laugardagur, 23. mars 2019

hvorki sá besti né versti. heldur hinn síendurtekni.


ég veit ekki hvað hefur gengið á í höfuðstöðvum unesco þegar ákveðið var að hafa alþjóðlegan dag hamingjunnar og alþjóðlegan dag ljóðsins í einni og sömu vikunni en leiði að því líkur að gríðargóð stemning hafi verið í húsinu. eðlilega höfum við heimilisfólkið vart komist til vinnu sökum hátíðarhalda. maður lætur ekki sitt eftir liggja þegar heimsbyggðin tekur sig saman og fagnar grunnstoðum mannsandans. þrátt fyrir umhverfisangistina og brotnu hurðina á eldhúsinnréttingunni og postulínstönnina sem kostaði mig hálf mánaðarlaun og niðurstöðurnar úr styrkleikaprófinu sem ég tók á netinu. ég hefði kannski átt að láta það eiga sig. þ.e. að taka þetta próf. þetta er víst frekar marktækt próf. og því ansi deprímerandi fyrir minn prívat mannsanda að það segi mér að sá eiginleiki sem ég sé slökust í sé vonin. ekki beint í takt við vikuna - one inevitably feels like a failure. 

reyndar voru niðurstöðurnar úr þessu prófi almennt séð vonbrigði. minn mesti styrkleiki er víst the appreciation of beauty and excellence. sem eru mér engar fréttir. en hvað í fjandanum á ég að gera við það? benda fólki á að nýja lífræna rauðvínið í áfengisversluninni sé hreint afbragð og á ótrúlega góðu verði miðað við gæði og að nýju blokkirnar sem eru að rísa við eina af aðalumferðaræðum bæjarins séu illa staðsettar og ekki líklegar til að auka lífsgæði verðandi íbúa? how, oh how, can one be of use? ég var meira að vonast eftir einhverju eins og framkvæmdarorka eða útsjónarsemi (sem er reyndar ekki á listanum ... kannski þarf bara að eiga eitthvað við þennan lista). eitthvað í þá veruna hefði í það minnsta blásið mér í brjóst nægum krafti til að gera eitthvað í þessu með hurðina á eldhúsinnréttingunni. hún fór af hjörunum einhvern tímann í haust. eða í sumar. ég man það ekki. það er alla vega mjög langt síðan og mamma mín hefur krónískar áhyggjur af þessu. mamma mín er á spáni í splunkunýju íbúðinni sinni þar sem allar hurðir og hjarir eru í toppstandi og  vel slegnar golfflatir við hvert fótmál þannig að það er frekar leiðinlegt að ástandið á heimili örverpisins sé að svipta hana svefni. hún hefur meira að segja boðist til að kaupa handa mér nýja innréttingu. ég hef ákveðið að ég sé ekki nægur þurfalingur til að þiggja það. maður verður að halda í þennan snefil af mannlegri reisn sem maður hefur enn úr að spila. með eða án hurða og hjara. ég er alla vega ekki tannlaus lengur. það er eitthvað.

kannski ætti ég að útskýra þetta betur. þetta með tannleysið, það er að segja. ekki nokkur maður hefði  getað logið því að mér til lengdar hvað brotinn jaxl geti gert sjálfsmynd vel menntaðrar fjörutíu og þriggja ára gamallar konu. síðustu fjórar vikurnar, frá því hversdagslega andartaki þegar ég stakk nokkrum pekanhnetum upp í mig eftir spretthlaupin og gufubaðið og fann eitthvað bresta í munninum á mér - eitthvað sem augljóslega var ekki hneta - hefur mér liðið líkt og ég sé bæði heimilis- og atvinnulaus og hafi jafnvel verið það lengi - tilfinning sem átti lítið annað eftir en að styrkjast þegar ég áttaði mig á hvað þetta myndi kosta mig. og að ég fengi að öllum líkindum fljótlega hryggskekkju af því að tyggja alltaf bara öðrum megin. þannig að ég ákvað að þetta væri fínn tími til að prófa þessar föstur sem allir eru að stunda en ég sjálf hafði ekki treyst mér út í af þeirri augljósu ástæðu að mér þykir betra að borða en að borða ekki. en í ljósi aðstæðna leit þetta út fyrir að vera tilvalið. ekki síst þar sem föstur eiga að hafa undraverð áhrif á þarmaflóruna og geðheilbrigðið (hvort tveggja á mínu áhugasviði). við fyrsta kast virtist þetta því a triple win deal: tannleysisvænt, ódýrt og heilsueflandi. og þetta gekk ágætlega. þar til ég varð svöng. þá féll allt um sjálft sig. samt er sjálfsagi ofarlega á styrkleikalistanum samkvæmt prófinu sem ég tók á netinu. líkast til er ekkert að marka þetta próf. en mér líst nokkuð vel á nýju postulínstönnina. ég var dálítið feimin við hana fyrst en eftir því sem við kynnumst betur verð ég æ sannfærðari um að þetta muni allt blessast og að bráðum muni mér aftur líða eins og atvinnuöryggi mitt sé gott og staða mín á fasteignamarkaði sterk. þrátt fyrir brotnu hurðina. og gagnslausa styrkleika. haltu í hestana þína kona. enga græðgi.

