laugardagur, 27. desember 2008

þriðji í jólum og tuttugastiogsjöundi í ofáti, desember er hryllilegur mánuður, hvílíkar misþyrmingar á meltingarveginum, mætti í ræktina í morgun og velti því lengi fyrir mér hvaða feita kona þetta væri í speglinum, hét sjálfri mér því að borða ekkert nema ávexti og próteindrykki í dag, einhverra hluta vegna er nú samt stærðar hrúga af machintoshbréfum við hliðina á mér, ég er ein heima og hundurinn hefur ekki fyrir því að fjarlægja umbúðir utan af því sem hann að jafnaði gleypir í heilu lagi svo að öllum líkindum hef ég étið þetta allt ein (þó það ætti að vera handan mannlegrar getu), svona rétt til að æra óstöðugan heldur elskuleg móðir mín á morgun sitt árlega fabulous turkeyparty, til að gera vont verra ætlar hún að bjóða uppá tartalettur með hangikjöti í forrétt, ég er brjáluð í tartalettur með hangkjöti, djöfuls djöfull (ó afsakið þetta var mjög óviðeigandi), vill einhver gefa sig fram og leiða þetta jólalamb til slátrunar!!! allavega þá sé ég fram á að þurfa annað hvort að leggjast inná heilsuhælið í hveragerði með saltvatn í æð eða komast í ristilhreinsun hjá jónínu ben strax eftir áramót ef ég ætla ekki að eiga á hættu að eiginmaðurinn geri alvöru úr því að hlaupast á brott með monicu bellucci, verði honum af því, eins og konur séu eitthvað merkilegar þó þær fitni hvergi nema á brjóstunum, nei nei ég hef engar áhyggjur af þessu enda er viggo mortensen búin að vera í sjónvarpinu þrjú kvöld í röð og ég ekki alveg til viðtals, úúúú nú er hann að slást...hinkriði aðeins

fimmtudagur, 25. desember 2008

allir fá þá eitthvað fallegt...og fallegt var það
kæru lesendur til sjávar og sveita, mínar innilegustu jólakveðjur, megi nóttin hjúpa ykkur í ljúfa drauma, kyrrð og kærleika

þriðjudagur, 23. desember 2008

yndislegt að geta sleppt fram af sér beislinu og fengið útrás fyrir glysgirnina á jólatrénu án þess að eiga á hættu að fólk fari að tala um það sín á milli að maður sé nú ekki alveg réttu megin við mörk andlegs heilbrigðis, glysgirni mín er eitthvað sem fer langt fram úr öllu því sem góðu hófi gegnir þó að dags daglega reyni ég að hemja hana eins og mér er frekast unnt, það væru því hvorki ýkjur né hlutdrægni að segja að ég eigi heimsins fegursta jólatré, fjölskyldan lagðist á eitt við að skreyta en ég held að glimmergullspreyið hafi gert gæfumuninn, fátt er nú eins vel til þess fallið að æra uppí manni jólagleðina og að missa sig með stóran úðabrúsa af glimmeri, ég myndi hreinlega ganga svo langt að segja að það sé beint orsakasamband á milli styrks hátíðarskapsins og magns af glimmeri í manns nánasta umhverfi, best að fá sér aukaskammt til öryggis og hækka í silfukórnum "...það er svo dýrt að halda þessi jól...", ég á nákvæmlega 483 krónur í buddunni minni, ég ætla að biðja jólasveininn um að gefa mér bill gates í skóinn í nótt!!!

eiginmaðurinn hnykkir svo á hátíðarstemmunni með því að skella eðalmyndinni transformers í, ég bíð enn eftir að einhver transformist í engil eða jesúbarn en ég er farin að óttast að þetta sé ekki svoleiðis mynd

sunnudagur, 21. desember 2008

eftir að hafa þrammað það sem jafngildir góðum spinningtíma upp og niður laugarveginn (guð blessi laugarveginn, megi kringlan brenna í helvíti) fann ég loksins nokkuð ásættanlega gjöf handa elskhuganum, og það þrátt fyrir verulegan skort á lausafé og alls, alls ekkert vísakort (ef það er einhver skynsemi í veröldinni fæ ég það aldrei í hendurnar aftur), rann nokkuð blint í sjóinn með valinu enda er nú ekki heimtufrekjunni fyrir að fara hjá þessari elsku, "hvað viltu í jólagjöf ástin?...öööö ég veit ekki... ja bara gott sex...", já ástin mín hefur einfaldan smekk og maður segir nottlega bara skal gert, má bjóða það fyrir eða eftir mat?... held það væri betra fyrir mat þar sem mikil hreyfing oní jólablandsdrykkju og svínakjötsát gæti skilað sér í ógleði og hlaupasting...og ekki viljum við taka á móti jesúbarninu illa upplögð með meltingatruflanir og brjóstsviða,  hjálpi mér nei!!! 

