sunnudagur, 18. desember 2016

fjórði


ég get ekki vanist því að fjórða í aðventu beri ekki alltaf upp á aðfangadag. það er einhver skekkja í þessu. þörf á að endurreikna tímatalið. og taka heilagleikann inn í dæmið. hann er alls fjarverandi. sama hvert er litið. á morgun þarf ég að halda litlu jól með nemendum mínum. guð veit að heilagleikinn verður ekki þar. 

sunnudagur, 11. desember 2016

þriðji

þriðji í aðventu og ég er ekki búin að setja upp seríurnar. það virðist vera eitthvert sambandsleysi við árstímann hér á heimilinu. ég skrifa það á regnið. þessi vætutíð vekur með manni grun um einhvern risavaxinn misskilning. ég ætla að reyna að leiða þetta hjá mér. síðustu agnir ársins leysast upp í myrkrinu og ég safna kröftum með fiðluleik og kryddilminum sem stígur upp með loganum á stofuborðinu. ég er í fullu starfi við að leiðrétta skekkjuna milli dags og nætur með kertaljósi. stundum held ég að ég gæti lifað á ilmkertum. ef ég hefði efni á því, það er að segja. en eins og staðan er verð ég að láta mandarínurnar og jólateið nægja. og treina mér þetta litla ilmljós yfir hátíðirnar. 

sunnudagur, 4. desember 2016

annar

ég er hugsi. þegar guð ákvað að birtast sínu meingallaða sköpunarverki ákvað hann að gera það sem hvítvoðungur. sem algjörlega ósjálfbjarga og varnarlaus brjóstmylkingur. talandi um traust! það verður ekki af guði haft að hann kann að fella varnirnar. þetta er aðventuhugvekjan í ár. ég þarf að læra af þessu.