þriðjudagur, 29. desember 2009

magnað

agalega er maður eitthvað í slæmum húmor í dag, enda hafa allir flúið hús nema hundurinn, magnað hvað maður getur verið leiðinlegur, ég hugsa grínlaust að það séu ekki margir sem standa mér framar í þeim efnum, svona er maður talenteraður

fimmtudagur, 24. desember 2009

gleðileg jól

mínar innilegustu jólakveðjur til ykkar allra lömbin mín, megi kvöldið færa ykkur ljúfar stundir og ljós í hjarta

miðvikudagur, 23. desember 2009

þorláksmessuþrautir

marie antoinette liggur í bælinu með kviðverki eftir að hafa étið yfir sig af konfekti, höfuðverkurinn er líka afar slæmur enda gífurlega krefjandi að eyða allri heimildinni á visakortinu af fordæmalausri samviskusemi, stundum er lífið bara svo erfitt, inní stofu er myndarlegi eiginmaðurinn í vandræðum, jólatréð reyndist of stórt fyrir jólatréfótinn sem hingað til hefur hýst öllu smágerðari tré en það sem elskulegur tengdafaðir minn færði fjölskyldunni í gær, lítið og bústið hefur verið viðmiðið við val á jólatré hér á bæ en þetta tré er meira svona stórt og spikfeitt, ég óttast að þegar við loks klippum netið utan af gripnum muni það leggjast yfir alla stofuna og blokkera hvoru tveggja bakdyrnar og sjónvarpið sem myndi valda bæði hundi og eiginmanni verulegum óþægindum yfir hátíðarnar, litlum og loðnum finndist slæmt að komast ekki út að pissa og sá sófasjúki sem býr við takmarkað niðurhal yrði alveg ómögulegur ef hann myndi missa af magnaðri jóladagskrá ríkissjónvarpsins, ég legg allt mitt traust á að einhver fjölskyldurmeðlimur hafi keypt handa mér bók í jólagjöf, ég skríð þá undir tréð með kerti og konfektkassann og læt annað ekki koma mér við, gott plan

þriðjudagur, 22. desember 2009

ég lifi....og fitna

eins og flest annað á þessu bloggi virðast sögur af yfirvofandi dauða mínum hafa verið stórlega ýktar, í það minnsta sit ég enn hér í eldhúsinu og drekk mitt kaffi í myrkrinu, að vísu með bólginn og auman handlegg en að öðru leyti ekki svo ólík sjálfri mér, ja reyndar eru gallabuxurnar mínar eitthvað undarlega þröngar í dag en ég held að ég geti ekki lögsótt lyfjafyrirtækin fyrir það, spurning um að taka málið frekar upp við nóa og siríus, það kompaní svífst einskis í sínu gróðabraski og hvergi hægt að reka inn nefið öðruvísi en að þurfa að berja sér leið framhjá kúfuðum skálum af bústnum konfektmolum, og eins og rotta sem hefur verið skilyrt til að ýta á rauðan hnapp til að fá ostbita réttir maður út höndina og stingur uppí sig mola án þess er virðist einu sinni hugleiða það hvort mann langi í hann, óhugnalegt

mánudagur, 21. desember 2009

sunnudagur, 20. desember 2009

i have a flare for the dramatic

bakstur og konfektgerð í húsi mínu, enda eins gott að troða sig út af súkkulaði á meðan maður getur, nefninlega aldrei að vita nema maður verði dauður á morgun miðað við það sem stendur fyrir dyrum, þannig er mál með vexti að þar sem við mæðgur erum báðar óstaðfest og ódæmigerð eintök af svínasjúklingum hafa vinnufélagar mínir sannfært mig um að það væri hreinasta glapræði að drífa sig ekki í bólusetningu svona til að vera on the safe side, astmaveikir geti ekki leyft sér að treysta á guð og lukkuna í þessum efnum, þetta er hið vandræðalegasta mál því ég hef verið, vægt til orða tekið, ötull talsmaður þess að þetta flensulyf sé stórhættulegt eitur kokkaðu upp af útsendurum djöfulsins, a.k.a. lyfjafyrirtækum, í einhverjum afar ókristilegum tilgangi eins og til dæmis þeim að græða peninga á lífhræddu fólki, um þetta hef ég predikað hárri röddu á kennarastofunni og óspart látið í ljós vanþóknun mína þegar einhver hefur leyft sér að kvarta yfir eymslum í upphandlegg nýkominn úr sprautu, en svo bregðast krosstré sem önnur tré og það hendir besta fólk að bugast undan hópþrýstingi, ég er sem gefur að skilja lafhrædd um að ég muni í besta falli liggja fárveik öll jólin af öllum viðbjóðnum og kvikasilfrinu sem verður dælt í mig í fyrramálið og ef allt fer á versta veg verður þetta minn síðasti póstur og þetta blogg mun lifa sem vitnisburður um minn sjúka huga, ég verð svo lögð til hinstu hvílu á annan í jólum og fæ þar af leiðandi aldrei að vita hvað eiginmaðurinn keypti handa mér í jólagjöf sem er óbærileg tilhugsun, það eina góða við þetta væri auðvitað að þá þyrfti ég ekki að horfast í augu við allt spikið sem ég mun sitja uppi með eftir að hafa étið allt þetta sem ég er að fara að baka, en nóg komið af harmkvælum og svartsýnisböli, in god we trust

hosannah halleluja gloria in excelsis deo
amen

föstudagur, 18. desember 2009

tragíska jólasagan af þreyttu kennslukonunni

indæli afgreiðslumaðurinn í skífunni gaf mér "100 erlend jólalög" í verðlaun fyrir að sýna aðdáunarvert óttaleysi í eyðslu í búðinni hans, því miður er "100 erlend jólalög" glatað samansafn af lummulegum jólalögum sem hefði hæglega verið hægt að skera niður í 15, bing crosby og jackson five hafa samt komið fjölskyldunni á lappir þessa vikuna sem er ekki lítið þrekvirki enda allir dáldið búnir að týna mótiveringunni sinni og farnir að þrá gott jólafrííííí, ég kom gjörsamlega örmagna heim í gærkvöldi eftir jólaball nemenda minna sem allir virtust hafa verið sendir að heiman með ragettu í rassinum og ótæplegar sykurbirgðir til að tryggja að enginn yrði orkulaus í öllum djöflaganginum, það eina sem ég gat hugsað á leiðinni heim var thank god for alcohol!!!! þegar heim var komið reyndist maðurinn í sófanum hafa klárað allt rauðvínið svo ég varð að leggjast sorglega allsgáð og úttauguð til svefns en vaknaði samt með hausverk og bólgin augu, stuð, eins hver kona með réttu ráði hefði gert skjögraði ég beina leið svo gott sem blindandi að eldavélinni og hitaði vatn, malaði kaffið og mölbraut svo pressukönnuna.....ég endurtek, og mölbraut svo pressukönnuna!!!!!! hefst nú the action sequence: ég á tásunum inní myrkvuðu eldhúsi því ég kveiki aldrei ljós nema í ítrustu neyð (það hefur ekkert með sparnað að gera), allt í méli á gólfinu og ekkert kaffi í mínum kroppi, mér tekst að teygja mig í eldspýtustokk og kveikja á einni eldspýtu sem með einhverjum óskiljanlegum hætti flýgur logandi úr höndum mér og lendir á peysunni minni sem vel að merkja er úr fyrsta flokks gerviefni, óp og öskur, blásið og barið, blótað og kallað á jesú, barnið stendur og horfir á og lyftir annarri brúninni dáldið, "er allt í lagi með þig mamma mín", "ha já já elskan, mamma bara aðeins að klaufast, á ég að rista handa þér brauð", (skeptískur svipur) "eeehh ja ég veit nú ekki.... þetta er allt í góðu sko", ég ristaði samt brauðið og sópaði saman glerbrotunum og allir sluppu frá því ómeiddir, ég var farin að skjálfa og komin með sjóntruflanir þegar ég fann espressó könnuna sem barnið kallar alltaf múmínkönnuna (hvers vegna veit ég ekki) og hitaði kaffi án frekari teljandi vandræða, í eftirtrámanu reif ég svo upp og spilaði jólaplötuna með bob dylan sem ég hef loks ákveðið að eiga sjálf í staðinn fyrir að stinga henni í einhvern jólapakkann, þetta kostaði langdregnar rökræður við mig sjálfa en við komumst sum sé að því að það væri disknum og öllum málinu viðkomandi fyrir bestu að diskurinn héldist á heimilinu og yrði spilaður nánast samfellt til jóla, fyrir þessu voru færð margþætt og þvælin rök eins og tildæmis að ég fái ekkert í skóinn og svona ýmislegt þess háttar af viðlíka egósentrískum toga, there´s that christmas spirit folks, kúkurinn ég

