þriðjudagur, 29. desember 2015

dragðu ávalt þá ályktun að allt sé á hinni bestu leið; aflærðu af reynslunni



ég er svo gott sem hætt að kveikja rafmagnsljós. þetta er árstíðabundið en líka fagurfræðilegur fetish. það er eitthvað ómótstæðilegt við óvarinn eld í hóflegri stærð. logi er alveg lygilega passleg stærð fyrir óvarinn eld. það gætu samt hafa verið mistök að koma englaspilinu fyrir á sólbekknum í eldhúsinu. ekki svo að skilja að ljósin fari illa í glugganum eða njóti sín ekki því eitthvað skyggi á – síður en svo; spilið situr einmitt svo fallega á bekknum miðjum þaðan sem hægt er að dást að því bæði frá eldhúsinu séð og stofunni að hin mesta unun hlýst af fyrir þann sem horfir. en þetta er einmitt lykilatriði; fyrir þann sem horfir; englaspil er fyrst og fremst til ánægju þeim sem horfir á það – jú, og hlýðir á þegar klingir í við snúninginn. mistökin eru því ekki beint að hafa valið spilinu þennan stað heldur felst vandinn fremur í því hversu lágt bekkurinn sjálfur liggur; nánast niðri við gólf og þar af leiðandi í nefhæð við einu veruna á heimilinu sem ekki telst vitiborin samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum: getur ekki  dregið ályktanir fyrirfram út frá einfaldri orsakaafleiðu (þetta er logi; allir logar eru heitir; ef ég sting nefinu í logann brenni ég mig) heldur lærir aðeins með beinni reynslu og getur þá vonandi eftirleiðis forðast að álíka nokkuð endurtaki sig. ... eftir á að hyggja á þessi skilgreining reyndar við okkur bæði. jafnvel þó annað okkar eigi að teljast vitiborið. en hvað um það. við erum ekkert að velta okkur upp úr þessu. sjálfsagt jöfnum við okkur á þessu eins og öðru. það verður jú ekki af manni haft að vera í þjálfun þegar það kemur að blossum og brennimerkingum þeim sem lífið lýstur mann. enga biturð samt. maður fær bara hrukkur í kringum munninn af því að hanga í þeim leiðindagír. það stefnir í áramót. sem er öllu verra mál. okkur refnum leiðast áramót óheyrilega þó af ólíkum ástæðum sé; hann, sá sem ekki telst vitiborinn samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum, virðist geta dregið þá ályktun (þrátt fyrir sjálfan sig) að eldur af þeim toga sem fylgir sprengihvellur sé hættulegur öllum nærstöddum (samt veit hann ekkert um gaza-svæðið eða stríðið í sýrlandi); ég aftur á móti, sem telst vitiborin (þó persónulega þyki mér á stundum að um það megi deila), óttast ekki að springa í loft upp þegar klukkan slær miðnætti heldur er leiði minn einmitt frekar tengdur því – og ég vona að fólk geri sér grein fyrir að nú færi ég mig yfir í líkingamálið – hversu illa mér gangi að „sprengja upp“ tilveruna og hversdaginn ef ekki hreinlega persónu mína alla eins og hún leggur sig ... þó það hljómi kannski óþarflega dramatískt. þetta hefur ekkert með sjálfeyðingarhvöt að gera. ég er ekkert að óska mér út úr veruleikanum. alls ekki. áramótaþunglyndið er meira í ætt við gríðarsterka löngun til að umbreyta formi veruleikans – og manni sjálfum með (heiminum öllum jafnvel) sem og skúffelsi yfir því hversu treglega sá gjörningur gangi þrátt fyrir ítrekuð plön um að hrinda slíkri umbreytingu í framkvæmd. þar á ofan þoli ég auðvitað mjög illa allar skyldur við almanakið. t.d. þá sem kveður á um að strengd séu áramótaheit á því magíska augnabliki þegar tölustafirnir í ártalinu taka breytingum í samræmi við gefin lögmál og stærsta sprengjan dúndrast í loft upp og tætir í sundur himininn með litahillingum og glymjanda, púðurlyktin í loftinu eins og minning og áminning í einni og sömu andránni; minning um það sem var og áminning um það sem er og er verðandi en verður rétt bráðum það sem var eða varð aldrei. og maður er alltaf jafn ringlaður. ég er bara með of óstabílt taugakerfi fyrir þetta fyrirbæri „líðandi stund“. er ekki hægt að taka smá pásu frá þessu endalausa tifi tímans? fær maður aldrei að hvíla sig? ég held að þörfin fyrir kertaljós og óþolið fyrir rafmagnsljósi séu eitthvað tengd þessu með tif tímans. að kveikja á kerti er einhvers konar ritúal til að hægja á tímanum. kannski er það þversagnakennt en þegar allt kemur til alls er það þversögnin sem gerir flesta hluti áhugaverða. treystið mér. ég er ein andskotans risavaxin þversögn.

mánudagur, 21. desember 2015

sú sanna ást og fleiri þættir úr daglegu lífi

ég er að lesa nýju bókina hans braga ólafs. hafi fólk eitthvað lesið sér til á þessari síðu í gegnum árin eða haft af mér sjálfri einhver kynni, þó ekki væri nema mjög takmörkuð, ætti því sama fólki að vera vel ljóst hvaða taugar ég hef til skáldskapar þess hógværa höfundar. þannig að. þetta er ekki góður tími til að hringja. það eina sem ég ætla að segja um téða bók að svo stöddu er að þar til lestri hennar lýkur rúmast ekki fleira undir mistilteininum – viðbragð sem var með öllu fyrirséð og einmitt ástæða þess að tekin var um það meðvituð ákvörðun að fresta lestri bókarinnar þar til nú, þegar jólaundirbúningur er að mestu yfirstaðinn. það var því fyrst í gærkvöld að ég opnaði þetta litla lögulega bókverk þó liðlega tvær vikur séu frá því það barst mér í hendur. einhverjum gæti þótt þetta orðalag barst mér í hendur gefa til kynna að bókin hafi borist mér póstleiðis. en þannig var það reyndar ekki. bókin barst mér í hendur úr höndum þess sem skrifaði hana og því væri kannski réttast að segja að ég hefði fengið hana frá fyrstu hendi. sem dregur síst úr unaðinum við lesturinn. allt er það vel. hér á heimilinu hafa verið tendruð ljós. á stofugólfinu – því sem minnir á rjómaísbreiðu fremur en gólf – við hliðina á bókahillunni þar sem myndin af lorca í vinnugallanum (alsvo einhverju ætluðu til garðyrkju, ekki ljóðagerðar) vakir yfir af mildi og mannelsku, hef ég sömuleiðis komið fyrir smávöxnu grenitré skreyttu ýmsu glingri og glitri. af smáfuglum og mandarínum er hér yfirdrifið. sömuleiðis könglum. og einhvern ilm leggur um íbúðina sem flestir sæmilega næmir ættu að geta sammælst um að sé ekki með öllu óviðeigandi með tilliti til árstíma. hann hefur eitthvað með epli að gera. úti fennir yfir dagana. ég nærist og sef og fylgist með furðum þeim sem eiga sér stað í heimabankanum. í því „skjóli“ virðist engu óhætt. áætlanir mínar um „spari“-jól virðast ekki ætla að ganga eftir. best að ég játi það bara strax og reyni ekki að draga yfir það nokkra fjöður að ég hafi keypt í það minnsta eina gjöf handa sjálfri mér frá ímyndaða jólakærastanum. sá maður á það til að vera til vandræða. ég er samt öll skárri af kærastaveikinni eftir að ég byrjaði að lesa bókina hans braga en þess háttar slappleiki hafði hálfpartinn legið eins og mara á heimilisandanum alla aðventuna og haft af mér töluvert af ánægjunni sem jafnan fylgir biðinni eftir fæðingu barnsins. réttast sagt hef ég algjörlega  leyft höfðinu á mér að hlaupa með mig í gönur í þessu kærastamáli öllu saman. og það ekki í fyrsta skipti. en nú er þessu lokið. nú, þökk sé mínum kæra braga, getur höfuðið á mér glímt við eitthvað efnismeira og næringaríkara en gagnslausar hugmyndir um einhvern andskotans jólakærasta. eða eins og hún louise bourgois elskuleg orðar það á póstkorti sem ég hef komið fyrir á veggnum hér við eldhúsgluggann: art is a guaranty of sanity