þriðjudagur, 16. desember 2008


eftir að hafa gengið um sífrandi og volandi frá því á föstudag fékk ég loksins í skóinn í morgun, var búin að droppa risahintum í tíma og ótíma og brúka öll nærbuxnatrixin í bókinni en ekkert gekk, skringilega sanslaus þessi jólasveinn, skiljanlega var ég orðin nærri úrkula vonar og komin á fremsta hlunn með að taka þetta mjög persónulega, krían deildi gleði minni af heilum hug og átti ekki orð yfir ruglinu í mér þegar ég spurði hvort henni fyndist ekki líklegast að pabbi hefði stungið ofvaxna machintoshmolanum í skóinn minn, skottan mín útskýrði fyrir mér af innblásnum sannfæringarkrafti að jólasveinninn mismunaði ekki skóm eftir gerð eða stærð og að fagurgrænu hælaskórnir mínir númer 38 ættu alveg sama rétt og aðrir skór í gluggum út um allt land, auk þess væri þetta algjörlega fráleitt að pabbar settu í skóinn, barnið hafði aldrei heyrt aðra eins þvælu!!! í skammdegismyrkrinu skelltum við mæðgur okkur svo á rassaþotu og dáðumst að jólaljósunum, sem betur fer er bróðurparturinn af nágrönnunum sérlega smekklegur og heldur blikkseríum sem valda flogaköstum og sjóntruflunum í lágmarki, þoli ekki þetta christmas in vegas þema sem ótrúlegasta fólki fannst smartasta smart í fyrra, jólaskraut sem hagar sér eins og það sé lifandi gerir mig taugaveiklaða, finnst ég alveg þurfa að setja á mig hlífðargleraugu og hjálm 

þessi jól verða í minnum höfð um ókomna tíð sem fyrstu vísalausu jólin mín (allir lesa þessa línu aftur til að vera vissir um að þeir hafi skilið þetta rétt), jólagjafakaupin búin nema hvað ég er alveg andlaus þegar það kemur að gjöf handa elskunni minni, hvað gefur maður þeim sem langar ekki í neitt, hvernig er hægt að langa ekki í neitt...nema maður sé dalai lama, sem ég get staðhæft um að eiginmaður minn er ekki!!! 


ást er að hlusta á hvort annað, mjááááá

miðvikudagur, 10. desember 2008


ósmekklegi maðurinn í næstu götu er búinn að setja upp í garðinum hjá sér húsasmiðjuleikmynd að helgileiknum sem stendur fyrir dyrum, uppljómaða í einum hrærigraut má líta alla betlehemfjölskylduna ásamt nánustu vinum og vandamönnum, teymi af jólasveinum auk nauðsynlegra fylgihluta (hreindýr, sleðar osfrv) og einn ljótan snjókall til 

það þarf greinileg mismikið til að koma fólki í jólaskap...við fjölskyldan skárum nú bara út laufabrauð, það sem maður er gamaldags

   

mánudagur, 8. desember 2008

sindrandi snjór, hvítur máni á indígóbláum himni, hárið mitt ilmar af piparkökum og húsið mitt af greni...það mætti halda að það væri von á guðlegum gesti

laugardagur, 6. desember 2008

ég er svo sæt eftir klippinguna að það er beinlínis vandræðalegt, villtist því miður á eftir inní musteri djöfulsins, kringluviðbjóðinn, örmagnaðist algjörlega eftir eina ferð í rúllustiganum og óskaði þess að það kviknaði í mér af óskýrðum orsökum eða einhver félli óvænt á mig af efri hæðinni og kremdi mig til dauða, mun ekki stíga fæti inní það hryllingsbæli okurs og andleysis framar, jólainnkaupin munu fara fram í miðbæ reykjavíkur og ekkert nema íslenskt í mína pakka takk!!! 

föstudagur, 5. desember 2008

hjúkk að ég er að fara í klippingu á morgun, það er alltaf svo hressandi að láta annað fólk þvo manni um hausinn, er búin að leifa mér að vera svo hryllilega sjoppuleg alla vikuna að hvoru tveggja samstarfsfólk og nemendur hafa séð ástæðu til að spyrja hvort ég sé örugglega heil heilsu, er reyndar með andstyggðar hósta en það er samt kannski alveg óþarfi að hætta að greiða sér og þvo sér í framan á morgnana, mæta svo í vinnuna lítandi út eins og langt leiddur berklasjúklingur og hræða líftóruna úr saklausum börnum, þessir morgnar eru bara ekki alveg að gera sig, svaf meira að segja yfir mig í fyrradag, rauk út í ofboði og það var ekkert nema heppni sem sá til þess að ég fór ekki í nærbrækurnar utan yfir og sitt hvoran skóinn, mætti of seint í eigin kennslustund með peysuna alla skakkt hneppta, expressjónískt stórslys á hausnum og hafði ekki fengið kaffidropa, ég hefði ekki viljað vera barn í bekknum mínum þann morgunn!!! restina af deginum var vangefna hliðin mín soldið dóminerandi, þoli ekki vangefnu hliðina mína, hún getur verið svo óþolandi ofvirk og áberandi, um daginn lét hún mig labba út úr skóla dóttur minnar með bláu plasthlífarnar ennþá á skónum, þoooooli ekki þegar það gerist, hóstahelvítið hefur líka meinað mér að iðka mínar daglegu líkamsæfingar, sem væri kannski ekki svo hræðilegt ef það væri ekki desember og ég þessi týpa sem er dæmd til lífstíðar til að battla við það hvimleiða vandamál "ofvöxtur í rassgati", þetta er genetískur galli og baráttan því nánast dauðadæmd, en það er þetta með rjúpuna og staurinn...ég hef nú reyndar aldrei skilið það orðatiltæki...


