laugardagur, 18. mars 2017

nótur, minnispunktar, augnabliksstef


ég geng út úr vínbúðinni með flösku af lífrænu rauðvíni í bréfpoka. eins og alltaf þegar ég reyni að koma mér á milli staða í mannmergð finnst mér eins og ég fari gegn straumi sama í hvaða átt ég ákveð að miða för minni. það leynir sér ekki að gestir litla verslunarkjarnans hafa sammælst um að nýta sér suðurinnganginn á leiðinni út. ég aftur á móti hef tekið stefnuna á þann sem veit í norður og í átt að heimili mínu þangað sem ég hyggst koma bæði sjálfri mér og fyrrnefndri flösku og þá helst hvoru tveggja í heilu lagi sé það á annað borð möguleiki. ég ýti til innkaupakerrum og smeygi mér framhjá eftirmiðdagsfjöldanum eins og skelkaður hryggleysingi í leit að öruggu skjóli. fólki virðist töluvert í mun að æða í fangið á mér. sú tilfinning er ekki gagnkvæm. fyrir vikið léttir mér ósegjanlega þegar sjálfvirka glerhurðin opnast eins og rauða hafið forðum og það eina sem verður fyrir mér er svalt loftið og hverfulir skúlptúrar snjómoksturstækjanna, síbreytilegir í umhleypingunum. ég stíg í poll af eintómum grallaraskap og gleði yfir vel heppnaðri undankomu en sú tilfinning nær þó aldrei almennilega að hreiðra um sig því mér verður hálf illt við þegar ég skyndilega átta mig á að ég held á flöskunni eins og ungabarni. hvaða ályktanir á ég að draga af svona nokkru? það er ekki vínið sem ég hef áhyggjur af. ég drekk mjög lítið. heldur hitt. að ég get ekki hugsað mér að eiga fleiri börn ... 

þú verður að breyta lífi þínu

(á rodin að hafa sagt við rilke. klassík.)

ég hef haldið því fram að sá einn þekki laun erfiðisins sem skorið hefur hjartað úr hráum ætiþistli með bitlausum hníf og smjörsteikt það á pönnu ásamt sveppum og hvítlauk. þetta er auðvitað töluvert hástemmd fullyrðing. enda neyðist ég til að éta hana ofan í mig (bókstaflega) þegar ég, stuttu eftir heimkomuna, veiði slíkt hjarta upp úr krukku merktri þekktum breskum sjónvarpskokki og get ekki annað en jánkað því að það hafi verið fyrirhafnarinnar virði að skrúfa af henni lokið. ég virði fyrir mér krukkuna. búlduleiti kokkurinn brosir vingjarlega við mér og einhvern veginn líður mér eins og ég hafi orðið undir í mínu eigin eldhúsi. ég sem svo hiklaust tel mér þá sérvisku til tekna að ég sækji helst alltaf vatnið yfir lækinn. enn ein ástæðan til að hafa horn í síðu bresku þjóðarinnar. það fólk og þeirra vonda te! ég breiði úr hjartanu á hrjúfu yfirborði hrökkkexins og legg nokkrar sneiðar af lárperu ofan á það. stökkt kexið hrekkur í sundur þegar ég bít í og á meðan ég hlusta á fræin molna milli tannanna horfi ég út um eldhúsgluggann á svart grjótið í hvítskellóttri hlíðinni og um stund finnst mér sem ég gangi þar um og heyri smágrýti og steinvölur skreppa undan skósólanum. tevatnið sýður. ég vel poka úr sólgula pakkanum og er skyndilega stödd á kryddmarkaði á austrænum slóðum. kraftmikil engiferrótin æðir upp ennisholurnar og bleiku nellikkurnar springa eins og flugeldar upp úr vasanum á eldhúsborðinu um leið og dregur frá sólu og pappírsfönixinn í glugganum fuðrar upp og verður nýr. í útvarpinu glymur klukkan  

það eitt skiptir máli að taka eftir

(... hinu smáa, á ég þá við.)

þriðjudagur, 21. febrúar 2017

filterinn fæðist í auganuég hef staðið mig að því að dást að gráma himinsins. ég veit ekki hvað er hlaupið í mig. það er ekki eins og ég sé ástfangin. nema af refnum auðvitað – óþarfi að yrða hið augljósa. en þetta er engu að síður staðreynd. ég þræði gangstéttar bæjarins, þaktar sandi eftir að árstíðirnar ákváðu sér til gamans að rugla í götusópurum og gangandi og skipta um stað á tímalínu almanaksins, og án þess að ég leggi mig sérstaklega eftir því get ég ekki annað en veitt því athygli hvað skýin eru skemmtileg svona löt og þung á sér, liggjandi eins og feitabollur langleiðina niður hlíðar esjunnar eins og þau séu við það að gefast upp fyrir eigin þunga og aðdráttarafli jarðar. ég stoppa og stend eins og flamingói á einum fæti á meðan ég tæmi úr grjótnámunni sem hefur myndast í gúmmískónum svo úr verður lítill hraukur á gljáandi blautu malbikinu. fugl nýtir tækifærið og hoppar þvert yfir stéttina beint fyrir framan nefið á mér. allt er á leiðinni eitthvert. allir í sínu. mér verður hugsað til fuglsins sem ég geymi í búri heima í stofu. ég held að anton sé að fitna. hann gerir ekkert annað en hanga inni hjá sér og graðga í sig hirsi og fræblöndum. hann tvístígur reyndar öðru hvoru ört þarna á prikinu sínu, eins og í veikri viðleitni til að láta líta svo út að hann stundi einhvers konar hreyfingu en það er engin leið að draga yfir það nokkra fjöður að þetta vapp er bara til málamynda. ... einhvern veginn hafði aldrei hvarflað að mér að fuglar gætu verið latir. mér virðist þó sem svo geti verið. það er sem ég segi; maður lifir til að læra. og – sé ég spurð – til að hreyfast. mér helst ekkert á þessu litla holdi sem ég hef úr að spila. það gufar upp af beinum mínum eins og vatn úr undirskál sem skilin er eftir á sólbekk á heitum degi. „ég gæti þurft að bæta meira af majónesi í mataræðið“, hugsaði í morgun þegar ég dró náttkjólinn yfir höfuðið og bringubeinin blöstu við í speglinum; litlir hillurekkar í brjóstinu undir ýmislegt smálegt; krukku fulla af gráti lítillar stelpu í of stórum stígvélum, bréfasafn bundið saman með bláum borða, slitinn gítarstreng. ég get horft á þetta án þess að finna til sorgar. samt get ég fundið til.