þriðjudagur, 15. desember 2009

þetta veðurfar í desember er bara perraskapur, mér hugnast ekki trópísk jól frekar en annað sem minnir mann á hlýnun jarðar og drukknandi ísbirni, svo situr þetta lið þarna útí köben og miðar að því er virðist ekkert áfram, ég er að hugsa um að senda mail á obama og spyrja hann hvort að hann haldi virkilega að fólk geti beðið endalaust eftir jólasnjónum!!! desemberverkin ganga hægt (maður er svo latur í þessum hita) þó jólagjafainnkaup séu svo gott sem búin og peningarnir mínir líka, best að leggjast í að upphugsa leiðir til að vera alltaf líkt og fyrir einskæra tilviljun staddur heima hjá vinum og vandamönnum á matmálstímum, helst af öllu mömmu sinni eða öðrum sem hafa sífelldar áhyggjur af því að maður nærist ekki nógu vel og sé alveg að falla úr hor.......svona þegar ég pæli í því telur sá listi líklega engan nema mömmu mína, reyndar verð ég að telja mér það til tekna að heimilið er orðið afar jólalegt (að frátöldum öllum skálunum með súrri mjólk og linu kornflexi sem þekja eldhúsborðið því dætur mína halda að uppþvottvélin líkt og pabbi gegni engu nema mömmu) og ást mín á silúettum og öllu sem dinglar (maðurinn minn þennst allur út af monti þegar ég tala um ást mína á öllu sem dinglar) ætti ekki að fara framhjá neinum sem visiterar þessi dægrin, kíktu bara í heimsókn, ég helli uppá og hækka í sifurkórnum

laugardagur, 12. desember 2009

.....sagði stúlkan við bókina

miðvikudagur, 9. desember 2009

...svo sem vér og fyrirgefum...

ég má í alvöru talað ekki klikka á jólakortunum eitt árið í viðbót, það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því hvað maður kemst upp með að móðga sama fólkið mörg ár í röð, það getur ekki talist neitt annað en mesta undur að stór hópur vina og ættingja haldi enn sambandi við mig og hafi ekki veitt vikunni forsíðuviðtal þar sem getuleysi mitt í jólakortaskrifum er rakið í smáatriðum og fordæmt sem það andfélagslega níðingsverk sem það vissulega er, fyrir dyrum er svo piparkökubakstur og fleira álíka hátíðlegt, það er þó deginum ljósara að komi ég einhverntíman höndum yfir hálfvitann sem skemmtir sér við það á næturna að reykspóla hring eftir hring á hringtorginu hér fyrir utan hjá mér, eins og sé hann staddur á jólaballi hjá rallíklúbbi reykjavíkur og réttnýbúið að tendra tréð og píanistinn í viðbragðsstöðu, þá mun ég hugsanlega gera eitthvað mjög, mjög ójólalegt!

"No human had ever seen an adult giant squid alive, and though they had eyes as big as apples to scope the dark of the ocean, theirs was a solitude so profound they might never encounter another of their tribe. The melancholy of this situation washed over Sai. Could fulfillment ever be felt as deeply as loss?" (the inheritance of loss, kiran desai)

........................stundum er ég risasmokkfiskur

þriðjudagur, 8. desember 2009

laugardagur, 5. desember 2009

privacy please!!!

húm, annað uppáhaldsdesemberorð, húúúúúúmmmmmmmm

ég vaknaði einmitt í morgunhúminu á hótel selfossi hvar ég eyddi nóttinni eftir að hafa drukkið fullmikið rauðvín í jólapartýi hjá vinnustað eiginmannsins, við hjónin erum sammála um að það sé prýðis sport fyrir þreytta foreldra að gista á hótelherbergi annað veifið þó það verði að segjast eins og er (og nú vona ég að ég gangi ekki fram af viðkvæmum) að veggirnir á þessu tiltekna hótelherbergi voru svona í þynnra lagi og fengu þann úrskurð að geta varla talist fok(k)heldir, kannski að það sé betur einangrað á hótel venus

fimmtudagur, 3. desember 2009

ég hef borið ljúgvitni.....slíkt er refsivert

hvað gerir maður við klístrað lyklaborð (svo virðist sem það sé eftir allt saman nokkuð haldbær ástæða fyrir því að fólki er ráðlagt að vera ekki að brölta með vökva nálægt tölvunni sinni, who knew and why didn´t he tell me!!!!!), entertakkinn festist niðri með ljótum smelli í hvert skipti sem ég ýti á hann og lyftist svo löturhægt upp líkt og það kosti hann ofurmannlegt átak að losa sig úr viðjum ace safans sem þornaði undir honum og virðist vera kominn til að vera, af öllu því sem hægt er að sulla yfir tölvuna sína (og nóg er úrvalið) varð ég að velja ávaxtasafa, efni sem hefur algjörlega yfirnáttúrulega viðloðunarhæfni og lætur ekki í minni pokann fyrir neinu nema vel heitu vatni, einhvernveginn fæ ég það bara ekki af mér að hella sjóðandi vatni yfir eplið mitt, en hvað um það, mig plaga önnur og alvarlegri mál, þau naga mig inn að beini og svifta mig svefni, valda mér hugarvíli og angist í vöku og magnast með hverjum degi sem færir 11. desember nær mér og kyndir þar af leiðandi undir þeirri umræðu sem ég kvíði allt árið um kring og tek úti fyrir að þurfa að eiga við litlu manneskjun mína, jú mikið rétt, það sem um er rætt er hin vafasama, umdeilda og já jafnvel meinta tilvist jólasveinsins, sjálf gekk ég í gegnum vægast sagt trámatíserandi lífsreynslu þessu tengda þá sirka fimm, sex ára gömul sem ég tel fullvíst að hafi markað afstöðu mína til málsins og vel hugsanlega skaðað mig sem manneskju fyrir lífstíð, hefst nú frásögnin: einhverntíman nálægt jólum hafði ég sofnað í rúmi foreldra minna eins og ég gerði gjarnan á þessum aldri því tillitsleysi gagnvart hjónalífi foreldra sinna er börnum eðlislægt og ég var þar engin undantekning, mér hefur verið tjáð að hegðun mín í svefni á þessu árum hafi helst minnt á spriklandi kolkrabba slíkur var erillinn í útlimum mínum, þessa nótt sem aðrar steinsvaf ég í miðju rúminu eins sá sem þekkir ekkert nema sakleysið og á sér einskis ills von, himnarnir gera nefninlega ekki boð á undan sér áður en þeir hrynja yfir mann af óbærilegum þunga, um nóttina rumska ég svo við það að foreldrar mínir koma uppí, ég bæri ekki á mér en núna þegar ég skoða þetta atvik í baksýnisspeglinum sé ég að það hefði ég betur gert, margt hefði farið öðruvísi, rétt í þann mund sem móðir mín teygir sig í lesljósið til að slökkva fyrir svefninn segir faðir minn (sem var ígildi guðs í mínu lífi og eina mannveran á jörðinni sem var algjörlega yfir alla gagnrýni hafinn) "varstu búin að setja eitthvað í skóinn hjá henni" ................................................. svo mörg voru þau orð, hvílíkt áfall, hvílík svik, hvílíkt samsæri, allur heimurinn með foreldra mína í fararbroddi hafði tekið höndum saman í þeim tilgangi að bulla mig fulla um einhverja jólakalla með úttroðna poka af dóti handa góðum og hlíðnum börnum (við þurfum auðvitað ekkert að fara útí það hversu ósanngjörn þessi krafa er að allir séu tiplandi um á spariskónum útí eitt þegar tilveran er öll á hvolfi yfir næturheimsóknum gjafmildra sérvitringa), en sem sagt þarna lá ég í rúminu og gat mig hvergi hrært þó hjartað ólmaðist eins og væri það landsliðsfyrirliðinn í adhd sem hafði gleymt að taka lyfin sín þennan daginn, áfallið var slíkt að þessa örlagaríku nótt þegar alheimssamsærið luktist upp fyrir mér og ekkert varð framar samt og áður, lofaði ég sjálfri mér að ég skildi aldrei aldrei skrökva barnið mitt fullt af þessari eða annarri viðlíka vitleysu og í mörg ár stóð ég með þeirri sannfæringu minni, það er að segja þangað til ég eignaðist barn, fyrst er þetta nefninlega voða sætt, bara saklaust gaman, svo byrja þau á leikskóla og ekki getur maður verið foreldrið sem eyðilagði jólin fyrir öllum börnunum á deildinni því krakkinn manns ljóstraði því upp í sögustund að mamma hafi sagt að það séu ekki til neinir jólasveinar, það séu bara foreldrarnir sem setji í skóinn og kaupi allt draslið í bónus í þokkabót, svo líða árin og málið gerir einhvernveginn ekkert nema vinda uppá sig og þetta verður sífáránlegra, hvernig sprengir maður sápukúluna? spurningarnar verða tíðari og ágengari og maður stendur sig að því að fara undan í flæmingi, hvernig á ég að koma mér útúr þessu án þessa að eiga á hættu að barnið verði bróðurpartinn af fullorðinsárum sínum að greiða úr alls kyns complexum og verði einn af þessum ógæfusömu einstaklingum sem glíma allt sitt líf við massív trust issues og guð má vita hvað, mér er ekki skemmt, ég get ekki beðið eftir þeim degi þegar þessu líkur og ég get haldið jól með flekklausa samvisku og þurfi ekki að standa í því að éta allan andskotann sem er skilinn eftir útí glugga handa þessu liði og skrifa svarbréf með falsaðri rithönd þar sem ég þakka fyrir góðgætið og hrósa barninu fyrir frábæra hegðun í jólamánuðinum og minni hana á mikilvægi þess að bursta tennurnar og æfa sig að lesa, í alvöru talað þetta er mig lifandi að drepa, ég get þetta ekki mikið lengur, ég biðst vægðar

