miðvikudagur, 29. júní 2011

hollráð fyrir nautnabelgi

í dag las ég pistil um mikilvægi þess að lesa hægt ef maður hefur hugsað sér að láta lesturinn gagnast manni í eigin skrifum, skilaboð sem hittu hinn alræmda nagla beint á mitt heimska höfuð enda hef ég tilhneygingu til að umgangast bækur á sama hátt og mat, það er að segja ég háma þær í mig af græðgi og nautnasýki og gef mér helst ekki tíma til að anda, ég tók sneiðina til mín og mun framvegis hafa það að markmiði að lesa lúshægt, hægja á sér kona! mamma mín hafði oft orð á þessu sama við matarborðið þegar ég var yngri, hægðu aðeins á þér barn! eitt af því sem maður þarf að sætta sig við þegar maður verður fullorðinn er að mamma manns hefur alltaf rétt fyrir sér, ég læt það ekki einu sinni pirra mig lengur

laugardagur, 25. júní 2011

gestapóstur frá marie antoinette

ég veit að flestum mun finnast þetta mjög lasið en ég er í alvöru sjúk í að baka þetta fyrir ammmmælið mitt, sömuleiðis þetta hér


og af því ég er dáldið þessi allt eða ekkert týpa, þetta hér (og lúðra nú)


ef fólk sækist eftir boðskorti bara láta vita, hinum bendi ég á þessa síður hér þó ég vari fólk við, maður verður sjúúúúúúkur

föstudagur, 24. júní 2011

trámatíserandi atvikin með geitaostinn (sjá fyrri póst til skýringar)

í fyrra skiptið sem ég "lenti í" geitaostinum var ég í brúðkaupi - þar sem allt smakkaðist reyndar þannig að mig langaði inní eldhús að lúskra á kokkinum - í mjög dömulegum kjól og aldrei þessu vant tiltölulega sómasamleg um hausinn, veislan var svona standandi pinnamatspartý á mjög fínum veitingastað, hugguleg djassmúsík ómaði í bakrunni og nóg af kampvíni í boði (og ekki veitti af með tilliti til þess sem beið manns), ég var með rosalega rauðan varalit og því pinnamatnum feginn því með rauðan varalit vill maður ekki þurfa að geyfla sig mikið við að koma matnum uppí sig, ég steinhætti að vera feginn þegar ég smakkaði fyrsta bitann sem var einhvers konar villibráð sem ég er oftast mjög hrifin af en þarna hafði greinilega eitthvað farið úrskeiðis í eldhúsinu því þetta smakkaðist mjög óspennandi, ég var - eins og mér hættir til að vera - mjög svöng og hóf leit að besta bitanum svo ég gæti lagst á eina sort og komist södd heim, og þá gerðist það, þó bitarnir á undan hafi verið hver vonbrigðin á fætur öðrum var engin þeirra neitt í námunda við þann níð sem bragðlaukar mínir upplifðu þegar það sem ég seinna fékk staðfest að væri geitaostur dreifðist um munnhol mitt sem ég vildi samstundis galtæma og þá helst án þess að kyngja því sem þar var, að annar eins viðbjóður fyrirfinndist á veitingahúsum í reykjavík var veruleiki sem hingað til hafði verið mér algjörlega hulinn og ég gæfi mikið fyrir að hann hefði verið það áfram, ég másaði og kúgaðist og blés út kinnarnar til að reyna að forða slímhúðinni frá snertingu við þennan ólýsanlega hrylling sem makaðist um allt uppí mér, ég reyndi eftir fremsta megni að anda með munninum því stækt bragðið smaug inní nefgöngin og ennisholurnar og gerði það að verkum að ekkert komst að í huga mínum annað en að ég yrði að kasta upp, í þeim tilgangi tók ég að ráfa stefnulaust um salinn í leit að blómapottum eða öskubökkum á bak við gardínur, ekkert slíkt reyndist tiltækt en það varð mér til happs að finna notaða servéttu sem ég gat þurrkað tunguna á mér með á meðan ég barði mér leið að þéttsettnum barnum, ég held ég sé ekkert að taka mér of mikið skáldaleyfi þegar ég gef mér það að allt þetta fólk hafi verið þar af sömu ástæðum og ég, það þarf auðvitað ekki að taka það fram að varaliturinn var farinn fjandans til sem og sú tilfinning að ég væri hugguleg dama í hugguleg partýi, ég vildi óska að hér lyki afskiptum geitaosts af lífi mínu en maður virðist hvergi vera óhultur í þessum heimi því í seinna skiptið sem leiðir okkar lágu saman - ég sem fyrr alveg grandalaus - var á öðru reykvísku veitingarhúsi sem ég gjarnan nefni sem mitt uppáhalds, sushi lestinni austurstræti, ég var búin að sporðrenna nokkrum guðdómlegum sasimi og vel má vera að ég hafi verið aðeins of áköf og ekki virt bitana nægilega vel fyrir mér en ég ver mig með því að enginn á sér ills von á sushi lestinni, bitinn var ekki fyrr kominn í munn mér þegar ég þekkti aftur þetta bragð sem ekkert mun nokkru sinni geta afmáð úr minni bragðlauka minna, á sushi lestinni sitja gestirnir á barstólum sem hægt er að snúa sér heilhring á og í örvæntingu minni og vantrú yfir að ég væri virkilega að lenda í þessu aftur snéri ég mér stöðugt á stólnum eins og adhd barnið sem foreldrarnir óska að þeir hefðu skilið eftir heima, allan tímann með mynd af grútdrullugri geit með skítakleprana hangandi aftan úr sér í huganum,  ég meina hver býr til ost úr geitum! þjónustustúlkan sem var búin að vera mjög almennileg fór að gefa mér órólegt augnaráð, greinilega áhyggjufull yfir því að dólgur væri í húsinu og hugsanlega uppnám í aðsigi, með hjálp jesú krists hlýtur að vera kom ég bitanum einhvern veginn niður og bað gráti nær um meira vatn og svo um enn meira vatn og svo hvítvín, þetta atvik hefur svo sem ekki orðið til þess að ég hætti að heimsækja sushi lestina þó það sé ekki þar með sagt að það hafi ekki markað djúp spor í sál mína, en ef þú ert einhvern tíman stödd/staddur á þeim stað og sérð konu rýna eins og þráhyggjusjúkling á hvern einasta bita áður en hún borðar hann, þá kastaru kannski á mig kveðju og sýnir mér samúð