gemmér glamúr!!! þetta er svo dööööölllll.....

miðvikudagur, 3. desember 2008

loksins, loksins hljómar þetta blogg, ef þessi litli spilari hér til hliðar er ekki það sætasta sem maður hefur séð lengi þá ber maður nú bara ekki kennsl á það sem sætt er, ég get ekki öskrað það nægilega hátt í gegnum þennan skjá að lífið væri ekki neitt án tónlistar, ég held meira að segja stundum að maður þurfi ekki ást ef maður hefur tónlist, tónlist er nebblilega eilíf ást, ég til dæmis elska þetta lag jafn mikið í dag og fyrir tuttugu árum, fallegt fallegt fallegt 

þriðjudagur, 2. desember 2008


ó þú fagri...

afsakið...ekki gætiru hætt að kyrkja mig eitt augnablik og hjálpað mér að rifja upp hvernig beri að fjarlægja aðskotahlut úr hálsi...nei allt í lagi, takk samt en ekki manstu í fljótu bragði hversu lengi heilinn getur verið í súrefnisþurrð án þess að varanlegra skemmda verði vart...já ókei... ekki lengur en svo, heyrðu allt í lagi þá...þú þrýstir kannski soldið fastar á slagæðina í smástund svo þetta gangi hraðar...þetta er flott, takk

mánudagur, 1. desember 2008

eftir langt samtal við dökkhærðu konuna í baðherbergisspeglinum hef ég ákveðið að kyngja vaxandi kvíðabólgunni í hálsinum og treysta því að hún verði að engu í meltingunni, brotin til mergjar af úlfgrimmum magasýrum og næstum líter af kaffi, ég klæði mig í brynjuna, þéttofna ullina og fer með blessunarbæn til handar íslensku sauðkindinni í huganum, hengi krossinn um hálsinn og þakka guði lífið í æðunum og ástina í hjartanu, finn hvað fingurgómarnir eru ískaldir og ná ekki taki á heiminum, smyr brosinu á mig með varasalvanum og bíð eftir að vindurinn ýti mér út götuna í fangið á skrímslinu sem býður í myrkrinu, bíður og urrar, gnýstir tönnum og sleikir útum, jafn óumflýjanlegt og minn eigin andadráttur sem kemst ekki niður í brjóstholið heldur situr fastur rétt fyrir ofan dældina milli bringuspalanna, ég skil sverðið eftir heima, bind upp hárið og legg allt mitt traust á kærleikann og himininn...  


laugardagur, 29. nóvember 2008


hér til hliðar hef ég komið fyrir lógói bloggandi hundaeigenda, allir sem einhvern tíman hafa átt hund vita að það er staðreynd að sumir elska mann einfaldlega miklu meira en aðrir, enginn er eins glaður að sjá mig og brosir jafn breitt til mín þegar ég kem heim úr vinnunni og minn afspyrnu óþekki hundur, það getur ekki verið einfalt fyrir lítinn vart meðalgreindan hund að þróa með sér mennskt bros en svona eru nú ótrúlegustu hlutir gerlegir þeim sem hefur trúasta hjartað, hundurinn minn er mjög langt frá því að vera fullkominn, hann þjáist til dæmis af hentisemis heyrnaleysi og aðskilnaðarótta á mjög háu stigi, er stelsjúkur á mat sama hvort hann er uppá eldhúsborði eða í hendi dóttur minnar og er algjörlega frá sér af afbrýðissemi út í manninn minn, hann getur alls ekki sætt sig við að ég skuli með glöðu geði kyssa þennan illa séða keppinaut með opin munninn en hann sjálfur fái svo selbit á trínið þegar hann biður um sömu atlot, manninum mínum er sömuleiðis verulega í nöp við litla andfúla hnoðrann minn sem honum finnst óþolandi uppáþrengjandi og athyglissjúkur, eins og gefur að skilja er þetta nokkur spennuvaldur á heimilinu og ekki hjá því komist að einhver fari öðru hvoru í fýlu, oftast eiginmaðurinn, hundar hafa ekki vit á því að fara í fýlu, ég myndi telja það einn af þeirra stærstu kostum


djöfull er þetta lið sætt, einhver myndi sjálfsagt reyna að halda því fram að þær hafi þetta allt frá föður sínum þar sem þær eru ekki sammæðra...bull og kjaftæði segi ég nú bara

fimmtudagur, 27. nóvember 2008

ljós í myrkri, magakveisa á undanhaldi og nokkrar líkur á að úrvinnsla magainnihalds verði með eðlilegum hætti á morgun, síðasta sólarhringinn hefur átt sér stað fullmikil hreinsun í þörmum, mikil ósköp sem manni getur leiðst á klósettinu, drep tímann með því að reikna út þann gífurlega kaloríufjölda sem ég verð að innbyrgða um helgina til að vinna upp tap síðustu daga, ég er ekki viss um að útreikningarnir séu mjög nákvæmir svo ég ákvað að hafa útkomuna soldið ríflega, ekki getur maður farið að missa vigt!!!, kannski maður geti mætt í ræktina á morgun án þess að lenda í einhverju virkilega vandræðalegu, annars er ég að spá í að slaka aðeins á í lyftingunum, þessir axlavöðvar eru farnir að ná út fyrir allt töff, fólk gæti farið að kalla mig boris the butch og teikna af mér skrípamyndir, ég myndi auðvitað ekki taka það neitt persónulega, þetta væri bara svo leiðinlegt fyrir manninn og börnin 

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

ég finn engin orð til að lýsa því hversu mikið mig langar í þessa köku...

