miðvikudagur, 31. ágúst 2016

vinnufötin keisarans

ég hef verið að hugsa það í nokkurn tíma að mig bráðvanti langröndóttar buxur og þverröndóttan bol. altsvo sem sett. brókin þyrfti að vera sítrónugul og fjólublá en bolurinn fúskíableikur og límónugrænn. þessi þörf er óþægilega áleitin. eins og ekkert er jafn óþægilega áleitið og tilfinning sem nær að finna sér form í hugmynd. það er svo hættulegt að fá eitthvað á heilann. einu sinni fékk ég svo hættulega hugmynd á heilann að heiminum eins og ég þekkti hann skolaði burt. þetta sirkúsdress er ekkert að fara að hvolfa himninum í hafið og sáldra salti í grunnvatnið. í versta falli myndi það valda vægu uppnámi í heimabankanum og á vegum úti. á hvoru tveggja má jafna sig á tiltölulega skömmum tíma. talandi um tíma. nákvæmlega núna, á þessum miðvikudagsmorgni í bláenda ágústmánaðar, er engin leið að það fari framhjá manni að það haustar. ég er einkennilega sátt við þá breytingu. reyndar er ég einkennilega sátt við flest þessa dagana. nýja geðheilbrigðismeðferðin sem á að breyta í mér heilanum virðist vera að skila sér. ég ferðast tiltölulega átakalaust á milli tölustafanna á klukkuskífunni; stundum þegar róast með kvöldinu átta ég mig á að ég hafi hvorki þvælst eftir gömlum stígum né dröslað líkinu af sjálfri mér á milli staða þann daginn. ég get ekki sagt að ég sakni þess. lífið er mun fyrirhafnarminna svona; fátt kemur mér úr jafnvægi. það er helst að umsóknin um listamannalaun sendi mig út á hina ystu nöf; þá sem ég vil helst af öllu forðast; þaðan sem ég horfi beint inn í kviku minnar eigin örvæntingar og ótta; þar sem sköpunargleði mín sefur kæfisvefni svo dauðahryglurnar bergmála í gínandi tóminu. kannski væri best að láta þessa umsókn eiga sig. jafnilla og mér er við að játa mig sigraða. sérstaklega fyrir sjálfri mér. ég er samt dáldið hrædd um að ég verði með þessa umsókn á heilanum allt þar til umsóknarfresturinn rennur út eftir nákvæmlega mánuð. á því tímabili er allra veðra von. og þá held ég að það gæti komið sér vel að eiga þetta röndótta dress. til að létta dálítið stemninguna. 