en. alla vega. áfram veginn. annan hring. 
(og reynum að hafa gaman af því.) 


laugardagur, 17. nóvember 2018

blátt gull

ef ég væri frumefni vildi ég vera vatn. mýkt og seigla. þrotlaus framvinda. staðföst yfirvegun. óumflýjanleg einbeitni. jafnvel beljandi fossar og straumharðar ár virðast fara sínu fram án þess að efast eða óttast og af algeru áreynsluleysi. foss einfaldlega verður að falla. áfram. árnar einfaldlega verða að streyma. áfram. og pollarnir - þeir sem ekki fá sig hrært fram á við - þeir seytla niður í grunnvatnið, aftur til upphafsins – eða hleypa ham og gufa upp í himinhvolfið. vatn er eilíf hreyfing. eilíft áframhald. vatn finnur alltaf leið. lausn. vatn dvelur ekki við óþarfa. lítur ekki til baka. og tekur ekki til sín. vatn nærir. skilyrðislaust og án hleypidóma. það sem það sverfur, sverfur það með mýkt og tíma. og langlundargeði. ekki hörku. ekki átroðningi. vatn þarf ekki að sanna sig fyrir einu eða neinu. það einfaldlega er.   

mánudagur, 10. september 2018

líðandi stund er gæðastund ef hún er lestrarstund en annars aðeins tómt stress (minnisblað frá dyngju drottningar)


ég gleymdi að kaupa vekjaraklukku. aftur. frá því að ... hvar á ég að byrja þessa frásögn? frá því að ég áttaði mig á því að gamli síminn minn, sem ég þurfti að taka aftur í gagnið eftir að nýi síminn varð fyrir óhappi, er ófær um að fylgja takti tímans? eða frá því að ég missti nýja símann í salernið á gistiheimilinu á stokkseyri í útskiftarferð nemenda minna sem gerði það að verkum að ég varð að „leita á náðir“ gamla símans sem hvorki vill gefa frá sér hljóð né veit hvað tímanum líður? hvorugan hef ég efni á að láta gera við og því er sem er; mig vantar vekjaraklukku! jafnvel þótt ég vakni yfirleitt af sjálfsdáðum milli sex og hálf sjö þá hefur þessi reynsla mín af „gangverki tímans“ gert mig (í besta falli) skeptíska á alla tímateljara heimsins – þar með talið mína eigin innbyggðu líkamsklukku.

en. let us not despair! nægjusemi mín og færni í að „elda út úr skápunum“ er slík að ef ekki væri fyrir þær stórkostlegu fjárhæðir sem ég eyði í bætiefni (lífrænt túrmerik, hveitgras, e-vítamín, d-vítamín, spirulina, zink, selen, meltingagerlar, omega-allt, grape seed extraxt, liðir, þaratöflur - þetta er máltíð út af fyrir sig) þá væri staðan í heimabankanum allt önnur og mun meira spennandi en reyndin er. ég er ofurseld krítarkortinu um ókomna framtíð og út yfir endimörk alheimsins. hversu lítillækkandi fyrir þann sem á stundum (í það minnsta) líður eins og englandsdrottningu (sjá fyrri færslu).

en. let us not dwell on matters of such mundain character! hvað er maður að lesa? því maður les. ég les; þess vegna er ég! sumarið fór í múrsteina. já, ég sagði múrsteina, ekki hundana. karl ove, sem ávallt fær mann til að spyrja sig: hvers vegna er ég að lesa þetta? hvers vegna fletti ég blaðsíðu eftir blaðsíðu sem á einn eða annan hátt segja allar frá því að opna og loka skápum og leggja frá sér glasið? svarið er: ég veit það ekki en hann neglir þetta einhvern veginn alltaf á lokasíðunum. mannandskotinn! gat hann ekki bara verið sætur og haldið kjafti? það hefði sparað okkur öllum töluverðan tíma.