...ég gæti líka alveg hugsað mér smá svona húsmóðurafslappelsi...

...en maður er nú bara með magakveisu og meterslangar táneglur, finn ekki helvítis klippurnar

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

hann nennti ekki að setja í uppþvottavélina, ef þetta heldur svona áfram verð ég að gefa honum alla diskana með írafár í jólagjöf
er að skríða saman eftir að hafa sigurrósað yfir mig á sunnudagskvöldið, afþakkaði ekki alveg ókeypis kampavínið í eftirpartýinu því það hefði verið svo mikill dónaskapur og svo er ég algjörlega ósammála þessu bulli um að freistingar séu til að standast þær, virkilega lélegur frasi sem er bara fyrir megrunarfíkla og kynferðislega frústrerað fólk, er búin að vera í verulega afleitu skapi í dag, guð veit hvers vegna, ekki veit ég það, það er með sjálfsþekkinguna eins og svo óskaplega margt annað, maður veit bara ekki rassgat í sinn haus, maður telur sér trú um að maður sé alltaf í svo svakalega mikilli þróun, alltaf að vaxa svo geysilega þarna inní sér, hlúa að sprotum og vökva viðkvæm blóm, obbosleg gróska í gangi, en svo er maður nú bara alltaf einn þarna einhverstaðar úti á reginhafi á lélegum árabát, klórandi sér í hausnum með allt niðrum sig og sér ekki til lands, en best að tapa sér nú ekki í sjálfsgagnrýninni, tók the color iq test á netinu og fékk nánast fullkomna einkun, ekki nema átta vitlausa af 100, ef þetta hefði verið the simple test in being rational hefði ég kannski fengið átta rétta (með töluverðri heppni og við bestu hugsanlegu aðstæður, extra skammti af lýsi og smá svindli) rosalega er maður mikið betri í sumu en öðru, stundum held ég að ég hljóti að vera misþroska, ætli það sé hægt að fá lyf við þessu, eitthvað sem má drekka oní, nei djók...eða eitthvað  

föstudagur, 21. nóvember 2008

heeeeelgiiii, klárlega besti partur vikunnar, þarf reyndar að rífa mig upp eldsnemma til að horfa á kríuna keppa í langstökki sem að hennar sögn er "ógisslega erfitt", mótmælum svo öll meira og hærra á morgun, kannski kemur guð þá með risastóran refsivönd og flengir þessa ríkisstjórn sem fær borgað fyrir að vera með athyglisbrest og alzheimer, þrátt fyrir að föðurlandið liggi svo gott sem á gjörgæslu er ég að komast í jólaskap extra snemma, ég verð orðin eins og upptendraða hreindýrið í garðinum hjá nágrannanum um miðja næstu viku ef þetta heldur áfram og ellý og vilhjálmur verða klárlega komin á fóninn mjög fljótlega... og silfurkórinn maður, guðdómlegt

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

labbaði í vinnuna í grenjandi rigningu, labbaði heim úr vinnunni í grenjandi rigningu, í millitíðinni gerði ég eitt og annað misskemmtilegt eins og til dæmis að eiga við ljósritunarvél sem vill bara flækja pappírinn en ekki ljósrita á hann (fyrir leikmenn bendi ég á að þetta er ekki það sem ljósritunarvélar eiga að gera), þegar heim var komið tók svo við að rífast við símafyrirtæki sem hótar mér lögsókn og ýmsu öðru miður fallegu, mér finnst reglulega ljótt að láta svona við vammlaust fólk svona stuttu fyrir jól, sumir þurfa greinilega að fara að æfa sig í kærleikanum ef þeir ætla ekki að verða illa úti þegar jesú og jólasveinarnir og allir vinir þeirra bjóða í sitt árlega desemberpartý, what goes around comes around you bastards!!! pizzafyrirtæki byggja sinn bissness á dögum eins og þessum, hver getur tekið skynsamlega ákvörðun um hvað skuli hafa í matinn eftir aðra eins röð andstyggilegra atvika, ýmislegt annað gekk líka illa, eins og til dæmis að æfa sig í að setja ekki í brýrnar, ég er virkilega að reyna að hætta að setja í brýrnar vegna þess að hrukkan milli augabrúnanna er að verða það sem fólk tekur fyrst eftir þegar það heilsar mér (not the first impression i am aiming for), þrátt fyrir mínar farir mjög svo ekki sléttar ætlar los husbandos að fara á nördakvöld og skilja mig eftir eina með barn sem vill bara svara mér með þriggja stafa einsatkvæðisatviksorði, eru þetta ekki kjöraðstæður til að reyna að drekkja sér í eldhúsvaskinum, það er að segja ef maður kæmist að honum fyrir drasli    

mánudagur, 17. nóvember 2008

þetta veðurfar er ekki að gera neitt fyrir geðheilsuna, í fyrsta skipti frá því að ég fór að þykjast vera fullorðinn er ég glöð með að jólaljósin séu komin upp fyrir fyrsta desember, svakalega verður maður þreyttur í þessu myrkri, og villtur...í hvaða átt eru réttar ákvarðanir?

