þriðjudagur, 27. apríl 2010

hugsanlegar afleiðingar þess ef dauða minn bæri brátt að við óheppilegar aðstæður

stundum hef ég áhyggjur af því hvaða mynd fólk fengi af mér ef það kæmi að mér látinni einhvers staðar út á víðavangi og tæki að róta í handtöskunni minni til að finna út hver ég væri, ég segi ekki að þessi hugmynd sé eitthvað sem angri mig svo teljandi sé en ég viðurkenni að hafa leitt að þessu hugann og fundið til ónota, í kvennatímaritum er þetta (það er að segja hvað sé í handtöskunni en mínus þetta með að finnast látinn á víðavangi) stundum sett fram sem skemmtileg leið til að komast að því hvaða manneskju þú hafir að geyma og töskueigendurnir eru aldrei með neitt alvarlegra á sér en lykla, eitthvað til að halda andadrættinum ferskum og nýjasta glossið frá þessum eða hinum snyrtivöruframleiðandanum (sem mér þykir alltaf fremur grunsamlegt), taskan mín er dulítið meira svona..... hvernig á ég að orða það..... an element entirely of its own skulum við segja, sá hinn sami og væri svo óheppinn (eða heppinn allt eftir viðhorfi og manngerð viðkomandi... og þó nei, bara óheppinn) að finna mig örenda, segjum á miklatúninu (ég væri kannski að koma af útskriftarsýningu listaháskólans sem ég ætla mér að kíkja á sem fyrst), myndi ráðast á töskuna í þeirri góðu trú að hún væri eitthvað í líkingu við huggulegu töskurnar í kvennatímaritunum en fyndi sig fljótt í allt öðrum og mun minna aðlaðandi veruleika, gefum okkur það að í óðagotinu sem gripi þennan ógæfusama einstakling við það að ganga alls óundirbúinn fram á lífvana líkama minn, myndi honum yfirsjást hólfið á hlið töskunnar þar sem hann myndi finna símann minn og peningaveskið (að sjálfsögðu gersneytt öllum peningum) en það eru þeir hlutir sem gætu hvað fljótast komið upp um hver ég er, þess í stað myndi hann opna töskuna sjálfa og týna uppúr henni innihaldið í ofboði, þetta fer vel af stað og hann setur svörtu ullarhúfuna mína og hvítu vettlingana í grasið, næst tekur hann upp svarta íþróttaskó og upp gýs táfýla sem hreinlega storkar mörkum hins mannlega, næst koma svartar æfingabuxur og bolur, brjóstarhaldari og hælasokkar, allt gegnsósa af mínum eigin svita, svitalykt mín er ekki mikið frábrugðin annarra, hún er vond, vantrú hans vex svo þegar upp úr töskunni koma tvö djúp plastbox, annað angar af tómatsúpu og hitt er fullt af eggjaskurn, eitt minna box fylgir í kjölfarið en í því er myglað hummus, á botni töskunnar finnur hann svo grifflur, bók (með asnalegum titli), hárspennur og allskyns mylsnu, hnetur og möndlur, bréf utan af sesamstöngum, stóra vatnsflösku, litla tösku með handáburði og sótthreinsandi handgeli, hvoru tveggja með vanilluilm (prik fyrir það) og tannbursta, í litlu innra hólfi finnur hann svo tvo varasalva í sjúskuðum umbúðum, fleiri hárspennur, ofnæmislyf, tvö a4 blöð, annað með æfingaprógrammi en hitt með lista yfir lyf sem virka vel við þurrk í húð (þau virka reyndar ekki rassgat en hann veit ekkert um það) og moleskinnuna mína sem ég skrifa í allar þær hugmyndir sem detta inní höfuðið á mér til dæmis þegar ég bíð eftir strætó (og guð veit að þær eru ekki allar góðar!), það er hér sem líkfinnarinn (gefum okkur að það sé orð) fer að hugsa um mary poppins en reynir að bægja burtu hugsuninni svo hann fari ekki að sprenghlæja yfir steindáinni manneskjunni, öðru megin í töskunni hefur fóðrið rifnað frá og þar ofan í hefur verið troðið poka af krömdum gráfíkjum og bunka af vísanótum (óþarflega þykkum að honum finnst), nú loks hefur maðurinn rænu á að stinga hendinni í ytra hólfið, fingur hans nema einhverskonar ofsalega ógeðslegt slím sem mig grunar að sé sambland af rakakremi, sandkornum og möndlumulningi (one can never be sure though.....), upp úr hólfinu dregur hann lyklakippu í löngu bandi sem á er letrað kennarasamband íslands (maðurinn hryllir sig eitt andartak yfir því að eigandi töskunnar sé manneskja sem umgangist börn náið á hverjum degi, er allt orðið leifilegt í þessu samfélagi dekadansins?!!!), sömuleiðis finnur hann brotna hárklemmu, aðra lyklakippu en þessi er merkt með orðunum mitt annað heimili sem hver maður sér að hljómar allt annað en vel, á eftir fylgja stór grár ipod og samanlímd heyrnartól, klístraður hálsbrjóstsykur (sem hugsanlega er klístraður eftir veru í munni þeirrar dauðu) klinkbudda, eldgamalt gloss og loks síminn og veskið, maðurinn horfir á rispaðan símann og grípur með þumli og vísifingri um míu litlu múmínfígúru sem dinglar neðan úr honum, hann lítur á líkið og velti fyrir sér hvort það geti verið að hin látna sé barn sem hafi tekið snemmbæran og óhóflegan vaxtakipp en sannfærist um annað þegar hann opnar veskið og kemst að því að eigandi ógeðstöskunnar er kona á hraðleið úr barneign, mjög hugsanlega stendur maðurinn nú upp og lætur sig hverfa, með mikilli vinnu og hjálp frá góðu fólki nær hann með tíð og tíma að gleyma þessari leiðu reynslu og byggja upp trú sína á manneskjuna aftur, giftist jafnvel og eignast börn, honum tekst þó aldrei að losna við martraðirnar og tekur alltaf stóran sveig framhjá miklatúni