laugardagur, 5. desember 2015

blað og blek fara ekki saman nema fyrir tilverkan utan að komandi krafta

ég er á öðrum brúsa af uppþvottalegi frá því ég flutti inn. sem og annarri tannkremstúpu. tólftu tilraun til að byrja að hugleiða aftur og milljónasta kálpokanum. skráninga- og röðunaráráttan er á tilfinnanlega slæmu stigi. hugsanlega hefur það eitthvað með of mikla einangrun að gera. the unfed mind devours itself. það er eitthvað mjög sjúklegt við það að skrifa aldrei neitt nema lista yfir daglegar athafnir og svefnvenjur. mig hvorki dreymir né verkjar. jafnvel pottaplönturnar eru hálf uppburðarlitlar. að indjánafjöðrinni frátalinni virðast þær allar vera staðráðnar í að þorna upp. nóvemberkaktusinn er að vísu að myndast við að blómstra en ég hef á tilfinningunni að það sé fremur af hlýðni en löngun. í nótt féll snjór. birtan er bláleit. úti geysar óveður og óreiðan í höfðinu á mér er alger. tætingslegar hugsanir sem spírala í allar áttir á svimandi ferð. þar koma listarnir inn. þeir eru ákveðin leið til að vera pródúktívur í algjörlega ópródúktívu ástandi. stundum í eftirmiðdaginn ákveð ég að byrja ég á nýrri skáldsögu (all oft reyndar þegar ég hugsa út í það). ég tek meðvitaða ákvörðun um að gleyma því sem liggur fyrir, líkt og það hafi alveg óvart dottið úr mér að ég sé með sjöþúsund ritunarverkefni í töskunni, ég eigi hund sem viðri sig ekki sjálfur og einhver hafi étið allt út úr skápunum og þannig vandamálavætt nestisbox morgundagsins. allt læt ég þetta lönd og leið. sest niður. skrifa einhverjar línur. upphafssenu kannski. nostra töluvert við lýsingar á smáatriðum og finn fyrir einhverri stemningu bak við orðin. andrúmslofti jafnvel. í það minnsta einhverju sem heldur athygli minni nógu lengi til að ég dvelji við það nokkra stund án þess að veita því eftirtekt að myrkrið hrannast upp fyrir utan gluggana. einhverju síðar stend ég upp. teygi úr mér. fer kannski út með hundinn eða í súpermarkaðinn. elda eitthvað fyrir einn. og þegar ég sný mér aftur að tölvunni hef ég undantekningalaust steinhætt við að skrifa þessa sögu. þetta gengur ekki. það er yfirdrifið að dagsbirtan dragi lappirnar. óþarfi að raungera þann gjörning í eigin daglega lífi. það eru fimm dagar í skilafrest í ljóðasamkeppni jóns úr vör. klukkan tifar. ég hef fimm daga til skrifa hið fullkomna ljóð (eða eru þetta hamarshögg?) er eitthvað sem getur ekki farið úrskeiðis í þessu máli? enginn af listunum mínum getur talist verulega gott ljóð og þó ég eigi að minnsta kosti eitt töluvert áleitið ástarljóð á lager þá finn ég ekki rétta titilinn á það. og þar sem hann er búinn að vera týndur í þrjú ár hlýtur það að teljast í hæpnara lagi að hann finnist fyrir fimmtudag. álíka hæpið og að ég skrifi þessa skáldsögu. kannski ég komi mér bara út í óveðrið. leyfi storminum að finna mig. kannski ber hann mig eitthvert og ég vakna sem skáldsagnapersóna í rauðum skóm á grænu engi. og tala í ljóðum. ekki listum. 

sunnudagur, 20. september 2015

allt á sér hliðstæðu

að borða súpuna beint upp úr pottinum af því maður nennir ekki að vaska upp litla leirskál og matskeið í hefðbundinni stærð hlýtur að teljast til þess sem sumt fólk kýs að kalla leti. sjálf kalla ég þetta hagkvæmni; síkvikan vilja til einfalda líf sitt og vera skilvirkari við heimilisstörfin. sem er dyggð. ég þreif fifties ísbúðina í dag. hér skín allt svo stirnir á. ég finn fyrir djúpri ánægju með vel unnin störf. stolti jafnvel. glerið í svalahurðinni lét ég að vísu eiga sig af tilfinningaástæðum. kámið eftir nefið á refnum sem skrapp í helgarferð út fyrir bæjarmörkin fór svo í hjartað á mér að ég fékk mig ekki til að pússa það með míkrófíbernum; múltípörpös klútnum sem mamma gaf mér einhvern tímann og er svo magnaður að maður þarf ekki annað en vatn með honum til að ná hámarksárangri. ég reyni að nota eins lítið af kemískum efnum og ég kemst upp með. held mig mest við edikið og sítrónuna. þetta tvennt fleytir manni langt við hversdagsverkin. ef ekki hreinlega alla leið. ég er með sjó í hárinu. sjóböð eru mér þerapjútísk skemmtun á laugardögum. að velkjast um í öldugangi og brimi á veðrasömum degi er einhver besta núllstilling sem hægt er að hugsa sér. áður en ég fer útí reyni ég að taka einbeitta ákvörðun um hvað ég ætli að skilja eftir í vatninu; móral yfir eigin meðalmennsku, depurðina, vonbrigði af margvíslegum toga, væl, löngun í það sem gerir mér ekki gott, efann ... eða hvað annað sem af einum eða öðrum orsökum er sérstaklega knýjandi þá stundina. vaða svo beint af augum og finna vatnsborðið færast upp eftir líkamanum. þegar það nær upp fyrir sólarplexus, sem samsvarar um það bil sjötíu prósentum af hæð minni sem aftur samsvarar nokkurn veginn innra vatnsmagninu, er tímabært að lyfta fótum frá botni og taka fáein sundtök. útlimirnir kólna hratt þegar blóðrásin hringar sig um líffærin. lungun verða á stærð við meðalstórt lífrænt epli. á þeirri stundu er gott að öskra kröftuglega. og reyna að berjast ekki á móti. leyfa saltlegi og sandi að þvo mann með valdi. snúa svo til baka tær og sterkur. og hjóla á barinn. 

þriðjudagur, 15. september 2015

tilraun til að skrifa tæmandi lista yfir það sem ber á milli



það gerir gæfumuninn að lesa þvottaleiðbeiningarnar
það gerir gæfumuninn að borða úr öllum fæðuflokkum
það gerir gæfumuninn að gráta sig reglulega í svefn

það gerir gæfumuninn að elska ástina
– jafnvel þó ástin sé ekki endurgoldin
það gerir gæfumuninn að hlusta á van á vínyl

það gerir gæfumuninn
að greina á milli þess sem er
og þess sem er ekki
um þetta munar verulega

það munar um samkennd vina þinna
það munar um hverja krónu
– þegar verslað er með hjörtu og aðrar hreinar afurðir –
það munar um salt í sárið

það munar um varalitinn
og sáravatnið
það munar um að segja satt
það munar um að halda nákvæmt bókhald
yfir fjölda augntillita og hljómfall í rödd

það gerir gæfumuninn að fylgjast með fréttum
það gerir gæfumuninn að skilja
muninn á því sem er tilfallandi
og því sem er raunverulegt
teikn;
stundum eru tveir samsíða líkamar aðeins þetta:
tveir samsíða líkamar
en hvorki myndhverfing tölunnar ellefu
né stoðir undir stærri heim

það gerir gæfumuninn að geta lesið sér til gamans fremur en gagns
það gerir gæfumuninn að geta talið upp á tíu
þegar þú fyllist löngun til að taka upp símann
og velja rangt númer

