laugardagur, 17. nóvember 2018

blátt gull

ef ég væri frumefni vildi ég vera vatn. mýkt og seigla. þrotlaus framvinda. staðföst yfirvegun. óumflýjanleg einbeitni. jafnvel beljandi fossar og straumharðar ár virðast fara sínu fram án þess að efast eða óttast og af algeru áreynsluleysi. foss einfaldlega verður að falla. áfram. árnar einfaldlega verða að streyma. áfram. og pollarnir - þeir sem ekki fá sig hrært fram á við - þeir seytla niður í grunnvatnið, aftur til upphafsins – eða hleypa ham og gufa upp í himinhvolfið. vatn er eilíf hreyfing. eilíft áframhald. vatn finnur alltaf leið. lausn. vatn dvelur ekki við óþarfa. lítur ekki til baka. og tekur ekki til sín. vatn nærir. skilyrðislaust og án hleypidóma. það sem það sverfur, sverfur það með mýkt og tíma. og langlundargeði. ekki hörku. ekki átroðningi. vatn þarf ekki að sanna sig fyrir einu eða neinu. það einfaldlega er.   

mánudagur, 10. september 2018

líðandi stund er gæðastund ef hún er lestrarstund en annars aðeins tómt stress (minnisblað frá dyngju drottningar)


ég gleymdi að kaupa vekjaraklukku. aftur. frá því að ... hvar á ég að byrja þessa frásögn? frá því að ég áttaði mig á því að gamli síminn minn, sem ég þurfti að taka aftur í gagnið eftir að nýi síminn varð fyrir óhappi, er ófær um að fylgja takti tímans? eða frá því að ég missti nýja símann í salernið á gistiheimilinu á stokkseyri í útskiftarferð nemenda minna sem gerði það að verkum að ég varð að „leita á náðir“ gamla símans sem hvorki vill gefa frá sér hljóð né veit hvað tímanum líður? hvorugan hef ég efni á að láta gera við og því er sem er; mig vantar vekjaraklukku! jafnvel þótt ég vakni yfirleitt af sjálfsdáðum milli sex og hálf sjö þá hefur þessi reynsla mín af „gangverki tímans“ gert mig (í besta falli) skeptíska á alla tímateljara heimsins – þar með talið mína eigin innbyggðu líkamsklukku.

en. let us not despair! nægjusemi mín og færni í að „elda út úr skápunum“ er slík að ef ekki væri fyrir þær stórkostlegu fjárhæðir sem ég eyði í bætiefni (lífrænt túrmerik, hveitgras, e-vítamín, d-vítamín, spirulina, zink, selen, meltingagerlar, omega-allt, grape seed extraxt, liðir, þaratöflur - þetta er máltíð út af fyrir sig) þá væri staðan í heimabankanum allt önnur og mun meira spennandi en reyndin er. ég er ofurseld krítarkortinu um ókomna framtíð og út yfir endimörk alheimsins. hversu lítillækkandi fyrir þann sem á stundum (í það minnsta) líður eins og englandsdrottningu (sjá fyrri færslu).

en. let us not dwell on matters of such mundain character! hvað er maður að lesa? því maður les. ég les; þess vegna er ég! sumarið fór í múrsteina. já, ég sagði múrsteina, ekki hundana. karl ove, sem ávallt fær mann til að spyrja sig: hvers vegna er ég að lesa þetta? hvers vegna fletti ég blaðsíðu eftir blaðsíðu sem á einn eða annan hátt segja allar frá því að opna og loka skápum og leggja frá sér glasið? svarið er: ég veit það ekki en hann neglir þetta einhvern veginn alltaf á lokasíðunum. mannandskotinn! gat hann ekki bara verið sætur og haldið kjafti? það hefði sparað okkur öllum töluverðan tíma.

en. svo var það ævisaga tove jansson. life. art. words. löng. en þess virði. tove jansson var stórmerkileg kona, listamaður og manneskja á hvaða tíma mælikvarða sem er og töluvert stærri en sínir múmínsnáðar eins og the summer book sem ég les í augnablikinu (og telst ekki múrsteinn) ber vitni um. sú bók er yndislesning og ekki skemmir fyrir að hún barst mér í pósti á afmælisdaginn frá yndisvinum erlendis. dásemd!

sapiens er enn á koddanum þótt grilli í síðustu kaflana og já, maður skammast sín fyrir að tilheyra þessari dýrategund. what a piece of work is man ... and what an idiot! frábærlega fræðandi og kostulega skemmtileg lýsing á þróun grimmustu dýra jarðarinnar; meistara sinnar eigin eyðileggingar; tegundinni sem lét hveiti gera sig að þrælum! ég verð að viðurkenna að kaflinn sem skýrir frá því hvernig hveititegundinni tókst svo hratt og laumulega að undirokar hina hugsandi veru gladdi mig einstaklega enda rímar hann með ólíkindum við bloggfærslu sem ég skrifaði fyrir um það bil tíu árum um það hvernig heimurinn fór til helvítis þegar maðurinn hóf að þreskja korn (eða eins og höfundurinn yuval noah harari orðar það: how wheat domesticated man). vík frá mér satan og allt þitt heimilisfólk! á upphafslestrarstigi er svo ritgerðarsafn stórvinkonu zadie smith, feel free. þarf að kom að því síðar.

