þriðjudagur, 30. nóvember 2010

vinsamleg tilmæli

jæja, þá hefur sá sem hefur yfirumsjón með veðri og færð á vegum nákvæmlega einn klukkutíma og fimmtíu og tvær mínútur til að drekkja öllu í sindrandi snjó, ég tel mig hafa hagað mér með allra ágætasta móti þessa ellefu mánuði sem liðnir eru af árinu og þætti ekkert tiltökumál þó mér yrði veittur ótæplega jólasnjór út desember mánuð svo ég fái sem mest út úr honum, husband myndi auðvitað segja að þetta sé algjört ábyrgðarleysi af mér þar sem við erum ekki búin að umfelga og dekkin á bílnum yrðu varla mikið hættulegir þó við vaxbærum þau en mér er bara alveg sama, mig langar svo sjúklega í jólasnjó að ég er til í að leggja bílnum og fara í staðinn á gönguskíðum í vinnuna allan næsta mánuð, sem væri ekki lítil fórn ef málið er skoðað í því samhengi að ég hef aðeins einu sinni farið á gönguskíði um ævina, ég var sex ára og að segja að mér hafi þótt það leiðinlegt væri að fara afar sparlega með orð, ég grenjaði viðstöðulaust allan tímann og sór þess eið að fara aldrei, aldrei aftur á skíði, sem ég hef ekki gert svo þið sjáið að mig virkilega langar í þennan jólasnjó, plís

p.s. ég bið norðlenska ættingja mína um að halda montkommentum í lágmarki, it hurts enough as it is

sunnudagur, 28. nóvember 2010

fyrsti

allt í litlu kærleiksveröldinni er á sínum stað, myrkrið fyrir utan gluggann og kertaljósið á eldhúsborðinu, fallegi maðurinn undir sænginni og kaffið í bollanum, við barnið opnum dyrnar uppá gátt og segju dálítið hátíðlega; velkomin aðventa, sækjum rykfallna kassa í geymsluna og týnum upp úr þeim gersemarnar, dýrmætastur af öllu er litli glimmerköngullinn sem var fyrsta jólagjöf barnsins til mín og er svo fagur að ég verð alltaf að depla burt tárunum þegar ég tek hann upp úr handmáluðu öskjunni sem hún bjó til undir hann, svo púslum við saman kertastjakanum með básúnenglunum sem snúast og klingja yfir logunum, dáumst að skuggaspilinu og ég hugsa um hvað ég er heppin, ótrúlega heppin

mánudagur, 22. nóvember 2010

það er þetta með krosstrén

barnið þverbrýtur ófrávíkjanlegu regluna um fyrsta desember vísvitandi og laumar jólalögum í spilarann svo lítið beri á, ég horfi bara í aðra átt og þykist ekki taka eftir neinu, svona linast maður með aldrinum