það gerir gæfumuninn að læra af reynslunni
það gerir gæfumuninn að neita sér um réttinn
til rangra ákvarðana
það gerir gæfumuninn að freista einskis
sem gæti virst eitt
en verið
annað

sunnudagur, 30. ágúst 2015

að vera er að velja

ég á veggi núna. og þak. gólf, glugga, útidyr, bakdyr og pall. það síðastnefnda telur um 40% eignarinnar. ég hef komið pablo í póstkortaformi fyrir yfir öllum þýðingarmeiri dyrakörmum heimilisins. sem og yfir asúrbláa sófanum. klee í forstofunni. held eldhúsveggnum auðum svo silúettan frá sægrænu ljóskúpunni geti seitlað eins og vatn niður á kökukrembleikt gólfið. bleiki ísskápurinn stendur gengt sófanum. þeim asúrbláa. mér líður stundum eins og ég búi í ísbúð á fimmta áratugnum. það er góður staður að búa á. refurinn unir sér vel. fyrir honum er heimili aðeins sá staður þar sem fætur húsbóndans hvíla hverju sinni. einfalt og gott viðmið. ef ég ætti kærasta myndi ég vilja hafa slíkt viðmið. en ég á engan kærasta. og veit ekki hvort ég vil eiga neitt í þá veruna. að tengjast heiminum (þeim sem maður er ævinlega á flótta undan) er nógu flókið verkefni. að tengjast öðru fólki er allt annar og töluvert meira ógnvekjandi gjörningur. mikilvægast er að týna ekki tengslum við sjálfan sig. sem gerist auðveldlega. ég kom heim frá spáni líkt silfurslegin sál í nýjum líkama. berstrípaði veggi og gólf. misbauð úlnliðum mínum með hringlaga hreyfingum. sleppti máltíðum. kepptist við. mætti í vinnuna. og vissi næst af mér á stofugólfinu með sleftauminn lekandi niður kinnina. núna langar mig bara að sofa. vinur minn gaf mér búnt af appelsínugulum ástareldi í fertugsafmælisgjöf. hann stendur ennþá. blómafróðir segja mér að hann sé svo lífseigur að stundum skjóti hann jafnvel rótum í vatni. ég vil vera ástareldur. stilkurinn er svo þykkur að ég þarf að taka töluvert á ætli ég að ná honum í sundur með flugbeitta saxinu, jafnvel þó það sneiði í sundur gulrætur eins og smjörklípu sem staðið hefur á borði frá morgni til eftirmiðdags á óvenju hlýjum degi. það haustar. ég finn það á skörpum morgunsvalanum. á rakanum. á lyktinni. hver þarf almanak! bráðum breytast litirnir og eitthvað í okkur deyr svo annað megi lifna. aldrei að stoppa. það er lykilatriði. taka eftir. anda að sér því sem er að eiga sér stað. sjá. finna. beina sjónum að því sem augun vilja nema. varast að standa í röð. varast raðupplifanir. en leggja rækt við ritúalið. á þessu tvennu er skýr munur. aldrei að taka eitt fyrir annað. næmi á hvað það er sem skilur þetta tvennt að gæti skilið á milli lífs og dauða. þarftu ekki að skrifa þessa nóvellu? nú, eða þetta ljóð? þarftu ekki að gera eitthvað nú þegar þú hefur skilið hismið frá kjarnanum? taka nýtt trúarstökk? ertu vakandi? veröldin sefur en úniversið vakir. klukkur þeirra eru aldrei samslátta. þess vegna er tilvistin erfið. ekki tapa þér samt í existensíalismanum. og ekki tapa húmornum. það er raunverulega hættulegt. raun/verulega.        

föstudagur, 3. júlí 2015

ekkert fyrirfinnst hættulegra í heiminum en hugmynd


hér í spánarveldi er ekkert lát á velgengni minni. ég má hvergi láta sjá mig án þess að farið sé að spila á gítar og klappa. einhver með veikari bein gæti látið þetta stíga sér til höfuðs. til allrar hamingju var ég vandlega alin upp í kristilegri hógværð og lítillæti og þarf því ekki að óttast slík örlög. hvarvetna eru bornar í mig ólívur. stundum meira en ég get í mig látið. sama má segja um melantónínið. það er með hreinum ólíkindum hvernig ég er orðin á litinn. ég líkist helst einhverju sem fólk stingur uppí sig og lætur bráðna á tungunni. og einmitt þannig líður mér í augnablikinu; eins og einhverju sem er hægt og rólega að bráðna í ógnarstórum og heitum munni. ég er næstum alveg hætt að pissa. sama hvað ég borða mikið af vatnsmelónum. fyrr í vikunni var loftið hérna uppi í hæðunum orðið svo logum blandið að ég var nauðbeygð til að flýja til sjávar. mér var það ekki á móti skapi. sjóböð eru lækning við öllu. það hef ég sannreynt bæði í heimahafinu og víða annars staðar þar sem ég hef verið gestkomandi. veri það taugaveiklun, depurð, ástarsorg eða aðrir krónískir verkir svo ég tali ekki um hita; allt linast það í hafinu. en það var dálítið merkilegt við þessa ferð. dálítið sem lætur mig ekki alveg í friði. dálítið sem gerir það að verkum að stundum sekk ég ofan í djúpa þanka og á í undarlegustu rökræðum við sjálfa mig. þannig vill til að stuttu fyrir förina niður að hafi hafði vinur minn hvatt mig til að húðflúra lítil akkeri á hælana á mér. hvort það var tilviljun eða ekki veit ég ekki og mun aldrei vita. kannski er ég bara að lesa yfir mig af búlgakov (já, ég er að lesa meistarinn og margaríta og já, ég hef ekki lesið hana fyrr og já, ég er svo víðáttu illa lesin að það er eins gott að það spyrjist ekki út). en hvernig sem á því stóð þá sótti sú hugsun stíft að mér á meðan ég maraði þarna í faðmi miðjarðarhafsins og lét ölduna vagga mér að eigin geðþótta, að kannski væri einmitt ekki vitlaust, nú þegar kona stendur á fertugu, að gera slíkt samkomulag við þyngdaraflið og undirrita það viðeigandi táknum; samkomulag um samband við upphafið (ha! upp-hafið! þetta var alveg óvart, ég sver það). hugmyndin þykir mér í það minnsta áhugaverð. og falleg. sér í lagi af því akkeri minna mig alltaf á vinnuföt föður míns sem voru einmitt með ísaumuðu litlu akkeri á brjóststykkinu. mér þótti hann alltaf svo óskaplega fallegur í flugstjóradressinu. furðulegt eiginlega hvernig ég hef komist hjá því að þróa með mér einhvern hallæris fetish fyrir mönnum í júniformi. ég skal ekki segja. best að bræða þetta með mér eins og annað sem hér kraumar og sýður yst sem innst. fara kannski aðra ferð að ölduborðinu og ganga út þar til botninum sleppir. fljóta þá í láréttri stöðu góða stund. blaka fótum. bræða með sér. blaka meir. bræða. blaka ...  

mánudagur, 29. júní 2015

nokkur lögmál: hlutir þenjast út í hita, það snýst sem er snúið, það sem fer upp getur haldið áfram að fara upp