fólk á ekki að fíflast með mat

snemma morguns í húsi í mosfellsbæ...

ég er með risavaxið skrímsli í maganum sem öskar aaaaaassspaaaaassss mmmmmeeeeeeððð paaaaaarmeeesaaaaan og eeeeeggjuuuuuuuuuuuuuuuuuuuum, ég er svo hungruð að mér finnst ég vera að missa vitið (og ekki má maður við neinu á því sviði jesús minn), það góða í málinu er að ég er stödd í eldhúsinu mínu og á einmitt aspas og parmesan og egg í ísskápnum og get dembt mér í það mál að verða við kröfum líkama míns, ég er reyndar ógeðslega upptekin við að skrifa greinar fyrir hið ágæta túristamagasín icelandic times og hef ekki einu sinni fyrir því að klæða mig þessi dægrin heldur slæpist um íbúðina á náttkjólnum og skítugum skokkum, til allrar lukku bankar enginn uppá, ég er hrædd um að það kæmist enginn heill frá þeirri reynslu, ég aftur á móti - verandi þessi sjúklegi intróvert sem ég svo sannarlega er - fíla það stórvel að vinna heima hjá mér með grænmetisbankann minn innan seilingar og engan til að skamma mig fyrir að drekka bjór on the company´s hour, ég byrja þó á að fá mér lýsi enda jafnast ekkert á við það að smyrja magaveggi sína með heilnæmri fitu í morgunsárið, all things being equal in the world of matter and reason sulla ég að sjálfsögðu lýsinu yfir tásurnar þaðan sem það klínist um allt gólf, ég er jú hreinn meistari hörmunganna, að því búnu vind ég mér í aspasmálið, stuttu síðar þegar sólin teygir sig inn um gluggana og vermir eldhúsgólfið stígur lýsisfýlan auðvitað upp og leggst yfir heimilið, þykk og stæk, en það er önnur saga sem ég læt ekki trufla mig við að háma í mig aspasinn og spara ekki limesafann, engin myndi taka upp fyrir mig haskann ef einhver bæri mig þeim sökum að  vera skammarlega gráðugt matargat og þess vegna er ég varla búin að sleikja diskinn þegar mig fer að hlakka til að éta fennelinn sem ég keypti á uppsprengdu verði í gær og bíður mín í grænmetisskúffunni, ég ætla að drekkja honum í ólífuolíu og salti og pipar og leyfa olíunni að leka niður hökuna alla leið niður á bringu og alls ekki þurrka hana í eldhúsrúlluna (lesist ermina) heldur maka henni á húðina eins og alvöru kelling í napólí sem kann alvöru bjútítrix, fía hringir með hrikalega djúsí slúður og ég tala mikið á innsoginu á meðan ég ét fennelinn, eitthvað er allt þetta át samt farið að koma illa við meltinguna í mér og ég er mjög fegin að maðurinn minn er ekki væntanlegur heim í bráð