en. yndi allra ynda og fegursta hjartablómið er óumdeilanlega hin órólegu (ekki múrsteinn) eftir linn ullman. ég get eiginlega ekki talað um þessa bók af neinu viti. því þetta er bók af því tagi sem maður lokar og grætur og langar samstundis að fletta aftur á fyrstu síðu og gráta áfram og óskar þess mest að maður hefði skrifað hana sjálfur. undurfögur, sár og djúp, solid stuff.

en. þar sem nú er haust og ég „mætt til starfa“ í launavinnunni, þá er gott að grípa í eitthvað líkara minnisbók sem rúmast í meðal brjóstvasa en múrsteini, eitthvað eins og til dæmis tvímála útgáfu af batleby skrifari í þýðingu míns kæra rúnars helga sem gaf mér hana á dögunum og gladdi mig mikið. ef einhver kann íslensku er það minn góði lærifaðir og lesningin unun eftir því. frábærlega fyndin en um leið sorgleg stúdía á hlýðni og óhlýðni og mannfjandsamlegu umhverfi kapítalismans. fussumsvei! eru fleiri upphrópunarmerki en orð í þessari færslu? það verður þá bara að hafa það. ég verð að hátta mig. því ég á enga vekjaraklukku. og verð því að vekja mig sjálf. ég, þessi óstabíla vera – og svo gott sem drottning breska heimsveldisins! hvar er teið mitt ... ?

sunnudagur, 9. september 2018

10.000 klukkustunda reglan


í gærdag ætlaði ég mér sækja samræðustund hjá heimspekikaffihúsinu. ég hef einu sinni áður sótt slíka samkomu og þótti það bæði hressandi og þankavekjandi. umræðuefnið þetta sinnið var sú áleitna og þarfa spurning „hvernig losnum við úr viðjum vanans?“ ... ég hefði átt að skáletra sögnina ætlaði í upphafssetningunni hér framar. til áhersluauka. staðreyndin sem ég er að reyna að lifa með í dag er nefninlega sú að þrátt fyrir ásetninginn komst ég aldrei á þennan samræðufund. af vanabundnum ástæðum. það er: mínar vanabundnu athafnir stóðu í vegi fyrir því að ég kæmist á viðburðinn í tæka tíð. sem er synd og skömm. ég hefði augljóslega getað lagt eitt og annað gagnlegt af mörkum. og sjálf haft gagn af. mínar daglegu vanabundnu athafnir eru lygilega tímafrekar. og þó ég fari regulega í gegnum það hverju ég gæti mögulega hent út af stundaskránni kemst ég aldrei að neinni niðurstöðu sem ég get almennilega fellt mig við. og held mig þar af leiðandi við óbreytt ástand. hvað þetta orðasamband er ógeðfellt! óbreytt ástand. ég vil ekki ígrunda þetta nánar. ég óska þess að haustið vari að eilífu. einhvern tímann í gamla daga, þegar ég var minni og einfaldari að formi og inntaki (og átti auk þess ekki guðdómlega fallega kápu úr handofnu tweed-efni) þótti mér sumarið (eða sú takmarkaða birtingarmynd þeirrar árstíðar sem norðurhvelsbúar gera sér að góðu) albesti tími ársins. en ég er fullorðin núna. og næmari á fegurðina í hverfulleikanum sem gerir hvert andartak svo dýrmætt og tifandi. og þar fyrir utan á ég auðvitað, eins og ég tæpti á rétt áðan, þessa dýrðlegu kápu. fólkið sem óf í hana efnið hefur ekki einbeitt sér að öðru en tweed-vefnaði í meira en hundrað ár. það hefur með öðrum orðum gert það að ófrávíkjanlegum vana að fara höndum um tweed-efni upp á hvern einasta dag í hundrað ár. það sést. þetta er kápa sem fólki langar að koma við. samt ekki á þann hátt að það sé óþægilegt. meira eins og ég sé the queen of england and all things englishhhhh. þegar ég geng hér um hæðirnar í haustinu, klædd þessari kápu og með hundinn minn, líður mér nákvæmlega þannig. eins og ég heiti elísabet og beri rómverskan tölustaf í stað eftirnafns. eini munurinn er sá að ég á ekki skotvopn. og ekki eins mikla peninga. en slíkt er smávægilegt þegar manni líður eins og maður sé drottingin af englandi. (ég skáletraði núna. til áhersluauka.)   