húsið mitt er á þremur hæðum. veggirnir þykkir eins og virkismúrar. minna má það ekki vera til að varna himnahitaranum inngöngu. á hverri hæð er aðeins ein íbúð og stiginn upp á terrassinn liggur snarbrattur í hring meðfram útvegg hússins. ekki beinlínis hringstigi en í áttina. ég hef sérlegt dálæti á hringstigum líkt og öllu því sem er spírallaga. eftirlætis minjagripurinn minn (eins og mér leiðast nú þau fyrirbæri) er einmitt lítill hlutur sem ég keypti á guggenheim-safninu (sem vel að merkja er hús í formi hringstiga ... eða hringstigi í formi húss ... ég er ekki viss); keila sem í má stinga þar til gerðum tússpenna, leggja odd pennans á pappír og snúa. penninn hringsnýst þá á blaðinu og teiknar upp hina ólíkustu spírala; stundum verða til smágerðir hringir, stundum löng lína með stöku lykkju og stundum rúllar keilan beinan veg út af blaðinu og skilur ekki annað eftir sig en daufa rák. engin leið er að sjá fyrir hvað muni birtast á blaðinu enda ræðst teikningin af þeim kröftum sem myndast þegar keilunni er snúið. dáleiðandi athöfn og gott að dunda sér við þegar allt virðist yfirþyrmandi. minnir mann á að í lífinu gildir það lögmál að sá ásetningur sem lagt er upp með er aðeins eitt tákn í jöfnunni. um annað höfum við lítið að segja. ég lít á þetta sem æfingu í að láta koma mér á óvart. það er mikilvægt að kunna að láta koma sér á óvart. annars er maður svo samanherptur og kyrkingslegur. út um glugga íbúðarinnar, þann eina sem á henni er, sér út á lítið torg þar sem mannaferðir eru nokkrar að morgni, töluverðar að kvöldi en engar yfir miðjan daginn þegar hitinn er brjálandi. þá er eins og allt sofi. hljótt og blítt. glugginn er óglerjaður en fyrir honum eru flúraðir járnrimlar. hann stendur opinn allan sólarhringinn og það er notalegt að heyra í smáfuglunum og dúfunum á morgnana þegar ég ligg og móki og nenni ekki fram úr. fyrir nágrönnum mínum fer lítið. það líkar mér vel. tveir þeirra vekja þó sérstakan áhuga minn af lógískum ástæðum; þeir eru báðir ferfættir; annar lítill depplóttur blendingur sem hámar í sig pottaplöntur húsbónda síns sér til dægrastyttingar; hinn íðilfagur svartur sjeffer (ég sé ekki ástæðu til að stafsetja þetta upp á útlensku) sem öðru hvoru lætur svo lítið að setjast út á svalirnar á heimkynnum sínum og horfa virðulega yfir pöpulinn á torginu. ég sakna hundsins míns. ef eitthvað er að marka þær fréttir sem ég hef fengið frá heimahögunum liggur hann helst undir sólpallinum á sveitasetri systur minnar og hagar sér í öllu undarlega. hér, eins og í öðrum siðmenntuðum samfélögum, eru hundar alls staðar velkomnir. í augnablikinu liggja þó nokkrir við fætur húsbænda sinna sem vökva sig í kvöldmollunni á vinsæla barnum á torginu og halda fyrir mér vöku með skrafi og hlátrasköllum. ég get svarið fyrir það, ef hundurinn minn væri hérna myndi ég líka drífa mig á barinn. jafnvel þó ég þoli ekki bari. það hlýtur að vera æðislegt að fara á barinn með hundinum sínum. við tvö. saman á barnum. hann; myndarlegasta deitið á svæðinu í smókingpresthempunni. og ég; óþekkjanleg í nýja húðlitnum og í svo góðum húmor að fólki hreinlega brygði við. geð mitt er svo gott þessa dagana að ég óttast að þetta fari illa. á versta veg jafnvel. harðar lendingar eru mér ekki með öllu framandi. ég get séð fyrir mér fall úr mikilli hæð. en ég ætla ekki að hugsa um það. ég ætla ekki að teikna upp eitthvað að falla úr mikilli hæð. ég ætla að teikna mynd af einhverju öðru. einhverju sem svífur. svífur hægt um heiðan himinn, hring eftir hring í mjúkri hreyfingu og skilur eftir sig fullkomið spírallaga form sem teygir sig skáhallt upp á við svo langt sem augað eygir, allt út að endimörkum alheimsins. ég sé þetta skýrt. mjög skýrt. ég hef mjög góða sjón.            

fimmtudagur, 25. júní 2015

fiskur í sjó. (þó með miklum elegans).

ég eldaði. einhver borðaði yfir sig. hvað get ég sagt, ég er góð í alls konar en ekki í því að elda vondan mat. hér uppi í hæðum andalúsíu hafa dagarnir tekið á sig nokkuð fast form. ég fer á fætur milli hálf átta og átta eftir vel heppnað svefnferðalag með hjálp eyrnatappa og því sem nemur nokkuð ríflega ráðlögðum dagskammti af magnesíum; fyrir utan gluggann minn (undir hverjum ég sef) er rekinn vinsæll bar, ósköp fallegur en spánverjar eru ekki fólk sem fer heim af kránni fyrir miðnætti, jafnvel ekki þó leikskólabörn séu með í för. þegar iljar snerta jörð og ég finn mig í lóðréttir stellingu, skola ég sítrónuvatninu niður á meðan heimsins sterkasta kaffi kraumar í mokunni á litlu hellunni í agnarsmáa eldhúsinu. sé sambýliskona mín vöknuð má spila sade yfir kaffidrykkjunni og morgunsíðurnar skrifaðar á meðan slitrurnar úr nóttinni týnast ein af annarri úr hárinu á mér. að því loknu er mál að hreyfa sinn búk og þakka guði fyrir að bein, sinar, vöðvar og taugar starfa eins og til er óskað (indæla enska stelpan fyrir ofan mig er ampúteruð frá vinstri mjöðm. ég er farin að þekkja fótatak hennar í stiganum. við spjöllum stundum við sólarhleðsluna á terrassinum og orðin sem hún hefur látið flúra niður eftir rifjahylkinu vinstra megin vekja aðdáun mína: never give up). um tíuleytið má því ganga að mér vísri á hlaupum eftir árbakkanum þar sem hvítir hegrarnir sitja eins og bústnir ávextir í trjánum og villikettirnir skjótast á milli runna, bláeygðir í trássi við öll náttúrulögmál. og af því jesú minn og maría (það ágæta fólk býr hér í annarri hverri götu) hugsa fyrir öllu áður en maður getur hugsað fyrir því sjálfur, datt ég niður á þann blett hér í borg þar sem svitaþolnir iðka armbeygjur og alls kyns tilfæringar undir berum himni (sumir einnig berir að ofan þó sjálf láti ég mér nægja að vera berbrystingur á þakinu heima hjá mér). og til að raska ekki því jafnvægi sem líkama og sál er nauðsynlegt borða ég dálítið af saltaðri vatnsmelónu við heimkomuna og vinn mig í gegnum jógastöður og heilnæmar teygjur áður en ég leggst við lestur og d-vítamíndrykkju á títt nefndum terras (eitt eða tvö ess ... hverjum er ekki sama). í augnablikinu les ég hina dásamlegu endurkomu maríu eftir bjarna bjarnason sem er nýji uppáhalds auk þess að glugga í ástarbréf löngu liðinni elskenda, enda ber vinnuskjalið í tölvunni bráðabirgðaheitið bréf til glataðra elskhuga ... athugið,  orðið glataðir er hér notað í merkingunni mér týndir, allt í einu áttaði ég mig á að kannski sé þetta ekki heppilegt orðalag ... en hvað um það. vinnudagurinn má ekki hefjast síðar en 13.30. þá er hitinn við það að verða brjálandi. svo ég sit og stend í kóralbleika náttkjólnum úr silkiblöndunni með alla mína eyrnalokka og fíkjuilmvatnið og graðga í mig ólívum og sólblómafræjum á meðan ég raða saman orðum til að verða sjö. ég gæti ekki logið því oft að það komi ekki fyrir að ég dreypi á hvítvíni á tímabilinu. þegar kvöldar má borða. matseld cordobabúa er til mikillar fyrirmyndar og alls ekki verðlögð á við innri líffæri á svörtum markaði (í því samhengi vil ég sérstaklega minnast á saltaðan og þurrkaðan túnfisk með ristuðum möndlum og fínt tættan hráan þorsk með húðflettum appelsínum og brenndri íberíuskinku) svo við sambýliskonan (sem er hreint afbragð án þess að um það séu höfð flóknari orð) höfum skipst á að bjóða hvor annarri út fyrir kvöldgönguna. hugsanlega er cordoba enn fegurri að kvöldi en að morgni þó ég finni þegar ég skrifa þetta að slíkt sé nánast fáránlegt að fullyrða um. en í kvöld sumsé sá ég um matseld og hlaut að launum klapp og þakkir og yfirdrifið hól ... og ljónið teygði úr sér í forsælunni undir límónutrénu, sleikti út um og malaði svo undir tók í borginni.

miðvikudagur, 17. júní 2015

„the admiration towards the loved object is infinite“ (louise bourgeois)