þriðjudagur, 1. desember 2009

glimmergrýlan er komin á ról

ja þá sjaldan að maður þegir....hafi það farið framhjá fólki þá er kominn desember og ég er að skreyta, aðventukransinn er positivly divine og eplailmolían ávanabindandi, hef með klækjum orðið mér úti um stóra birkigrein og bíð nú eftir að the handsome devil hengi hana í loftið fyrir mig svo hana megi hlaða fögru glingri, krummastelpur eru veikar fyrir fögru glingri...en fólk var kannski búið að geta sér til um það nema það sé þeim mun tornæmara, hef þegar eitt svívirðilegum upphæðum í blómaval og rænt öllum könglum í næsta nágrenni án þess að kenna hið minnsta til í minni samviskulausu samvisku, geri ekki nokkra tilraun til að hemja stjórnsemi mína og sjúklega tendensa til að vera viðurstyggilega anal þegar það kemur að því að finna hekluðu snjókornunum og trétindátunum hinn fullkomna stað í hillum heimilisins, hef áður reynt að benda sjálfri mér á að þetta sé nú kannski ekki svona mikið mál, kannski sé ekki ástæða til að taka þessa hluti svona alvarlega en hef hingað til ekki átt erindi sem erfiði svo best að sleppa því bara að reyna að skammast sín og halda sig við það sem maður er góður í, að mörgu leyti er ég bara fokkóþolandi á þessu árstíma og hef svo ekki einu sinni manndóm í mér til að gera eitthvað í því heldur trúi því statt og stöðugt að ég sé einfaldlega fagurfræðilega hæfari en annað fólk til að taka svona ákvarðanir, hafi fólk aðra skoðun á málinu mun ég ekki hlusta á hana heldur sniðganga þann hinn sama fram yfir þrettándann

uppáhaldsdesemberorð: glitrandi, glimmer, englahár, dingaling, ilmur, rökkuró, betlehembarnið, grýlukerti
hef einsett mér að reyna í mánuðinum að finna tækifæri til þess að nota þau öll í sömu setningunni

miðvikudagur, 25. nóvember 2009

þriðjudagur, 24. nóvember 2009

sumir sætta sig við eftirlýkingar...ekki ég

mikið gasalega finnst mér þessi betty crocker sem maðurinn minn er að sofa hjá eitthvað óspennandi týpa, ótrúlegt hvað hann getur verið metnaðarlaus, mér er bara ekki vitund ógnað þó hún liggi þarna á eldhúsborðinu og hann stari á hana eins og eitthvað undur, bakaradrengnum finnst hún gjörsamlega æðisleg og stynur óþarflega mikið að mínu mati en honum fyrirgefst hliðarsporið af því að hann þreif ógeðseldhúsið svo ég gæti legið í sófanum og flörtað við stieg larsson, ég á bara 23 blaðsíður eftir, sem þýðir að eftir sirka hálftíma verður allt búið og aldrei neitt meir á milli okkar stieg, maður gæti grátið....helvítið hún betty hangir nú samt áfram inní eldhúsi hjá mér og lætur eins og heima hjá sér, allt í góðu væni minn ég bara finn þá jón kalman!!!

sunnudagur, 22. nóvember 2009

til minna sálarsystra nær og fjær

allar þið elskulegu konur sem ég þarf ekki að nafngreina því við erum samvaxnar á sálinni og berum kennsl á hvor aðrar úrfrá svo mörgu öðru en nafni, þið sem vekið skefjalausa aðdáun mína, hlýju og trú á lífið, þið sem staðfestið í sífellu þann grun minn að konan sé kóróna sköpunarverksins og að það sé ekki við karlmenn að sakast þó þeir standist ekki samanburðinn því drottinn almáttugur hafi einfaldlega farið að kasta fullmikið til hendinni við gerð þeirra þegar hann sá hversu fullkomlega honum hafði tekist til við að skapa ykkur, ég vil bara að þið vitið að þó ég virðist hafa tapað nokkuð niður þeirri færni sem það krefst að taka upp síma og slá inní hann mikilvæg númer þá líður ekki sá dagur að þið séuð ekki í huga mér og hjarta svo ég bólgna öll af ást og elsku og þakka öllu því góða á þessari jörð fyrir að fá að deila mínu gallaða sjálfi með ykkur

til þeirra sem málið varðar;
ég gleymdi að láta ykkur vita af því að þetta með harðlífið leystist farsællega og þakka innilega auðsýnda samúð í því máli

laugardagur, 21. nóvember 2009

ég á að vera farin í leikfimi en fyrst þetta

froðan á morgunkaffinu er svo þykk og falleg hjá mér í dag að það er næstum sárt, ég stilli mig um að vekja eiginmanninn til að monta mig og læt mér nægja að reka teskeiðina framan í dótturina, "sjáðu, eins og þeyttar eggjahvítur!", barnið horfir á mig af einlægu áhugaleysi og heldur svo áfram að háma í sig súrmjólkina sem að mínum mati er einum of bragðbætt með púðursykri en mótmæli mín drukkna í útpældri röksemdafærslu litlu manneskjunnar sem bendir mér ískalt á að það sé nammidagur og þar af leiðandi megi setja eins mikinn púðursykur á súrmjólkina og manns vill, mér verður orðfátt................(hér hellist djús yfir tölvuna og ég gjörsamlega tapa mér, viðbrögðin ekki ólík því og þegar hundurinn stökk niður af 12 metra háum svölum hér um árið, algjör örvænting) eins og iðullega þegar dregur að jólum er ég í nagandi kvíðakasti yfir gjöf til eiginmannsins, hann langar aldrei í neitt nema kanó og ég er bara búin með alla hundraðþúsundkallana mína, einhverntíman hafði ég hugsað mér að prjóna á hann lopapeysu og sauma inní hana miða sem á stæði "gerð úr 100% ást" (fólk má kasta upp yfir vellunni ef vill) en eftir að hafa eitt mörgum mánuðum í að prjóna eitt stykki húfu af einföldustu sort gugnaði ég á gjörningnum , ég prjóna á hraða snigilsins og fæ paníkkast þegar ég missi niður lykkju svo lopapeysa er held ég dáldið handan minna hannyrðamarka, sem er slæmt því mér finnast menn í lopapeysu afar þokkafullir og tel að eiginmaður minn yrði þar engin undantekning, synd hvað maður er takmarkaður, hvers á aumingjans maðurinn eiginlega að gjalda!

miðvikudagur, 18. nóvember 2009

ó já!!!

jane campion búin að gera mynd um john keats, getur það
orðið eitthvað annað en guðdómlegur óverdós af rómantík og fegurð? me likey!!!

annars vil ég bara fá jól, ég vil fá jól og breyta heimili
mínu í páls óskars land (meaning mikið glimmer)
og hanga í bíó á myndum eins og þessari og baka
kökurnar mínar með þrem gerðum af súkkulaði og
kaupa gjafir handa öllum sem ég elska og spila
silfurkórinn í spað, enn og aftur me likey!!!!!!!!!!

er einhver memm???