fimmtudagur, 5. júlí 2018

fundið ljóð


þegar ég hef öðlast næga innsýn í eitthvað annað en að safna hári segi ég kannski eitthvað mjög merkilegt. en í augnablikinu held ég mig við orð annarra:

"nothing can happen to one except what is already similar to oneself. till one changes."
tove jansson

mánudagur, 2. júlí 2018

að óloknum slætti



... um hádegisbilið hefur himininn svo gott sem lagst til jarðar og þegar ég ösla yfir mýrlendið undir helgafellinu í hriplekum gönguskóm fæ ég ekki varist þeirri hugsun að stemmingin sé að verða allt að því bíblíuleg. hvern hefði grunað að þvílíka ofgnótt af vatni væri að finna utan furðuheima goðsagna og refsiramma hinnar helgu ritningar? ég hef heyrt undan af því og ofan í radíóinu að það skrifist á bresku þjóðina að sál mín og skófatnaður liggi undir veðraskemmdum en verð að viðurkenna að ég skildi ekki fyllilega samhengið þar á milli. orsakasambönd veðurfræðinnar eru mér hulinn leyndardómur. ég er einföld manneskja. ég reyni að lifa með því sem er. þannig að ef náttúran hagar sér eins og um haust þó almanakið vilji meina eitthvað annað þá reyni ég að láta þar við sitja. maður á ekki að reiða sig um of á hið fyrirframgefna. það endar oftast með vonbrigðum. ... ég er að ræða þetta af meiri yfirvegun en efni standa til. hið rétta er að ég hef stóraukið bætiefnaskammtinn og loftfirrtu lotuæfingarnar. aldrei að sofna á verðinum. mínir andlegu innviðir skynja ekki nema að litlu leyti að orðið hafi árstíðarskipti. en líkaminn virðist ekki velkjast í vafa; það sem að jafnaði vex upp úr hársverði mínum og undan naglabeðunum (og vísindin segja mér að séu dauðar frumur!) sprettur svo undur hratt að grös og trjágróður um rigningasumar eiga ekkert svar. og ég ekki heldur, ef út í það er farið. hvern morgun sest ég upp í rúminu og segi við refinn að þetta geti ekki gengið svona mikið lengur; það er hætt að skipta nokkru hverju ég klæðist fyrir ofan mjaðmabein. en maður má ekki barma sér. í fjarska kasta menn krónu og sparka í bolta. í kjölfarið liggja einhverjir í blóði sínu og tárum. skógar eyðast. börn týnast í hellum og eru lokuð inni í búrum. allt þetta veit ég því á meðan alheimurinn þenst út er heimurinn sífellt að verða minni. ég er að smíða kenningu um áhrif þeirrar togstreitu sem slík grundvallarþversögn skapar í taugakerfi manna. tíminn mun leiða í ljós hvort hún heldur vatni. sjálf hef ég reyndar týnt tímanum. síminn minn neitar að gefa mér réttar upplýsingar í þeim efnum og ég á ekki armbandsúr. mig bráðvantar armbandsúr. armbandsúr sem segir sex því talvan mín er of stór til að ég „beri hana á mér“ öllum stundum. auk þess gengur hún ekki við allt í fataskápnum. sem er viss forsenda. og nú leyfi ég þessu að líða ...  

mánudagur, 22. janúar 2018

lífi mitt í ljóði



Elegía

Fullvaxin spegilmynd
gegnumlýst
í röntgengeislum
nýársdags.

Brotið kjúkubein
á baugfingri vinstri handar,
brak bernskunnar
ryðgað milli bringspalanna.

Höfuðkúpan
loftþéttur kúpull
úr gleri,
lagður yfir safn stillimynda; 

            augu föður míns í baksýnisspeglinum á gömlum trabant snemma á níunda áratugnum.
            Hendur hans að herða gjörðina utan um ávalan kvið hestsins, úfinn í vetrarfeldinum, áður en hann lyftir mér á bak.
            Risavaxinn líkami þyrlunnar þar sem við stöndum hönd í hönd í opnu flugskýlinu þaðan sem sér í hafið.
            Heiðursvörður við fánaklædda líkkistu á hafnarbakkanum á hryssingslegum degi í nóvember.   

/.../


Að lifa lífi sínu einn.
(Vakna
vaka
sofna
sofa)
og grafa spörfugla gærdagsins
án hluttekningar,
því nándin
er dýpsta
sárið.

Rafglóandi taugabrautir          
- göng
í gegnum tímann -
rangt tengdar
við sjálfið;

hvern dag horfi ég á hendur mínar 
– líflínan
morkin gúmmíteygja, trosnuð í báða enda –
og minni mig á
ártalið;
frumurnar
sem skipta sér;
aldur
tanna minna og beina;
barnið sem varð fullorðið.

Í sjónjaðrinum björgunarþyrlan.