aldrei er jafn gott að vera fjarri heimahögum eins og á þjóðhátíðardaginn! ég frábið mér allan þennan bómullarsykur og blaktandi fána undir hirðfíflalegu hæi og hói og frámunalegri þvælu um „árdags í ljóma“; við vitum öll að undantekningalaust er ekki einu sinni hægt að notast við þann frasa sem myndlíkingu á þessum degi. af fyrirhyggjusemi þess sem lærir hægt en lærir þó hafði ég því gert viðeigandi ráðstafanir og lenti í heimabæ míns ástkæra pablo laust eftir hádegi í fyrradag. á móti mér tók það sem veðurspámaðurinn í símanum mínum kallaði sunny and mostly pleasant – persónulega þykir mér sú lýsing óþarflega hófsöm, væri ég veðurfréttaritari myndi ég í það minnsta skipta atviksorðinu mostly út fyrir eitthvað meira afgerandi, t.d. entirely and mood altering. ég get svo lifandi svarið fyrir það að hér í suðrinu vegur hugur minn ekki nema rétt því sem nemur þyngd fastandi spörfugls og taugakerfið púlsar sínum boðefnum í kórréttum takti við klapp flamencodansarans í hjarta mér. hvað fegurðin getur verið einföld og nærri! indæla gistiheimilið sem sambýliskona mín hafði útvegað okkur í blindni þessa einu nótt sem við ákváðum að eyða í malaga reyndist bókstaflega í næsta húsi við listasafn elskhuga míns. í sjálfu sér kom það mér ekki á óvart; pablo passar uppá stelpurnar sínar. ég visiteraði snemma morguns í gær og eins og á öllum okkar stefnumótum þurfti ég að strjúka handarbakinu reglulega yfir augu og kinnar á meðan ég gekk um salina þar sem undraverðu formin hans flæddu um veggina; enginn hefur nokkru sinni málað líkt og picasso! við vorum að vísu ekki ein því hann hafði boðið louise bourgeois í sangriu. það gerði ekkert til. ég fann ekki fyrir afbrýði svo um megi tala. ef einhver kemst nálægt pablo í stórfengleik þá er það louise og ég ýki ekki með nokkru móti þegar ég segi að eftir samdrykkjuna fór ég um á himnaskautunum einum saman. „love must be proved by facts and not by reason“, sagði elskan mín við mig að skilnaði og ég kinkaði kolli; mikið rétt og mundu, mundu. úr húsi pablo hraðaði ég mér svo rakleiðis á lestarstöðina – sökum hita ákvað ég að hlífa arabísku gæðingunum við löngu ferðalagi hingað uppí hæðirnar; hér í andalúsíu slær sólin laust yfir þrjátíu gráður og lofar meiru. cordoba tók á móti mér hvítkölkuð og mettuð af syndandi ró. hér liggur engum á. hér sest fólk niður og borðar matinn sinn eins og sá sem treystir því að allt sé á sínum rétta sporbaug og ekki ástæða til að skipta sér sérstaklega af því sem verða vill. spánverjar eru afbragð í viðkynningu. kurteisir á einhvern heiðarlegan og afslappaðan hátt og dásamlega lausir við slepjuganginn sem ítalir geta átt til. miguel leigusali minn er til að mynda maður af því taginu sem fær mig til að seilast eftir orðasamböndum eins og „salt jarðar“ og „klettur í hafi“. það versta sem ég get sagt um andalúsíu að svo stöddu er að í hnetupokanum sem ég keypti í gær handa okkur sambýliskonu minni voru nokkrar pistasíur sem engin leið var að opna. mér segir þó svo hugur að viðlíka vandamál geti komið upp hvar á hnettinum sem er svo ég felli þessa athugasemd samstundis út. og það er engu um það logið að hér er spilað á strengjahljóðfæri á götuhornum, þá töfragripi guðanna! um ansjósur og ólívur verður rætt síðar.  af þessu má leiða að líkast til eru áhyggjur mínar af því að ég geti aldrei skrifað ljóð framar, en sú kennd heltekur mig í hvert sinn sem ég „lýk við“ ljóð (ef hægt er að nota jafn gróft orðalag um þá fínlegu iðju), – séu með flestu ástæðulausar. í það minnsta verður engum blöðum um það flett að kona er ekki með öllu rangt plaseruð í veröldinni. 

laugardagur, 6. júní 2015

úr blámanum


ég borða kirsuber í morgunsárinu af meiri áfergju en ég hef dregið andann um nokkurt skeið, kyngi steinum og svelgist á safanum, örva meltinguna með ljóðalestri og hryggvindum, einhvers staðar vætlar úr píanói, ég hlusta, í einfaldleikanum er harmræn hamingja, ég strýk yfir gólfið og bið þess að í dag sem og aðra daga verði mér flest að sólu og daglegu brauði; að blái gimsteinninn sem ég týndi annað hvort sökkvi til botns og gleymist eða fljóti aftur upp á yfirborðið þar sem ég get teygt mig eftir honum og komið honum fyrir í auga mér, að kljúfa atóm er endalaus vinna, og hvað það er sem skiptir máli við lausn minnar eigin gátu er mér með öllu hulið

laugardagur, 23. maí 2015

eldingar er þörf



steikingin á ítalska buffinu misheppnaðist með öllu, svona fer fyrir þeim sem neitar að líma hakkið sitt saman með hvítu hveiti en reiðir sig þess í stað á fokdýrar kryddblöndur og gæðaolíur af fínustu sort, þunglyndi mitt er í epískum lægðum ( ... epískar lægðir ... eru þetta öfugmæli?), það hefur ekkert með buffsteikinguna að gera, þetta er meira í ætt við það sem kallast altækt ástand (ég var að fletta þessu upp), reyndar er svo komið að hin hefðbundna hamletska tilvistarglíma hefur vikið fyrir þeirri spurningu sem maður ætlaði aldrei að hugleiða í samhengi við sjálfan sig; „að taka geðlyf eða taka ekki geðlyf?“ – þessi vangi er eiginlega enn leiðinlegri viðureignar en þessi um að vera eða vera ekki þótt sá konflikt allur hafi á köflum alveg verið að fara með mann, og áfram liðast tíminn, dagarnir renna saman í litlausan velling hvar ég svamla af takmörkuðum áhuga og held mér í þennan þanka  einan; allt liðast áfram, fyrir utan eldhúsgluggann sinna kettirnir sínum hefðbundnu eltingaleikjum, nágrannarnir hafa lagt hvern einasta auða blett í hverfinu undir hjólhýsin sín eins og ætlunin sé að starta nýrri byggð án þess að neinn þurfi að fá til þess tilskilin leyfi, litadýrð bifreiðanna á götunum er í hrópandi ósamræmi við gulgrátt grasið í bakgrunninum og strætisvagnarnir virðast nokkurn veginn ná að halda áætlun, slíkt hið sama verður ekki hermt upp á melankólísku kennslukonuna sem okkúperar minn skrokk, þeirri manneskju tekst ekki einu sinni að halda almennilega heilsufarsdagbók, hvað þá meira, þegar komið er hádegi hefur hún steingleymt hvað hún borðaði um morguninn og hvort hún hafi sofið vel eða illa þá nóttina, hvort hún hafi munað eftir sítrónuvatninu þegar hún vaknaði og d-vítamíninu með morgunverðinum og hvernig henni leið í maganum í millitíðinni, í eftirmiðdaginn man hún svo ekki hvað hún ætlaði að gera við þessar upplýsingar eða af hverju hún sé að fylgjast með tengslum daglegra athafna við líkamlegt og andlegt heilbrigði, um það eitt er ekki deilt að kona hefur staðið sig betur, hvar er guð með startkaplana þegar maður þarfnast hans hvað mest? hve lengi má ég bíða þess að sjá hann steypa sér niður úr heiðskýru ofandjúpinu með eldingarforkinn í hægri hönd um leið og hann lyftir hinni yfir höfuð sér eins og til að blessa þann sem hann beinir leiftri sínu að (ath hér ég), ég hef týnt tölu á því hversu oft ég hef útfært uppákomuna í huga mér, að öllum líkindum væri ég á leið til eða frá vinnu og alls ekki fundinum undirbúin ( ... hvenær væri maður reyndar slíkum fundi undirbúin? ... enn ein ástæðan þó til að vera alltaf í sætum nærbuxum) enda að öllum líkindum með hugann við eitthvað allt annað og meira óspennandi en raflostmeðferð í boði æðri máttar, ég stæði því sem steinrunnin undir sjónarspilinu, handtaskan með hádegismatnum og heilsufarsdagbókinni lekur niður af öxlinni og hafnar í grasinu með mjúkum dynk sem þó fer framhjá bæði sjálfri mér og hverjum þeim sem mögulega er nærstaddur því áður en ég get með nokkru móti náð utan um það sem er að eiga sér stað sendir guðdómurinn leiftrið úr hendi sér með svo undurtærum tón að honum verða ekki gerð skil nema með beinni reynslu, svo mikill hvellur, það sem lýstur mig er sömuleiðis svo handan tungumálsins að ekki verður farið nánar út í það hér heldur klippi ég beint yfir í þá senu þar sem líkamsleifar mínar sáldrast til jarðar sem glit og sætkenndur ilmur líkur þeim sem finnst af ávexti einmitt þegar hann freistar manns sem mest, ummyndunin tekur svo ekki nema sex sekúndubrot því guði hefur farið svo mikið fram á þessari eilífð frá því hann skóp heiminn í fyrsta sinn og manninn í kjölfarið, ég klöngrast á fætur og horfi á  fæturnar á mér eins og sjóndapur maður sem setur upp gleraugu í fyrsta sinn ... svo eitthvað, verk í vinnslu 

fimmtudagur, 23. apríl 2015

„hlutirnir eru eins og þeir eru. þjáning okkar stafar af því að við ímynduðum okkur þá öðruvísi“ (sagði einhver búddisti einhvern tímann)