laugardagur, 24. apríl 2010

ákaflega langur póstur um hluti sem mér þykja mikilvægir en er alls óvíst að þú hafir nokkurn áhuga á

það er aldeilis að sumarkveðjan hér neðar hlaut dræmar undirtektir, maður veit ekki alveg hvernig beri að túlka þetta....ég vona alla vega að ég hafi ekki móðgað neinn en það væri svo sem eftir mér, sjálf er ég reyndar sek um nokkurn tvískinnungshátt því meint sumar hefur lítið fengið að fara sínum freðnu fingrum um mína fölu húð, ég mætti ekki einu sinni í skrúðgönguna, börn með fána kalla fram hjá mér óþægilegar hugsanir um hitlersæskuna og lúðrar eru einu hljóðfærin í veröldinni sem beinlínis vekja óhug í minni annars músíkölsku sál, ef ég á að vera alveg hreinskilin hef ég hangið inni........nei leiðréttum þetta, hef ég hangið upp í rúmi og lesið frá því að formleg árstíðarskipti áttu sér stað (mér skilst reyndar að íslendingar séu eina þjóðin í heiminum sem fari að tala um sumar þetta snemma, þetta hlýtur að gefa okkur enn eitt prikið í kladdann fyrir hálfvitaleg og óraunhæf uppátæki), ég gæti afsakað inniveruna með því að ég eigi ekkert rakakrem og geti ekki verið að þvælast úti við með óvarða húð komin á þennan aldur en sannleikurinn er sá að þetta er allt saman braga ólafssyni að kenna, síðustu daga hef ég verið að skanna bókahillurnar mínar og gert tilraun til að lesa eitt og annað sem ég gafst upp á að lesa í bókmenntafræðinni, einhverra hluta vegna eru það allt bækur úr spænskum og frönskum bókmenntum sem ég tók hjá álfrúnu gunnlaugs, kennslustundir hjá álfrúnu gátu vissulega náð hæstu hæðum þegar hún gleymdi sér í lýsingum á námsárum sínum á spáni á tímum franco og alpahúfan hennar og rykfrakkinn voru óumdeilanlega töff en það verður að segjast eins og er að leslistarnir hennar náðu aldrei að skapa sama spenning og hennar eigin presens, satt að segja voru leslistarnir hennar þekktir sem hreinasta morðtilræði innan háskólans, en sem sagt þar sem mínar eigin bókahillur skorti tilfinnanlega eitthvað til að þenja út sjáöldrin og þar sem ég er af fjárhagsástæðum í bókabúðastraffi (að undanskildu starfsviðtali sem ég fór í hjá einni slíkri og náði engan veginn að vekja sama titring í taugaendum og eiginlegur bókainnkaupaleiðangur) tók ég þá skyndiákvörðun þar sem ég var stödd heima hjá systur minni að fara ránshendi um hennar bókahillur, í þeim hillum er að vísu ótæplegt magn af bókum tiltekins íslensks glæpasagnahöfundar sem ég ber blendnar tilfinningar til og það þó ég hafi nánast ekki lesið neitt eftir manninn, ég hef tendens til að vera fordómafull og skorta víðsýni þegar það kemur að lestri og það sem verra er þá á ég það til að sýna ákveðna forræðishyggju og jafnvel yfirgang þegar ég gef fólki bækur eða mæli með þeim, þá gjarnan af fórnarlambinu óforspurðu (hvernig í andskotanum datt mér til hugar að sækja um vinnu í þessari bókabúð!!!), til allrar guðs lukku (ja reyndar get ég að einhverju leiti þakkað það sjálfri mér) fann ég í hillum systur minnar eitt og annað sem kom blóðinu af stað og ég gat haft með mér heim í algjöru leifisleysi, ég geri þó ekki ráð fyrir alvarlegum eftirmálum því önnur bókin, réttarhöldin eftir kafka, sem var gjöf frá mér til systur minnar einhver jólin, hefur fengið þann úrskurð frá fleirum en einum fjölskyldumeðlim að vera ömurlega undarleg bók sem hafi í frásagnarmiðju persónu sem sé helst til þess fallin að gera fólk brjálað við lesturinn, ég tek