                      „attention needs empathy. otherwise it´s just reporting.“ 
                                                                                                            (mary oliver)

túlípanarnir á eldhúsborðinu hafa sveigt hálsana en höfuð þeirra eru enn reist og vakandi, andlitin opin. silkikennd áferðin á djúpbleikum blöðunum sendir mig inn í dyngjur þúsund og einnar nætur þar sem ástir enda með hörmungum og hár kvenna er vopn á pari við óslíðrað bjúgsverð. tevatnið síður. lyktin af lakkrísrótinni stígur upp úr bollanum og mér finnst ég þurfa að þurrka þrisvar yfir borðið og raða kertastjökunum í beina línu við æðarnar í viðnum. samúræji hins stífa ritúals er óþarflega framarlega í verunni eins og er. og eins og hann er ágætur þá fæðir hann fátt nýtt af sér. hann viðheldur. á þessu tvennu er reginmunur. ég þyrfti að koma honum í heimilisbókhaldið. en einhvern veginn hefur hann ekki áhuga á slíkum störfum. agi hans lítur aðeins hinu fagurfræðilega. þegar ég kortlegg mitt innra líf og rýni í partana sem það er samansett úr tek ég fyrst af öllu eftir því að enginn þeirra getur talist sérlega sparsamur, hagsýnn eða hallur undir rúmfatalagerinn. ekki einu sinni þegar kemur að því að versla dýnu handa refnum. þetta er eiginlega óþægilega áberandi. þeim hugnast betur að dvelja í þúsund og einni nótt. nú eða pétursborg önnu kareninu þar sem loðfeldirnir liggja hvarvetna svo maður megi teygja sig eftir þeim og sveipa um sig með þóttafullri hreyfingu. ég er hætt að reyna að tala um fyrir þeim. let it be. það er sem það er. og það sem er er. svo einfalt er það. ég stend ekki í þessum handalögmálum meir. himininn er svo fallega grár. og allt er á leiðinni eitthvert.    

fimmtudagur, 16. febrúar 2017

6.52


það er eitthvað óendanlega dapurlegt við það að fylgjast með fólki tínast út í morgunmyrkrið. það ætti að ríkja sáttmáli um að enginn fari á stjá fyrr en eftir að birtir. þá meina ég ekki síst myrkursins vegna. það er svo fallegt í kyrrðinni. þess utan hugsa ég aðallega um ljósið. ég er farin að spila sade daglega. það segir sitt.

(það var freisandi að ljá fyrstu setningu þessarar hófstilltu færslu tvíræðni með því að stafsetja sögnina tínast með yfsilon-í, en ég stóðst mátið. það er of snemma morguns fyrir tvíræðni. og þetta á að vera einföld færsla.)

laugardagur, 4. febrúar 2017

sannleikurinn birtist í því smáa

ég verð að hætta að ganga svona frá mér við þrifin á sameigninni. þetta er ekkert sérstaklega vel borgað. auk þess greiði ég fullan hússjóð sem hlýtur að þýða að ég taki einnig fullan þátt í að greiða mér þessi litlu laun. sem er einhvern veginn dálítið asnalegt. alla vega leið mér dálítið asnalega þegar ég áttaði mig á þessu við ræstinguna á ruslakompunni í dag. ætli ég þurfi svo ekki að borga skatt af þessu í ofanálag? er ég fáviti? flesta daga dreymir mig um að starfa sjálfstætt en á stundum eins og þessum verður sú hugmynd næstum áþreifanlega heimskuleg. mér er ekki sjálfrátt. enn líður tíminn. á þeim bæ er aldrei tíðindafátt. stöðugar breytingar er mottó sem sumir taka mun alvarlegar en aðrir. það sama verður ekki hermt upp á framvinduna í lífi mínu. ég segi þetta vel að merkja án nokkurrar biturðar. ég er ekki að flýta mér núna. ég er að fylgjast með. í dag skein sólin svo ákaft inn um gluggana að ég gat ekki annað en þvegið þá að utanverðunni. telst það ekki vorverk? ég er eiginlega alveg klár á því. næst þegar ég sný mér við eða beygi fyrir horn gæti ég séð til fólks með fullar kerrur af garðaúrgangi og fljótlega í kjölfarið munu kuðungarnir í hlustinni fyllast af trjásöng og heimurinn verða hertekinn af frumlitunum. en ég er ekkert endilega að bíða eftir því. eins og ég segi. ég er ekki að flýta mér. ég er að fylgjast með. og þá kemst maður ekki hjá því að sjá svona teikn. því þau eru þarna. það er veruleiki. ekki möguleiki.
   

sunnudagur, 29. janúar 2017

hvarfpunkturinn verður aðeins greindur úr fjarlægð. miðið er ekki endilega að hverfa inn í hann.


ég stend mig að því að vera farin að miðjusetja meira og minna alla hluti á heimilinu. hingað til hef ég frekar hallast að því að vinna með þríhyrningsformið og mynda litlar þriggja eininga þyrpingar innbyrðis ólíkra hluta sem aðeins kallast á að litlu leyti í lögun og lit, en ég er eitthvað svo to the point á nýja árinu að ég færist sífellt nær hugmyndinni um the centerpiece eins og það kallast svo skemmtilega á engilsaxnesku – og ég finn sem stendur enga almennilega þýðingu á ... þið heyrið að húsamúsin slær hvergi slöku við. ég veit ekki hvernig þetta verður þegar baðherbergið verður tilbúið og ég fæ heilt herbergi í viðbót undir pottaplöntur og kertastjaka. ég er að hugsa um að fá mér stóran fígus í sturtubotninn. jafnvel þó rýmið sé gluggalaust. ég skutla honum bara reglulega fram á gang til að ljóstillífa og öðru hvoru út á pall að draga andann þegar vorar. það er eitthvað svo exótískt og endurnærandi við stórar plöntur í nálægð við rennandi vatn. maður hreinlega tilflyst um nokkrar breiddargráður. það er ljóst að ég verð að gera alvöru úr þessu. ég hef verið hertekin af hugmynd; hættulegasta fyrirbæri veraldar! nú sef ég ekki fyrr en þetta er orðið að veruleika. þetta nær engri átt hvað daginn lengir. ég kveikti á kertunum þegar við refurinn komum heim eftir síðdegisgönguna upp úr fimm, vel að merkja í fullri dagsbirtu, og það er fyrst núna, klukkustund síðar, sem skuggamyndirnar eru að byrja að læðast upp veggina. ég helli rauðvíni í glas og tek mér andartak í að íhuga lánsemi mína. í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég geta sagt að þetta geti ekki annað en farið sérlega vel. mér liggur við að segja að ég sé hreinlega dæmd til góðs gengis. í það minnsta miða ég ör minni skýrt í þá átt. í stóru sem smáu. en aðallega í því að skrifa þessa bók. í augnablikinu liggja einhverjir kaflar á víð og dreif í skjalahirslum tölvunnar minnar eins og afhoggnir limir lífvana líkama, hver á sínum krók í kjötvinnslustöðinni, og ég veit satt að segja ekkert hvað ég á að gera í málinu. en það hlýtur að skýrast. eins og allt hlýtur að skýrast. 

unravel
klippti ég út úr gömlu tímariti á áramótunum og kom fyrir á draumaspjaldinu í grennd við annað orð, 

poem

unravel

birstu mér. 