nokkru síðar í hinu sama húsi í mosfellsbæ....

ég er í gífurlegu uppnámi vegna þess að iðna lísan sem ég var að kaupa hefur limpast öll niður í eldhúsglugganum og virðist að dauða komin, og vegna þess að vont hefur tilhneigingu til að versna er sérlegur ráðgjafi minn í umönnun pottaplantna - mamma mín - farin úr bænum og ég algjörlega bjargarlaus með deyjandi blómið í höndunum, ég sæki í að róa mig með mat og ákveð að hlamma mér fyrir framan sjónvarpið með stóra skál af fersku pasta með chilli og salati með rifnum gulrótum og granateplum, eitt af því fáa sem ég nenni að fylgjast með í sjónvarpi er að byrja en það er þátturinn önnumatur með danska sjónvarpskokkinum önnu sem eldar tapasrétti í fjöllum andalúsíu, sweetness, en gleði mín hlýtur snöggan dauðdaga þegar ég átta mig á mér til mikils hryllings að anna virðist vera með einhvers konar geitaostsþema í þættinum í dag og stillir mis-ógeðslega-gömlum geitaosti upp á eldhúsborðinu sínu, nokkuð sem ég verð að segja að dregur verulega úr matarlyst minni, til að eyðileggja ekki alveg fyrir mér máltíðina ákveð ég að klára að borða inní eldhúsi og reyni af öllu afli að bægja frá mér minningunum af þeim skiptum sem ég hef - í bæði skiptin fyrir algjört slysni auðvitað, hver gerir svona vísvitandi - bragðað geitaost, því miður - og ég get ekki lagt nægilega áherslu á þetta því miður - var ég í bæði skiptin stödd á almannafæri og það sem meira er í mjög virðulegum aðstæðum og gat því ekki leyft mér að hrækja viðurstyggðinni út úr mér og hrópa á guð að hjálpa mér og þann vonda að hirða það sem honum bæri.......en þetta er löng saga og efni í allt annan póst, ég klára pastað og salatið og verðlauna mig með chili súkkulaði í eftirmat til að hætta að hugsa um önnu og ostinn hennar, mér finnst næstum eins og anna hafi brugðist mér og restin af kvöldinu er hálfónýt, hugsanir um geitaost sækja stöðugt á mig og ég á erfitt með að sofna, sem ég geri samt fyrir rest út frá hugsunum um að á morgun muni ég skrifa mig frá þeirri ömurlegu reynslu sem kynni mín af títtnefndum osti var og reyna að vinna mig út úr þessum erfiðleikum með því móti, nánar af því síðar........