þetta töluvert nærri mér, eitt er það að kafka hafi ekki fengið náð fyrir augum samtímamanna sinna en að úthrópa manninn í þokkabót að honum látnum finnst mér bara engin hemja, auk þess finnst mér það óþægilegt að mínir nánustu hatist jafnheitt og raun ber vitni útí persónur kafka þar sem þær sömu persónur vekja alltaf hjá mér tilfinningu sterkrar samsömunar og skilnings, en ég get þá treyst því að enginn á heimilinu sakni bókarinnar og hef ekki af því íþyngjandi áhyggjur að ég hafi valdið einhverjum skaða, sama get ég sagt um hina bókina sem ég tók, hvíldardaga eftir braga ólafsson en það er sú sem hefur haldið mér innandyra síðasta sólarhringinn, bókin var ekki einu sinni með brotinn kjöl svo það hefur greinilega enginn haft áhuga á að lesa hana hingað til og ólíklegt að einhver rjúki allt í einu til yfirkominn af þörf fyrir að glugga í akkúrat þessa bók sem hefur legið óáreytt árum saman í neðstu hillu bókahillunnar í sjónvarpsherberginu án þess að nokkur maður hafi veitt henni sérstaka athygli, sem er hreint sorglegt því eins og ég hef tíundað hér ofar er þetta bók af því kalíberi sem fær fólk hreinlega til að leggja lífið til hliðar þar til augun hafa étið upp allt það sem á hana er prentað, maður jafnvel hættir við að elda og sleppir því að viðra hundinn sinn (þessi bragi ólafsson hefur ýmislegt á samviskunni svo maður segi ekki meir), það er ekki laust við að ég skammist mín fyrir að hafa ekki fyrr komið mér í að lesa bækur braga og það hefur hvarflað að mér að ég þurfi að senda manninum skeyti og ávaxtakörfu til afsökunar, eins og allir vita sem þekkja vel til þess að gleyma sér í góðri bók þá fer útliti og jafnvel hreinlæti manns sjálfs hrakandi í jöfnu hlutfalli við gæði bókarinnar sem maður les það sinnið og það getur hver sem er fengið staðfest reki hann inn hjá mér nefið nákvæmlega núna, líkt og þegar ég las sendiherrann um daginn hef ég hvorki haft fyrir því að þvo mér í framan né sinna lágmarks heimilishaldi í meira en sólarhring svo ef félagsmálastofnun droppar við þá er ég hrædd um að úr gæti orðið nokkuð uppistand, annað veifið, aðallega þegar ég rek upp hlátursroku undan sænginni, stingur barnið höfðinu í gættina og virðir mig fyrir sér þar sem ég ligg í óumbúnu rúminu, fullklædd með haugdrullugt hár og eldgamlan maskara, úr svip barnsins má lesa hvort að nú sé komið að því, hvort þetta sé dagurinn sem sérlundaðri og duttlungafullri móðurinni verði ekið á vitlausraspítalann þaðan sem hún muni ekki eiga afturkvæmt í bráð, sem betur fer er barnið nokkuð harðgert og lætur sér yfirleitt nægja að benda mér á að ég sé rugluð og fer svo aftur fram í stofu að línuskauta en að renna sér á línuskautum er eitthvað sem henni finnst jafn tilvalið að gera innanhúss sem utan, við foreldrarnir erum ekki sammála og persónulega hef ég af því töluverðar áhyggjur hvort þetta fari ekki illa með taugakerfið í hundinum auk þess að skapa raunverulega slysahættu fyrir alla aðila, ég get samt ekki verið að spá í þetta núna en tek á þessu þegar ég er búin með bókina hans braga, eiginmaðurinn er lítið að skipta sér af málinu en hefur þess í stað ýmislegt við það að athuga að íþróttaálfurinn í latabæ sofi í öllum fötunum og sinni ekki almennu hreinlæti eins og að bursta tennurnar þegar hann vaknar, þetta gefi ekki góð skilaboð til áhrifagjarnra barna....líttu þér nær maður segi ég nú bara (ja eða nánar til tekið á konuna þína)