þetta kemur í ljós. öllu vindur fram. 
líkt og rennandi vatni og tíma og söng fugla. 
öllu vindur fram. 
að hinni einu mögulegu 
miðju.        

fimmtudagur, 12. janúar 2017

ég hef ekki verið hérna áður

afsakið afskiptaleysið. ég er í vinnunni. þessi heimur byggir sig ekki sjálfur. það var orðin töluverð þörf á endurbótum og fyrstu dagar ársins hafa verið erilsamir. en ég er öll sem ný. það fylgdi því einhver magískur kraftur að kveðja gamla árið. ár hinna endanlegu vonbrigða og dauða. ár hinna djúpu umskipta og nýrra spegla. ár sálumessunnar og skjalahirslunnar. heilabreytingarmeðferðin hefur gengið vonum framar. árangurinn er raunverulegur. ég er að ljúka við endurflokkunina og miðar stöðugt áfram við lagfæringarnar á rafmagninu; taugakerfið hefur náð jarðtengingu og leiðnin milli ennisstöðvarinnar og rótarlássins er að verða stöðug í báðar áttir. skammhlaup eru fátíð og valda engum teljandi skaða. ég er að hugsa um að að ganga svo langt að halda því fram með nokkurri vissu að bölvuninni hafi verið aflétt. bæði þeirri fimm ára og þeirri þrjátíu og þriggja ára. ég geri ráð fyrir að geta snúið mér að nýjum verkefnum við næstu árstíðaskipti. það er með ólíkindum hvað daginn lengir hratt. með þessu áframhaldi verður orðið albjart horna á milli áður en maður nær að átta sig á því. fólk gæti sólbrunnið ef það er ekki vel vakandi. ekki að ég fari að hafa áhyggjur af óvarinni húð. ytra byrgði mitt er víst með allra sterkasta móti. „mjög gott, mjög gott“, sagði húðdoktorinn í gær á meðan hann yfirfór líkama minn með skæru vasaljósi og einhverju sem ég gat mér til um að væri sambland af stækkunargleri og smásjá. „álagsþolin og liturinn með því besta sem gerist. þú ert mjög heppin með húð“. svo setti hann á sig stærðar glerauga og skar burt útstæða fæðingarblettinn á hálsinum á mér – þann sem glöggt smáfólk hefur stundum kallað vörtu – og kom honum fyrir í litlu sívalningslaga glasi til frekari athugunar. svona rétt til öryggis. aldrei of varlega farið. þetta var mjög nákvæmur læknir. yfirsást ekki þumlungur. ég held að líkami minn hafi aldrei verið gaumgæfður af viðlíka einbeitni. sem er í sjálfu sér kannski örlítið sorglegt, þegar ég hugsa út í það. ég þakkaði doktornum fyrir og gekk út og undir himininn af auknu öryggi og vaxandi óttaleysi. að undanförnu hef ég orðið æ meðvitaðri um að ég geng á jörðinni. þessi tilfinning helltist yfir mig að morgni nýársdags á spásseringu okkar refsins eftir sjávarlínunni. allt í einu skynjaði ég þetta kristalskýrt. ég geng á jörðinni. það beinlínis þéttust í mér beinin. hryggsúlan varð að þykkum tótem og fótatak mitt fékk fyllri hljóm. á stundum líður mér eins og ég gæti kramið mola af málmgrýti í lófa mínum. duftið sæti í lófalínunum eins og aurugar ár fullar af óvæntu gliti. ég er hvorki tunglóð né með egglos. þetta er stöðug líðan. hreint ekki slæm. ég gæti vel lifað með þessu.   

sunnudagur, 18. desember 2016

fjórði


ég get ekki vanist því að fjórða í aðventu beri ekki alltaf upp á aðfangadag. það er einhver skekkja í þessu. þörf á að endurreikna tímatalið. og taka heilagleikann inn í dæmið. hann er alls fjarverandi. sama hvert er litið. á morgun þarf ég að halda litlu jól með nemendum mínum. guð veit að heilagleikinn verður ekki þar. 

sunnudagur, 11. desember 2016

þriðji

þriðji í aðventu og ég er ekki búin að setja upp seríurnar. það virðist vera eitthvert sambandsleysi við árstímann hér á heimilinu. ég skrifa það á regnið. þessi vætutíð vekur með manni grun um einhvern risavaxinn misskilning. ég ætla að reyna að leiða þetta hjá mér. síðustu agnir ársins leysast upp í myrkrinu og ég safna kröftum með fiðluleik og kryddilminum sem stígur upp með loganum á stofuborðinu. ég er í fullu starfi við að leiðrétta skekkjuna milli dags og nætur með kertaljósi. stundum held ég að ég gæti lifað á ilmkertum. ef ég hefði efni á því, það er að segja. en eins og staðan er verð ég að láta mandarínurnar og jólateið nægja. og treina mér þetta litla ilmljós yfir hátíðirnar. 

sunnudagur, 4. desember 2016

annar

ég er hugsi. þegar guð ákvað að birtast sínu meingallaða sköpunarverki ákvað hann að gera það sem hvítvoðungur. sem algjörlega ósjálfbjarga og varnarlaus brjóstmylkingur. talandi um traust! það verður ekki af guði haft að hann kann að fella varnirnar. þetta er aðventuhugvekjan í ár. ég þarf að læra af þessu.