sunnudagur, 15. nóvember 2009

haldiði að mín hafi bara ekki baðað sig í dag, geggjað

laugardagur, 14. nóvember 2009

á sumum sviðum er ég sein til náms

ég er búin að borða svo margar bollakökur með bleiku kremi í dag að það jaðrar við siðleysi, mér líður eins og allt vitsmunalíf mitt sé lamað og ég muni aldrei framar geta gert nokkurn skapaðan hlut af viti, þrátt fyrir einbeittan ásetning móður minnar hefur henni ekki tekist að uppræta í mér þá tilhneigingu að leggjast á eina sort, á uppvaxtarárum mínum sat ég marga harðorða fyrirlestra í aftursætinu á toyotunni um það smekkleysi sem það er að borða í boðum eingöngu það sem manni þykir smakkast best, móðir mín þreyttist ekki á að hamra þetta inní minn þykka haus í hvert sinn sem við ætluðum að reka einhverstaðar inn nefið en í hennar sveit þótti athæfið þvílíkur ruddaskapur að varðaði við ævilangan brottrekstur úr öllum betri kaffisamsætum, ég segi sjálfri mér að þetta með bollakökurnar hafi verið allt í lagi vegna þess að ég bakaði kökurnar sjálf og svo var nóg til og ég passaði að það sæist ekki hvað ég setti margar á diskinn, svo var partýið heima hjá móður minni þannig að tæknilega séð var ég á heimavelli sem tekur mesta þungann úr glæpnum, en þetta er sem sagt einn af mínum mörgu persónuleikabrestum sem ég á eftir að fínstilla og ná betri tökum á, gott að hafa einhver svona verkefni í höndunum, það er alltaf hægt að bæta sig í einhverju, ég hef til að mynda nýlega komist að því (þar sem ég sat á klósettinu í vinnunni og virti fyrir mér plakat frá landlækni með skýringarmyndum og allt) að það sé hópur af fórnfúsu fólki þarna úti sem vinni við það að staðla handþvott svo óbreyttir sóðar eins og ég geti náð betri árangri á því sviði!!! ja þar er nú aldeilis sóknarfæri fyrir þessa konu hér skal ég segja ykkur, áfram veginn nú og leggja sig alla fram!!!

miðvikudagur, 11. nóvember 2009

eiginmaðurinn á kvöldvakt og ég að tapa mér í glyðruganginum, slekk öll ljós, kveiki á ilmkertunum og spila boatman´s call með nick cave aftur og aftur og aftur...

hann segir:

kiss me
kiss me again
and rekiss me,
slip your fridgid hand beneath my shirt

maður bara heldur sér í borðbrúnina og fókuserar á að anda, finnst maður þurfa að opna glugga eða fara í eitthvað efnisminna, fá sér vatnsglas jafnvel, nei þetta er nú ekki hægt!!!

mánudagur, 9. nóvember 2009

því ég er meiri einfeldningur en góðu hófi gegnir

ég er ofsótt af bankamanni sem virðist hafa gert það að sérlegu ætlunarverki sínu (nema honum finnist ég með svona kynþokkafulla rödd sem mér finnst einhvernveginn hæpið) að fá mig til að skipta vísakortinu mínu út fyrir annað kredikort sem á víst að duga enn betur til óþarfa eyðslu en vísaviðbjóðurinn, hann hefur hringt í mig þrisvar á þessu ári og hringir örugglega aftur fyrir jól, ég hugsa hreinlega að hann sé með mynd af mér á desktopnum sínum og sé að taka secret á þetta, ég hef margbent manninum á að nei ég sé nú meira að hugsa um að losa mig við kortahelvítið, þetta rusl hafi þvert á öll loforð ekki gert líf mitt neitt léttara nema þá kannski í einhver öraugnablik (oftar en ekki inní í tiltekinni skóbúð á laugarveginum) sem maður fær svo beint í hausinn aftur eins og verdens störste boomerang, heróín hefur skilst mér svipuð áhrif en sem betur fer er enginn að hringja í mig að bjóða mér heróín á kostakjörum...ennþá...one never knows though, ég skil ekki fólk sem reynir að selja manni eitthvað í gegnum síma, ég tala nú ekki um þegar það er eitthvað jafn ömurlegt og óhamingjuskapandi og kreditkort, ef fólk ætlar að selja mér eitthvað á það að mæta mér augliti til auglitis og hafa með sér hund, þetta vissi björgunarsveitarmaðurinn sem beið mín fyrir utan bónus um helgina og tókst að selja mér þennan fokkljóta neyðarkall sem mig langaði minna en ekkert í, ég var meira að segja búinn að ákveða að kaupa þetta ekki þó vinnufélagi minn sem er bjargvættur mikill hafi verið búinn að beita mig nokkrum þrýstingi, ég tek það fram að ég kann mjög vel við þennan vinnufélaga enda er maðurinn slíkt eðalmenni að hann er uppnefndur íslenski fáninn á kaffistofunni, en sumsé þar sem ég stóð þarna í andyri helvítis, svínabónusbúð bæjarins, í þann veginn að greiða hálfann heiminn fyrir knippi af bönunum sem og fullan haldapoka af áfengi, var ég stöðvuð af huggulegum karlmanni með ósköp notalegt viðmót, maðurinn sem slíkur gerði svo sem ekkert fyrir mig en hið sama verður ekki hermt uppá meðreiðarsveininn, sá var kolasvartur og kafloðinn og með alla blíðu heimsins í augunum, ótrúlega fagur og virtist ekki eiga sér neina ósk aðra en að gera mér til hæfis, og það var eins og við manninn mælt (eða hundinn), ég fann hvernig ég aumingjaðist öll upp inní mér og allt í einu var það hreinasta glapræði að láta þennan neyðarkall úr greipum mér ganga, ég meina það var meira að segja hundur á kippunni, auðvitað varð ég að kaupa svona kall, hvernig hafði mér dottið í hug að sniðganga þetta frábæra framtak bara vegna þess að mér fannst gripurinn ekkert sérlega smart og þyngd peningabuddunnar kannski ekkert að valda mér hryggskekkju þennan mánuðinn, hversu yfirborðskennd og takmörkuð get ég eiginlega verið sem manneskja!!! þannig kom það sem sagt til að ég varð eigandi að ljótustu lyklakippu sögunnar (hún er í alvörunni lygilega ljót, ég hreinlega veit ekki hvað ég á að gera við þetta fyrirbæri, krakkinn vill það ekki einu sinni), en sem sagt eitt fyrir björgunarhundum, núll fyrir uppáþrengjandi bankamönnum með lélega sölutækni

föstudagur, 6. nóvember 2009


þetta er gert úr pappír....einmitt! sumir eru dáldið sterkari á fínhreyfingasviðinu en aðrir,

hafiði mig afsakaða eitt augnablik, ég þarf að bregða mér í lundareykjadalinn á mjög mikilvægan fund skáldhneigðra kvenna, ef þið fréttið af mér vel búsaðri útí móa rýnandi í stjörnur og steina þá var ég bara að leita að músunni minni, maður leggur ýmislegt á sig fyrir listina

þriðjudagur, 3. nóvember 2009

gleði og sorg á laugarveginum

ég keypti mér jólablöð í bókabúðinni í gær, þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt eftir þetta raup mitt hér neðar um óþolandi jólaáróður kaupmanna en ég bara réði ekki við mig, ég ver mig með því að segja að þetta hafi verið ódýrari kostur en að kaupa allar bækurnar sem mig langaði í en sá reikningur hefði hlaupið á tugum þúsunda, svo vil ég benda fólki á að á nýja kaffihúsinu í máli og menningu er nú hægt að fá latte framreiddan eins og guð upphaflega hugsaði sér (eða alla vega frakkar) þ.e. í skál en ekki í alltof litlum bolla líkt og tíðkast víðsvegar, latte í skál var lenska á gamla súfistanum í mogm og ég táraðist næstum þegar ég sá að búið væri að endurvekja þessa hefð, á laugarveginum stóð ég svo lengi fyrir utan kisuna og engdist af löngun í stóra gæsaljósið í glugganum, hvað væri huggulegra í skammdeginu enn að eiga eins og eitt stykki gæs til að tendra í stofunni, ég hætti mér rétt inn fyrir þröskuldinn en snéri fljótt við enda eru verðmiðarnir í þessari búð ekki fyrir fólk á kennaralaunum, svona þegar ég hugsa út í það veit ég eiginlega ekki hver það er sem verslar þarna en ég öfunda þann hinn sama mjög mikið, ég tók til fótanna þegar ég stóð mig að því að handfjatla lítið ilmerti á 6200 krónur, þetta var svona kerti sem brennur þið vitið, eyðist upp og er svo búið og kemur aldrei meir, en lyktar örugglega alveg guðdómlega rétt á meðan það lifir, svona tvær þrjár kvöldstundir eða svo