laugardagur, 27. ágúst 2016

á dýpri djúpum


ég var að tala um drauma. kannski ég haldi mig á þeim þræði. eina nóttina nýverið hélt ég í hreint mustískt ferðalag. ég tók mér far með rútubifreið eitthvert út á land og finn mig undurfljótt í miklu fjallalandslagi; djúpum dal fleyguðum af vatnslítilli á, farvegurinn varðaður stórum steinum svo fyrirhafnarlítið má finna sér leið yfir. lyngbreiðurnar liggja eins og hnausþykkt, bládoppótt teppi upp eftir bröttum hlíðunum og himininn er svo gott sem heiður. ekki sála í augsýn. hvað þá hýbýli. ég dáist að fegurð landslagsins en finn samt áþreifanlega fyrir því að ég er þarna alein – úti í miðjum óbyggðum. ég virðist eiga mér einhvern áfangastað – þetta var einn af þessum draumum þar sem maður líkt og fylgist með sjálfum sér, líkt og sjálf manns klofni og persóna manns í draumnum búi yfir alls kyns upplýsingum sem maður sjálfur hefur ekki aðgang að (alltaf mjög óþægileg tilfining) – í það minnsta tipla ég yfir ána og arka yfir berjamóann beint af augum inní hið óþekkta. en nú gerist draumurinn óskýr. einhvern veginn er eins og ég (ég sem fylgist með mér í draumnum) fái að vita það eitt að við (ég sem fylgist með og ég í draumnum) höfum farið erindisleysu. og snúum því við sem leið liggur. gerir nú vont veður. það þykknar upp. hvessir. og það fer að vætla úr bólgnum himninum. við göngum stutta stund og komum þá aftur að ánni sem hefur tekið hreint undarlegum hamskiptum. það sem við okkur blasir er meira í ætt við straumhart fljót en á. við skimum eftir steinunum sem við höfðum stiklað á þegar við fórum yfir í fyrra skiptið en þeir virðast allir sem einn hafa orðið vatninu að bráð. við stöndum þarna á bakkanum ráðvilltar og getum ekki nema áætlað sem svo að við hljótum að hafa gengið vitlausa leið og komið að ánni á öðrum stað en þar sem við fórum yfir. en fljótið virðist jafnbreitt svo langt sem augað eigir. þessir vatnavextir eru lyginni líkastir. svo við sjáum okkur ekki annað fært en að vaða útí. og nú gerist nokkuð merkilegt. sem við finnum vatnsborðið stíga upp eftir fótleggjunum er eins og skilin á milli mín sem fylgist með og mín í draumnum skolist til og hverfi. mögulega er það óttinn sem rennir okkur saman; gerir okkur eina, ég veit það ekki, ég veit bara að þetta gerir draumreynsluna einhvern veginn beinni og enn óþægilegri en áður. eftir því sem við vöðum lengra útí verður okkur æ ljósara að þetta muni ekki ganga. áin er vægast sagt brjálæðileg. það verður okkur til lífs þegar við komum að háskalegum flúðum að einhver hefur komið þar fyrir (guð má vita hvernig) nokkurs konar girðingu úr steypustyrktarjárni. við ákveðum að snúa við en verður ekki um sel þegar við sjáum að á kafla hefur strauminn enn hert svo í ánni að ekkert virðist komast yfir nema fuglinn fljúgandi. gerist nú draumurinn aftur óskýr, mögulega sökum skelfingar, en næst veit ég af mér við lyngvaxinn árbakkann. ég er holdvot en heil á húfi og nú bætir enn í undrun mína þegar ég sé að hátt fjall virðist hafa sprottið upp úr jörðinni þarna við bakkann þar sem ég stóð rétt áður á algeru flatlendi. ég sé því fram á að þurfa að fikra mig áfram eftir mjórri grasræmu milli fjallsins og fljótsins til að finna mér leið til baka. mér fallast hálfpartinn hendur yfir þessari nýju þraut og ekki laust við að mér sé farið að finnast þetta orðið gott af þessu ruglingslega ferðalagi. og þá gerist eitt undrið enn því nú birtist hið þekkta söguminni „guð í vélinni“ (deus ex machina) – eins og þessi draumur sé ekki löngu orðinn ofhlaðinn af bókmenntalegum minnum – þegar björgunarþyrla föður míns flýgur lágflug yfir höfði mér svo loft og vatn gárast og skjálfa. ég finn fyrir ómældum létti sem staldrar stutt við í brjósti mér því í stað þess að slaka niður til mín kaðli eða sigmanni heldur þyrlan fluginu áfram inn dalinn og hverfur mér að lokum sjónum. ég er í allri hreinskilni hálf kjaftstopp en tek þann pólinn að móðgast ekki við föður minn heitinn fyrir að hafa snuðað mig um far út úr vandræðum mínum. einhvern veginn finnst mér eins og sú ályktun hafi verið dregin af áhöfninni að mér sé borgið og ég þarfnist ekki frekari aðstoðar. held ég nú för minni áfram meðfram fjallinu og aftur inní hinar berjabláu óbyggðir. enn gerist draumurinn óskýr og nú er eins og ég komi að einhvers konar sjoppuskála – óbyggða útgáfu af litlu kaffistofunni eða eitthvað þess háttar. þar er enginn fyrir utan þrjá skálaverði, þrjá miðaldra karlmenn, gráleita af stöðnun og ryki, sem hver verður öðrum meira forviða yfir komu minni. ég rek farir mína mjög svo ekki sléttar. þeir hlusta agndofa. það sem stendur fyrst og fremst í þeim er sú ótrúlega bíræfni að ég hafi upphaflega vogað mér yfir hina dularfullu á. þeir líta til skiptis á hvern annan, gapandi og bendandi á brjálæðinginn (moi). skyndilega finnast mér viðbrögð þeirra fremur hlægileg. ég sé aftursnúin alveg í heilu lagi með bakpokann minn og allt og algjör óþarfi að fara svona á hliðina þó ég hafi rennblotnað frá hársrótum og niður úr. svo kveð ég. og held för minni áfram ...  

 ... kannski fer ég fullgeyst í köldu böðin þessa dagana. en nú sting ég mér til svefns.

föstudagur, 26. ágúst 2016

á tilraunastofu fegurðarinnar


 ég mætti aftur til vinnu fyrir mánaðarlöngum tveimur vikum síðan. vinnufélagar mínir höfðu á því orð hversu gott það væri að komast aftur í rútínuna. svipur minn lýsti skilningsleysi. að mæta til vinnu er í mínu tilviki gríðarleg truflun á rútínu. það er fullt starf að vera á lífi. og ríflega það ef maður ætlar að gera það af einhverju viti. þannig að ég er mjög upptekin manneskja. á milli þess sem ég hita kaffið og fylgist með þroskastigi bláberja les ég mér til gagns og heilsubótar um frestunaráráttu, sjö leiðir til að halda sköpunargáfunni kvikri, það eina sem maður þurfi að vita til að öðlast meiri hamingju og bloggið hans braga ólafs. svo hlusta ég á franska útvarpið. og einhvers staðar þarf að finna tíma fyrir víxlböðin og sprettæfingarnar, vökva tómataplöntuna, líta til með litlu þykkblöðungunum sem ég lét loksins verða af að kaupa og detta í dagdrauma með reglulegu millibili. mig dreymir einhver ósköp þessa dagana. í svefni, meina ég þá. yfirleitt man ég ekki drauma mína – og hef reyndar haldið því fram að mig dagdreymi svo mikið að það sé ekkert afgangs fyrir rökkurstundirnar – en það er eins og svefnhringurinn hafi hnikast örlítið til í sumarnóttinni og fært mér draumfarir nær morgunsárinu þar sem auðveldara er að teygja sig eftir þeim. það sem ég dreg áleiðis inn í meðvitundina, ofurvarlega, líkt og ég ætli að draga til mín þungan hlut með næfurþunnum þræði, er undantekningalaust eitthvað mun tilþrifameira en mitt eigið hversdagslega líf. innri veruleiki minn er töluvert meira krassandi en ytra byrðið. eða; nei, ég er ekki ein af þessum módellöngu stelpum með endalausa leggi; ég, gott fólk, er öll á dýptina.