laugardagur, 23. mars 2019

hvorki sá besti né versti. heldur hinn síendurtekni.


ég veit ekki hvað hefur gengið á í höfuðstöðvum unesco þegar ákveðið var að hafa alþjóðlegan dag hamingjunnar og alþjóðlegan dag ljóðsins í einni og sömu vikunni en leiði að því líkur að gríðargóð stemning hafi verið í húsinu. eðlilega höfum við heimilisfólkið vart komist til vinnu sökum hátíðarhalda. maður lætur ekki sitt eftir liggja þegar heimsbyggðin tekur sig saman og fagnar grunnstoðum mannsandans. þrátt fyrir umhverfisangistina og brotnu hurðina á eldhúsinnréttingunni og postulínstönnina sem kostaði mig hálf mánaðarlaun og niðurstöðurnar úr styrkleikaprófinu sem ég tók á netinu. ég hefði kannski átt að láta það eiga sig. þ.e. að taka þetta próf. þetta er víst frekar marktækt próf. og því ansi deprímerandi fyrir minn prívat mannsanda að það segi mér að sá eiginleiki sem ég sé slökust í sé vonin. ekki beint í takt við vikuna - one inevitably feels like a failure. 

reyndar voru niðurstöðurnar úr þessu prófi almennt séð vonbrigði. minn mesti styrkleiki er víst the appreciation of beauty and excellence. sem eru mér engar fréttir. en hvað í fjandanum á ég að gera við það? benda fólki á að nýja lífræna rauðvínið í áfengisversluninni sé hreint afbragð og á ótrúlega góðu verði miðað við gæði og að nýju blokkirnar sem eru að rísa við eina af aðalumferðaræðum bæjarins séu illa staðsettar og ekki líklegar til að auka lífsgæði verðandi íbúa? how, oh how, can one be of use? ég var meira að vonast eftir einhverju eins og framkvæmdarorka eða útsjónarsemi (sem er reyndar ekki á listanum ... kannski þarf bara að eiga eitthvað við þennan lista). eitthvað í þá veruna hefði í það minnsta blásið mér í brjóst nægum krafti til að gera eitthvað í þessu með hurðina á eldhúsinnréttingunni. hún fór af hjörunum einhvern tímann í haust. eða í sumar. ég man það ekki. það er alla vega mjög langt síðan og mamma mín hefur krónískar áhyggjur af þessu. mamma mín er á spáni í splunkunýju íbúðinni sinni þar sem allar hurðir og hjarir eru í toppstandi og  vel slegnar golfflatir við hvert fótmál þannig að það er frekar leiðinlegt að ástandið á heimili örverpisins sé að svipta hana svefni. hún hefur meira að segja boðist til að kaupa handa mér nýja innréttingu. ég hef ákveðið að ég sé ekki nægur þurfalingur til að þiggja það. maður verður að halda í þennan snefil af mannlegri reisn sem maður hefur enn úr að spila. með eða án hurða og hjara. ég er alla vega ekki tannlaus lengur. það er eitthvað.

kannski ætti ég að útskýra þetta betur. þetta með tannleysið, það er að segja. ekki nokkur maður hefði  getað logið því að mér til lengdar hvað brotinn jaxl geti gert sjálfsmynd vel menntaðrar fjörutíu og þriggja ára gamallar konu. síðustu fjórar vikurnar, frá því hversdagslega andartaki þegar ég stakk nokkrum pekanhnetum upp í mig eftir spretthlaupin og gufubaðið og fann eitthvað bresta í munninum á mér - eitthvað sem augljóslega var ekki hneta - hefur mér liðið líkt og ég sé bæði heimilis- og atvinnulaus og hafi jafnvel verið það lengi - tilfinning sem átti lítið annað eftir en að styrkjast þegar ég áttaði mig á hvað þetta myndi kosta mig. og að ég fengi að öllum líkindum fljótlega hryggskekkju af því að tyggja alltaf bara öðrum megin. þannig að ég ákvað að þetta væri fínn tími til að prófa þessar föstur sem allir eru að stunda en ég sjálf hafði ekki treyst mér út í af þeirri augljósu ástæðu að mér þykir betra að borða en að borða ekki. en í ljósi aðstæðna leit þetta út fyrir að vera tilvalið. ekki síst þar sem föstur eiga að hafa undraverð áhrif á þarmaflóruna og geðheilbrigðið (hvort tveggja á mínu áhugasviði). við fyrsta kast virtist þetta því a triple win deal: tannleysisvænt, ódýrt og heilsueflandi. og þetta gekk ágætlega. þar til ég varð svöng. þá féll allt um sjálft sig. samt er sjálfsagi ofarlega á styrkleikalistanum samkvæmt prófinu sem ég tók á netinu. líkast til er ekkert að marka þetta próf. en mér líst nokkuð vel á nýju postulínstönnina. ég var dálítið feimin við hana fyrst en eftir því sem við kynnumst betur verð ég æ sannfærðari um að þetta muni allt blessast og að bráðum muni mér aftur líða eins og atvinnuöryggi mitt sé gott og staða mín á fasteignamarkaði sterk. þrátt fyrir brotnu hurðina. og gagnslausa styrkleika. haltu í hestana þína kona. enga græðgi.

en. alla vega. áfram veginn. annan hring. 
(og reynum að hafa gaman af því.)