föstudagur, 30. október 2009

um óþarfa átroðning kaupmanna þó ég þurfi í búð

birgðarnar í ísskápnum eru í sögulegu lágmarki og eiga sér næstum óhugnalega hliðstæðu í bankareikningnum mínum, innkaupalistinn fyrir næstu búðarferð er svo yfirgripsmikill að ég held að ég verði að gera mér kaflaskipta útgáfu af honum (mjólkurkælir, kjötvörur, hreinlætisvörur, grænmetis/ávaxtakælir, heilsurekki, hlutirseméghefekkiefniáenkaupisamtafþvíégheldaðégséeðalborin) svo ég eigi mér einhverntímann afturkvæmt og snúi ekki heim með innkaupapoka ala da husband, þ.e. fullan af handahófskenndu rusli sem vanvirðir heilagt stríð mitt við unnar kjötvörur, eitt og annað minnir mann svo á að jólamánuðurinn nálgast, þar ber fyrst að nefna þann árvissa jólafyrirboða að hundurinn er að byrja að fara úr hárum, nú þegar er eins og það hafi snjóað í stofunni og í desember verður þetta orðið viiiiiiirkilega áhugavert!!! í seinni tíð finnst okkur fjölskyldunni bara ekkert varið í nóakonfektið nema verulega vel loðið, í öðru lagi fékk ég svo hagkaupsblaðið inn um lúguna í morgun þar sem blaðberinn minn skorar greinilega mjög lágt í lesskilningi og nær ekki innihaldi textans á hárauða miðanum á útidyrahurðinni, "engan fjölpóst" stendur þar skýrum stöfum, spurning um að setja þetta fram myndrænt fyrir greyið (one hates to give mixed messages and leave others feeling perplexed), en sumsé er hagkaupsblaðið í dag stútfullt af hverskyns jólaglaðningi enda ekki ráð nema í tíma sé tekið drottinn minn í dýrðarbjargi!!! þarna voru tildæmis tryllingslega sexý miss santa undirföt, sem ég myndi nú ekki láta góma mig dauða í en sjálfsagt stingur einhver þessu í skóinn hjá viðhaldinu, og svo ulltu auðvitað svínasteikur þarna um allar síður sem mér finnst nú bara viðbjóður miðað við heilsufar landsmanna almennt og nýjustu fréttir úr veröld svína, eitthvað neyðist maður nú samt til að fara að huga að jólum þar sem gjafirnar í ár verða að öllum líkindum handgerðar úr tilfallandi úrgangi og sækja innblástur í dagatalið frá sorpu, hugsa nú kona hugsa!!!

fimmtudagur, 29. október 2009

um heilandi áhrif lesturs og sjálfslygarann mig

hafi fólk ekki lesið "fimm mílur frá ytri von" eftir nicolu barker mæli ég með því að þið gerið það næst þegar þið eruð í fýlu, það hefur undraverð áhrif á ýldusúra lund eins og ég komst að í gær þegar ég faldi mín bólgnu augu á bak við neongræna kápuna og leit ekki upp fyrr en ég hafði lokið við verkið, það skal tekið fram að það dregur alls ekki úr skemmtuninni að fá sér bjór með, eftir að hafa étið steralyf í skammtastærðum sem aðeins verður lýst sem amerískum og krónísku mauli ofnæmislyfja hef ég nú tekið á mig mitt fyrra form og virðist ekki trufla gesti og gangandi með útliti mínu, alla vega hætti ég mér út úr húsi seinni part dags í gær og vakti enga sérstaka athygli (maður næstum móðgast), í mesta óttakastinu yfir stjórnlausum hamförum holds míns lofaði ég sjálfri mér og almættinu öllu mögulegu fengi ég heilsuna á ný, til dæmis að sniðganga algerlega sætindi og sykur í hvaða formi sem er og láta ekkert annað en lífræna fæðu innfyrir mínar varir, núna þegar mestu hörmungarnar eru gengnar yfir og þar á ofan prjónaklúbbur hjá elskulegri móður minni í kvöld (en ég hef heyrt því fleygt að hún eigi brúntertu í frystinum) stend ég í djúpum rökræðum við saurlífssvínið innra með mér sem heldur því fram að loforð gefin í öfgakenndum aðstæðum sem banka uppá óforvarandis og ógna velferð og jafnvel lífi fólks, séu alls ekki marktæk og beri engan vott um skynsamlega hugsun, svona er maður nú ístöðulaus og blankur af viljastyrk, er það furða þó maður sé með allt meira og minna niðrum sig í lífinu og með handónýtt ónæmiskerfi í kaupbæti, mér er spurn?

miðvikudagur, 28. október 2009


"don´t you taunt me with perfection, I have other things to do...."

þriðjudagur, 27. október 2009

viðauki við boðorðin tíu

þú skalt muna að þú ert hversdagsengill

þú skalt forðast tálsýnina

þú skalt hafa hemil á svartsýni þinni

þú skalt treysta á mátt góðseminnar

þú skalt praktísera glaðværð

þú skalt gera þitt besta

þú skalt trúa sannfæringu þinni

þú skalt halda ró þinni og halda áfram
halda ró þinni og halda áfram
halda ró þinni og halda áfram
halda ró þinni og...*




*í samræmi við nútíma pedagógíu var hér markvisst reynt að sleppa því að nota orðið ekki, það er sona dáldið dóminerandi í boðorðunum, þú skalt ekki þetta og hitt alveg með vísifingri og allt, betra að vita hvað maður á gera í staðinn fyrir að vanda sig við að forðast það sem maður á ekki að gera, skýrari skilaboð elsku guð, ég held þetta gæti leyst margt í mínu lífi, að vita hvað ég á að gera

mánudagur, 26. október 2009

umpottanir og ummyndanir ofnæmissjúklings

einhversstaðar er því haldið fram að drottinn leggi ekki meira á mann en hann veit að maður geti borið, ég segi nú bara eins og móðir teresa; mikið vildi ég að hann ofmæti ekki svona svakalega burðarþol mitt, síðastliðinn sólarhringur hefur nefninlega verið dáldið eins og sena úr þeirri gerð hryllingsmynda sem velta sér uppúr hvers kyns líkamsummyndunum, í slíkum myndum vaknar söguhetjan gjarnan við það að hún er að ummyndast í eitthvað fremur ólekkert kvikindi, í kvikmyndahúsum bæjarins er einmitt verið að sýna eina slíka mynd, skrímsladramað district 9 sem ég fylgdi eiginmanni mínum á og hafði nokkuð gaman af, ég hef ekki skemmt mér eins vel síðustu klukkutímana við að reyna svipuð hamskipti á eigin skinni, og þegar ég segi skinni þá meina ég það bókstaflega, eftir að hafa umpottað nokkrum stofublómum í gærkveldi á eldhúsborðinu (því ég hugsa stundum ekki lengra en framfyrir nefið á mér og ég er mjög nefsmá kona) fór ég að kenna til kláða á hægra augnlokinu, verandi sá ofurnæmi ofnæmisgrís sem ég er tók ég eina ofnæmistöflu og lagðist svo til svefns, klukkan fjögur í morgun vaknaði ég svo við gól í barninu sem þurfti aðstoð við að pissa, eitthvað finnst mér ég undarleg í skrokknum og einhvernveginn virtist tungan ekki lengur passa í munninn á mér en það hefur hingað til ekki verið vandamál, ég sendi barnið í rúmið, fór aftur inná bað og kveikti ljósið í þetta skiptið, ja margt býr í myrkrinu svo ég taki ekki dýpra í árina, við mér blasti eitthvað sem minnti mig á fisktegundina sem blæs út og skiptir um lit í streituvaldandi aðstæðum, að dulitlu leiti (afar litlu meira að segja) líktist þessi fiskur konu sem ég deili líkama með og mætir mér oftast þegar ég lít í spegil, sú er ágætis manneskja og yfirleitt nokkuð huggleg þó hún eigi það til að gleyma að greiða sér, blöðrufiskurinn starði stokkbólgnum augum á eldrautt og upphleypt holdið á hálsi, höndum, baki og brjósti, fann hvernig hann hitaði og klæjaði svo að í eitt augnablik hugleiddi hann að ná sér í ostaskerann eða parmesanrifjárnið til að lina kvalirnar, rak út úr sér undarlega þykka tunguna og sannfærðist um að hans hinsta stund væri upprunnin, svo mjög var blöðrufisknum brugðið að hann hringdi á lækni sem reyndist svefndrukkinn og pirraður og ekki í stuði til að líkna sjúkum, "róa sig bara niður" sagði doktorinn eins og pabbinn í draugasögulaginu á uppáhaldsgeisladisk dóttur minnar, "fá sér eina, tvær ofnæmistöflur og reyna að sofna" sagði hann því bólgnar tungur um miðja nótt eru auðvitað ekkert til að missa svefn yfir, vesalings fiskurinn sem einna helst var farinn að líkjast eldrauðum gúmmíhanska sem einhver hafði blásið í missti nú samt svefn enda ekki klæddur til að taka á móti dauðanum þó læknirinn væri þreyttur og ekki nema fjórir tímar í að heilsugæslan opnaði, í morgunsárið hræddi kvikindið svo líftóruna úr afkvæmunum sem fórnuðu höndum og ákölluðu æðri máttarvöld, yngra barnið var reyndar svo morgunfúlt að það lét sér nægja að virða móðurígildið fyrir sér með svip sem var einhversstaðar mitt á milli vantrúar og viðbjóðs, á heilsugæslunni beið mín sem betur fer öllu umhyggjusamari læknir en sá sem ég eyddi nóttinni með, mikil indælis kona sem skildi alvöru málsins og skrifaði uppá mjög stóran skammt af steralyfjum fyrir mig, fátt er jafn traustvekjandi og að lyf innihaldi mikið af sterum, gott gott, svo benti hún mér á að kannski ætti fólk með gróðurofnæmi ekkert að vera að umpotta uppá eldhúsbekknum með sáðmold sem er búin að standa opin úti á palli síðan snemmsumars, já og alls ekki að fara svo að sýsla með mat á þeim sama eldhúsbekk, sérlega ekki ef maður ætlar að éta hann sjálfur og komast lifandi frá því