samkvæmt pappírunum er sumar núna, sjálf dreg ég slíkar staðhæfingar í efa, það er því eingöngu af borgaralegri hlýðni sem ég pósta hér mynd af þvotti sem hengdur hefur verið út til þerris og virðist (að því ég get best séð) með öllu ófrosinn, en það þýðir ekki að mér þyki myndin endurspegla neitt í áttina að því sem má kalla veruleika, ég er ekki gjörfyrrt öllu viti, með fjörutíu ára reynslu af vonbrigðum þessu tengdu væri óafsakanlegt að fara að rífa fram tásuskóna og stinga ullarhúfunni í neðstu skúffuna, við sjóuðu stelpurnar setjum í mesta lagi upp sólgleraugun, en bara af því það er töff að vera með sólgleraugu sama hvort það skín sól eða ekki, ég sá fólk í bænum í dag sem var ekki með húfu, það var ekki töff, víða voru meira að segja blásnir upp hoppukastalar „í tilefni dagsins“, gott og vel, það er svo sem ekki alvitlaust að leyfa kuldabláum börnum að hoppa sér til hita í nýju sumartreyjunum sínum, en það þýðir ekki að ég taki þátt í því, nei, ég hneppti kápunni uppí háls og herti gönguna um helming, samt með sólgleraugun, og húfu, og vettlinga, í ullarsokkum

sunnudagur, 12. apríl 2015

hið smæsta og hið stærsta er einn og sami hluturinn

mér miðar ekkert áfram í leitinni að nýrri kaffiskál, það kvarnaðist illa upp úr þeirri gömlu nýlega og nú storka ég örlögunum alla morgna með því að drekka úr henni, maður á alls ekki að drekka úr brotinni skál, ég man ekki hversu mörg ógæfuár það boðar en þó það væri ekki nema fjórðungspartur úr hefðbundnu almanaksári þá væri ekki á það bætandi, en þó málið þoli enga bið þolir það heldur engar skítareddingar, þetta er nákvæmnisatriði, ég fíflast ekki með hlutföll, stundum dreymir mig um að eiga hús í fullkomnum hlutföllum við flygil, mig langar að eiga flygil, slíkt hljóðfæri hefur svo sterka nærveru að það jafnast næstum á við manneskju, og flygill er hljóðfæri sem er ekki hægt að láta hljóma illa jafnvel þó maður kunni ekkert að spila á það, því er ekki endilega þannig farið með fólk, það teygist á tímanum og veran hér á eyjunni er að ganga að mér dauðri, en þrátt fyrir að hafa svo sannarlega unnið mér inn fyrir því með almennum leiðinlegheitum er því miður ekkert útlit fyrir að nokkur sála tími að kjósa mig burt af henni, enda er kostnaðurinn við að brjótast út úr þessum fangaklefa í föðurlandslíki slíkur að enginn nema arabískir olíufurstar og mamma mín hafa efni á því, og ef svo ólíklega vill til að mér sjálfri áskotnist eitthvert sparifé er öruggast að það fari beint upp í kaupin á kaffiskálinni, einhverja sem lætur mér líða eins og ég sé með allan heiminn í höndunum, hver veit nema þessi ógæfa gæti raungerst í ævilangri og órofinni dvöl hér í kuldanum og þá er betra að vera búin að gera einhverjar ráðstafanir   

laugardagur, 21. mars 2015

vamos

hóstakjöltur og klofnar neglur, festin sem að jafnaði heldur jesú um hálsinn á mér slitnaði í morgun, það er eins og ég tolli eitthvað illa saman ... suma daga fer ég hvorki úr skóm né yfirhöfn þegar ég kem heim, eins og ég ætli mér bara að stoppa stutt, rétt að líta við áður en ég held áfram þangað sem för minni sé raunverulega heitið, set svo í þvottavél og þurrkara og vökva blómin, geng frá leirtaui og nasla eitthvað, kappklædd, hundinum þykja þessi tvöföldu skilaboð bæði óskiljanleg og óþægileg, ertu að koma eða fara? dreggjar marsmánaðar seytla ofan í gegnsósa grasbletti og mína gljúpu sál og mig langar burt, væri ég fleygur fugl, flygi til ... stundum hugleiði ég að taka mér elskhuga eins og djörf kvenpersóna í franskri skáldsögu en kem því aldrei almennilega í verk, ég kann ekkert á þess háttar, væri ég fleygur fugl væri ég bókfinka, þær velja sér aðeins einn maka   

laugardagur, 14. mars 2015

í millitíðinni

einn daginn mun ég einnig eiga túrkísbláa útidyrahurð á bleikum vegg, þetta er aðeins spursmál um einhverja mánuði, kannski örfá ár, guð vill að ég geri eitthvað smotterí í millitíðinni en svo búmm! ... einn daginn, í dag aftur á móti hefur geysað óveður, á morgun mun sömuleiðis geysa óveður, í millitíðinni horfi ég út um gluggann og sendi þessi öllu fingurinn, opnaði flösku af frönsku rauðvíni upp úr fjögur og heilvaxaði, hvað maður er alltaf sem nýr eftir heilvax! eftir að tappinn fór úr flöskunni skoluðust plönin svo kannski aðeins til, ég hafði hugsað mér að sækja þýska kvikmyndadaga núna klukkan átta en ákvað að betra væri að vinna áfram í franska rauðvíninu og elda lambafille með sveppum og blaðlauk í sítrónu og hvítlauk handa engum nema sjálfri mér, mun ekki reyna að neita því oft í röð að ég stundi mikið við átið, klikkaði vitaskuld ekki á að setja á mig maskara og dálítið af himnesku fíkjuilmolíunni áður en borðhaldið hófst þó ég sé ein heima og enginn til að taka eftir því að ég sé bæði mjög sæt í dag og angi auk þess eins og forboðinn ávöxtur, það er allt í lagi, dylan og  duke og van eru til skiptis í spilaranum svo ég er ekki án vitna, það er einhver andvökuandi í mér þessar næturnar, þetta er orðið verulega spennandi á kvöldin þegar ég fer uppí, stundvíslega klukkan tíu; skyldi ég sofa í nótt? hugsanlega má ég ekki fá mér rauðvínsglas yfir eldamennskunni, hugsanlega er það að gera rúmrusk þarna milli þrjú og fjögur, en suss suss og þey þey, um slíkt viljum við hvorki tala né hugsa, ekki með flösku af úrvals frönsku rauðvíni á borðinu og van að syngja alls kyns loforð um nýjan dag og nýja von, hugsum þá frekar um túrkísbláar hurðar á bleikum vegg, hver veit hvert slík hurð liggur, ef þá ekki inn í nýjan dag og nýja von

laugardagur, 7. mars 2015

úr dagbókarfærslum einfarans

„ ... út um gluggann á kaffihúsinu fylgist ég með fjölskyldufólki á leið upp og niður skólavörðustíginn, hjón með barnakerrur og litlar manneskjur í pollagöllum í eftirdragi, ég segi í eftirdragi af því ég get ekki hugsað mér þetta barnalíf, frelsisskepnan í mér berst um eins og tjóðrað villidýr við tilhugsunina, fyrir aftan mig situr par af þessari sort, konuna kannaðist ég við í gamladaga þegar við vorum menntaskólastjúpids, hún er með börnin sín þrjú með sér, einu sinni var hún svo mikil skvísa að maður varð eins og klessumynd í rigningu við hliðina á henni, núna er hún þreytt og reytt og fær lítinn frið til að drekka kaffið sitt, ég drekk piparmyntuteið mitt og finn að tíu villtir hestar geta ekki dregið mig á þennan stað ... “

frelsifrelsifrelsi, ég þrái ekkert eins heitt og frelsi, þetta andskotans náttúruafl sem djöflast í sálinni á mér og spyr stöðugt: erþettaþaðsemþúþráirerþettaþaðsemþúþráirerþettaþaðsemþúþráir ... tíminn vinnur ekki með mér, tíminn er núna, núnanúnanúna, það má bara nota hann í það sem skiptir máli, ég hef ekkert skrifað sem máli skiptir í fimm mánuði, fimm mánuði! á þessum tíma hef ég gert ýmislegt annað sem ég man ekki einu sinni hvað er! hvað er að mér!?