miðvikudagur, 15. júní 2011

þriðjudagur, 14. júní 2011

maður er lauslátur

það eru allt of margir karlmenn á náttborðinu hjá mér, margir illa þokkaðir og sumir vægast sagt umdeildir, efstur á þeim lista trónir einn philip roth sem ég sökum fordóma ætlaði aldrei að lesa neitt eftir en forvitnin bar mig ofurliði á dögunum þegar fólk nánast slóst á götum úti eftir að tilkynnt var að hann hlyti alþjóðlega bookerinn í ár, ég nenni ekki að taka þátt í slagnum og einhvern veginn er ég ekkert að springa úr þörf fyrir að segja eitthvað um hann og hans brjóstablæti, en ég ætla aftur á móti að segja smá um kunningja minn ian mcewan, við ian höfum oft hist yfir tebolla og kexkökum og komið dável saman, ég hef alltaf kvatt hann af virðingu með þeim orðum að vissulega sé hann afar fær í sínu og  hreinn meistari lýsinganna en ég sé bara ekki nægilega skotin í honum til að samband okkar geti orðið eitthvað meira, svo las ég friðþæging, og varð ástfangin, herra minn hátt á himnum hvað þetta er falleg bók, ég finn mig knúna til að segja púkalega hluti eins og "ef þú ætlar að lesa eina bók eftir mcewan skaltu lesa þessa bók", og hvað er það sem gerir þetta svona stórkostlegt spyr fólk auðvitað, að setja fingurinn á það er eins og að geta skilgreint nákvæmlega af hverju maður verði ástfanginn, sem er auðvitað ekki hægt, jú vissulega er hún fallega skrifuð, jú vissulega gleypir sagan mann, og jú umfjöllunarefnið er vissulega áleitið, eitthvað um sakleysi og sekt, eitthvað um hverfulleika minnisins og hættuna sem liggur á óljósum mörkum sannleika, lyga og skáldskapar, eitthvað um ásetning og óviljaverk, en hvað það er veit ég ekki, ég veit bara að löngu eftir að ég kláraði hana sat ég með hana í höndunum og strauk hana og kreisti og langaði einhvern veginn til að.....ja borða hana, ég veit líka að þú þarft nauðsynlega að lesa þessa bók ef þú ert ekki búin að því, sem eðlilegt er virðist flest annað sem maður les í kjölfarið hálfbragðlaust og óáfengt og fyrir það þjáist the finkler question sem deilir rúmi með mér þessi kvöldin, í útlöndum er því haldið fram að hún sé drepfyndin þó ég hafi ekki ennþá hlegið upphátt, að henni lokinni hugsa ég að ég úthýsi karlmönnum úr mínu rúmi og sökkvi mér í virginiu woolf hverrar höfundarverki ég er svo skammarlega illa lesin í að ég vil sem minnst um það tala, svo er það margaret atwood sem íslenskar bókabúðir kaupa ákaflega lítið af, ég er farin að óttast að ég verði að hafa samband við amazon til að bjarga mér í því máli, það er að segja ef husband leyfir mér það, maður getur kannski ekki endalaust boðið manninum uppá þessa næturgesti   