sunnudagur, 27. nóvember 2016

fyrsti

ég hjó dánu höfuðin af fúskíableiku liljunni en leyfði þessum tveim sem ekki höfðu opnað sig að standa. það hljómar eins og lygi en er engu að síður sannleikur að ég hafði vart fleygt afskorningunum í lífræna sorpið þegar hin tvö eftirlifandi tóku að rétta úr sér og myndast við að slíta krónblöðin hvert frá öðru. þegar ég kom fram í morgun höfðu þau þanið sig út eins og litfagrir lúðrar í móttökunefnd mér til heiðurs. ég læt þetta ekki stíga mér til höfuðs. alla vega ekkert að ráði. líkast til er það einfaldlega eins með liljur og menn að stundum eru bara of mörg höfuð á einum og sama búknum. 
við erum að horfa fram hjá því að það rignir á fyrsta í aðventu og að okkur vantar kerti í englaspilið. en kransinn er tilbúinn. hann er gerður úr grannri marggreindri grein, fínlegur og fagurgrænn og minnir örlítið á þyrnikórónu krists án þess þó að vekja of mikil hugrenningatengsl við sársauka – það er ekki meiningin að skyggja á fagnaðarerindið með gáleysislegri notkun á kristilegum táknum. það logar á spádómskertinu. loforðinu um hinn mesta kærleika hefur verið sleppt út í andrúmsloftið og við höfum náð samkomulagi um að treysta því að allt rati til ljóssins, konur, refir og villuráfandi bænir. og um það greindi ég reyndar skýrt teikn í fyrradag á leið til vinnu. að venju var ég á hraðferð en þar sem loftið var öllu kaldara en ég hafði gert ráð fyrir staldraði ég við á dyraþrepinu til að setja á mig kanínukransinn. sem ég smokra úfnum feldinu yfir hnútinn á hnakkanum lyfti ég höfðinu til að hagræða kransinum betur við eyrun og sé þá, svo ég hrópa upp yfir mig af fögnuði, að úrverkið hafði um nóttina komið fyrir á himninum skáhallri mánasigð, líkastri skínandi vöggu, og yfir henni, eins og barni sem veit að það verður gripið, sólbjartri stjörnu í stærra lagi. nú getur vel verið að einhverjum þyki maður lifa með skáldlegasta móti en ég er engu að síður á því að ef slík sýn að morgni dags er ekki fyrirboði þá veit ég ekki hvað.  
á meðan við tínum til smáfugla og köngla og títuber til að hafa með kransinum hugsum við að það væri óneitanlega skemmtilegra að eiga tiltæka biblíu á heimilinu. sér í lagi þessa rauðu í flaueliskápunni. hún er ekki eins þunglyndisleg og sú svarta sem ég man eftir úr æsku minni. við ákveðum að hafa tónlist með kransagerðinni fyrst við eigum enga biblíu og gerumst svo bíræfin að kveikja á útvarpinu. anton er í banastuði þessa dagana. þá á ég við stuði af því taginu sem gæti þá og þegar banað okkur refnum. við vogum okkur ekki að svo mikið sem gjóa augunum í áttina að jólaplötunum. í útvarpinu er einmitt að fara í loftið lokaþátturinn í röð sem við höfum undanfarið fylgst með af áhuga og fer nokkuð nákvæmlega ofan í saumana á lífi og list mozarts. anton virðist geta hlustað á mozart án þess að finnast hann nauðsynlega þurfa að prjóna eitthvað við tónsmíðarnar. mér aftur á móti getur ekki annað en þótt það örlítið niðurdrepandi að hlusta á frásagnir af afrekum undrabarnsins þegar mér sjálfri, fertugri manneskjunni, hefur ekki enn tekist að ná lágmarksfærni í einföldum aðgerðum eins og að leggja saman þvottagrindina án þess að klemma á mér fingurna svo ég tali nú ekki um að hengja grenigrein í glugga þannig að hún virðist svífa í lausu lofti. á þessu heimili snúast jólaskreytingarnar að stórum hluta um að storka þyndaraflinu og eiga það því til að vera full verkfræðilegs eðlis. mozart er ágætis mótvægi í þeirri glímu. einhvern veginn hafðist þetta samt og það tiltölulega slysalaust ef frá er talið að ég kom stólfæti aðeins of harkalega fyrir á vísitánni og stakk mig í þumalinn með blómavírnum. þetta síðartalda er aðventuklassíker. 
annars vorum við lygilega hófsöm í grenikaupunum í ár. eyddum ekki nema þrjúþúsundogfimmhundruð krónum í blómabúðinni. eða ég, það er að segja. refurinn beið heima og ber enga ábyrg á þessu. hann veigrar sér orðið við heimsóknum í blómabúðina. indælu hjónin sem reka búðina eiga labradortík í, hvernig á ég að orða þetta, umtalsverðri yfirvigt sem hefur ásett sér, þannig að ekki er um að villast, að vinna ástir refsins. þetta gerir hann taugaóstyrkan. eðlilega. hreyfingar dömunnar eru álíka fínlegar og hún sjálf. þannig að oftast nær snýst veran í blómabúðinni upp í það að hann æðir um með stórgerðan aðdáandann á hælunum og reynir að finna sér undankomuleið, smeygjandi sér á milli rósabúnta og leirpotta og glerfígúra, sveiflandi fjöðrinni ótt og títt svo allt umhverfis rambar á vonarvöl og ég hef ekki undan við að forða okkur frá óþarfa fjárútlátum. sem eins og ég kom inná áðan eiga ekki að vera nein þessa aðventuna. þar með talið er að láta það alfarið eiga sig að kaupa hreindýrahorn á refinn eins og ég impraði á að gæti verið skemmtilegt í ár. taka mynd og senda sem jólakort og kveðju á feisbúkk. hann var ósammála. þetta snertir á, eins og hann orðar það, „réttinum til að halda sjálfsvirðingunni yfir hátíðirnar“. ég á ekkert svar við þessu. þannig að við kaupum bara nýtt slifsi. höfum það svart. einfalt. elegant. það getur einhver annar tekið það að sér að vera trúðurinn þessi jól.