sunnudagur, 25. október 2009

faaaaaaaaallegt


hver gæti ekki hugsað sér útsaumaðar gólffjalir, alla vega finnst mér þetta töluvert fegurra en plastparketið mitt... gæti samt farið illa þegar hundurinn mígur á gólfið

hönnun monica jarg

miðvikudagur, 21. október 2009

hjónabandspóstur hinn seinni

þegar ég kom heim úr vinnunni til að hafa vaktaskipti við eiginmanninn, sem hefur setið yfir svínasjúku barninu alla vikuna, beið mín myglaður grjónagrautur á eldavélinni og kjötsúpa sem var farið slá svo verulega í að ég hugsa að ég hefði komist í nokkurt ölvunarástand hefði ég bragðað á henni (ég stóðst þó freistinguna sem sýnir að áhyggjur mínar af því að ég sé áfengissjúklingur eru ekki á rökum reistar), auk þessa var allnokkuð af óhreinu leirtaui uppá borðum og eitthvað bar á því að hlutir væru ekki á þeim stað sem við almættið höfum ætlað þeim, ég skerpti aðeins á hrukkunni milli augabrúnanna og hugsaði með mér að athafnir eiginmanns míns (eða öllu heldur skortur á þeim) séu svo sannarlega í flokki með mörgum af stærstu leyndardómum lífsins, guð einn veit hvað þessi maður gerir við tímann, ég snéri mér að grísnum sem er óðum að hressast og spurði hvað pabbi hefði eiginlega verið að gera í allan dag, barnið horfði á mig tómlegum augum og svaraði "öööh ekki neitt bara eitthvað í tölvunni" (hér kemur skýringin á því að niðurhalið mitt er óðum að klárast!!!), ekki svo að skilja að ástand heimilisins hafi verið svo skelfilegt að mér hafa blöskrað og gramist þannig að eiturgufurnar hafi staðið út úr vitum mínum, þetta var svosem ekkert stórmál heldur meira bara svo kostulegt, að vissu leyti dáist ég að þeim eiginleika að geta legið innan um rotnandi matvæli án þess að það örli á þeirri hugsun að kannski væri þessu betur komið í ruslatunnunni, teygja bara úr sér í sófanum og downloada öðru vídeói á meðan nýtt form af lífverum myndast í pottum og pönnum svo fnykinn leggur yfir hálft heimilið, ja miklir eru töfrar youtube ég segi ekki nema það, ég held ég myndi hreinlega ganga svo langt að segja að þeir jafnist á við kvenmannsbrjóst slíkur er dáleiðingarkrafturinn, maður á bara ekkert í þetta undur svei mér þá

mánudagur, 19. október 2009

um hinar dökku hliðar hjónabandsins

stundum vöngum við elskhuginn svona í eldhúsinu, hann er samt mjög lélegur dansari og uppátækið fer alltaf jafnilla í hundinn sem þenur út augun og urrar, verandi það barnalega karlmenni sem eiginmaður minn er grípur hann hér tækifærið til að snapa fæting við skynlausa skepnuna og urrar á móti, til að nudda salti í sárið klípur hann mig svo í rassinn uppí opið geðið á sjúklega afbrýðissömu dýrinu sem sprettur á lappir og geltir hamslaust, það er á þessu andartaki sem ég hætti að fá eitthvað út úr dansinum og sný mér að öðrum og einfaldari verkum, eitt er að horfa framhjá stirðbusagangi dansfélagans sem slefar á hálsinn á manni en að leyfa þeim hinum sama að nýta sér aðstöðu sína til að nýðast á minni máttar er bara ekki í dæminu, maður veltir fyrir sér hvort það hefði ekki verið betra að fá sér páfagauk...sem gæludýr á ég við ekki eiginmann

miðvikudagur, 14. október 2009

vegna tæknilegra örðugleika...

ég ræð ekkert við þennan spilara, hann stendur í þeirri meiningu að hann sé stilltur á shuffle og geti bara spilað það sem hann er í stuði fyrir það sinnið, þetta er vitaskuld vitleysa, ég hef alltaf valið vandlega lag með pósti dagsins og myndi aldrei láta slíkt ráðast af handahófi, ég er ekki manneskja sem gantast með jafn háalvarlega hluti og tónlist, samt er það þannig að í hvert sinn sem ég opna þessa síðu hljómar nýtt og nýtt lag án þess að ég hafi átt neytt við röðina á playlistanum mínum, þetta er reyndar dálítið intressant fyrir mig prívat og persónulega því fátt afhjúpar mann jafn miskunnarlaust og playlistinn manns, tónlist er svo samofin hugarástandi mínu hverju sinni að það að fletta þessum spilara er ekki ólíkt því að fletta dagbók, þegar ég leita í ipoddinum mínum færist öll ákvarðanataka sjálfkrafa og óumflýjanlega yfir á tilfinningasviðið, ég hef aldrei geta tileinkað mér þá tækni sem sálfræðingar predika að skella hressri tónlist á ef ég er að andast úr depurð, það væri eins og að ljúga að vini sínum og auk þess ekkert hessandi heldur eingöngu til þess fallið að ala á óyndinu og geðillskunni, sömuleiðis hlustar maður ekki á alla tónlist allan ársins hring, tónlist er líka árstíðabundin, elskan hann scott matthews sem kom siglandi til mín alla leið frá ammríku núna nýverið spilar til að mynda hið fullkomna soundtrack fyrir haustgöngutúra, þegar fer að frysta og dimma fyrir alvöru róta ég svo í hillunum eftir damien rice og beth orton, ef maður ætlar að horfa á norðurljós er eins gott að hafa eitthvað dramatískt í eyrunum, það gefur því augaleið að þetta músíklottó sem er í gangi hér á síðunni veldur mér töluverðum sársauka, þó hef ég tekið þann pólinn að þetta sé betra en þögn, mér fannst þetta blogg hálfómögulegt áður en ég fékk það til að hljóma, þögult blogg gengur ekki, alla vega ekki það sem er á mínu framfæri

þriðjudagur, 13. október 2009

raunir smáfólks

kríuljósið skælir, varirnar skjálfa og tárin eru stór, hún vill ekki vera í frístund eftir skóla, vill ekki meira svona skipulagt prógram eftir skóladaginn, vill komast heim og vera með mömmu og pabba, ég hugsa stundum um hvað ég hafi verið heppið barn að hafa ekki þurft að kynnast því að fara í skóladagvistun langt fram eftir degi og aldrei þurft að vera í leikskóla að neinu viti, það held ég hefði aldeilis kynnt undir geðhvarfasýkinni í minni að kúldrast innan um endalaust áreiti og tímaramma og regluverk, ég man ennþá hvað það var gott að labba heim til mömmu úr skólanum og vita að hún væri búinn að hræra bönunum og eplum útí súrmjólk og smyrja heimabakað brauð, á morgun fær barnið mitt brimsalta dollusúpu og brauð með bónusskinku í hádegismat, ég kæmi þessu ekki niður þó einhver handsterkur aðstoðaði mig með trekt

sunnudagur, 11. október 2009

sunnudagsvalkvíðinn

sunnudagar eru til vandræða, þegar ég var lítil kom það fyrir að mamma fór með mig í kirkju á sunnudögum en annars hafa sunnudagar aldrei haft neitt sérlega vel skilgreint hlutverk í lífi mínu og ég get aldrei ákveðið hvort mér finnast þeir skemmtilegir eða frekar döll, þess vegna á ég alltaf dáldið erfitt með að ákveða í hvað ég nota þá, af því maður er soldið þjakaður af þeirri tilfinningu að maður þurfi að nota tímann í eitthvað, ekki bara láta hann eyðast, sérstaklega frítímann sinn því maður á svo lítið af honum, kannski er ég samt bara föst í einhverri hugsanavillu með þessa hluti (eins og svo margt annað), það er þarna þetta með að njóta dagsins, óþarfi kannski að finnast maður alltaf þurfa að vera rosalega pródúktívur

það er uppselt á airwaves, bömmer (ekki það að ég eigi einhverja peninga)

jón kalman og steinunn sigurðar að gefa út bækur fyrir jólin, muchos fantastic!