föstudagur, 10. júní 2011

slysalega fylleríið sem enginn veit hverjum er að kenna

þó töluvert mikið lægi við gæti ég ekki logið því til lengdar að ég hafi verið ódrukkin í gærkvöldi, til þess er ég bara ekki nægilega forhertur og kaldrifjaður lygari, ég skýli mér á bak við það að allir hinir voru líka fullir og einn alveg rosalega fullur (þeim hinum sama heiti ég að segja engum frá gubbuatvikinu inná klósetti), nú er það ekkert leyndarmál að ég stend mig mjög illa í mörgu - til dæmis heimilisbókhaldi, ég hugsa að fólk gæti hreinlega ekki orðið lélegra en ég á því sviði þó það leggði virkilega hart að sér, ég er einfaldlega algjört lúserafenómen í þeim geira - og það er heldur ekkert launungarmál að eitt af því sem ég er  hálfvonlaus í er drykkja í ófhófi, ég er svosem ágæt í að sulla aðeins í mig fyrri part kvölds og fara svo snemma í háttinn en ég hef aldrei náð neinum umtalsverðum árangri í að hella mig almennilega fulla, af þeim sökum finnst mörgum ég hreint hundleiðinlegur félagsskapur og líklega yrðu allir vinir mínir að játa ef ég spyrði þá að því í sannleikanum og kontó - og rifi aðeins í hárið á þeim í leiðinni - að ég væri deffenetlí síðasta val í barliðið þeirra, svipað og þegar ég var alltaf kosin síðust í fótboltaliðið í leikfimi í gamla daga (ég hafði einlæga óbeit á boltaíþróttum og vandaði mig við að standa mig virkilega illa í þeim), ég tek þessari höfnun samt alls ekki illa, ég veit að ég er alveg fyrsta val hjá þeim sömu þegar kemur að því að marinera kjúkling og kenna almennilegar magaæfingar, en svo kemur maður stundum á óvart, eins og í gærkvöldi, ég og nokkrar konur - sem ég ætla ekki að gera neina frekari grein fyrir svo ég fái ekki á mig kærur vegna ærumeiðinga - hittumst í heimahúsi með japanskan mat og hvítvínsmagn sem eitt og sér boðaði vandræði, sér í lagi vegna þess að ég sá um að versla vínið og ég er ógeðslega góð í að velja vín, þegar ég segi góð meina ég það ekki í merkingunni hagsýn því hvergi nokkurs staðar kemur hún jafnskírt fram þessi meinloka mín um að ég sé eðalborin eins og í vínbúðinni, maður þarf ekki að vera nein mannvitsbrekka til að vita að ódýr vín eru ekki líkleg til að vekja hjá fólki mikinn unað svo ég vel vínið mest eftir verðmiðanum og lít ekki við því sem sýnir einhverjar uppburðarlitlar tölur, sem var slæmt fyrir þann sem borgaði fyrir þetta vín en það var ekki ég heldur þessi sem síðar um kvöldið varð rosalega fullur, ég drekk reyndar oft á kostnað annarra og þá sérstaklega þessa rosalega fulla því hann er ótrúlega ónískur á áfengið sitt, nú eðlilega þegar þetta þrennt er samankomið, úrvals félagsskapur, japanskur matur og eðalvín sem fer vel með fyrrnefndum mat geta hlutirnir gerst hratt, ég sem taldi mig hafa keypt ívið of mikið af víninu reyndist hafa alrangt fyrir mér í því máli því það kláraðist á hreint undarlegum hraða, svo undraverðum að við sem kláruðum það náðum ekki einu sinni að fatta að við værum orðnar drukknar, húsráðandinn brást skjótt við (alltof skjótt sé ég núna) og henti bacardi og jarðaberjum í kitchen aidinn og sörveraði með rörum sem gerðu það að verkum að drykkurinn gekk greiðlega ofan í hvern þann sem fyrir honum varð (maður er alveg viljalaust verkfæri ég get svarið það), og nú fer all snögglega að halla undan fæti, einn er - eins og áður hefur verið vikið að - greinilega orðinn rosalega fullur og töluvert þvoglumæltur, sem hann má ekki við því hann hefur undanfarið verið með mjög slæmt munnangur sem gerir tal hans verulega óskýrt, allir eru einmitt farnir að tala mjög hátt og hver ofan í annan og það gjörsamlega ofbíður barninu sem var svo óheppið að vera statt í boðinu með mér og fannst ekkert fyndið við þetta rugl, við hinn rosalega fulli flýjum lætin niður á neðri hæð hússins til að taka góðan trúnó en verðum að hætta í miðju kafi því honum verður mál að kasta upp og þarf að bregða sér frá, krakkinn er alveg búinn að fá sig fullsaddann af öllu saman og vill að mamma sín hætti þessu helvítis flissi, samkoman fær svo snöggan endi þegar eiginmennirnir snúa heim af eagles tónleikum og eitthvert skikk kemst á mannskapinn sem hraðar sér hver til síns heima og hefur vit á að koma sér beint í bælið, enginn áttar sig almennilega á því hvernig þetta gat gerst og það á örskömmum tíma  og án þess að nokkur maður hafi lagt upp með neitt svipað til að byrja með, fyrir einstaka mildi drottins er ég þó ekkert timbruð að ráði í dag, hvers vegna ekki er mér hulin ráðgáta, ég næstum því skammast mín fyrir það og sver og sárt við legg að snúa hið fyrsta aftur til míns rétta sjálfs sem handónýt drykkjukona og leiðindapúki  