sunnudagur, 20. nóvember 2016

frá einu til annars milli ljóss og myrkurs um mjóa línu


við erum stödd á norðurhveli í nóvember. nóttin er stökkur kristall og það kvarnast úr himinum við ljósaskiptin svo þunnar flögurnar sáldrast hljótt til jarðar og leggja ljóseindunum lið í morgunglímunni. fyrsta skíman af sunnudeginum, huguð eins og sakleysið, gerir tilraun til að smeygja sér í gegnum þunna blúndugardínuna og vekja konu og ref sem eru óvenju morgunsvæf og þung í kroppnum eftir andvökur og byltur næturinnar. þrátt fyrir að tilraunin geti varla talist sannfærandi hefur skímuskottið erindi sem erfiði, enda má taugakerfi þeirra sem að er sótt ekki við miklu og lætur jafnan fátt fram hjá sér fara – veri það í svefni jafnt sem vöku. ég skynja breytinguna á birtumagninu í gegnum augnlokin og læt rifa milli hvarma í nokkra stund áður en ég legg í að opna alveg fyrir ljósopið. húsið er dauðahljótt. umgangur nágranna minna er oftast minni fyrir hádegi á helgidögum en á næturnar þegar ég ligg og greini hvert hljóð milli veggja og lofts; í næstu íbúð magnast deilur persóna í kvikmynd þar til einhver er nægilega ósáttur til að hleypa af skotvopni; á efri hæðinni eru borðstofustólar dregnir til líkt og risavaxnir taflmenn og eitthvað þungt dettur í gólfið svo undir tekur. þetta síðasttalda olli mér nokkrum áhyggjum. ég hugleiddi að hringja á lögregluna en ákvað að láta það eiga sig þegar kennslan í mannganginum hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist. ég veit ekki hvenær ég festi svefn. 
þegar ég kemst örlítið betur til sjálfrar mín skreiðist ég fram úr rúminu og faðma refinn áður en ég fer í ullarsokkana og síða peysu yfir náttkjólinn. líkaminn er stirður af þreytu og mig langar mest að leggjast aftur upp í en þar sem ég veit að þar færi ég erindisleysu drösla ég mér fram í stofu og býð antoni góðan daginn um leið og ég kveiki á sítrónuljósinu í hillunni við hliðina á búrinu hans. hann svarar ekki en horfir á mig á milli mjórra rimlana. anton þegir oftast þunnu hljóði þar til ég skrúfa frá krananum. það er eitthvað við rennandi vatn sem espar upp í honum samkeppnisandann – rennandi vatn og etíður philip glass ... sem reyndar hljóma margar eins og seytlandi vatn þegar ég hugsa út í það. frammi í eldhúsi uppgötva ég að nautabaninn og friðardúfan hanga naumlega á veggnum eins og þau, líkt og nágrannar mínir, hafi staðið í ströngu fram eftir nóttu og séu ekki til nokkurs líkleg næstu tímana. ég festi þau varlega til að beygla ekki stífan pappírinn og kveiki svo á þremur kertum sem í kompaníi við sítrónuljósið fara langleiðina að því að lýsa upp íbúðina þannig að sjá megi handa sinna skil við að hella upp á kaffið. ég er eitthvað aum í sálinni og reyni að skæla ekki við uppáhellinguna. það er þreytan, segi ég við sjálfa mig og sæki afþurrkanarklútinn og kveiki á útvarpinu til að heyra ekki í taugaboðefnunum æða um í myrkri kúpunni. 
í útvarpinu er að hefjast útsending frá fjölmenningarmessu fríkirkjunnar og ég bæði meyrna og eflist yfir predikuninni um mýkt og manngæsku mannsonarins sem ævinlega hélt sig á jaðrinum og svaraði engu nema kalli dúfunnar. það er gott að þurrka af og hlusta á bænir og sálmasöng barna og áður en ég veit af hef ég smellt mér í gúmmískóna og er farin út með vatn í fötu að þrífa gluggana. birtan á nógu erfitt uppdráttar á norðurhveli í nóvember þó maður bæti ekki á með skítugum gluggum. því næst skúra ég gólfið og vökva blómin. eitt hefur tilhneigingu til að leiða af öðru. mér til hrellingar sé ég að okkur refnum hefur tekist að drepa einn af þremenningunum á stofuborðinu; litlu þykkblöðungunum sem okkur þykja svo sætir og skemmtilegir í marglitu leirpottunum innan um kertaljósin og hálflesnu bækurnar. mér er ekki vært með dauð blóm á heimilinu. ég klæði mig í kuldaskó og úlpu og set kanínukransinn á höfuðið með hundinn hoppandi í kringum mig af spenningi. hann getur aldrei vanist því að fólk, ólíkt hundum, þurfi að hafa sig sérstaklega til áður en farið er út. 
við röltum í litlu blómabúðina þar sem við fyrirhafnarlítið skiptum dauðum út fyrir lifandi auk þess að kaupa ægifagra fúskíubleika lilju; hvorki meira né minna en sex blóm á einni grein, hvert og eitt á stærð við höfuð refsins og minna má það ekki vera eftir margra tíma þrif undir sunnudagssálmum og blessunarbænum. á heimleiðinni göngum við rösklega í skörpu frostloftinu mót esjunni og þar sem ég virði hana fyrir mér er ég skyndilega slegin yfir því að ummmerkin um átökin sem áttu sér stað þegar hún skapaðist séu enn jafn sýnileg eftir allan þennan tíma. samt stendur hún þarna ennþá. ég ferja hund og blóm yfir þröskuldinn og hugsa með mér að það megi ýmislegt læra af reisn fjalla. 
á meðan ég saxa grænmetið og kem örsmáum lambahrygg fyrir í steikingarpottinum spila ég etíðurnar og sendi anton inn í herbergi að „hugsa sinn gang“. refurinn, sem gleðst alltaf dálítið í laumi þegar „tökubarnið“ er sett afsíðis, situr prúður og hemur munnvatnið. hann veit hvað það merkir þegar eigandinn hefur lambahrygg í matinn og betra að leggja sig allan fram í kurteisinni. sér í lagi eftir að potturinn er kominn úr ofninum og eigandinn byrjaður að borða. það verður ekki af spiki sauðkindarinnar haft að það bragðast vel og styrkir í manni sálina. enda deili ég því greiðlega með refnum sem veitir ekki af öllum þeim sálarstyrk sem völ er á; nágranninn með ónýta hljóðkútinn fer yfirleitt á ról eftir kvöldmat og ferfættlingurinn getur ekki á heilum sér tekið af ótta. drunurnar í nóvembermyrkrinu eru meira en hans smáa hjarta þolir. stundum talar hann um að flytja. taka okkur upp með þykkblöðungana og hálflesnu bækurnar og flytja út á land. það myndi gera okkur gott, segir hann. ég bendi honum á að það sé líka nóvembermyrkur úti á landi. en mögulega engir nágrannar með risavaxna taflmenn og ónýta hljóðkúta, segir hann. en samt, segi ég. nóvembermyrkur. og engar blómabúðir. og kannski léleg útvarpsskilyrði. hann horfir á mig með brúnustu augum í heimi. ég horfi á móti og hvorugt lítur undan í nokkra stund. svo blæs ég á kertin og læsi bakdyramegin fyrir nóttina. ég er ekki viss, refur. ég er alls ekki viss. 