laugardagur, 10. október 2009

skortur á sálarfóðri býr til bragðdauft fólk

eitthvað er mér flökurt í dag, hugsanlega af svefnleysi og hugarangri en þó gæti ótæpleg kaffidrykkja átt hlut í máli, lífsleiði geri mann lystarlausan, föst fæða nærir að svo takmörkuðu leiti að hún er gagnlaust eldsneyti fyrir áhugahvötina, ég velti fyrir mér hversu mikið leiðindi mín myndu vega kæmi ég þeim í fast form, ég gef mér það að kílógrammið sé sú mælieining sem best væri fallið til mælinga á lífsleiða, sjálfsagt væri líka hægt að notast við rúmmeterinn þó fljótt á litið virðist hann ekki geta náð yfir þann eiginleika lífsleiðans að kremja þó vissulega gæti hann sýnt fram á umfang og dýpt sem eru ekki síður veigamiklir eiginleikar viðfangsins, mér finnst full ástæða til að spyrja hversu leiðinlegur maður getur orðið áður en eitthvað efnislegs eðlis gefur sig, undan þunganum á ég þá við, réttast væri að selja mig í sláturhús til að þyrma vammlausu fólki við hörmungunum en að öllum líkindum er innvolsið jafn bragðlaust og andinn og ekki nokkrum manni boðlegt

fimmtudagur, 8. október 2009

aðstoð óskast í reikningi

ég er algjörlega hugsjúk mig langar svo í þetta, held bara að mig hafi aldrei vantað neitt jafnmikið, sjóntaugin hafði varla komið skilaboðunum til heilans þegar ég henti mér á veskið mitt og gramsaði eftir visakortinu, fyrir rælni staldraði ég svo við hið ómerkilega formsatriði verðið, 300 dollara, þ.e. gjaldmiðillinn bandarískur dollari sem núna stendur í 125 krónum, nú er ég arfa slök í reikningi og hugsaði með mér að þetta væri örugglega bara eitthvað smotterí en ákvað samt að slá það inní vasareikni svona eiginlega bara af því að hann lá beint fyrir framan mig, ég horfði lengi á töluna sem birtist á skjánum, ég hristi höfuðið og velti fyrir mér hvaða gloríur ég hefði eiginlega verið að gera, sló dæmið inn aftur þess viss að nú fengi ég aðra niðurstöðu og gæti þrykkt kreditkortanúmerinu mínu inní tölvuna og eignað mér alla þessa fegurð, en útkoman var óbreytt, núna er ég að telja mér trú um að maður eigi ekki að margfalda 300 með 125, er það ekki vitleysa, á ég ekki bara að deila, í alvöru talað ég get ekki átt að borga næstum 38000 krónur fyrir hárskraut, þó það sé vintage...eða hvað



vilji fólk láta pynta sig með fegurð er meira hér

miðvikudagur, 7. október 2009

going bonkers


það er ekki eins og ég hafi ætlað að hafa þetta svona, ég fór ekkert á fætur í morgun staðráðin í að standa mig sem verst á sem flestum sviðum, samt verður það að segjast eins og er að í dag var ég töluvert frá mínu besta sama hvar við drepum niður fæti, ég byrjaði daginn á að rífast við dóttur mína, ástæða rifrildisins var heiftarlegur ágreiningur um innihald nestispakka ósjálfráða einstaklinga, barnið grét, móðirin (a.k.a ég) skellti ísskápshurð og egg brotnuðu, með þetta á samviskunni lagði ég af stað í vinnuna þar sem mér tókst að láta ýmislegt framhjá mér fara, til dæmis að mæta á gangavakt og vera á tilteknum tíma í tiltekinni kennslustofu hvar biðu mín ringlaðir áttundu bekkingar, hefði maður verið almennilega með sjálfum sér hefði maður vitaskuld flýtt sér heim til sín og lagst uppí rúm til að valda ekki frekari skaða, en nei, sökum samviskubits yfir rifrildi morgunsins limpaðist ég niður inní dýrustu búllu bæjarins mosfellsbakaríi og lét það eftir úrillu barninu að kaupa eitthvað sem innihélt ekkert nema hvítt hveiti og hvítan sykur, viðbjóðinn hámaði barnið svo í sig yfir amerísku barnaefni heima hjá ömmu, á meðan sat ég í eldhúsinu og drakk kók og át rækjusalat og stóð mig afar illa í að halda uppi samræðum sökum slappleika og þrálátra flensueinkenna, að segja að ég hafi verið leiðinleg væri alls ekki að taka of sterkt til orða, ég nefni það mér til málsbóta að ég hef haldið mig í tölvunni í allt kvöld og forðast að ónáða fólk með nærveru minni, þegar ég slekk á tölvunni fer ég svo beint uppí rúm, hugsa að ég taki ekki sjensinn á að bursta tennurnar

sunnudagur, 4. október 2009

haustljós


ef allir haustdagar væru eins og þessi helgi er búin að vera hefði ég ekkert út á það að setja, maður verður alveg auðmjúkur í þessari fegurð, mikið vildi ég geta fangað þessa birtu í ljósaperur og notað í vetur í staðinn fyrir flúorviðbjóðinn í kennslustofunni minni sem borar sig bak við augun mín og misþyrmir ennisbeinunum, best væri að leggjast út, grafa sig í fallin lauf og lesa í guðabirtunni þangað til það frýs

föstudagur, 2. október 2009

maður er ekki alltaf jafn mælskur...af ýmsum ástæðum

ég var gasalega þreytt í vinnunni í dag eftir veikindafjarveruna, í augnablikinu hef ég aftur á móti innbyrgt of mikið af einu og öðru til að geta notað lyklaborð af nokkru viti, ég biðst forláts, það eitt er ljóst að sumt fólk er mér kærara en annað...nú hef ég slegið inn svo mörg æ fyrir l og , fyrir . að ég held að mér sé öruggast að hætta, fer að kaupa hundamat og reyni síðar, over and into the unknown

fimmtudagur, 1. október 2009

allir í bátana! - nei ég held ég syndi bara...takk samt



síðustu mánuði hef ég lagt mig í líma við að fylgjast ekki með fréttum og minnast ekki á samfélagsmálefni á þessu bloggi, í gær gat ég svo ekki setið á mér þegar ég heyrði af afsögn ögmundar jónassonar, fyndið hvernig sömu útjöskuðu frasarnir eru ennþá það eina sem fólki dettur í hug til að lýsa stöðunni, á forsíðu fréttablaðsins í dag er enn allt í "ólgusjó", bjarni ben segir að jóhanna hafi "misst ögmund fyrir borð", ég er alveg hissa á að hann kveði ekki sterkar að og segi að hún hafi hent honum fyrir borð svona til að hámarka dramatíkina, allavega held ég að ögmundur sé mjög vel syndur og hef ekki áhyggjur, gæti meira að segja hugsað mér að fá mér sundsprett með honum, enn tala sjálfstæðismenn um "glundroða", þetta er þeirra eftirlætisorð, það þýðir að það séu ekki allir sammála, fólk skiptist á skoðunum og hefur ólíkar hugmyndir sem það viðrar og ræðir, sem sagt algjör upplausn og allt í volli, slíkt er auðvitað ótækt og ekkert hægt að afsaka sig með því að umræðuefnin séu einhver þau erfiðustu í sögu íslenska lýðveldisins, sigmundur davíð er samt uppáhaldið mitt, það er svo dásamlegt hvernig hann tekur að sér hlutverk hinnar frelsandi hetju, vinamargur í útlöndum og tilbúinn til að bjarga deginum, ég er viss um að í skólaleikritum hafi sigmundur davíð alltaf viljað leika riddara og eigi búninginn ennþá inní geymslu, sverð og allt, þetta er samt eitthvað ekki alveg að virka hjá honum, alla vega dettur mér alltaf fyrst í hug fógetinn í nottingham en ekki hrói höttur þegar ég sé sigmund í fréttunum, pr liðið hans þarf að vinna í þessu, ég myndi byrja á að skipta um útgeislun