mánudagur, 6. júní 2011

alrangur misskilningur sem maður kærir sig kannski ekki um að standa undir


"mamma það er allt í lagi að þú ætlir að verða rithöfundur, þá verðuru svona eins og carrie" segir barnið sem skyndilega virðist hafa sætt sig við þá hugmynd að bráðum hætti ég að fá útborgað, nokkuð sem hefur plagað hana verulega undanfarið, ég stend við útidyrahurðina með húslyklana í hendinni og steinhætti við að stinga lyklinum í skrána, ég lít á afkvæmi mitt og finn hvernig hrukkan á milli augnanna dýpkar um helming, þar hef ég það, fyrsta tengingin sem verður í huga dóttur minnar þegar hún heyrir orðið rithöfundur er við aðalpersónu hinnar illræmdu sjónvarpseríu sex and the city, carrie bradshaw (mátulegt á mig hugsar kannski einhver), "hvar fór ég eiginlega út af sporinu í þessu uppeldi" spyr ég sjálfa mig um leið og ég opna útidyrnar og reyni að koma okkur mæðgum ósködduðum framhjá hundinum sem tekur á móti okkur eins og við séum að snúa aftur úr langri útlegð og höfum í millitíðinni ummyndast í risavaxin hundabein, elskulegt dýrið er reyndar orðið of þungt á sér í seinni tíð til að flaðra upp um mig svo vel sé en sleikir þess í stað hnéskeljar mínar af mikilli natni og gefur frá sér hljóð sem eru einhvers staðar mitt á milli spangóls og ýlfurs, hundurinn minn hefur frá fyrstu tíð glímt við mikla andlega erfiðleika og ég er ekki frá því að þeir fari versnandi með árunum, ég hækka róminn til að yfirgnæfa hljóðin í dýrinu og reyni að koma því inn hjá barninu að hugmyndir hennar um fólk sem sinni ritstörfum séu alrangar og ekki í neinum tenglsum við raunveruleikann, rithöfundar séu ekki moldríkir, þeir eigi ekki fleirihundruð pör af glæpsamlega dýrum skóm og þeir eyði ekki megninu af tíma sínum á veitingastöðum og kokkteilbörum, og alls ekki á lúxushótelum í abu dabi, einhverra hluta vegna hef ég samt á tilfinningunni að barnið taki engu tali og muni tilkynna fólki það í óspurðum fréttum að mamma sín sé að fara í háskóla til að verða eins og carrie bradshaw, ég held áfram og segi að ritstörf séu mjög tímafrek og erfið vinna og oftast sitji maður einn inni hjá sér við tölvuna allan daginn og sé hundleiðinlegur, barnið heldur bara áfram að línuskauta um íbúðina og heyrir ekki orð af því sem ég segi, til þess er ímynd fröken bradshaw líklega of ljóslifandi og ja töluvert meira spennandi en það sem ég hef fram að færa, andskotinn hugsa ég með mér og ákveð að gúgla hið fyrsta myndir af einhverjum lítt áhugaverðum (útlitslega séð) rithöfundum og sýna barninu, truman capote kannski, það ætti að duga

fimmtudagur, 2. júní 2011

hólí sjitt hvað maður er erfiður

maður í mosfellsbæ er miður sín, hvers vegna þarf þetta að henda einmitt hann, af hverju gat þetta ekki hent einhvern annan, t.d. einhvern kr-ing í vesturbænum, hvers vegna þurfti hann þessi dagfarsprúði og nægjusami maður að lenda í því að eignast þessa snarvitlausu og nýjungasjúku konu sem aldrei getur verið til friðs, konu sem segir upp heiðarlegri vinnu til að stunda vafasamt háskólanám þegar hann er margbúinn að bjóða henni að flytja á selfoss þar sem allskyns mjög örugg störf finnast í búnkavís, þetta er bara ekki sanngjarnt, samt er hann svo mikið yndi og eftirlátssamur eftir því að hann samgleðst brjálæðingnum og biður hana um það eitt að setja familíuna ekki alveg á hausinn, hún gerir hvítan kross á magann og tíu fingur upp til guðs og lofar að vanda sig rosalega og gera engan gjaldþrota, hann fær sér meiri bjór, kinkar kolli en virðist ekki alveg sannfærður, af hverju hann? 
   
mynd: lisa warninger