laugardagur, 12. nóvember 2016

það er það sem það er, eða, skór eru skór eru skór eru skór


ég var að leita mér að skóm í alla nótt. kannski ég taki það fram að leitin átti sér stað í draumi. þó intróvertinn í mér sé fram úr hófi fyrirferðarmikill hefur hann ekki enn náð þeim hæðum (eða lægðum) að versla í hagkaup á nóttunni. ég var ekki einu sinni stödd í hagkaup í draumnum. á því meðalkaupfélagi og þeirri draumaboutique sem ég verslaði við í nótt er slíkur reginmunur að það er engin leið að fara út í það nánar. þetta var verulega sérstök búð. mínímalisminn var slíkur að þarna var ekki einu sinni afgreiðslukassi og innviðirnir svo blindandi hvítir og flekklausir að ég, sem að jafnaði tel mig framúrskarandi þegar þrif eru annars vegar, fann hreinlega til minnkunnar. allt í þessari búð virtist upphugsað af skóhönnuði bjarkar guðmundsdóttur. á einhverjum tímapunkti draumsins mátaði ég skó úr gleri. reyndar ekki með hæl og mjórri tá eins og í ævintýrinu um leiðitömu stjúpdótturina – sem mér finnst eindregin vísbending um að ég hafi í alvörunni engan áhuga á að eignast kærasta og húrra fyrir mér með það – heldur voru þetta forláta dr. martens skór úr grænu flöskugleri. mjög sérstakir. en voru því miður ekki til í minni stærð. þeirra í stað valdi ég uppreimaða skó úr fölbleiku silki. fljótlega kom í ljós að það val hefðu verið mistök. bleikt silki er skítsælt. og væmið. ég kann ekki að ráða í þennan draum. og er búin að ákveða að ganga í leku kuldastígvélunum einn vetur í viðbót. ég á enga peninga hér í raunheimum. núorðið versla ég aðeins í draumi. að öllum skókaupum slepptum er engin leið að afneita því að heimurinn er á hliðinni. í höllinni hefur hirðfíflinu verið réttur valdasproti og kóróna, plastumbúðir eru enn stærsti hluti heimilissorpsins þrátt fyrir allan minn góða vilja til hins gagnstæða og leonard cohen er dáinn. á örlítið persónulegri nótum þá þarf ég að láta fjarlægja vörtu af hálsinum á mér. mér er ekki stætt á að tala um þetta sem útstæðan fæðingarblett lengur. þetta er varta. maður á að orða hlutina eins og þeir eru. ég er að æfa mig í því. og ef ég væri alveg heiðarleg væri það einmitt umfjöllunarefni þessarar færslu hversu erfitt það er að orða hlutina eins og þeir eru. og hversu illa það kemur sér fyrir þann sem vill vera rithöfundur. innra með mér ríkir djúp þögn. sem ég er að breiða yfir með því að tala um skókaup í draumi (svo ég bendi á hið augljósa). að lýsa draumförum sínum er skýrasta leiðin til að opinbera andleysi í vöku. ég er stödd í einhverju bili. eins og þvottur á snúru að þorna. eða kaka í ofni að bakast. ég get ekki lýst þessu betur. þannig að ég læt það vera. eða öllu heldur leyfi því að vera. ég er hrifnari af því. let it be is the new let it go. maður er nú einu sinni allur á dýptina. og þó maður viti ekki vel hvert maður er að fara er víst betra að eiga skó. ég skil bara ekki hvers vegna þeir þurfa að vera úr jafn viðkvæmu efni og silki?

sunnudagur, 23. október 2016

einfaldar ályktanir


enn verður mér ekkert ágengt í að skilja strengjafræði. mögulega er þetta vonlaust verk. og þó ég sé öll að vilja gerð veit ég heldur ekki almennilega hvernig ég ætla að snúa mér í því að breyta lífi mínu. en ég vil láta brenna mig eftir andlátið. og gefa vindinum öskuna. um þetta er ég viss. ég hef að vísu ekki nennt að fylla út tilskylda pappíra þessa efnis en nú hef ég í það minnsta rætt þetta opinberlega. altsvo hér á internetinu. þið hin fáu eruð til vitnis. því fylgir óneitanlega einhver ábyrgð. að vísu er þeirri ábyrgð þröngvað uppá ykkur óforspurð en það er ekki eins og maður hafi val um allt í þessu lífi. ég valdi það til dæmis ekki að fæðast – alla vega rekur mig ekki minni til að það hafi verið borið sérstaklega undir mig – það einfaldlega henti mig. eins og eitt og annað hendir mann. það kemst enginn undan þeirri ábyrgð að taka því sem að höndum ber. maður fæðist. og einn daginn mun maður deyja. og þá vil ég láta brenna mig. einfalt. stundum er gott að nálgast hlutina með keðjusög occams. fyrst maður skilur ekki strengjafræði. annars er ég mest með hugann við músík þessa dagana. married to music. það er mín hjúskaparstaða. og hefur kannski alltaf verið. frá því ég var barn hefur lúrt með mér áköf löngun til að læra á píanó. ég held ég hafi talað um þetta áður – nema ég hafi aðeins hugsað það ... nýlega las ég einmitt grein um þá hvimleiðu tilhneigingu intróverta til að sleppa því að yrða þriðju hverju setningu þegar þeir tala. þeir hugsa hana aðeins. þannig vantar alltaf einn þriðja uppá það sem þeir eru að reyna að segja. þetta kemur eðlilega töluvert niður á skýrleika. ég held það borgi sig fyrir mig að útbúa spjald með þessum upplýsingum og ganga með um hálsinn sjálfri mér til varnar. en ég var að tala um píanó. og það sem mig langaði að segja um píanó er að það er eitthvað ómótstæðilega þokkafullt við það að leika á slíkt hljóðfæri – og reyndar öll strengjahljóðfæri ef út í það er farið – píanó eru nefnilega strengjahljóðfæri. ég var komin vel yfir þrítugt þegar einhver uppfræddi mig um þá staðreynd en hún kom mér ekki á óvart; píanóleikarar hafa þetta yfirbragð sem einkennir strengjaleikara. ég veit ekki hvort það eru straumlínurnar í formi hljóðfæranna eða tilfinningin í hljómi þeirra sem gera það að verkum að það réttist úr hryggsúlu þess sem fer um þau höndum og hreyfingar hans fyllast af munúðarfullri mýkt og ofsa allt eftir inntaki tónanna sem hann ætlar að seyða úr strengnum og inn í hlustir þeirra sem heyrt geta en eitthvað er það. það húkir enginn yfir strengjahljóðfæri. það er einfaldlega ekki hægt. ég er handviss um að ef ég hefði verið fjórtán ár í píanónámi en ekki dansnámi væri ég samt alltaf svona bein í baki. bara ekki svona fáránlega útskeif. ég ætla að læra á píanó áður en ég dey og verð að ösku sem vindurinn tekur. ég hugsa að ég geti lært á píanó. ég er alla vega bjartsýnni á það en að mér takist að skilja strengjafræði. svona fyrst maður er að munda keðjusög occams.