föstudagur, 14. nóvember 2008


ég get svarið fyrir það, miðað við hæfni mína í indverskri matargerð mætti ætli að ég tilbæði kýr og státaði af yfirburðafærni í karma sutra, maður er nú kannski ekki alveg svo exotískur en ég er þó ekki frá því að mexíkóski bjórinn hafi kynnt soldið undir greddunni í eldamennskunni, ég elda auðvitað aldrei öðruvísi en allsber með svuntu og uppsett hár í bleikum hælaskóm, ef einhver segist hafa séð mig hundsveitta í leikfimigallanum með maskaraklíning og sósuslettur í hárinu þá er sá hinn sami illa innrættur og samviskulaus lygari, en á morgun þarf the kitchen goddess að mótmæla, ég skil samt eggin eftir heima, glætan spætan að ég tími að sóa þessum tveim sem ég á í þetta amatörapakk á þingi,  ó nei ég ét mín egg sjálf með extra miklu beikoni og amerískum pönnukökum (það sem maður er alþjóðlegur í eldhúsinu!!!) þó það sé vissulega bjargföst trú mín að sá sem eigi ást í hjarta þurfi ekki mikið annað en súrefni og kannski slettu af skyri, harðfiskbita og góða lopasokka 



miðvikudagur, 12. nóvember 2008

kannski maður horfi á kiljuna, þreytist ekki á því að hlæja að hárinu á agli helgasyni, hann yrði mitt fyrsta val í hlutverk arthúrs konungs ef ég væri að sviðsetja excalibur sem óperu, kannski páll baldvin gæti bara verið lancelot...

í dag fór ég í sjóferð, fékk fisk í soðið, varð kalt, var asnaleg í björgunarvesti með hjálm, fann lykt af slori, fékk hláturskast, fékk klígju, fann til samúðar með dauðum fiskum, drakk sterkt kaffi, talaði of mikið í síma, talaði við hundinn, sofnaði í öllum fötunum, svæfði kríu mína, borðaði með elskunni minni, passaði uppá fimm á dag, drakk tvo lítra af vatni, hlustaði á góða vinkonu, hlustaði á nick cave...og þetta er allt í lagi, guð er á himnum, fiskurinn í sjónum og hendin þín innan seilingar

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

ætli maður yrði ekki handtekinn af jakobi frímanni og hreinsunareldinum fyrir að fara svona í sleik um hábjartan dag á miðjum laugarveginum, hvað er sá maður að meina með þessum sólgleraugum við öll tækifæri, er hann með rosalega slæmt mígreni eða er men in black bara uppáhaldsmyndin hans, ég verð alltaf svo keleríissjúk á þessum árstíma, hlýtur að vera myrkrið, ég þarf nú samt ekkert að óttast að verða handtekin fyrir blygðunarlaust athæfi á almannafæri, við elskulegur eiginmaður minn erum búin að vera saman í níu ár og hann á ennþá töluvert í land með að geta haldið í hendina á mér utandyra, honum finnst miklu betra að halda á poka eða bíllyklum, hendur í vösum er samt best, það fer örugglega enginn að fetta fingur út í það að maður gangi um með hendur í vösum, vont fyrir svona prúðan mann að eiga svona káfsjúka konu, síklínandi sér utaní hann við öll tækifæri óumbeðin og  án nokkurs tillits til aðstæðna, ég er samt alveg hætt að taka þetta persónulega...eins og svo margt annað 

laugardagur, 8. nóvember 2008


eru ekki allir komnir úr nærbuxunum...eða er ég ein 
um að vera svona lausgirt, elska þennan gæja alveg

þá er maður búinn að mótmæla, henti samt engum eggjum í alþingishúsið enda var mér kennt að maður eigi að borða matinn sinn og finnst þetta hálfgert bruðl með matvæli, hvað varð um gamla góða gjallarhornið, spreybrúsann og persónulegar móðganir: "geiri feitabolla" "árni bólufés", nei djók, það er auðvitað miklu málefnanlegra að kasta eggjum eða allavega ógeðslegra að þrífa þau af 

jesús kristur! ragnhildur steinunn er í sjónvarpinu að strjúka gúrku!!! á þetta ekki að heita fjölskylduþáttur

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

hún jen á my polaroid blog tók þessa mynd í dag og setti á bloggið sitt undir yfirskriftinni "hope is here", mér finnst þetta fallegt, til hamingju heimur 

þriðjudagur, 4. nóvember 2008


heimilið er í heljargreipum, uppþvottavélin gafst upp á lífinu og fjölskyldumeðlimirnir breyttust skyndilega allir í svín, beljur og ketti sem öll segja "ekki ég" og skima eftir litlu gulu hænunni sem virðist hafa flúið land með bankaglæponunum (klár stelpa), maður áttar sig engan veginn á umfangi eigin leirtaus fyrr en það er allt mætt upp á borð drulluskítugt og illa lyktandi, svakalega hef ég vanmetið skápaplássið í eldhúsinu, ég verð alveg máttlaus upp að öxlum við að horfa á allt þetta subbudrasl, get ekki hugsað mér að vaska upp, tilhugsunin ein nægir til að beina blóðflæðinu öllu niður í fætur og ég finn mig tilneydda til að fara út að hlaupa í staðinn, miðað við slagveðrið þarna úti mætti ætla að ég væri haldin dauðaþrá, hundræfillinn mændi á mig með skelfingarsvip og barðist við vindinn, hundurinn minn er myrkfælinn með eindæmum og í þokkabót stórkostlega hræddur við snöggar hreyfingar, tré í vindi geta t.d. verið sérlega ógnvekjandi, ég aftur á móti óttast hvorki myrkur né votviðri, öðru máli gegnir um þessa vömb sem ég er að fá, djöfull er það skerí fyrirbæri!!!