en. svo var það ævisaga tove jansson. life. art. words. löng. en þess virði. tove jansson var stórmerkileg kona, listamaður og manneskja á hvaða tíma mælikvarða sem er og töluvert stærri en sínir múmínsnáðar eins og the summer book sem ég les í augnablikinu (og telst ekki múrsteinn) ber vitni um. sú bók er yndislesning og ekki skemmir fyrir að hún barst mér í pósti á afmælisdaginn frá yndisvinum erlendis. dásemd!

sapiens er enn á koddanum þótt grilli í síðustu kaflana og já, maður skammast sín fyrir að tilheyra þessari dýrategund. what a piece of work is man ... and what an idiot! frábærlega fræðandi og kostulega skemmtileg lýsing á þróun grimmustu dýra jarðarinnar; meistara sinnar eigin eyðileggingar; tegundinni sem lét hveiti gera sig að þrælum! ég verð að viðurkenna að kaflinn sem skýrir frá því hvernig hveititegundinni tókst svo hratt og laumulega að undirokar hina hugsandi veru gladdi mig einstaklega enda rímar hann með ólíkindum við bloggfærslu sem ég skrifaði fyrir um það bil tíu árum um það hvernig heimurinn fór til helvítis þegar maðurinn hóf að þreskja korn (eða eins og höfundurinn yuval noah harari orðar það: how wheat domesticated man). vík frá mér satan og allt þitt heimilisfólk! á upphafslestrarstigi er svo ritgerðarsafn stórvinkonu zadie smith, feel free. þarf að kom að því síðar.

en. yndi allra ynda og fegursta hjartablómið er óumdeilanlega hin órólegu (ekki múrsteinn) eftir linn ullman. ég get eiginlega ekki talað um þessa bók af neinu viti. því þetta er bók af því tagi sem maður lokar og grætur og langar samstundis að fletta aftur á fyrstu síðu og gráta áfram og óskar þess mest að maður hefði skrifað hana sjálfur. undurfögur, sár og djúp, solid stuff.

en. þar sem nú er haust og ég „mætt til starfa“ í launavinnunni, þá er gott að grípa í eitthvað líkara minnisbók sem rúmast í meðal brjóstvasa en múrsteini, eitthvað eins og til dæmis tvímála útgáfu af batleby skrifari í þýðingu míns kæra rúnars helga sem gaf mér hana á dögunum og gladdi mig mikið. ef einhver kann íslensku er það minn góði lærifaðir og lesningin unun eftir því. frábærlega fyndin en um leið sorgleg stúdía á hlýðni og óhlýðni og mannfjandsamlegu umhverfi kapítalismans. fussumsvei! eru fleiri upphrópunarmerki en orð í þessari færslu? það verður þá bara að hafa það. ég verð að hátta mig. því ég á enga vekjaraklukku. og verð því að vekja mig sjálf. ég, þessi óstabíla vera – og svo gott sem drottning breska heimsveldisins! hvar er teið mitt ... ?