ég vil svo bæta því við með tilliti til þess að ólíklegasta fólk hefur bankað uppá í kommentakerfi þessa bloggs að ef einhver tengdur braga eða guð hjálpi mér bragi sjálfur villist inná þessa síðu þá voru ummæli mín hér neðar um að ég óttaðist að ég myndi annað hvort kyssa manninn eða berja rækist ég á hann á förnum vegi, vissulega sett fram í algjöru gríni og fjarstæðukennt að ég myndi einhverntíman láta slíkt gerast, ég vildi bara árétta þetta því ég get ekki til þess hugsað að saklausu fólki finnist það ekki geta um frjálst höfuð strokið og fari jafnvel að forðast bókabúðir í framhaldinu

fimmtudagur, 22. apríl 2010

gleðilegt sumar

þetta er meint í einlægni, ég er ekki að reyna að vera kaldhæðnislega fyndin, ég viðurkenni að ég hef oft efast en trú mín er staðföst í dag, það kemur vor, og litlu síðar sumar, og þá munum við öll drekka sangria á pallinum (ég verð búin að þrýfa hundaskítinn), dansa tangó og nota rakakrem með sólarvörn, skátaloforð

mánudagur, 19. apríl 2010

leiðrétting

hmmmm nú eru mál aldeilis neyðarleg með vexti, hið kvíðvænlega og óvænta litleysi sjónvarpsins í gærmorgun reyndist við nánari athugun aðeins vera stillingaratriði sem yngra barnið réði bót á með smá fikti, ég verð að viðurkenna að þetta eru nokkur vonbrigði, ég var búin að gefa mér það að tækið væri að deyja og ég yrði loks móðir barna sem alast upp alls ósnortin af auglýsingaáróðri ruslmenningarinnar og skaðlegum staðalímyndum en gera þess í stað ekkert nema lesa bækur, teikna og búa sér til leikföng úr korktöppum og trjágreinum og öðru sem fellur til á heimili hinna umhverfislega meðvituðu, í huga mér var ég búin að draga upp mynd af fjölskyldunni við matarborðið þar sem allir sitja við borðið djúpt sokknir í innihaldsríkar samræður hvern við annan og enginn snýr sér stöðugt við í stólnum til að kíkja á sjónvarpið og subbar í leiðinni sósu á gólfið og missir af því sem ég er að reyna að segja (sem alla jafna er eitthvað mjög merkilegt og upplýsandi fyrir alla aðila), snýr sér svo aftur að mér og segir "ha, bíddu ég heyrði ekki í þér", maðurinn minn lítur nefninlega á sísuð í sjónvarpi sem hið fullkomna bakgrunnshljóð og umgengst tækið oft af ívið meiri alúð og umhyggju en okkur hin, kveikir alltaf á því um leið og hann kemur heim sama hvort hann ætlar að horfa á það eða ekki eins og það sé eitt af fjölskyldunni og til þess þurfi að taka sérstakt tillit, það hafi rétt á að vera með, taka virkan þátt í fjölskyldulífinu og það megi ekki hundsa eða skilja útundan á einhvern hátt, aðgát skal höfð og allt það, nú en jæja þetta verður þá bara einn af þessum draumum sem bíða betri tíma, hugsanlega í öðru lífi en það verður þá bara að vera þannig, enginn bitur hér

