laugardagur, 24. nóvember 2012

bið - ukolla þrá - ður blek - king


suma daga er hlutskipti manneskjunnar lítið annað en það að undrast hvað jarðaber eru góð með lárperu, kaupa sér lopapeysu til að verja sálina fyrir ágangi veruleikans og velta fyrir sér praktískum hlutum eins og helmingunartíma ástarinnar, einhverra hluta vegna hugsa ég mikið um sirkla upp á síðkastið, mikið vildi ég óska að mín daglegu störf krefðust þess að ég notaði sirkil reglulega, ég hef ekki hugmynd um til hvers ég gæti brúkað slíkt apparat en finnst hugmyndin lokkandi, það er einmitt einn helsti gallinn við hugmyndir, hvað þær geta verið lokkandi  

laugardagur, 17. nóvember 2012

andele andele hombre!


andskotinn hvað ég skal drösla þessum svarta hundi út í garð fyrir mánaðarmótin og skjóta hann í hausinn af stuttu færi, fylgjast svo glaðhlakkalega með af svölunum á meðan fennir yfir helvítið, ég nenni ekki einu sinni að taka honum gröf (vinsamlegast athugið að hér er líkingarmál á ferð, í guðs bænum ekki senda mér haturskomment fyrir að vera dýraníðingur og óhæfur hundaeigandi! hundurinn minn er spikfeitur og hrikalega hress, ældi á gólfið í fyrrinótt og guð má vita hvað), ég er svo yfir mig leið á heimsóknum þessa leiðinda kvikindis, hvað maður lætur berja sig til óbóta, liggur í jörðinni og biður auðmjúklega um að það sé barið aðeins fastar, þetta nær engu tali ég get svarið það! þessi uppreisnaryfirlýsing skal skoðuð í því samhengi að magi minn er stútfulllur af bæði rauðvíni og lambakjeti og nokkuð hress eftir vel heppnaðan dag þó hann hafi ekki verið fullkominn í alla staði, mér tókst til dæmis nánast að missa af eiríki guðmundssyni segja ýmislegt merkilegt um íslenskar skáldkonur í ráðhúsinu í dag, maðurinn var svartklæddur og ég veit ekki hvað og hvað og hvað, alltaf eins og rifinn út úr spænskri skáldsögu einhvern veginn, andskotinn hafi það, ég ligg hér í rúminu og horfi á magann á mér skaga út í loftið eftir ofátið og hugsa sem svo að líklegast myndi eiríki ekki finnast þetta þokkafullt, eða hvað ...? hvað veit maður, burt séð frá því þarf ég að klára leikritið mitt, það fjallar um að hafna veruleikanum, vamos amigos vamos!

föstudagur, 9. nóvember 2012

mig dreymdi að ég ætti humar sem gæludýr (sem kemur þessum pósti ekkert við nema hvað dagurinn fer illa af stað)


ég var varla stiginn fram úr rúminu þegar ég flaug á hausinn við að klæða mig í gammosíurnar og rétt í þessu missti ég hálfan kanilbaukinn út í morgunþeytinginn, jæja, ég ætti þá ekki að þurfa að hafa áhyggjur af andremmu næstu dagana, kanill er svo stórhættulegur bakteríum í munni að maður getur víst svo gott sem hætt að bursta í sér tennurnar ef maður er duglegur að borða hann ... líklega samt óþarfi að sannreyna þetta heima hjá sér, jafnvel þó maður sé einhleypur, en aftur að afrekum mínum,  næst sulla ég helmingnum af þeytingnum á borðið þegar ég helli honum í glasið af því í eitt sekúndubrot tel ég mér trú um að ég geti gert tvennt í einu: lesa um leið og ég helli í glasi, það verður ekki frá mér tekið að rökhugsun mín er svo sannarlega af slakari sortinni, geri aðrir betur, ég fullvissa mig um að engin sé að horfa og sötra rándýrt ofurfæðið upp af borðinu með óhljóðum, hundurinn hallar undir flatt, hugsanlega skrifast klaufaskapurinn á spenninginn sem greip mig heljartökum þegar ég opnaði blaðið og áttaði mig á að út í næstu bókabúð liggja splunkunýjar bækur frá elskunum mínum tveim þeim auði ólafs og braga ólafs (sem eru ekki systkini að öðru leyti en því að vera bæði óforbetranlega ómótstæðileg) en eyminginn ég hvorki má né hef ráð á að kaupa mér dýrlegheitin, mér líður eins og ég hafi unnið risavaxinn happdrættisvinning sem ég geti ekki leyst út, þetta er agaleg líðan 

þriðjudagur, 6. nóvember 2012

ég finn bragð af glimmeri

hef nú pakkað mínum bókum, tónlist, búsáhöldum og ótrúlegu magni af kertastjökum ofan í kassa og komið fyrir í bílskúr móður minnar, afhenti í kjölfarið miðaldra fólki lyklana að sirkustjaldinu mínu (líkurnar á að bleika forstofugólfið lifi eigendaskiptin af eru engar) og flutti líkama minn ásamt einhverjum fataleppum og stórum poka af eyrnalokkum alfarið inná heimili systur minnar og mágs,  með í för er heill hundur og hálft barn (snökt), aðlögunin gengur prýðilega ... það er að segja mín, hundurinn aftur á móti mígur stöðugt á gólfið í mótmælaskyni, þó það sé hálf hryssingslegt að vita af jólagersemunum sínum í köldum kassa út í bæ þaðan sem þær eiga ekki afturkvæmt fyrir þessi jól er mér engu að síður að takast að spóla upp í mér desemberspenninginn sem ég held í skefjum ellefu mánuði ársins en fer alltaf að ólmast inní mér eins og lítill trylltur týrólaapi á þessum árstíma, ég veit að það er stranglega bannað að tala um þetta (nema hugsanlega við fólkið í ikea) en ég þarf bara svo agalega á því að halda að hlakka til einhvers að ég lét það eftir mér að kaupa nóa siríus bæklinginn í gær og lesa upphátt úr honum fyrir systur mína – svona rétt til að æra óstöðugan, þegar maður þarf nauðsynlega að hætta að hugsa um eitthvað eru smjör og súkkulaði óbrigðult vopn og ég er að hugsa um að beita þeim óspart næstu vikurnar