sunnudagur, 21. nóvember 2010

ofvaxna barnið æsir upp í sér tilhlökkunina

hvað langar mann, jú mann langar í bækur, á ekki að vera búið að senda fólki þessi bókatíðindi, ég hef ekki fengið eintak inn um lúguna mína og ég er herfilega móðguð, ég fæ samt eintak af morgunblaði davíðs oddsonar á hverjum morgni þennan mánuðinn, davíð hringdi nefninlega í mig og vildi ólmur fá að bjóða mér uppá mánaðaráskrift alveg fríkeypis, ég sagði honum að honum væri velkomið að eyða peningunum sínum í pappír handa mér en ég muni sko aldrei borga honum fyrir hann, hann aftur á móti er sannfærður um að eftir mánuðinn muni ég ekki geta án blaðsins verið því það sé svo æðislegt, sem það er ekki, eitthvað er þó þar skrifað um bækur sem kyndir undir manns sjúku löngunum, og mann langar sko sjúklega í handritið... hans braga ólafs og doris deyr eftir kristínu eiríks og sýrópsmánann hans eiríks guðmunds, langar langar og langar, munum svo að versla bækur í bókabúðum hvar þær eiga heima en ekki í kjötkælinum í svínabúllunni, hvers vegna í veröldinni geta matvörbúðir ekki bara haldið sig við hlutverk sitt og selt matvöru? að geta ekki snúið mér við í krydddeildinni án þess að fá sokka og yatzee og hárbönd og guð má vita hvað í andlitið er eitthvað sem mér finnst algjörlega óþolandi, þessi grípa með menning fer óstjórnlega í taugarnar á mér enda tvinnar hún saman það tvennt sem neytandanum mér finnst hvað mest pirrandi, hvetur til þess að fólk kaupi lélega vöru a.k.a draslvarning og eyði í óþarfa sem að öllum líkindum endar fljótlega í ruslinu, en engan pirring því besti mánuður ársins er alveg að koma, ég er gjörsamlega að bilast úr desemberspenningi og ætla að gera piparkökuhús um næstu helgi með mömmu minni, mamma mín er ruglgóð í svona hlutum sem er gott því ég er með fatlaðar fínhreyfingar eins og ég hef tæpt á áður og væri vís með að brenna gat á fingurna á mér með sykurlíminu og klístra eldhúsið hjá mömmu allt út með glassúrinu, þrátt fyrir sjálfa mig státar heimili mitt yfirleitt af geysifínum heimagerðum aðventukransi í desember þó hann sé kannski alltaf dáldið í villtari kanntinum og ef ég er ekki alveg út úr korti (sem væri svo sem ekkert nýtt) þá held ég að fyrsti í aðventu sé líka um næstu helgi svo ég þarf að gera eitt stykki villtan krans í vikunni, ég ætla að vera búin að kaupa mér jólaplötuna hans sigurðar í hjálmum fyrir kransagerðina og grafa eftir disknum hans dylan sem ég keypti fyrir síðustu jól, hann er svo mikil dásemd að ég get ekki mælt nógsamlega með honum og ef þú átt hann ekki skaltu kaupa hann strax og þú færð útborgað, það er nebblilega alveg á hreinu að tónlist og óþarfi eru ekki orð sem ég nota í einni og sömu setningunni

fimmtudagur, 18. nóvember 2010

justice for all!

allt fór í háaloft í kennslustofunni minni í dag þegar ég las í gegnum mannréttindasáttmála sameinuðu þjóðanna með nemendum mínum í tíunda bekk, ástæða uppþotsins var ekki sú að börnunum misbiði þegar ég benti þeim á hversu gróflega mörg ákvæði sáttmálans séu brotin til dæmis í löndum þar sem konur eru þvingaðar í hjónaband og fólk pyntað til dauða vegna pólitískra skoðana sinna, vissulega fannst þeim þetta ekkert sniðugt en það sauð fyrst upp úr þegar ég fór í ákvæðið um rétt allra til frítíma og hvíldar, loksins loksins töldu skólaþjáðir nemendur mínir sig hafa fengið vopn í hendurnar til að spyrna við hinni (að þeirra mati) óhóflegu heimavinnu sem lögð er á þeirra ungu herðar og er þau lifandi að drepa, hvers konar skóli er þetta eiginlega sem virðir ekki þetta grundvallardokjúment hins siðmenntaða heims, hvern hefði grunað að í mosfellsbæ því friðsæla samfélagi væru á daglegum basís framin brot á réttindum þeim sem hinn mikli sáttmáli kveður svo skýrt á um að tilheyri okkur öllum og enginn geti tekið frá okkur, uppreisn!!! uppreisn!!! réttlætið skal sigra!

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

nei hættu nú!