sunnudagur, 18. apríl 2010

waking up in the fifties

sjónvarpið mitt hefur ákveðið að senda aðeins út í svarthvítu (mér finnst ég þurfa að fara í fiftieskjól og túbera á mér hárið) núna bíð ég eftir að það taki næsta retroskref og neiti að kveikja á sér nema á fimmtudögum, mikið ofboðslega yrði mér sama, sjónvarp er án efa ofmetnasta heimilistæki allra tíma næst á eftir straujárni og það má steindrepast á hvaða degi vikunnar sem er án þess að það raski ró minni, ég væri aftur á móti ekki svona róleg ef geislaspilarinn hefði drepið á sér eða ipoddinn væri ónýtur, ég geri mér svo sem grein fyrir því að það eru ekki allir meðlimir fjölskyldunnar líklegir til að taka þessu af sömu yfirvegun, yngra barnið, sem uppgötvaði ósköpin þegar hún kveikti á barnatímanum, lét sér að vísu nægja að lyfta brúnum og tilkynna mér að sjónvarpið væri orðið grátt en ég óttast öllu tilþrifameiri viðbrögð þegar eiginmaðurinn fer á fætur og guð hjálpi öllu lauslegu í húsinu þegar unglingurinn fattar þetta, best að gleyma kjólnum og túberingunni og setja frekar á sig hjálm og finna eyrnahlífarnar

laugardagur, 17. apríl 2010

laugardagur til....þess sem efni og aðstæður leyfa

eigi einhver það sameiginlegt með mér að örvast sjónrænt bendi ég þeim hinum sama á þessa síðu hér (nei þetta er ekki meint dónalega), á sólríkum morgni eins og þessum er lítið annað hægt en að gera stórar áætlanir eins og til dæmis að ráðast í bakstur og lesa bókmenntir sem ég hélt fyrir ekki svo löngu að væru ekki minn tebolli en reyndust við nánari athugun nokk ávanabindandi (lesist ég byrjaði nýlega að lesa fyrstu bókina í twilight seríunni fyrir yngra barnið og það má vart á milli greina hvor er spenntari, barnið eða móðirin, þetta er í besta falli vandræðalegt), ég reyni svo kannski að haga mér eftir aldri og sjá eitthvað á bíódögum græna ljóssins, það er að segja ef vísakortið gefur mér leyfi

föstudagur, 16. apríl 2010

bara þetta

ég verð að trúa fólki fyrir tvennu, annars vegar því að mér finnst það fyrir neðan allar hellur að ég sé ekki með rólu í stofunni hjá mér verandi það ofvaxna leikskólabarn sem ég er, í öðru lagi vann ég það afrek að skrifa starfsumsókn nú í kvöld, hún var afar stutt og mér veittist það afar erfitt, mér skilst að það sé til siðs í slíkum skrifum að tíunda kosti sína í hástert og bæta frekar í en draga úr og þetta þykir mér (veluppalinni manneskjunni) bara ekki nokkur hemja enda var fyrrnefnd umsókn líklega fremur flöt og óspennandi og bar engan vott um minn kyngimagnaða karakter og leiftrandi persónutöfra svo ekki sé minnst á goðum líka ásýndina.......en maður getur nú ekki sett svoleiðis á blað er það?

