laugardagur, 29. júní 2019

ef heilanum á mér væri stungið inn í MIR skanna á meðan ég horfi á nýja eldhúsið mitt ...

þá liti myndin af honum svona út. nýja eldhúsið er vægast sagt fínt. vægast sagt. mér finnst ég eiginlega þurfa að bjóða öllum heiminum í mat – jafnvel þótt það þýði að ég þurfi að bjóða karókí-nágrannanum líka og leyfa honum að syngja eftir matinn. við höfum mjög ólíkan tónlistarsmekk. fjölskylda mín ber ábyrgð á þessu. þ.e. eldhúsinu. ekki sönghæfileikum og lagavali karókí-nágrannanns. skrapatólið sem ég – með því að beita öllum tiltækum verkfærum jákvæðrar sálfræði – kallaði eldavél og rotnandi rústirnar af ódýrri ikeainnréttingu frá 1993 voru orðin mínum nánustu slíkur þyrnir í sál og huga að þau afbáru þetta hreinlega ekki lengur. það var sama hvernig ég spyrnti við fótum, fólk var fast fyrir. og vildi fórna fé og frítíma og líkamlegri heilsu til að forða mér úr þessum aðstæðum. ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. þetta er vandræðalegt. best að elda bara eitthvað. 

og lesa. vinnu minnar vegna ver ég allt of björtum kvöldustundum í að hámlesa enskar ungmennabókmenntir. afar misgóður litteratúr það. ég væri ekki að þessu ef starf mitt krefðist þess ekki af mér. svo ég geðheilsujafna með ali smith. ef þið hafið ekki lesið neitt eftir ali smith skuluð þið byrja strax. hún gerir svipaða hluti fyrir heilann í manni og nýtt eldhús. pow! ... nú byrjar karókí-nágranninn. nema hann hefur ákveðið að sleppa karókí-undirspilinu í kvöld og er sjálfur að spila á gítarinn. hann hóstar eiginlega meira en hann syngur. þetta er mjög ljótur hósti. hljómar ekki eins og flensuhósti. og passar illa inn í lagið þó mér heyrist þetta vera einhver hippaslagari. kannski reykir hann. hann reykir pottþétt. ég veit ekki til þess að það sé nein flensa í gangi hérna í hitabylgjunni. en hann gæti auðvitað hafað gleypt lúsmý. þau kvikindi er ég blessunarlega laus við. flugur hafa álíka mikinn áhuga á mér og karlmenn. ég vil trúa því að það tengist blóðflokk fremur en lykt. og þó ...  ég hef verið að kvarta undan því við fólk að það sé svo mikil rakspýralykt af nýja sjampóinu að mér líði næstum eins og ég sé með mann í hárinu. kannski það fæli frá lúsmý. og karlmenn, eðlilega. ég hugsa að ég kaupi þetta sjampó ekki aftur. samt er þetta frekar gott sjampó. fyrir utan lyktina. 

... ég snéri þessu við. það er ég sem hef álíka mikinn áhuga á karlmönnum og flugum. ég hef ekkert að gera við svoleiðis í nýja eldhúsið. (hvorugt).