laugardagur, 8. október 2016

að draga mörkin með mjúkri línu er svar kærleikans við reglustikunni


það eru einhver teikn á lofti. ég ætla ekki að fara nánar út í það en svona kýs ég að lesa í atburði líðandi stundar. og nú bý ég um rúmið mitt. að búa um rúmið sitt er víst einn af þessum einföldu hlutum sem rannsóknir sýna að geri fólk hamingjusamt. þetta hef ég lengi vitað. maður hefur ekki tekið almennilega ákvörðun um að fara á fætur fyrr en maður hefur búið um rúmið sitt. ég myndi vilja bæta því að strjúka yfir gólfin fyrir morgunmat á þennan lista. það er einhver gjörningur í því að „hreinsa flötinn“ í upphafi dags. einhver ætlun um að vera heiðarlegur. okkur konunni sem er að breyta í mér heilanum sammæltist reyndar um það nýlega að ég þyrfti að grinnka eitthvað á öllum þessum ritúölum. það er alveg að fara með mig á köflum að vinna eftir regluverki samúræjans sem sinnir því hlutverki að halda óreiðunni í lífi mínu innan skikkanlegra marka. það er ofboðslegt álag á honum. í framhaldi af samtali okkar heilabreytingarkonunnar sendi ég hann á japanskt heilsuhæli. þess vegna hef ég ekki vaskað upp í nokkra daga. það angrar okkur ekki að ráði. ég lít stundum til með honum þarna á hælinu og það gleður mig að sjá að hann virðist hafa gott af dvölinni. hann hefur braggast töluvert – hann sem var vart annað en skinn og bein – og unir sér löngum stundum í jarðbaðinu sem ég lét gera í litla garðinum fyrir utan herbergið hans. þetta er gott svona. hann hvílir sig og ég get þá einbeitt mér að lestri og skrifum á meðan. í gærkvöldi byrjaði ég að lesa steinsteypu eftir thomas bernhard. hvað það er fáránlega fyndin bók! ég er búin að eiga þessa bók í mörg ár og dauðsé eftir að hafa ekki lesið hana fyrr. hún er svo fyndin að ég óttast mest að hún eyðileggi mig sem höfund. ég hætti að skrifa af því ég geti aldrei orðið jafn fyndin og thomas bernhard. hætti að skrifa og snúi mér alfarið að þrifum því ég muni aldrei geta byggt upp jafn langar og taktmiklar setningar og thomas bernhard. ég má ekki láta þennan þanka ná tökum á mér. og ég þarf að minnka við mig magnesíumskammtinn. ég er að verða húðlöt á morgnana. það er orðin regla fremur en tilfallandi að ég komi mér ekki á lappir fyrr en klukkan sjö. mögulega borgar sig að trappa mig niður í ráðlagðan dagsskammt. nema þetta skrifist á dvöl samúræjans á hælinu? getur það verið? ég viðurkenni að ég óttast örlítið að kannski komi hann aldrei til baka og lífi mínu skoli út í fallvatnið fyrir vikið. þótt ég hafi sent hann á þetta hæli þýðir það ekki að ég þurfi ekki á honum að halda. ég þarf virkilega á honum að halda. hann verður bara að læra að lesa í aðstæður og hætta að tala til mín í boðhætti. en hann ræður ekki við það eins og er. þannig að hann verður eitthvað áfram á þessu hæli. í millitíðinni ætla ég að hlusta meira á nýju bon iver plötuna því ég á að segja eitthvað um hana í útvarpinu á mánudaginn. og samúræjinn á ekki skipta sér af því verkefni. hann má hlusta á meðan hann baðar sig en hann á ekki að tala. ég er að tala. og nú vitum við bæði hvað það þýðir.        

sunnudagur, 2. október 2016

margföldunaráhrif verka mínus tími


það var ekki ég sem borðaði súkkulaðið úr krúsinni í búrskápnum. ég er höfð fyrir rangri sök. það var ekki heldur ég sem hellti rauðvíni í glasið áður en klukkan sló fimm. einhver virðist staðráðinn í að bregða fyrir mig fæti. það er lægð yfir landinu og ég man ekki hvað mig dreymdi síðastliðna nótt. infrastrúktúrinn er á sjálfstýringu þessar vindasömu haustnætur og ég sef varla svo heitið geti. ég er ekki ein um það; á efri hæðinni eru húsgögn dregin til upp úr 02:40; handan götunnar þenur einhver ónýtan hljóðkút; hundurinn er órólegur. stundum virðist sótt að manni úr öllum áttum samtímis. stundum er eins og breiddarbaugarnir í lífi manns raði sér skyndilega skipulega upp, eftir að hafa bylgjast stefnulaust um á jaðri sjónsviðsins, og teygi sig út í hið óendanlega þar sem allt ýmist lýsist upp eða eyðist út á meðan maður sjálfur dregst saman í örsmáan punkt, flöktandi og máttvana. hversdagsverkefni fimm daga vinnuviku geta lagt mann í læsta hliðarlegu á skemmri tíma en hægt er að ímynda sér þegar dimmir á morgnana og loftþrýsingurinn fellur án fyrirvara. þetta kallar á eitthvað fyrirbyggjandi. ég er að hugsa um að kaupa mér sólarupprás í klukkuformi. ég hef heyrt um slíkar klukkur; töfragripi sem læða dagsbirtu inn til manns löngu áður en hún lætur sjá sig opinberlega. þetta er kannski bíræfið. að ætla að leika á sjálfa sólina. en ég tek áhættuna. ég hef engu að tapa.         

sunnudagur, 18. september 2016

það vindur ofan af keflinu en styttist í þræðinum


... en allt byrjar í miðjum klíðum. maður er alltaf í miðjum klíðum. það dregur úr mér allan mátt. stundum tel ég mig vera fyllilega meðvitaða um framvinduna og hafa alla þræði í hendi mér en áður en ég veit af og án þess að ég fái nokkuð við ráðið máist sú kennd út og vettvangur daglegra athafna fer aftur að minna á ógnarstóra vinnustofu þar sem öllum hlutum virðist ranglega fyrirkomið. það er á þessu stigi sem heimsókn frístundamálara í söluherferð vekur svo harkaleg viðbrögð að seinna, mögulega strax og ég loka hurðinni, mun ég sjá eftir því ...         

miðvikudagur, 14. september 2016

að láta sig málið varða

nei, nú fer ég þarna út og segi vindinum að hætta að djöflast í trjánum. 