sunnudagur, 11. apríl 2010

hvar er maðurinn?

hundraðasta tilraunin mín til að sjóða egg án skurnarinnar misheppnaðist algjörlega eins og allar hinar hafa sömuleiðis gert hingað til, hvurn andskotann heitir þetta annars á íslensku sem engilsaxneskir kalla poached eggs? alla vega hvað sem það heitir þá er ég ömurleg í að matreiða egg á þessa vísu, sem ég tek nokkuð nærri mér því mér finnst þetta bæði töff og girnilegt, en hvað um það, öllu alvarlegra er að ég er að leita að manninum mínum, ég er ein heima og finnst að hann eigi að koma og kyssa mig en mig grunar að hann hafi stungið af til móður sinnar hverrar ísskápur er ávallt mun betur búinn en okkar eigin, honum hefur greinilega ekki dottið í huga að gera sér poached eggs úr þessum þrem eggjum sem hýrast í ísskápshurðinni þó honum detti vissulega ýmislegt í hug og hiki ekki við að framkvæma það, þegar ég kom heim úr vinnunni einn eftirmiðdaginn í vikunni var hann til dæmis að dunda sér við það inná baði að klippa á sig hanakamb því hann týmdi (ég er alls ekki viss um þetta ý en læt það bara vaða) bara alls ekki að fara á rakarastofu og borga einhverjum fyrir verkið, mér fannst þetta afar vel til fundið og maðurinn sætur eftir því með nýju heimatilbúnu klippinguna, yngra barnið á heimilinu fölnaði aftur á móti upp og sagði föður sínum ákveðið að hann skildi sko ekki koma í skólann til hennar svona um hausinn, hún myndi skammast sín til dauða, hvað get ég sagt barninu er bara ekki gefið að koma hlutunum pent frá sér, en sem sagt ef þið rekist á myndarlegan mann í köflóttri skyrtu og með hanakamb sem lítur út fyrir að vera heimatilbúinn má fólk endilega benda honum á að konan hans sé að leita að honum og sé geim í pocahontasogsíðastimóhíkaninnfaraádeitleik

ó og svo eyddi ég morgninum í að horfa á viðtal við cormac mccarthy höfund bókarinnar the road sem nýlega var gerð kvikmynd eftir með his hottness mortensen í aðalhlutverki, ég var afar heilluð af viðhorfi mccarthy til vinnu en hann segist hafa ákveðið það mjög ungur að hann ætlaði einfaldlega ekki að vinna við neitt nema sínar eigin skriftir, bara alls ekki, aldrei nokkurn tíman, hann hefur staðið við það og aldrei unnið neitt fyrir utan sín ritstörf... sumt fólk og þess þrákelknislega einurð, ég er öfundsjúk

miðvikudagur, 7. apríl 2010

upprisan virkar enn!!!