sunnudagur, 9. september 2018

10.000 klukkustunda reglan


í gærdag ætlaði ég mér sækja samræðustund hjá heimspekikaffihúsinu. ég hef einu sinni áður sótt slíka samkomu og þótti það bæði hressandi og þankavekjandi. umræðuefnið þetta sinnið var sú áleitna og þarfa spurning „hvernig losnum við úr viðjum vanans?“ ... ég hefði átt að skáletra sögnina ætlaði í upphafssetningunni hér framar. til áhersluauka. staðreyndin sem ég er að reyna að lifa með í dag er nefninlega sú að þrátt fyrir ásetninginn komst ég aldrei á þennan samræðufund. af vanabundnum ástæðum. það er: mínar vanabundnu athafnir stóðu í vegi fyrir því að ég kæmist á viðburðinn í tæka tíð. sem er synd og skömm. ég hefði augljóslega getað lagt eitt og annað gagnlegt af mörkum. og sjálf haft gagn af. mínar daglegu vanabundnu athafnir eru lygilega tímafrekar. og þó ég fari regulega í gegnum það hverju ég gæti mögulega hent út af stundaskránni kemst ég aldrei að neinni niðurstöðu sem ég get almennilega fellt mig við. og held mig þar af leiðandi við óbreytt ástand. hvað þetta orðasamband er ógeðfellt! óbreytt ástand. ég vil ekki ígrunda þetta nánar. ég óska þess að haustið vari að eilífu. einhvern tímann í gamla daga, þegar ég var minni og einfaldari að formi og inntaki (og átti auk þess ekki guðdómlega fallega kápu úr handofnu tweed-efni) þótti mér sumarið (eða sú takmarkaða birtingarmynd þeirrar árstíðar sem norðurhvelsbúar gera sér að góðu) albesti tími ársins. en ég er fullorðin núna. og næmari á fegurðina í hverfulleikanum sem gerir hvert andartak svo dýrmætt og tifandi. og þar fyrir utan á ég auðvitað, eins og ég tæpti á rétt áðan, þessa dýrðlegu kápu. fólkið sem óf í hana efnið hefur ekki einbeitt sér að öðru en tweed-vefnaði í meira en hundrað ár. það hefur með öðrum orðum gert það að ófrávíkjanlegum vana að fara höndum um tweed-efni upp á hvern einasta dag í hundrað ár. það sést. þetta er kápa sem fólki langar að koma við. samt ekki á þann hátt að það sé óþægilegt. meira eins og ég sé the queen of england and all things englishhhhh. þegar ég geng hér um hæðirnar í haustinu, klædd þessari kápu og með hundinn minn, líður mér nákvæmlega þannig. eins og ég heiti elísabet og beri rómverskan tölustaf í stað eftirnafns. eini munurinn er sá að ég á ekki skotvopn. og ekki eins mikla peninga. en slíkt er smávægilegt þegar manni líður eins og maður sé drottingin af englandi. (ég skáletraði núna. til áhersluauka.)   

fimmtudagur, 5. júlí 2018

fundið ljóð


þegar ég hef öðlast næga innsýn í eitthvað annað en að safna hári segi ég kannski eitthvað mjög merkilegt. en í augnablikinu held ég mig við orð annarra:

"nothing can happen to one except what is already similar to oneself. till one changes."
tove jansson

mánudagur, 2. júlí 2018

að óloknum slætti... um hádegisbilið hefur himininn svo gott sem lagst til jarðar og þegar ég ösla yfir mýrlendið undir helgafellinu í hriplekum gönguskóm fæ ég ekki varist þeirri hugsun að stemmingin sé að verða allt að því bíblíuleg. hvern hefði grunað að þvílíka ofgnótt af vatni væri að finna utan furðuheima goðsagna og refsiramma hinnar helgu ritningar? ég hef heyrt undan af því og ofan í radíóinu að það skrifist á bresku þjóðina að sál mín og skófatnaður liggi undir veðraskemmdum en verð að viðurkenna að ég skildi ekki fyllilega samhengið þar á milli. orsakasambönd veðurfræðinnar eru mér hulinn leyndardómur. ég er einföld manneskja. ég reyni að lifa með því sem er. þannig að ef náttúran hagar sér eins og um haust þó almanakið vilji meina eitthvað annað þá reyni ég að láta þar við sitja. maður á ekki að reiða sig um of á hið fyrirframgefna. það endar oftast með vonbrigðum. ... ég er að ræða þetta af meiri yfirvegun en efni standa til. hið rétta er að ég hef stóraukið bætiefnaskammtinn og loftfirrtu lotuæfingarnar. aldrei að sofna á verðinum. mínir andlegu innviðir skynja ekki nema að litlu leyti að orðið hafi árstíðarskipti. en líkaminn virðist ekki velkjast í vafa; það sem að jafnaði vex upp úr hársverði mínum og undan naglabeðunum (og vísindin segja mér að séu dauðar frumur!) sprettur svo undur hratt að grös og trjágróður um rigningasumar eiga ekkert svar. og ég ekki heldur, ef út í það er farið. hvern morgun sest ég upp í rúminu og segi við refinn að þetta geti ekki gengið svona mikið lengur; það er hætt að skipta nokkru hverju ég klæðist fyrir ofan mjaðmabein. en maður má ekki barma sér. í fjarska kasta menn krónu og sparka í bolta. í kjölfarið liggja einhverjir í blóði sínu og tárum. skógar eyðast. börn týnast í hellum og eru lokuð inni í búrum. allt þetta veit ég því á meðan alheimurinn þenst út er heimurinn sífellt að verða minni. ég er að smíða kenningu um áhrif þeirrar togstreitu sem slík grundvallarþversögn skapar í taugakerfi manna. tíminn mun leiða í ljós hvort hún heldur vatni. sjálf hef ég reyndar týnt tímanum. síminn minn neitar að gefa mér réttar upplýsingar í þeim efnum og ég á ekki armbandsúr. mig bráðvantar armbandsúr. armbandsúr sem segir sex því talvan mín er of stór til að ég „beri hana á mér“ öllum stundum. auk þess gengur hún ekki við allt í fataskápnum. sem er viss forsenda. og nú leyfi ég þessu að líða ...  

