaskap, við smiðurinn ræddum það nýlega að eina færa leiðin sé í gegnum æðruleysið, það er bara eina slóð að feta, hún liggur ekki til baka og því engin leið að láta sjást undir iljarnar aftan frá, maður verður að halda áfram, þræða brekkuslóðann, hlykkjóttann og allan uppá við svo maður mæðist og finnur til örmögnunar, verkfærakassinn sígur í svona fullur af sleggjum og hefilbekkjum og múrbrjótum, hjartað lemur frá sér undir húðinni og munnurinn er skraufþurr enda fer megnið af vökvamagni líkamans út með tárum og í þokkabót er maður lofthræddur, en maður verður að halda ró sinni og halda áfram, muna að allt fer á einhvern veg og syngja til að halda fókus; á bjargi byggði ... þið kunnið rest  

sunnudagur, 2. september 2012

í núllta bekk

ég er yfirleitt vöknuð fyrir allar aldir, einbeitingin er af svo skornum skammti að hún dugir ekki einu sinni til þess að halda mér sofandi, líkaminn þaninn af eirðarleysi og kvíða, ég næ ekki að lesa nokkurn skapaðan hlut sem er ekki uppörvandi þegar leslistar haustsins blasa við manni í allri sinni lengd, löngun er sömuleiðis eitthvað sem mér er úthlutað í svo litlu magni þessa dagana að það mætti ætla að hún væri gríðarlega takmörkuð auðlind og því verði að skammta mjög mjög naumt, rétt svo hún dugi til að maður næri sig og fari á klósett þegar ekki verður hjá því komist, skringilegt þegar líkaminn er svona undirlagður af bæði óþreyju og doða nánast á sama tíma, ég hef andstyggð á því ástandi að langa ekki  á fætur á morgnana, svo ekki sé minnst á þá svívirðu að gráta líkamsþyngd sinni af tárum fyrir morgunmat, það er móðgun við guð og algjörlega ólíðandi, og svo sem ekki undarlegt að almættið sé ekki að gera sér ferð neðan af himnum til að dýfa slíku fólki í glimmer og skíra það til gleði, eins og allir sæmilega hæfir foreldrar ætlast guð líklega til þess að maður hætti þessu væli og vinni heimavinnuna sína, ég finn bara enga blýanta, og það sem verra er; ekki heldur strokleðrið