mitt geð er svo gott að það getur ekki talist neitt minna en hreinasta undur, nútíma kraftaverk jafnvel, viðsnúningur þunglyndispúkans hlýst af tvennu (að mestu leyti), í fyrsta lagi er með öllu ógerlegt að nostra við lífsleiðann sinn (þó þrálátur sé) í þessari birtu, ég glaðvaknaði klukkan tuttuguogfimm mínútur yfir sex í morgun (heilum fimm mínútum á undan símanum sem gegnir hlutverki vekjaraklukku á náttborðinu mínu) sem og aðra morgna undanfarið án þess að það svo mikið sem örlaði fyrir því að mig langaði til að læsa svefnherbergishurðinni og koma ekki út fyrr en lögreglan bryti niður dyrnar, í öðru lagi hef ég loks drattast í það verk sem lengi hefur staðið fyrir dyrum en það er að lesa sendiherrann eftir braga ólafsson, í stuttu máli sagt er það svo fáránlega skemmtileg iðja að ég veit ekki hvað þyrfti að ama að mér til að mér fyndist þessi bók eitthvað annað en viðbjóðslega fyndin, ef ég á að vera alveg hreinskilin þá finn ég til öfundar við lesturinn, já ég ætla bara viðurkenna það að það eina sem mér finnst vont við þessa bók er að ég hafi ekki skrifað hana sjálf, ég hef meira að segja af því nokkrar áhyggjur hvernig ég myndi bregðast við ef svo vildi til að ég gengi fram á braga segjum til dæmis í einni af betri bókabúðum bæjarins, ég veit hreinlega ekki hvort ég myndi kyssa manninn eða berja hann, að öðru leyti virðist ekki margt geta skyggt á sólina í manns annars oft hálflemstruðu sálarspíru, ekki einu sinni það að maður er með brunablöðru í handakrikanum eftir gáleysislega meðferð á heitu vaxi og annað afkvæmið virðist hafa það að meginmarkmiði í lífinu að setja hvert alheimsmetið á fætur öðru í heimskulegri hegðun, það er svo annað mál að hvernig sem á því nú stendur þá lýstur annað veifið niður í huga minn þeirra hugmynd að lita á mér hárið litluhafmeyjurautt.... er þetta ekki skýrt merki um að maður sé algjörlega að missa það?

sunnudagur, 4. apríl 2010

hvert fara eiginlega allir þessir hlutir sem maður týnir?

gleðilega páska

"eigi fellur tré við fyrsta högg" stóð í egginu sem ég fann falið inní vínskápnum eftir að hafa elt vísbendingarnar í ratleiknum sem maðurinn minn dundaði sér við að búa til í nótt, maðurinn minn er mjög fylgjandi þeirri hugmynd að maður eigi að þurfa að hafa fyrir hlutunum og felur páskaeggin alltaf af mikilli vandvirkni, ég var mest glöð yfir því að vínskápnum væri fundið eitthvað hlutverk því sem gefur að skilja er aldrei neitt vín í honum, þrátt fyrir háværar raddir um hið gagnstæða erum við hjónin nefninlega alls ekki viss um að vín sé vara sem hafi gott af því að geymast lengi óopnuð, en ég er mjög ánægð með málsháttinn, jesú er örugglega að reyna að segja mér með þessu að ég megi ekki halda að ég sé lélegur skógarhöggsmaður þó það virðist á stundum ekkert mjakast í þessu lífi, málið sé öllu heldur það ég velji mér alltaf tré með svo gasalega sverum stofni

föstudagur, 2. apríl 2010

allt fyrir jesú

ég er búin að blessa páskalambið og veita því viðeigandi meðferð áður en það fer inní ofn, þá meina ég að ég er búin að troða það út af hvítlauk og syngja there is a kingdom með cave yfir því, ef einhver myndi spyrja mig hvort ég teldi mig ofnota hvítlauk í minni matargerð yrði ég mjög spyrjandi á svipinn og segði viðkomandi að ég skildi ekki spurninguna...svo ætla ég að fá mér kokkteil, ég mun ekki gleyma því svo lengi sem ég lifi hversu hryllilega leiðinlegur föstudagurinn langi var þegar ég var lítil og þar af leiðandi sór ég þess eið þegar ég varð fullorðin að hafa alltaf mjög mikið stuð heima hjá mér á þessum degi, ég held bara að jesú sé ekkert þessi týpa sem vill að allir sitji heima og vandi sig við að láta sér leiðast, þetta blessaðist líka svo fínt hjá honum fyrir rest og hann er örugglega bara mjög ánægður í dag sitjandi við hægri hönd guðs föðurs almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða, og það skal enginn segja mér að hann (maður sem er þekktur fyrir að breyta vatni í vín) vilji hafa eitthvað hundfúlt lið með sér í paradís sem er alltaf að væla yfir þessu leiðinda atviki sem hann lenti í með þessum glötuðu rómverjum svo ég ætla bara að vera í stuði, stuð að eilífu, amen