mánudagur, 22. janúar 2018

lífi mitt í ljóðiElegía

Fullvaxin spegilmynd
gegnumlýst
í röntgengeislum
nýársdags.

Brotið kjúkubein
á baugfingri vinstri handar,
brak bernskunnar
ryðgað milli bringspalanna.

Höfuðkúpan
loftþéttur kúpull
úr gleri,
lagður yfir safn stillimynda; 

            augu föður míns í baksýnisspeglinum á gömlum trabant snemma á níunda áratugnum.
            Hendur hans að herða gjörðina utan um ávalan kvið hestsins, úfinn í vetrarfeldinum, áður en hann lyftir mér á bak.
            Risavaxinn líkami þyrlunnar þar sem við stöndum hönd í hönd í opnu flugskýlinu þaðan sem sér í hafið.
            Heiðursvörður við fánaklædda líkkistu á hafnarbakkanum á hryssingslegum degi í nóvember.   

/.../


Að lifa lífi sínu einn.
(Vakna
vaka
sofna
sofa)
og grafa spörfugla gærdagsins
án hluttekningar,
því nándin
er dýpsta
sárið.

Rafglóandi taugabrautir          
- göng
í gegnum tímann -
rangt tengdar
við sjálfið;

hvern dag horfi ég á hendur mínar 
– líflínan
morkin gúmmíteygja, trosnuð í báða enda –
og minni mig á
ártalið;
frumurnar
sem skipta sér;
aldur
tanna minna og beina;
barnið sem varð fullorðið.

Í sjónjaðrinum björgunarþyrlan.

laugardagur, 22. júlí 2017

lífsþorstinn


staðan: jólatréð er enn á pallinum; dáið. erikurnar frá því í vor eru enn í leirpottunum, einnig úti á palli; dánar. pallurinn sjálfur er dauðvona sökum vanrækslu; í þurrki er ég of upptekin í náttúruskoðun og sundi til að bera á hann; það er bannað að bera á pallinn sinn í vætu. og einhvern veginn eru lögmál náttúrunnar á þann veg að með hverjum þurrkadegi styttist í vætuna. það hef ég reynt á eigin sál. eftir margra mánaða augnþurrk féll ég loks saman á jógadýnunni nýverið og grét eins og umkomulaus brjóstmylkingur. það hlaut að koma að því. nú get ég eiginlega ekki hætt. né gert upp við mig hvort er betra. og nákvæmlega þess vegna leyfist mér á laugardagskvöldi að drekka ótæplega hvítvín með fiskinum og salatinu og hlusta á dánarfregnirnar og wicked games með chris isaak. ég er ung kona – staðhæfing sem í ljósi þess sem hér ofar er ritað hljómar í besta falli dapurlega; máttleysislegt uppreisnaróp; vantrúa andvarp. hljóðlát einvera er orðin mér svo inngróið ástand að suma daga kemur það mér beinlínis í opna skjöldu að líta í spegil og fá þar staðfest að ég hafi tvö sett af hvorum útlim, tvö augu, tvö brjóst ...  fjúkið af öspunum smeygir sér í gegnum rifuna á eldhúsglugganum og ertir í mér augun og ég gríp nokkrum sinnum andann á lofti áður en ég hnerra með hávaða í olnbogabótina svo hundinum bregður. skjalið í tölvunni er stopp í tuttuguogfjögurþúsundfjögurhundruðsjötíuogþremur sundurlausum orðum. þakrennan er farin í sundur um sig miðja. flísalögnin á baðherberginu hefur svo gott sem staðið í stað frá páskum og ég horfi enn aðeins í eina átt. ég hef ekki lausn á neinu þessara verkefna. ég hef frekar lítið verksvit. og virðist hafa siglt í þrot. ergo; staðan.      