laugardagur, 10. september 2016

það er sem ég segi


hrossaflugurnar hríðfalla í gluggakistunni. það virðist ekki í mínum höndum að bjarga þeim. yfirleitt standa bakdyrnar opnar megnið af deginum svo ef þær hefðu einhvern raunverulegan áhuga á að forða sér ætti þeim að vera hægt um vik að flögra út í haustrakann. en þær velja að deyja í gluggakistunni minni. dag eftir dag kem ég að enn einum andvana líkamanum þegar ég aðgæti rakastigið á hortensíunni og nóvemberkaktusnum. undantekningarlaust liggur sá látni á hliðinni; afkáralega langir fæturnir – þurrir og stökkir í dauðanum – og fíngerðir vængirnir sem standa beint upp úr búknum gera það að verkum að viðkomandi á bágt með að liggja á bakinu. jafnvel þótt hann glaður vildi. sem ég dreg reyndar í efa að nokkur vilji tilheyri hann ekki menginu homo sapiens. mannfólk getur vissulega legið á bakinu án þess að það komi niður á virðuleika þess en mér dettur ekki í hug ein einasta dýrategund, hvað þá skordýr, sem kemst vel frá því að snúa kviðnum upp í loft. sú líkamsstaða hefur undantekningalaust í för með sér algjört tap á reisn. og uppgjöf. og einmitt þess vegna finnst mér eitthvað fallegt við það þegar ég finn hrossaflugurnar liggjandi á hliðinni í „kistunni“. eins og þær hafi valið að leggjast til svefns einmitt þarna fremur en að gefast upp fyrir lífinu. sjálfsagt er ég að lesa of mikið í þetta. ég reyni að hafa það fyrir reglu að lesa frekar of mikið í en of lítið. oftúlkanir gera lífið áhugaverðara. og eru holl hreyfing fyrir heilann.

þriðjudagur, 6. september 2016

an intelligence that incorporates hiddenness into making its point.


á fimmta degi í flensu finnur maður sig á þeim stað að hugleið guð. ég er hrifin af þessari yrðingu hér ofar. hún fangar eitthvað um auðmýkt og yfirvegaðan ásetning sem mér finnst mikilvægt í samhengi við hugmyndina um skapara heildarskipulagsins. ég heyrði þessa setningu í uppáhalds hlaðvarpinu mínu í morgun. ég smíðaði hana sem sagt ekki sjálf – svo það sé á hreinu. mér hefur aldrei tekist að yrða neitt vitrænt um guð. eðlilega ekki. samt líður held ég ekki sá dagur að ég hugsi ekki um guð. en að hugsa er ekki það sama og að skilja. og þó ég hugsi linnulaust um allt mögulegt þá veit ég mjög fátt. nánast ekki neitt. sér í lagi ekki um guð. ég er bara venjuleg manneskja sem dreymir um að minnka kolefnisfótsporið mitt og fá einhvern örlítinn botn í það áður en ég dey hvernig pláneturnar fara að því að svífa um af slíkri stillingu og þokka að það kemur engan veginn heim og saman við stærð þeirra. og mig langar óskaplega til að skilja strengjafræði. sem ég geri alls ekki. miðað við hversu lítið ég veit um þá grein eðlisfræðinnar – sem sumir vilja meina að sé hreinasta póesía – ætti ég í raun ekki að hafa neitt um hana að hugsa. samt held ég að ég hugsi um strengjafræði á hverjum degi rétt eins og ég hugsa um guð á hverjum degi. og oftast á þeim nótunum að ef mér takist að skilja þau lögmál sem að baki henni liggja muni leyndardómur tilveru minnar ljúkast upp fyrir mér og öll mín mál leysast farsællega. með öðrum orðum; ég muni finna guð. þetta verður dálítið þráhyggukennt á köflum. ég hef jafnvel velt fyrir mér að táldraga einhverja menn uppi í háskóla mér til framdráttar í þessu máli. en sem betur fer hef ég ekki látið verða af því. sem betur fer þeirra vegna á ég þá við.  

mánudagur, 5. september 2016

veröldin breytir í lauf og ég held mig á dýpinu


ég fer ekki ofan af því að enginn árstími er eins vel til þess fallinn og haustið að senda mann út að ganga í hægðum sínum með hund sér við hlið. ég tala ekki um eftir að hlaðvarpið kom til sögunnar. í gamla daga þegar ég var minni og það var ekki til neitt hlaðvarp fór ég stundum með bók út í móa og las á fallegum dögum. þetta gerði sig reyndar aldrei almennilega. mér varð svo fljótt kalt á höndunum. þetta virkaði betur sem hugmynd. en svo rann þessi svokallaði nútími upp – það umdeilda fyrirbæri – og mögulega er hann ekki jafn ömurlegur og ég hef tilhneigingu til að hafa hátt um í eyru samferðamanna minna. í það minnsta get ég einfaldlega geymt hendurnar í vösunum núna á meðan ég rölti í litabreytingunum með ýmislegt í eyrunum sem svarar þeirri kröfu að mér þyki það seriously entertaining, eins og ég kýs að kalla það, og á þá við að eitthvað sé hvoru tveggja entertaining and educational. mér finnst ég aldrei tala mig nógsamlega út um það hvað ég er skelfilega leiðinleg kona svo ég ætla að fara aðeins dýpra í þetta atriði. ég hef ekkert umburðarlyndi, eiginlega algeran ímugust, fyrir „hreinni“ skemmtan, einhverju til að „stytta sér stundir“ yfir. hlutirnir verða að hafa merkingu ef ég á að endast yfir þeim. kenna mér eitthvað. stytta sér stundir? hvers konar rugl er þetta? hefur fólk endalaust af tíma á milli handanna? ég er kannski ekki í hópi þeirra sem hugsa um dauðann í tíma og ótíma en þegar ég geri það er helst þrennt sem skelfir mig. tilhugsunin um að deyja í ljótum nærbuxum (ég hef komið inn á þetta áður), tilhugsunin um að deyja frá tölvunni minni og fólk komist yfir alla hálfskrifuðu textana mína (eiginlega sami óttinn og með nærbuxurnar) og tilhugsunin um að deyja einskis vísari. þetta síðasttalda skelfir mig mest af öllu. ég get lifað með óttanum við að deyja í ljótum nærbuxum og myndinni af fólki að ygla sig yfir stefnuleysinu í „skjalaskápnum“ en þegar ég hugsa til alls þess sem ég mun að öllum líkindum ekki komast að, sjá, lesa eða heyra áður en ég leggst lárétt í síðasta sinn ætla ég hreinlega að verða vitlaus af hræðslu. þegar þetta er sem verst finnst mér ég hreinlega vera dáin. altsvo andlega. sökum fáfræði. en ég vil helst ekki vera að tala mikið um þetta? það gerir mig taugaveiklaða. einhverju sinni nýlega ræddi ég þetta við vinkonu mína sem glímir við svipað vandamál, að þurfa alltaf að vera á dýpinu, og okkur sammæltist um að reyna framvegis að hleypa léttleikanum meira inn í líf okkar. ég hef aldrei vitað til þess að nokkur kona eða maður setti sér eins glórulaust óraunhæft markmið. ég þarf ekki að taka fram að mér hefur mistekist fullkomlega. síminn minn hefur sjaldan verið jafn fullur af hlaðvarpi um hin ýmsu tilvistarlegu og andlegu málefni. og ég ver orðið nánast öllum frítíma mínum í göngutúrum.