sunnudagur, 1. mars 2015

af meintum húsnæðismálum hins heimilislausa


engum sem hættir sér til að visítera heimili systur minnar og mágs ( ... sem er reyndar ekki nokkur sála þegar ég hugsa út í það, efalaust hefur það eitthvað með mig að gera) getur dulist það að tengsl mín við fasteign númer 21 á efri hæð til hægri að tröllateig í mosfellsbæ eru farin að valda skráðum eigendum eignarinnar töluverðum óþægindum, orð eins og mara gætu jafnvel flögrað að fólki, það sem í upphafi átti að vera örstutt stopp í aukaherberginu ásamt engu nema leslampa og jú ókei, einhverjum ósköpum af fataleppum – ástæðulaust að klæða sig eins og heimilisleysingi þó tæknilega teljist maður til þess auma samfélagshóps – hefur nú (fleiri árum síðar en ég kæri mig um að gera opinbert) breyst í hústökumál af svæsnustu sort, illa duldu með alls kyns yfirbreiðslum um að „ég sé svo dugleg að moppa gólfið“ (hið rétta er að umrætt gólf er eilíflega þakið hárum af mínum eigin hundi auk þess sem það stórsér á því eftir ágang okkar ferfættlingsins) og „svo dugleg að elda alltaf líka“ (sem ég og geri við og við, þó ekki öðruvísi en þannig að ég þröngvi mínu eigin sérviskulega mataræði uppá ábúendur sem spyrja sig í örvæntingu hversu mikinn fisk til viðbótar ein hjón geti afborið) og „það sé alltaf allt svo fínt og strokið“ (getur verið en á móti kemur að bæði þvottavél og þurrkari hafa verið að gefa sig og uppþvottvélin líka að mig minnir ... hugsið ykkur, að mig minnir ... hvað ég er samviskulaust samviskulaus!), en þetta er þó aðeins smælkið í þeirri svindlarasúpu sem mér hefur tekist að malla óáreitt og beinlínis við töluverðar vinsældir hér á heimilinu því í dag er staðan sú að fólk þarf hreinlega að búa yfir allnokkurri hreyfileikni til að komast á milli herbergja sökum alls mögulegs mublukyns sem ég hef sankað að mér á leigutímanum (farið ekki á mis við íroníuna sem skáletrunin á að undirstrika), má þar nefna borðstofusett og sófa og er þá fjarri að allt sé upptalið, athugið að innkaupin hafa ekki verið gerð til að mæta neinni knýjandi þörf eða skorti á innanstokksmunum né neinu viðlíka, eigendurnir að fasteign númer 21 við tröllateig í mosfellsbæ eiga alveg sín eigin húsgögn, mér hefur sjálfri bara þótt svo upplagt að nýta mér tilboð og útsölur og þess háttar sniðugheit til að byrgja mig upp skyldi mér einhvern tíman detta til hugar að hypja mig „að heiman“ (orðalag mitt), það merkilega í málinu er að þolendunum sjálfum, altsvo systur minni og mági (bæði tvö í hópi þess óheppna fólks sem kallast greiðvikið að upplagi) virðist fúlasta alvara þegar þau impra á því í mín eyru og annarra hvað þau séu lánsöm í sambúðinni við nýlenduherrann mig, næstum eins og þau séu þakklát, þetta er sláandi, það er engu líkara en að hin lymskulega yfirtaka mín á heimilinu hafi farið fram með einhverjum undurfurðulega ísmeygilegum hætti – svo ísmeygilegum reyndar að mér sjálfri er eiginlega ógerningur að skilja almennilega hvernig ég fór að – sem leiddi til þess að hægt og hljótt veiktust „varnir heimilisins“ ein af annarri án þess að nokkur maður gerði sér grein fyrir hvers kyns var eða hvað mér gekk til, líkt og ég hafi laumað gasslöngu inn um svefnherbergisgluggann en haft streymið svo veikt að áhrifanna varð ekki vart nema þegar allt var um seinan og „barnið“ – sem hér eru hjón á fimmtugsaldri – löngu sokkið til botns í sínum eigin innsta brunni, sjálf varð ég eins og ég segi einskis vör, þetta virðist vera einhver ótrúlega eðlislægur hæfilæki hjá mér (natural talent) að sölsa svona undir mig yfirráðasvæði þannig að fólki finnist það hreinlega hafa dottið í einhvern raretí lukkupott og megi prísa sig sælt með allt heila geimið, hvað þetta er furðulegt!  

föstudagur, 6. febrúar 2015

spegilmyndin er alltaf ófullkomin í auga þess sem horfir

á föstudagskvöldi í febrúar geysar ofsafengið hvassviðri, kona slysast til að kveikja á ríkisútvarpinu þar sem verið er að leika (líkt og fyrir tilviljun) ofsafengna píanókonserta, í ofanálag hefur hún drukkið – af því maður vill segja satt og rétt frá – eitt og hálft rauðvínsglas, hundurinn sefur (til tilbreytingar), útifyrir fyllast hjólför bílanna af krapkenndri vætu og slyddan á gluggarúðunum býr til bjagaða mynd af því sem fyrir augu ber, myndina ætti maður að geta teiknað upp í huganum eftir minni en það er merkilegt hvað hlutirnir eru fljótir að skolast til í höfðinu á manni, og hvað liggur beint við á slíkum stundum annað en miskunnarlaus naflaskoðun? helsti ókostur einverunnar (sem annars er hinn besti ferðafélagi) eru óþægilegar spurningar – sem kalla þá um leið á óþægileg svör, umhugsunarefni kvöldsins eru dreggjar þess sem kyndað var undir á morgungöngu okkar hundsins undir úlfarsfellinu en undirspil þeirrar ferðar var hugvekja um hlutverk ástarinnar í lífi nútímafólks, mér telst svo til að ég sé þetta nútímafólk þó ég finni mig illa í samtíma mínum, öll umræða um þetta skelfingarfyrirbæri ástina koma mér vægast sagt úr jafnvægi, mér er ekkert um svona tal, það tengir svo beint inn í óttann, og hvað óttast maður? margt, margt, margt og mikið og margvíslegt, kannski mest af öllu öskurapann sem í betri teboðum bæjarins kallast eigið egó, maður óttast fölskvalausa frekjuna á tíma sinn og frelsi, kröfuna um ógnarlanga ól (ef þá einhverja yfir höfuð), alla sína undarlegu og hvimleiðu sérviskur og duttlunga og þörfina fyrir einveru sem satt að segja getur gert venjulegt og vel meinandi fólk í meira lagi ringlað og óöruggt, maður óttast eigin komplexa (sem eru margir og ömurlegir) sem og hina mannlegu tilhneigingu til að klína þeim á þann sem næst manni stendur af þeirri ástæðu einni að í návígi við annað fólk verður einhvern veginn nærtækast að fría sig ábyrgði á því sem – að manns eigin mati – er að fara forgörðum í tilverunni, og herra minn hvað maður er skítlogandi (mér er skítsama hvort það er eitt eða tvö orð) hræddur við nándina, bara orðið eitt er nóg til að það sjái undir iljarnar á mér, kannski er þetta árstíðarbundið, ég veit það ekki, ég er dálítið afgerandi þegar það kemur að árstíðunum enda er ég sólarraflhlaða, ég bendi til að mynda fólki meinfýsislega á það við hvert tækifæri að sama hversu bjargfastlega einhverjir vilji halda í þá tálsýna að það sé kominn febrúar (og þar af leiðandi sé þetta allt að mjakast) þá sé staðreyndin nú samt sem áður sú að það sé bara annar í janúar og að mér af vitandi sé það ekkert til að halda uppá í sjálfu sér, ekki sérlega uppbyggilegt kannski en í það minnsta viðleitni til að vera raunsær ... jafn lygilega úr karakter og það hljómar, þó er ég ekki frá því að ég sé öll örlítið hressari, sjálfsagt vegna þess að barnið mitt á afmæli í lok febrúar og engin leið að bera blak af því að hún er vorboðinn í lífi mínu, ár eftir ár, ég undra mig á því á hverjum degi að mér hafi tekist að ala upp svona vel heppnaða manneskju, jafn hjartahlýja og djúpvitra og fulla af samhyggð og skilningi og vilja og trú, og síðast en ekki síst jafn miskunnarlaust gagnrýna á mig; móður sína, það var ákveðið markmið í uppeldinu að skapa á milli okkar samband laust við meðvirkni og sektarkennd og í sem stystu máli virðist það hafa tekist fullkomlega (klapp fyrir það, kona!), enginn er mér jafn fölskvalaus spegill, ég þakka fyrir hana á hverjum degi og segi sjálfri mér að ég hafi í það minnsta gert eitt rétt í lífinu, það er huggun þegar maður hefur með öllu misst trúna á ástina, eða öllu heldur á sjálfan sig í ástinni af því maður er svo glataður í þeim paktsís öllum saman, sem betur fer reynir ekkert á þetta, það reynir enginn við konu sem hefur komið fyrir skilti á lóðinni sinni með áletruninni trespassers will be shot, og það er fínt, maður slasar þá engan á meðan 