ég stend fyrir framan fataskápinn minn gjörsamlega yfirkomin af undrun og vantrú, í enn eitt skiptið hefur maðurinn minn gengið frá hello kitty nærbuxum yngra barnsins inní skápinn minn þar sem þær liggja innan um blúndubrjóstarhaldara og annað slíkt sem greinilega er í eigu konu með takmarkaðan húmor fyrir nærklæðnaði en töluvert meira af hégóma, ég tek nærbuxurnar upp og máta þær við mig miðja, buxurnar sem eru að verða of litlar á dóttur mína gætu kannski, af því maður er svo skapandi, nýst mér sem frampartur á heimasaumaðan þveng en að öðru leyti sé ég ekki hvernig ég ætti að geta hulið mig með þeim, hvernig má þetta vera? hvað gengur manninum til? ég get ekki einu sinni afsakað hann með því að þetta séu einfaldar hvítar nærbuxur sem (að því gefnu að maðurinn minn hefði gjörsamlega engan sans fyrir hlutföllum og stærð sem er alls ekki tilfellið) hefðu auðveldlega getað þvælst alveg óvart inní skáp með öðrum hvítum þvotti, hin sjokkerandi staðreynd er aftur á móti sú að brækurnar eru vandlega skreyttar að minnsta kosti þrjátíu myndum af höfði hinnar japönsku hello kitty í beibíbláum og bleikum lit, hvernig á maður að túlka þetta, er maðurinn einfaldlega fordæmalaust utan við sig og getur ekki að þessu gert eða (og nú veit ég ekki hvort maður vill vita svarið) þætti honum allt í lagi og (nei andskotinn hafi það) jafnvel skemmtilegt ef ég klæddi mig í slíka flík á prívatmómentum? ég held alla vega að ég sé búin að færa óhrekjanleg rök fyrir því að þegar konur kaupa sér nærföt eiga þær ekki að gera það fyrir neinn nema sjálfa sig því það er augljóst að karlmaður sem finnur sig í þeirri príma stöðu að kona ætli að fækka fötum í návist hans hefur ekki nokkurn einasta áhuga á spjörunum sem detta af henni, kannski ég kaupi mér bara svona hello kitty næríur, sprangi í þeim út um allt hús og testi þessa kenningu.....to be continued

sunnudagur, 14. nóvember 2010

the burden of beauty

ástin er ágæt en fegurðin bjargar heiminum, auður ólafs segir það og nick cave segir það líka, nick cave segist meira að segja hafa það frá guði og ekki dettur mér til hugar að þræta við manninn, ég legg mitt af mörkum og set rúllur í hárið og skúra fyrir mömmu mína á meðan dúið er að taka sig, mamma smellir platters í spilarann og ég svíf um með moppuna, grínlaust, svíf, alveg eins og alvöru fifties housewife í ryksuguauglýsingu, bara sveittari, gólfhitinn hjá mömmu hefur rokið upp úr öllu valdi í kuldanum og nærbuxurnar límast við rassinn á mér, ég fer að hafa áhyggjur af að þetta geti farið illa með dúið, sem það gerir, rúllurnar leka úr og það vantar allt voljúm í hárið, andskotinn, mamma opnar konfektkassann sem er að renna út og ég sé til þess að svissneska súkkulaðið fara ekki til spillist (ég er ekkert nema hjálpsemin í dag), dúndra mér svo í að pússa gler og þurrka af á meðan sykurinn ólmast í blóðinu, ég eyri engu, ekkert fer framhjá mér, ég er terminatorinn, mamma biður mig að taka því rólega, hún vill ekki að ég ofgeri mér, eins og terminatorinn geti ofgert sér, glætan, ég fer heim og fyrst ég er búin að vinna svona ötullega í þágu fegurðarinnar í dag finnst mér ég eiga það inni að rústa eldhúsinu við matseldina, stofan er full af reyk og olían á pönnunni frussast yfir alla eldavélina, who cares, ég horfi á allt drulluga leirtauið alveg poll og hugsa bara það get´ekki allir verið gordjöss, husband getur reddað þessu á morgun, hvað á ég að þurfa að segja fólki það oft að ég get bara ekki alltaf verið að bjarga heiminum

miðvikudagur, 10. nóvember 2010

og maður hugsar (guð hjálpi mér)

hvað gerir fólk þegar gömul húsráð eins og að fara snemma í háttinn og nærast vel gagnast ekki af neinu viti í glímunni við hversdagsþrautir þær sem bíða meðalmanneskunnjar á hverju horni sé hún yfir höfuð enn að hætta sér út úr húsi, í sjónvarpinu talar fólk um að finna endanlegar lausnir, mann svimar af umfangi orðanna, svona eins og þegar maður óvart hleypir að þeirri hugsun að himinngeymurinn sé endalaus og óttast í kjölfarið að tapa þeim litlu geðsmunum sem maður telur sig þó enn hafa nokkurn veginn á þurru, ætli maður verði einhvern tíman svo borubrattur að telja sig hafa fundið hina endanlegu lausn? er slíkt yfir höfur hollt? kannski jú í því samhengi að hætta að brúka krítarkort en fljótlega eftir það verða útlínurnar dáldið óljósar, ég viðurkenni að hugmyndin freistar mín, meira að segja mikið, svo mikið að að tala um jönkistatendensa og þrá eftir heilögum disney væri enginn ýkjugangur að ráði, á mínum fáu jafnvægismómentum læðist samt að mér sú tilfinning að draumurinn um hina endanlegu lausn sé mannæta sem einn daginn muni bryðja í mér beinin og sjóða í mér sálina þar til öll hamingjan gufar upp úr henni, en ég get auðvitað bara talað fyrir mig sjálfa (afar erfitt og vanþakklátt jobb það enda ekki margir til í að taka það að sér - ergo ég neyðist til að sinna því sjálf þó ég taki út fyrir það) og jújú ég þekki vissulega fólk sem kannast ekki við að hafa nokkru sinni rekið upp hnikil, hvort sem maður leggur nú einhvern trúnað á það