sunnudagur, 2. nóvember 2008


sunnudagsmorgun í draugahúsinu og enginn nennir á fætur nema ég, ekki einu sinni hundurinn, "hlýtur að vera rigningin" hugsa ég með mér og drekk extra mikið kaffi, svaf samt illa í nótt, líklega vegna þess að  ég át yfir mig af bestu pizzu í heimi í gær (ala moi) og frekar gómsætri döðlukaramelluköku (ala husband), uppskar endalausar martraðir um fólk með svínshausa sem ég held að sé nú bara tilviljun þó pizzupæjan og bakaradrengurinn telji hvorki bjóra né hitaeinigar á laugardögum, bram stoker skrifaði víst dracula upp úr martröð sem hann fékk eftir að hafa étið yfir sig af humri, já já ef það þyrfti ekki meira til en að éta yfir sig til að vekja í sér skáldið þá er ég nú hrædd um að þessi stelpa væri nóbelsverðlaunahafi              



miðvikudagur, 29. október 2008


þurrkabletturinn á kinninni sem var eins og færeyjar er orðin eins og sovétríkin fyrrverandi í þessari veðráttu, það er ekkert fyndið við að ganga um með hreystur í andlitinu, er búin að vera að spá í að senda henni ásdísi rán beautyproblemsolver á monitor smá línu en ég held samt að hún myndi bara segja mér að fara í brjóstastækkun (hvað er þessi dama eiginlega að drekka á fastandi maga!!!), er búin að kaupa hundrað rakakrem (eitt sem líkist ískyggilega smjöri) og daman í snyrtivörubúðinni lofaði mér að þetta myndi hverfa hraðar en gjaldeyrisforði íslendinga en ég held nú samt áfram að líta út eins og fiskakonan í sirkusnum, og já ég veit að maður verður líka að vökva húðina innan frá og er búin að þamba fleiri flöskur af hvítvíni og það breytti nákvæmlega engu!!! næsta skref er að panta tíma hjá húðspesíalista, ég ætla að mæta í öllu bleiku svo hann átti sig á að ég tek þetta mjöööög alvarlega


bauð jóni kalman uppí með mér eina ferðina enn...djöfuls drusla get ég verið


af hverju hefur mér aldrei dottið í hug að setja blóm á kökur??? ég sem er nánast marie antoinette endurfædd!!!

eftir tveggja nátta veru í stelpusumarbústað var ógisslega gott að koma heima og sofa hjá strák, enn eitt ráðið í kreppunni, meira sex meira sex meira sex... og heimabakað með blómum 
miðað við þetta dagatal verður 2009 mjög fallegt ár, alveg að koma mánaðarmót, rétt upp hend sem er skítblankur, var næstum búin að fá peningapaníkkast í dag út af einhverjum stýrivöxtum og vitleysu og öllu þessu þið vitið, ég með yfirdrátt og vísapísareikning og er ógeð léleg í að halda utan um kreditnóturnar, þær bara fokking vaxa í veskinu, svo kemur yfirlitið og að fara yfir það er svona eins og að reyna að muna eftir fylleríinu sem allir eru búnir að segja manni að hafi verið geeeeðveikt gaman og maður fór víst á kostum í að prumpa á kerti og leika  dolly parton og guð má vita hvað, en maður man ekki neitt nema manni rámar kannski svona eitthvað í að hafa tekið islands in the stream með kalla vin sem er rooooosalega laglaus, en nei, nei og aftur nei, ég tek ekki þátt í múgæsingu, ég pissa ekki í buxurnar af ótta þegar davíð byrtist á skjánum, stóísk ró er það sem þarf að æfa, ætla að verða meistari í súpugerð og brauðbakstri, poppa dæmið svo upp með kertum og spilum og hugsa nógu mikið um alla sem hafa það virkilega skítt, segja svo takk góði guð, takk 

mánudagur, 27. október 2008


út er komin glæpasagan "dauði krúttsins" eftir hval gunnarsson, í reykjavík nútímans gengur maður með minnimáttarkennd um og myrðir unga listamenn, fórnarlömbin eiga það sameiginlegt að hafa öll verið kyrkt með eigin lopapeysu, bókin er yfirfull af sleggjudómum, klisjukenndum persónum og lausum endum, afspyrnu léleg bók sem þú mátt alveg missa af

