fimmtudagur, 11. nóvember 2021

Einn er heil tala


Í dag hafa bókstaflega allir og andskotinn sent mér tölvupóst með alls kyns misspennandi gylliltilboðum í tilefni af þessum meinta degi meintra einhleypinga. Hvaða rugl er þetta og hvaða markaðsviðrini fann upp á þessu? Er hugmyndin hér að nýta sér (meinta) einsemd óparaðra einstaklinga? Er þetta tilraun til að fýra undir þeirri tilfinningu að líf okkar einhleypra skorti eitthvað, að í sál okkar sé hola og svo vilji til að hér sé einmitt varan sem geti fyllt þá holu? Eða hefur heimurinn virkilega svona miklar áhyggjur af því að einhleypt fólk sé blankara en þeir sem fengu far með Nóa og tvíhyggjuörkinni hans? Er þetta gert af sannri aumingjagæsku? Ef svo er vil ég koma því á framfæri að ég er alls ekkert blönk eins og stendur og líf mitt allt tiltölulega holulaust. Ég er alveg með frekar fín laun. Og spara þar að auki helling á því að þurfa ekki að kaupa gjafir við öll möguleg og ómöguleg tilefni handa einhverjum guðsvoluðum kærasta/eiginmanni sem setur grænmetið alltaf innst í ísskápinn, klárar allar lífrænu hneturnar og nennir aldrei að þrífa sturtubotninn.

Sjálf skilgreini ég mig reyndar ekki sem einhleyping. Ég á hund. Hann er meira að segja frekar ódýr í rekstri. Þannig að ég afþakka öll tilboð í dag. Ég hef engu að síður á prjónunum mikil plön um að versla bráðlega nýútgefnar dagbækur David Sedaris sem og gönguljós til að festa um mig miðja svo ég drepi mig nú ekki óvart einn daginn á myrkri morgungöngunni með hundinn. Ég ætla líka að kaupa mér fleiri ullarsokka og mögulega hitablásara  (sjá síðustu færslu) og utanáliggjandi harðan disk undir gögnin í gömlu tölvunni minni sem hefur gefið það skýrt út að dagar hennar séu taldir. Mögulega kippi ég meira að segja einhverjum óþarfa með þegar ég kem að kassanum til að borga uppsett verð (jafnvel uppsprengt verð). En ekki í dag. Í dag versla ég ekki nokkurn skapaðan hlut. Í dag legg ég saman einn plús einn og fæ út núll. Í dag er ég ellefu. Vinsamlegast beinið viðskiptum yðar eitthvert annað því eins og maðurinn sagði: Go sell crazy someplace else. We´re all stocked up here.

laugardagur, 6. nóvember 2021

Að loknum álestri


Ég veit ekki hvort það er góð ákvörðun eða slæm að setja inn færslu (í fyrsta skipti í lengri tíma en ég kæri mig um að muna) í blábyrjun nóvembermánaðar en einhverra hluta vegna finnst mér eins og þannig verði það að vera. Mér er kalt. Það er reyndar ekki bundið við nóvember. Burt séð frá stöðunni á almanakinu er ég alltaf klædd í ullarklæðnað heima hjá mér sem gerir ekki beinlínis neitt fyrir neinn. Ég ætlaði að skrifa fyrir 46 ára gamla konu en hætti við það. Ullarföt er sæt á börnum. Punktur. Ég er ekki barn. Punktur.

En mér er sem sagt alltaf kalt. Alltaf. Vinur minn spurði mig nýlega hvað valdi? Hvort ég sé ekki með svona "central heating" heima hjá mér? Einhverra hluta vegna tengi ég þetta orðasamband "central heating" alltaf við Lundúnir eftir The Blitz (hvað heitir það á íslensku?). Ekki að ég hafi upplifað það ástand allt. Auðvitað ekki. Ég er 46 ára. Ekki 96. En ég lít samt alveg út fyrir að tilheyra þessum tíma (og fyrir að vera 96 ára) þegar ég sit kappklædd og les á kvöldin. Með prjónuðu stúkurnar sem ég fékk í afmælisgjöf til að halda hita á úlnliðunum. Þetta virkar að einhverju leyti - fingurnir haldast frjálsir til að fletta síðunum. En jökulkaldir. 

Síðastliðið ár hef ég gert eitt og annað til að sporna við ástandinu. Til að mynda skipt um gólfefni, sett upp gluggatjöld og stundum hleypt hundinum upp í sófa. Í tengslum við þær framkvæmdir kemur orðatiltækið skammgóður vermir upp í hugann. Breytingin er sum sé óveruleg. Og þó gluggarnir á húsinu mínu mættu mögulega vera þéttari er ég farin að hallast að því að rót vandans liggi ekki í ytra byrðinu né í hitakerfi hússins. Heldur hið innra. Í miðstöð líkamans. Lögnum taugakerfisins. Þar er eitthvað bogið. Verulega bogið. Og mögulega, óttast ég, laskað til frambúðar. (Svo ég hleypi svartsýnisrauparanum að, þeim málóða apa.) Í það minnsta virka engin af þessum hefðbundnu ráðum um klæðnað eftir veðri og aðstæðum, hækka í ofnum og hafa húsdýr í stofunni. Staðan er alltaf sú sama. Ég skelf. Þannig að mig dreymir í átt að miðbaug. 

Upp á síðkastið hefur þó eitt og annað orðið til þess að þenja áhyggjur mínar út fyrir það sem bundið er við líkamlega upplifun. Ég hef eitthvert algert óþol fyrir tilfinningasemi. Sér í lagi öllu sem vogar sér að snerta á rómantík. Ég hreinlega þoli ekkert slikt. Frekar myndi ég lesa skáklýsingar en eitthvað sem fæst við tilhugalíf fólks. Hvað merkir þetta? Er þetta viðvarandi kul í limum og búk að smeygja sér inn í mitt andlega líf? Og ef svo er, fæ ég ekkert við það ráðið? Eru yfir höfuð til einhver ráð við svona löguðu. Duga ferðir til heitari landa eða erum við að tala um drastískara inngrip? 


(Ég las reyndar Levels of Life eftir Julian Barnes í vikunni og komst svo við að ég mátti vart mæla. Bókin er essay-ja skrifuð eftir fráfall eiginkonu hans og lýsir þeim ómöguleika að halda áfram með lífið eftir að ástin í lífi hans er honum horfin. Frásögnin hreyfði djúpt við mér. Sem ég taldi nokkurt "batamerki". Ég gæti augljóslega vel tengt við hinar heitari kenndir sem bærast í brjóstum manna. En svo áttaði ég mig. Þetta er auðvitað fyrst og fremst bók um sorg. Djúpa sorg. Sorg sem stingst eins og ísnál í gegnum merg og sál. Right up my allay.)