miðvikudagur, 30. september 2009

vinnan mun gera yður fríska




haustflensa í húsi mínu, einn af þessum föstu punktum í tilverunni sem maður getur reytt sig á, ég er og verð öndunarfæraaumingi og ekkert lífrænt heilsufæði eða regluleg hreyfingu mun fá því breytt, auðveldlega væri hægt að segja að ég sé einfaldlega "exceptionally gifted" þegar það kemur að því að ná sér í umgangspestir sem leggjast á öndunarfæri, ég aftur á móti lít á mig sem fórnarlamb læknamistaka, gamli heimilislæknir fjölskyldunnar vildi aldrei láta taka úr mér hálskirtlana og í seinni tíð hef ég ekki þorað því af ótta við að mér myndi blæða út í kjölfarið, annað eins gerist gott fólk, en óþarfi að hljóma eins og eymdin ein, það má alltaf finna góðan flöt á vondum málum, guði sé til dæmis lof fyrir öll ritunarverkefnin og prófin sem ég hef mér til dægrastyttingar í veikindunum, ég vil ekki til þess hugsa hvað mér myndi leiðast ef þeirra nyti ekki við, maður væri bara alveg ómögulegur, gæti ekki á heilum sér tekið, því ekki færi maður að leggjast í lestur eða kvikmyndagláp, nú eða liggja yfir ljósmyndabloggi og tónlist, nei hjálpi mér almáttugur slíkt lætur maður ekki spyrjast út um sig, eitt er að vera lasin annað að vera iðjuleysingi og ekki setur maður sig viljugur á bás með réttdræpum!!! ó nei, ég drekk grænt te og narta í döðlur og möndlur á meðan ég merki samviskusamlega við stafsetningarvillur og röng svör með hárauðum penna, ég finn saggalyktina leggja í gegnum húðina, klemmugleraugun íþyngja andliti mínu og búrókratíska dragtin herpist um hálsinn svo ég á erfitt með andadrátt, annað veifið verður mér litið út um eldhúsgluggann og langar í göngutúr því mér er það í blóð borið að þrá hið ófáanlega, snýti mér og tek verkjatöflu, hrylli mig við spegilmyndinni og ákveð að sjóða fisk í hádeginu, soðinn fiskur úr íslenskri landhelgi er jafnvel enn meiri líkn í veikindum en búnki af enskuverkefnum barna á efsta stigi grunnskóla, en dveljum ekki lengur við það sem fánýtt er, eins gott að halda sig að verki svo maður deyji nú ekki úr leiðindum

mánudagur, 28. september 2009

litli krúttlegi spilarinn hér til hliðar neitar að hlíða, hann spilar bara það sem honum dettur í hug og hundsar algjörlega lagaröðina á playlistanum mínum, ég bið fólk að afsaka, ég er of þreytt til að taka á málinu, kannski seinna, á morgun

verkefnabúnkinn minn er of stór, mér fallast hendur, finn til vonleysis, fer að sofa

sunnudagur, 27. september 2009

stundum er ég óþolandi

þetta hefur verið dagur mislyndis, ég á það til að vera svo hörmulega mislynd að heimilisfólkinu þykir nóg um, gjöra svo vel að ákveða sig hvort þú ert í vondu skapi eða góðu svo fólk geti gripið til viðeigandi aðgerða og flúið heimilið ef þú ert ekki í standi fyrir tjáskipti önnur en þau að urra, dagurinn byrjaði afar vel, allt hljótt í húsinu enda ég fyrst á fætur og enn nokkuð rökkur úti, ég hnupla peysu af eiginmanninum og skottast fram í eldhús og hita vatn, á meðan ég mala kaffibaunirnar velti ég því fyrir mér hvort það sé eðlilegt að hlakka svona til að fara á fætur og fá sér morgunnkaffibollann, ég er beinlínis að springa úr spenningi, hlutirnir bestna svo bara og bestna þegar ég toppa sjálfa mig í að strokka mjólkina og þarf að klemma saman varirnar til að halda aftur af gleðihrópinu þegar fullkomin hnausþykk froðan leggst yfir svarbrúnt kaffið, morgunritúöl mín í kringum kaffidrykkju eru í besta falli fáránleg þó ég segi sjálf frá, kaffið verður að vera nýmalað og það skal vera frá kaffitár, hita skal nákvæmlega jafnmikið vatn og á að nota en ef svo illa vill til að það verður of mikið skal því hellt á borðtuskuna, kaffið skal laga í pressukönnu og það á að liggja í allavega fimm mínútur, á meðan skal hita mjólkina, alls ekki of lengi, kaffið vil ég drekka úr skál, einsömul og hafa dagblað sem meðlæti, um helgar má ég drekka tvær skálar, nú en aftur að morgninum í morgun, þetta gekk vel þangað til ég fór að lesa blaðið, ég las umfjöllun um bæði réttir og riff en ég hafði hvorugt farið á og þótti nú afar miður, hjálmar voru víst í sjúku stuði án þess að maður nuddi sér upp úr fleiru sem var víst afar vel heppnað, ég varð hundsvekkt útí sjálfa mig fyrir að láta allt þetta stuð framhjá mér fara, eins og maður megi við því að missa af stuði for kræing át lád!!! til að hrista af mér svekkelsið ákvað ég að hreyfa bæði sjálfa mig og hundinn og fara út að hlaupa í veðurviðbjóðnum sem okkur var boðið uppá í morgun ofaná allt annað (eins og davíð oddson á mogganum sé ekki nóg), eins og iðullega þegar ég hleyp gufaði ergelsið og pirran að mestu upp með svitanum og í þokkabót skreið sólin fram úr skýjunum og ég fann ósköp fagurt haustlauf sem ég hafði með mér heim, til að viðhalda serótónínflæðinu sem skapaðist á hlaupunum ákvað ég að þrífa heimilið því fátt fer eins illa í hina fagurfræðilega sensitívu konu og að hafa ljótt í kringum sig, svo ég þreif, þvoði, loftaði út og marineraði lambalæri af húsmóðurlegu ofstæki, allt gekk vel, svo kom að því að þrífa hergbergi sjö ára barnsins, í stuttu máli sagt getur það gert hvern mann sturlaðan að tína saman barbískó, barbíveski, barbíhatta, hárspennur, púsl, liti, pappírsafklippur, púsl, óheint tau, perlur, púsl, spil...var ég búin að segja púsl, ég sleppti mér algjörlega í tuðinu og lét litlu manneskjuna heyra það óþvegið að svona sóðaskapur væri ekki einu sinni harðgerðustu ræsisrottum samboðinn, gagnrýnin var óvægin og ótæpleg og ég fékk móral, og komst í vont skapi, kvöldverðurinn var svo ánægjulegur enda þarf eitthvað mikið að vera að fólki til að það borði íslenskt lambakjöt með óyndi í sálinni og ygglibrún, sérstaklega þegar heilagt lambið er marinerað í sítrónu, hvítlauk, ferskum kryddjurtum, lauk og sveskjum, núna er ég svo að reyna að ákveða hvort ég eigi að vera hress (barnið sofnaði í sínu rúmi og heimilið er hreinstrokið og ilmandi) eða alveg hundpirruð (ég hef ekki sest niður í allan dag og þar af leiðandi er verkefnabúnkinn sem kom með mér heim úr vinnunni algjörlega ósnertur), eitthvað er það líka að trufla mig að maðurinn, hvers skítugu nærbuxur eru gjarnan á mínu svefnherbergisgólfi, gerir sér aftur á móti ekki rellu yfir nokkrum sköpuðuð hlut þessa stundina, síst af öllu þeirri staðreynd að hann eigi samkvæmt samkomulagi að vaska upp pottana sem ég eldaði matinn í, skrítið

þriðjudagur, 22. september 2009

það er vont að vera reiður

ég eldaði kjötsúpu, maður er þá fær um að gera eitthvað rétt þó lítið sé, mestan hluta dagsins hef ég verið að reyna að telja sjálfri mér trú um að það séu ekki skynsamleg viðbrögð að mölva innanstokksmuni þó sögusagnir hermi að davíð oddson verði næsti ritstjóri moggans, það er skemmst frá því að segja að ég er að verða búin með bjór númer tvö og er ekki fyllilega sannfærð, langar eiginlega ekki að gera neitt nema öskra, málið er að ef af ráðningu davíðs verður er ég í hryllilegri stöðu, ég myndi vitaskuld sjá mig knúna til að segja upp helgaráskriftinni að mogganum, það er augljóst, en tilhugsunin um laugardagsmorgna mínus lesbók er svo sorgleg að ég hef það varla af, ekki það að það sem í lesbókina er ritað sé tóm snilld en það er í það minnsta einhver umfjöllun um allt þetta sem gerir lífið bærilegra, af hverju er maður stöðugt með einhver ömurlega erfið verkefni í höndunum, gaaaaaaaarg!!!!

djöfull er þetta ammælispartý skjás eins geðveikislega plebbalegt

mánudagur, 21. september 2009

búið

um helgina kveikti ég á fyrstu kertum vetrarins, nokkurs konar minningarathöfn til að kveðja ljósið, ég veit að það er alveg að verða búið, við eyddum því öllu í sumar

laugardagur, 19. september 2009

ég er búin að taka ákvörðun

ég ætla ekki að ræða það frekar

sumt þarf maður að æfa oft í huganum áður en maður setur það á blað

fimmtudagur, 17. september 2009

svona í alvöru

er þetta ekki bara spurning um að láta sig hverfa, ef fólki finnst skuldastaða heimilanna ekki nógu deprimerandi svona ein og sér þá hvet ég bara alla til að fara inná mbl og skoða veðurspána fyrir næstu viku, ja eða bara næstu átta mánuði ef maður ætlar sér að verða alveg súisædal, hmmmmm hvað fleira er skrattinn að skemmta sér við þessa dagana...ó já, eitt árið í viðbót er ýmislegt spennandi og skemmtilegt í boði á kvikmyndahátíð reykjavíkur og vissulega á ég ekki krónu til að spandera í þær lífsnauðsynjar, sorglegt