sunnudagur, 26. október 2008


æææ hvað allt var miklu betra þegar við vorum öll um það bil að drepast úr fuglaflensu en ekki fátækt, ég fyrir mína parta var alveg búin að gefa það frá mér að ná fertugsaldrinum þar sem ég nærist að mestu á fiðurfénaði, hvað varð eiginlega um blessaða fuglaflensuna, þá alheimsvá? hætti hún kannski bara að vera í fréttum, getum við ekki bara líka hætt að hafa kreppuna í fréttum og þá hverfur hún (ég er mjög mikið fyrir patentlausnir), ég held í alvöru talað að það sé svakalega heilsuspillandi að horfa of mikið á fréttir þó flestum þyki það mikil dyggð og einkenni á öllu almennilega þenkjandi fólki sem láti málefni samfélagsins sig miklu varða, strumpaprump segi ég nú bara, fyrir það fyrsta þá treysti ég þessu fjölmiðlaliði sko ekki fyrir horn og í öðru lagi þá verður maður bara snarvitlaus af því að horfa á endalausar heimsendaspár, sjáiði bara ameríkana, þar er ekkert í fréttum nema glæpir og fyrir vikið drepur þetta lið hvert annað af minnsta tilefni, ég vil fá nýjan fjölmiðil sem segir bara fréttir af starfi á leikskólum, lífrænni ræktun á sólheimum og góðhjörtuðum skátum sem fara út í búð fyrir gamalt fólk og slá hjá því blettinn, annað hvort það eða fá aftur eintómar fréttir af dauðum fuglum í austurlöndum

miðvikudagur, 22. október 2008


tók smá sprett í fjörunni áðan, verð að kaupa mér stífari aðhaldsbrjóstarhaldara

þriðjudagur, 21. október 2008

the urban bush woman skellti sér í hamflettingu og getur ekki hætt að dást að eigin handakrikum, sjaldan líður manni nú jafnvel og eftir gott vax, annars er sú almenna viðurkenning sem hærðir handkrikar njóta á ítalíu enn eitt atriðið til að bæta á "rök fyrir flutningum til flórens" listann minn, ef maður ætlar á annað borð að búa við spillingu, opinbera óreiðu og ríkisstjórn fulla af silly vanillies þá er allavega skárra að það sé einhvers staðar þar sem veðráttan neyðir mann ekki til að dúða sig þar til maður líkist meir loðfíl í yfirvigt en þokkalega huggulegri kennslukonu í kjörþyngd, forza italia!!!

mánudagur, 20. október 2008


ammælisdrengurinn eldist aldeilis vel, til hammó með ammó elskan

sunnudagur, 19. október 2008


búin að liggja eins og afvelta skjaldbaka á örorkubótum í bælinu í allan dag og lesa livingetc, sprakk á limminu inní eymundson í gær og braut "engin interiorblöð" sparnaðarregluna, sagði sjálfri mér að ég gæti bara étið haframjöl út vikuna í staðin, einmitt!!! fékk tryllingslega skemmtilegar konur í mat í gær og við misstum okkur í grúppíukasti dauðans yfir páli óskari, eiginmaðurinn fylgdist þögull með en lét vera að benda okkur á að þetta væri kannski ekki mjög töff, framundan er síðasta vinnuvika fyrir níu daga vetrarfrí (ooooog öldu), best að eyða því í að upphugsa ótrúlega ódýrar jólagjafir og læra að prjóna...hvernig var þetta nú aftur með neyðina og naktar konur

föstudagur, 17. október 2008


föstudagskvöld, ætli maður leggi ekki vængjunum yfir helgina og losi um kennslukonuhnútinn, dragi fram silfurlita jazzballettsamfestinginn og ennisbandið í stíl, taki powerslide á eldhúsgólfinu og hækki í græjunum...chichitita you and i know, that the sun is still in the sky and shining above you, og ekki lýgur abba, við mæðgur tókum föstudagssnúning í stofunni á nærbuxunum og létum eins og við sæjum ekki sófakartöfluna ranghvolfa augunum, það er bara ekki öllum gefið að missa sig fyrirvaralaust í taumlausum dansi svo maður minnist nú ekki á þá list að mæma sannfærandi, mæm er vanmetið listform sem hefur nánast hvergi notið verðskuldaðra vinsælda nema meðal dragdrottninga, við nærbuxnadrottningarnar höfum náð slíkum árangri í þessari list að orð eins og fullkomnun væru vel viðeigandi , britney mín step aside!!! en þó ég sé nánast að breytast í lao tse í þessu kreppuástandi (slík er nægjusemin, þakklætið og gleðin yfir hinu smáa, þið hljótið hreinlega að heyra hvernig stirnir á mig) þá er ekki laust við að gamlir djöflar tylli sér á hægri öxlina á mér annað veifið og orgi eins og karíus og bakktus forðum; við viljum interiorblöð, við viljum skó, við viljum til berlínar!!! og í augnablik berst ég við löngunina til að fleygja mér í gólfið grenjandi og öskrandi eins og frekur krakki í hagkaup, buguð af óréttlætinu og svínaríinu, en svo bara hristir maður af sér helvítis vælupúkann og andar að sér öllu þessu ókeypis lofti, þambar þetta ókeypis vatn og blastar abba upp úr öllu valdi...you´ll be dancing once again, like you did my friend, sing a new song chichitita, látiði ekki svona, syngiði með þetta er ekkert svo hallærislegt   
 
...og fólkið reikaði um götur hinnar föllnu borgar hrópandi í angist: hvar eru peningarnir mínir!!!??? hvar eru peningarnir mínir!!!???

