fimmtudagur, 5. júlí 2018

fundið ljóð


þegar ég hef öðlast næga innsýn í eitthvað annað en að safna hári segi ég kannski eitthvað mjög merkilegt. en í augnablikinu held ég mig við orð annarra:

"nothing can happen to one except what is already similar to oneself. till one changes."
tove jansson

mánudagur, 2. júlí 2018

að óloknum slætti



... um hádegisbilið hefur himininn svo gott sem lagst til jarðar og þegar ég ösla yfir mýrlendið undir helgafellinu í hriplekum gönguskóm fæ ég ekki varist þeirri hugsun að stemmingin sé að verða allt að því bíblíuleg. hvern hefði grunað að þvílíka ofgnótt af vatni væri að finna utan furðuheima goðsagna og refsiramma hinnar helgu ritningar? ég hef heyrt undan af því og ofan í radíóinu að það skrifist á bresku þjóðina að sál mín og skófatnaður liggi undir veðraskemmdum en verð að viðurkenna að ég skildi ekki fyllilega samhengið þar á milli. orsakasambönd veðurfræðinnar eru mér hulinn leyndardómur. ég er einföld manneskja. ég reyni að lifa með því sem er. þannig að ef náttúran hagar sér eins og um haust þó almanakið vilji meina eitthvað annað þá reyni ég að láta þar við sitja. maður á ekki að reiða sig um of á hið fyrirframgefna. það endar oftast með vonbrigðum. ... ég er að ræða þetta af meiri yfirvegun en efni standa til. hið rétta er að ég hef stóraukið bætiefnaskammtinn og loftfirrtu lotuæfingarnar. aldrei að sofna á verðinum. mínir andlegu innviðir skynja ekki nema að litlu leyti að orðið hafi árstíðarskipti. en líkaminn virðist ekki velkjast í vafa; það sem að jafnaði vex upp úr hársverði mínum og undan naglabeðunum (og vísindin segja mér að séu dauðar frumur!) sprettur svo undur hratt að grös og trjágróður um rigningasumar eiga ekkert svar. og ég ekki heldur, ef út í það er farið. hvern morgun sest ég upp í rúminu og segi við refinn að þetta geti ekki gengið svona mikið lengur; það er hætt að skipta nokkru hverju ég klæðist fyrir ofan mjaðmabein. en maður má ekki barma sér. í fjarska kasta menn krónu og sparka í bolta. í kjölfarið liggja einhverjir í blóði sínu og tárum. skógar eyðast. börn týnast í hellum og eru lokuð inni í búrum. allt þetta veit ég því á meðan alheimurinn þenst út er heimurinn sífellt að verða minni. ég er að smíða kenningu um áhrif þeirrar togstreitu sem slík grundvallarþversögn skapar í taugakerfi manna. tíminn mun leiða í ljós hvort hún heldur vatni. sjálf hef ég reyndar týnt tímanum. síminn minn neitar að gefa mér réttar upplýsingar í þeim efnum og ég á ekki armbandsúr. mig bráðvantar armbandsúr. armbandsúr sem segir sex því talvan mín er of stór til að ég „beri hana á mér“ öllum stundum. auk þess gengur hún ekki við allt í fataskápnum. sem er viss forsenda. og nú leyfi ég þessu að líða ...