mynd: kate towers

laugardagur, 6. nóvember 2010

lesum

þessa konu þekki ég lítilega og ég dáist að henni, til hamingju kraftastelpa!

föstudagur, 5. nóvember 2010

maður er hress (að vanda)

það bara hlýtur að standa skrifað einhvers staðar að kaffi lækni höfuðverk, ef ekki þá er það hér með fært til bókar, kaffi slær líka á hungur sem kemur sér einmitt vel þegar maður er með svo mikinn hausverk að fábrotið úrvalið í ísskápnum verður einhvern veginn yfirþyrmandi og maður getur ómögulega tekið ákvörðun um hvað maður eigi að fá sér að borða, ég staulaðist inn um þröskuldinn heima hjá mér hálfblind af höfuðkvölum eftir að hafa farið yfir um það bil þrjúþúsund próf í flúorlýstu loftlausu kennslustofunni minni með ærandi föstudagsgleði fjögurhundruð unglinga í eyrunum, ég slökkti ljósin og hlustaði á kaffið spítast upp í könnunni og hugsaði um að hún sé nú ekkert smáræði þakkarskuldin sem maður stendur í við brasilíska kaffibændur! en þá er þessi ljómandi ömurlega vika loksins að baki og guði sé lof fyrir það, svefntruflanir, vinnustress og harkalegur niðurtúr eftir ameríkugleði fer ekki vel í sensitívar konur og herra minn í himnahæðum hvað maður getur orðið leiðinlegur og erfiður í umgengni svo ekki sé minnst á vænusýkina, mig dreymdi til dæmis í alla nótt að ég væri persóna í mynd eftir david lynch og ef það bendir ekki til þess að maður sé hálfslappur á taugum þá veit ég ekki hvað! husband er að reyna að lappa upp á móralinn og ætlar að bjóða mér í bíó í kvöld og er greinilega allur að vilja gerður því hann stakk sjálfur uppá að við færum á hressu lesbíumyndina með mike sæta ruffalo þó ég viti vel að hann langar miklu meira á mynd með byssum og blóði og mönnum sem segja oft motherfucker, svona getur maðurinn minn nú verið mikið afbragð þó mig langi stundum til að kæfa hann með koddanum klukkan sjö fjörutíu á morgnana, maður hemur sig fyrir þær sakir einar að díllinn hljóðaði víst uppá í blíðu og stríðu og svo myndu börnin auðvitað taka þetta nærri sér, en ég læt hann sko splæsa í stóran popp í kvöld í staðinn andskotinn hafi það, minna má það ekki vera

fimmtudagur, 4. nóvember 2010

inngrip

stundum, þegar maður af einum og öðrum ástæðum sem maður kann ekki endilega að gera grein fyrir húrrar á ógnarhraða niður lífsleiðarennibrautina og lendir með hörðum skelli á rassinum í jökulköldum polli, þá seilist úníversið upp í ermina sína og dregur fram birtuhvítan stjörnusnjó og indígóbláan stjörnuhiminn eins og til að benda manni á að líta upp öðru hvoru svo fegurðin fari nú ekki alveg framhjá manni, maður stoppar og starir, stendur og horfir eins lengi og eyddir skósólarnir og óþolinmóður hundurinn leyfa, hugsar um jólakort og trönuberjailmkerti og súkkulaðiklíning á kríukinn, heldur svo áfram pínulítið glaðari en finnst hálfleiðinlegt að kunna ekki að nefna stjörnurnar