laugardagur, 17. nóvember 2018

blátt gull

ef ég væri frumefni vildi ég vera vatn. mýkt og seigla. þrotlaus framvinda. staðföst yfirvegun. óumflýjanleg einbeitni. jafnvel beljandi fossar og straumharðar ár virðast fara sínu fram án þess að efast eða óttast og af algeru áreynsluleysi. foss einfaldlega verður að falla. áfram. árnar einfaldlega verða að streyma. áfram. og pollarnir - þeir sem ekki fá sig hrært fram á við - þeir seytla niður í grunnvatnið, aftur til upphafsins – eða hleypa ham og gufa upp í himinhvolfið. vatn er eilíf hreyfing. eilíft áframhald. vatn finnur alltaf leið. lausn. vatn dvelur ekki við óþarfa. lítur ekki til baka. og tekur ekki til sín. vatn nærir. skilyrðislaust og án hleypidóma. það sem það sverfur, sverfur það með mýkt og tíma. og langlundargeði. ekki hörku. ekki átroðningi. vatn þarf ekki að sanna sig fyrir einu eða neinu. það einfaldlega er.