föstudagur, 23. janúar 2015

andalúsía = að anda ljósi

það er janúar, er einhverju við það að bæta? er maður ekki bara alltaf jafn gapandi stúmm yfir þessari  fáránlegu árlegu uppákomu, mér blöskrar alla vega alltaf jafn yfirgengilega þegar síminn vekur mig á morgnana og ég átta mig á að það sé í alvörunni aftur ætlast til þess að ég fari á fætur og komi mér út úr húsi, sem íslendingur ætti maður að geta sótt um bætur til sólkerfisins fyrir að vera mismunað um sjálfsögð lífsgæði sökum búsetu, ég er ekki frá því að þetta hafi hugsanlega haft einhver áhrif á þá ákvörðun mína að eyða mánuði í andalúsíu í sumar, í andalúsíu hefur aldrei neinn dáið úr myrkri eða kulda, þar borðar fólk appelsínur í öll mál og málar húsin sín með birtu (ég er meðvituð um nástöðuna í þessari setningu en nenni ekki að elta við það ólar), þar fyrir utan er leigusali minn, miguel, hinn huggulegasti maður, í það minnsta ef eitthvað er að marka prófílmyndina hans – sem þarf reyndar alls ekki að vera ... en það er aukaatriði, aðalatriðið er að mín físíska staðsetning á hnettinum mun færast í þá átt sem er eðli mínu ... eðlileg skulum við bara segja, ég finn ekki betra orð, ég sé fyrir mér að allt appelsínuátið í bland við þá ofgnótt af sólarljósi sem héraðið býður uppá verði til þess að ég ummyndist í mennskan sjálfhlaðandi ljósgjafa og snúi heim í betrumbættri útgáfu, auk þess las ég mér til um það nýlega að rannsóknir hafi hreinlega fært fyrir því sönnur að ferðalög örvi sköpunargáfuna, enda hef ég fyrir löngu komist að því að mér gengur best að hugsa á hreyfingu, sér í lagi þegar ég sé til við það sem ég er að gera

sunnudagur, 4. janúar 2015

af almennri nekt og hinum albesta ásetningi

enn einu sinni hefur almanakið með öll sín frammígrip og manipúleringar hreyft við yfirskriftinni að tímanum og ruglað með því talnablinda hæggenga sveimhuga og annað berskjaldað fólk með ofvaxið hægra heilahvel, ég fipast á hverjum morgni þegar ég dagset dagbókarfærsluna undir flöktandi kertaloganum og lágum tónum duke ellington (þeim hógværu frumefnum) og verð að stroka út töluna fjóra fyrir fimm – sem er ekki góð byrjun á flæðiskrifum og þeim frjálsu hugrenningum sem miðað er að og maður vonast eftir að ná tengslum við í morgunhúminum áður en meðvitundin tekur með öllu yfir og minnir mann á hvaða dagur er og til hvers er ætlast af manni, mín er vænst í vinnu á morgun (!), mér er orðfátt ... síðustu dögum hef ég varið í nærandi félagsskap hundsins og rásar eitt, þar er hver dásemdin af annarri á dagskrá svo ég klappa og hoppa hérna í eldhúsinu og hrópa „jibbíkóla, maður!“ að hundinum sem satt að segja má ekki við svona æsandi uppákomum, allur uppí loft í taugakerfinu og kemst ekki út að pissa eftir loftárásirnar síðustu daga, sú sena öll leiddi af sér þá niðurlægingu að í nótt fór smá á gólfið, dýrið hefur varla getað horft í augun á mér í dag, það kostaði töluvert tiltal að fá hann út úr forstofunni eftir atvikið, elsku hjartað, ég sannarlega elska hundinn minn, hann telst það allra besta sem henti mig á nýliðnu ári og nú bið ég fólk vel að merkja að ég bæði gaf út mína fyrstu bók og komst til míns heima í parísarborg á árinu sem leið, og hvað hugsar kona nú í upphafi þess sem mannfólkið hefur kosið að kalla ár, að einhverju leyti er ég ákaflega bjartsýn – allt er gott og allt verður gott, að einhverju leyti er ég ákaflega klofin – fyrir þann sem auðveldlega missir sjónar á hugsun sinni (er hægt að taka svona til orða? „að missa sjónar á hugsun sinni ... ?) og þjáist af hliðarverkunum hins ofvirka hugar; er eðlislægt að vaða úr einu í annað og líður stöðugt eins og allir hlutir gerist samtímis á einu og sama augnablikinu og af jafnmiklum styrk, á það ekki góðri lukku að stýra að ætla sér tvenns konar tilvist, annars vegar að sinna sínu starfi af ást og alúð – sem maður svo sannarlega vill, hins vegar að vera sá innhverfi og örgeðja listamaður sem maður svo sannarlega er, einhvern veginn virðist þetta hinn fullkomni veruháttur til að ein manneskja megi framkallast þannig sem best verður lýst með orðunum „úr fókus“, ég skal ekki segja, tarrotspáin býður mér að vinna hvað mest ég má, það er svo túlkunaratriði að hverju skuli vinna, í augnablikinu vinn ég aðallega að því að ná réttu hlutfalli á milli sítrónu og chiliolíu út á basil og tómatapastað, kona þarf að nærast þó hún lesi eins og vitlaus manneskja, og hvað hefur maður lesið, jú, englaryk guðrúnar evu sem flæðir fram eins og þýð og fögur á, ég get helst lýst þessari bók með því að það er einhver ofsalega falleg birta í henni, hlý og elskurík og umfaðmandi, ljóðameistari minn sigurður pálsson olli sömuleiðis ekki vonbrigðum (enda var enginn að búast við því) og tókst með undraverðum hætti að vekja með mér bæði trú á hjónabandið og áhuga á reykjavík sem var en hvort tveggja hefði ég talið algerlega ógerlegt mennskum manni, líkt og í fyrri endurminnigabókunum tveim þykir mér fallegast hvað hann sýnir sjálfum sér mikla væntumþykju og virðir fölskvalaust þá hugmynd að það sé forgangsverk hverrar manneskju að skapa sjálfa sig í eigin mynd, amen, ástarmeistari oddnýjar eirar er eldur í líki orða sem kveikir í líkama, sál og huga svo ekki séu höfð um það fleiri orð! g.e. er svo auðvitað g.e. og við vitum öll hvað það þýðir (sestu og lestu og lærðu að skrifa á íslensku eins og alminnileg manneskja), aðrir sem gista á náttborðinu eru ammrískur pælari um heilahvelin og sköpunargáfuna og elskan mín hann ágústínus, mér fannst tímabært að endurlesa játningarnar svo ég gaf sjálfri mér þær í jólagjöf ásamt suður-ameríska jólakærastanum (athugið, ekki eiginlegur kærasti með bringuhár og typpi heldur risavaxið sjal úr ull og silki sem heldur þétt utan um mig við lesturinn, þetta gerir sitt, maður hefur slakað svo á kröfunum), og kannski er orðið játning einmitt leiðarstef inn í nýja almanakið ... skyndilega átta ég mig á samsetningu orðsins almanak – almennt nakinn ... þetta kallar á gagngera endurskoðun, en já, játningar, altso hreinsandi heiðarleiki í eigin garð, eitthvað kemur skýrleikinn þarna við sögu jafnt sem forvitnin, eitt getur illa án annars verið, og þegar maður hefur tilhneigingu til að týnast í þoku og drunga og hafa ekki áhuga á öðru en því sem er of stórt í sniðum til að mannlegar hendur geti leikið um það svo vel megi vera (ég nefni ástina, tímann, guðshugmyndina, listina, lystarleysið og annað tilfallandi) er eins gott að finna sér ljómandi vörður til að styðjast við á leiðinni frá einum tímapunkti  almennrar nektar til annars, ergo; ég ætla að kaupa mér plötuspilara


*athugið myndbirtingin er villandi, hér er hvergi minnst á brauð, enda borða ég ekki brauð, það fer svo illa í hugsunina, myndin er eingöngu hugsuð í yfirfærðum skilningi, altso sem hugmyndin um að búa til af örlæti eitthvað nýtt sem bæði nærir og gleður