mánudagur, 13. október 2008


eftir allt og allt þá getur maður ekki annað en verið dáldið glaður, dáldið þakklátur fyrir allt þetta sem maður á og fær ekki fingur á sett, dáldið viss um að maður sé aldrei neitt nema bara þetta sem maður er, bara manneskja...  i´ve got my arms i´ve got my hands, i´ve got my fingers got my legs, i´ve got my feet i´ve got soul i´ve got my liver, got my blood...

er það bara ég eða er óvenju mikið af bankaauglýsingum í sjónvarpinu, það er asnalegt, helgi seljan er líka asnalegur, vont að finna sig sammála forsætisráðherra með eitthvað þó það séu jafn mikil alheimssannindi og að helgi seljan sé óþolandi
 
í komandi hörmungum óska ég einskis frekar en að geta hlegið að sjálfri mér, geta tekið gagnrýni án þess að fara í vörn og um fram allt ekki taka neitt persónulega, ég ætla að vera mjög ópersónuleg kona í notuðum skóm með ekkert vísakort...ég hætti samt aldrei að drekka, aldrei!!!

 

föstudagur, 10. október 2008

verður maður ekki að segja eitthvað um stóra gjaldþrotamálið, og hvað á manni svo að finnast um þetta allt saman, ætli það sé ekki best að nota þessa katastrófu sem rök fyrir því að ég hafi í raun alltaf verið mjög skynsöm í peningamálum, langbest að eyða þessu drasli um leið og maður fær útborgað því maður veit aldrei hvað verður, ég hef ekki látið þetta ástand trufla mig að neinu marki en í morgun sló niður skelfilegri hugsun í mínu litla höfði;

ætli það geti orðið vöruskortur í skóbúðum???

sunnudagur, 5. október 2008



loksins, loksins er ég laus við ljóta bláa litinn á linkunum mínum (muniði þessi sem kom með appelsínuklukkunni), gat að vísu bara stillt aftur á þennan mosagræna sem er á default en guð hjálpi mér allt er betra en þetta æpandi kóngabláa helvíti, meiddi alveg í mér augun,  þessi græni fer nokkuð vel við haustið, alveg ágætur bara er það ekki, ég get þá loks sofið róleg, it´s been a long and painful walk, það er erfitt að vera svona sensitívur í ljótum heim

föstudagur, 3. október 2008



ókei ég tek til baka allt þetta sem ég sagði um október hérna fyrir neðan!!!

miðvikudagur, 1. október 2008


...langar líka út, það er kominn október, október er svo haustlegt nafn, enda líka eini haustmánuðurinn, september er hvorki fugl né fiskur og í nóvember er bara kominn vetur, væri ekki dásemd ef allur október yrði eins og dagurinn í dag, held ég sé að lifna við, systa besta ætlar að koma í kvöld og hnoða í mig lífi, ef ég er heppin kemur hún með stro eða verulega gott koníak, eitt er gott við að vera veikur, maður getur vaknað með kríuskottinu í rólegheitum, klætt hana í fallegu haustpeysuna og kysst bless í dyragættinni og sagt henni að hún megi labba beint heim eftir skóla, engin frístund, bara koma heim og kúra með mömmu, skotta labbar sæl í skólann og ekkert  vesen, engin hlaup og "flýttu þér" og "nei ég get ekki hjálpað þér í sokkabuxurnar ég er að verða of sein" og rjúka svo út á undan öllum með ömurlega samvisku

 á borðinu er risavaxinn verkefnabúnki sem bíður þess að ég fari yfir hann, ég er að hugsa um að kveikja í honum 


í dag langar mig sjúklega að baka köku...




þriðjudagur, 30. september 2008


hvað á maður að gera á mánudögum núna þegar þetta er búið
ég held í alvörunni að ég sé að deyja, ef ekki úr flensu þá úr sjálfsvorkunn, blóm og kransar eru ekki afþakkaðir, engin ástæða til að hafa ljótt í kringum sig þó maður sé dauður, það er eiginlega eins gott að ég drepist því annars verð ég örugglega rekin úr vinnunni, sé ekki fram á að geta mætt á morgun heldur nema ég komist undir heilandi hendur eða finni hinn helga gral, ég ligg með nefið klesst upp við stofurúðuna og horið klínist út um allt, svo falleg birta þarna úti, langar út að safna laufum, heimilið lítur soldið út eins og þessi fjölskylda þurfi að fá aðstoð frá féló, ógeðsleg lykt af borðtuskunni og allt í snýtubréfum, húsmóðirin liggur í tölvunni með drulluskítugt hár og pallurinn er þakinn hundaskít, svona til að auka dáldið á eymdina vaknaði ég með bólu og datt svo í að skoða strandmyndir af súpermódelum í einhverju helvítis tímariti, ég hlýt að vera með vírus í höfðinu, ég þamba grænt te og pissa meira en nautið í búkollu, ekkert til að éta í dag heldur, eiginmaðurinn er ekkert að storma heim í hádeginu með bakaríisbakkelsi og hóstasaft, hann er í vinnunni og það er mjög mikið að gera, hann má ekki vera að þessu, hann er í vinnugallanum og með fullt af verkfærum og svona, nú gæti ég tekið þetta persónulega og sett dramatíkina í overdrive:  (ekkasog) "að elska þig er eins og gróðursetja blóm í freðna jörð" (skellt á), en nei nei mín er bara pollróleg og hitar dós af gulu korni og gulrætur frá því í gær, skellir sér í sófann og safnar támyrju, múhahahaha...can´t touch this