þriðjudagur, 27. júní 2017

allt hefur sinn tíma er annað orðatiltæki sem mér leiðist (svo maður vísi fram en ekki aftur í sín eigin orð)


í dag keypti ég loks tarte au citron. það hefur staðið til frá því ég kom en þrátt fyrir að bakarí séu um það bil það síðasta sem höfuðborg frakkaríkis skortir hefur mér einhvern veginn ekki orðið neitt úr neinu í þessum efnum. ég er nákvæmnismanneskja með svona hluti. og rétta kakan virtist aldrei ætla að gefa sig fram á rétta augnablikinu. satt að segja var ég að verða hálf uggandi yfir hversu treglega þessi kökubissness ætlaði að ganga hjá mér; það er ekki eins og ég sé með franskt ríkisfang; mér fannst beinlínis komin brunalykt af málinu. en á flandri mínu í dag kom ég af rælni við hjá manni sem hefur bakað kökur síðan 1685. og þó mér leiðist orðatiltækið æfingin skapar meistarann eins mikið og manni mögulega getur leiðst eitthvað (vér óþolinmóðir einfaldlega nennum þessu ekki) verð ég að segja að það hefur sannarlega skilað sér fyrir þennan tiltekna mann að halda sig svo staðfastlega að verki í öll þessi ár. sem ég efa ekki að hann hafi gert. eftir að hafa borðað þessa köku dettur mér ekki annað til hugar en að maðurinn segi satt og rétt frá um starfsaldur. í sem stystu máli sé ég ekki eftir einni einustu af þeim sjö evrum sem ég eyddi í þessa köku þó hún hafi sannarlega verið agnarsmá í sniðum og hafi þar af leiðandi horfið ofan í mig á töluvert færri mínútum en sjö. ég myndi giska á eina og hálfa. mínútan er dýr í heimi kökumeistara parísarborgar. live with it. það rignir. ef eitthvað er næstum jafn yndislegt og parís á sólríkum degi er það parís í rigningu. og af því maður er allur fyrir upplifunina (og telur ekkert eftir sér í þeim efnum) borðaði ég mína tarte au citron undir laufmiklu tré í stað þess að bíða með það þar til heim væri komið. sem ég ætla að leyfa mér að segja að hafi verið hárrétt ákvörðun. ég var orðin rennblaut í fæturna og kjóllinn límdist við mig þegar þetta fína tré varð á vegi mínum og þar sem pappaaskjan utan um kökuna virtist ekki vatnsheld og á góðri leið með að leysast upp í eitthvert deigkennt form, ekki ósvipað því sem örþunnur möndlubotn innihaldsins hafði haft fyrir baksturinn í brennheitum ofni bakarans, ákvað ég með sjálfri mér að einmitt þarna undir trénu væri rétti staðurinn til að njóta köku of such distinguished origin. um þetta hef ég ekki fleiri orð en þau að ég hafði rétt fyrir mér. maður á ekki að monta sig. það hefur stytt upp og rakinn stígur upp af götunum í síðdegismollunni. mig langar ekki heim til mín. sem eru öfugmæli. hið rétt er að mig langar ekki til míns meinta heimilis. eins og ég þreytist ekki á að benda ættingjum mínum á þegar ég slæ á þráðinn til að „minna á mig“ þá tel ég mig einmitt vera heima hjá mér. ákvörðunin um fæðingarstað minn (af hverjum sem hún var tekin) virðist hafa verið byggð á misskilningi. þetta er agalegt. ég veit ekki hvert ég á að sækja þetta mál en verð að segja að mér þykir upptaka þess brýn. þetta er einfaldlega spurning um réttlæti. hugtak sem mér skilst að sé frönsku þjóðinni tamt. svo ég fer með þetta alla leið. allez allez, justice! (ég tala enga frönsku). því miður sýnist mér þó allt útlit fyrir að réttlætið í þessu máli nái ekki fram að ganga fyrir föstudag og fyrir þær sakir muni einhver ólánsamur frakki fá verulega slæma tilfinningu fyrir ferð sinni til þess staðar sem hann hefur í einhverju óskiljanlegu stundarbrjálæði látið selja sér sem an exotic hotspot of the third degree. lygi! blekking! reykur og speglar, segi ég steyti hnefann í þá átt sem ég tel norður (ég er mjög áttavillt manneskja). hvað get ég sagt? ég er gersigruð kona. enn einu sinni hefur tíminn komið mér á óvart með sínu linnulausa áframhaldi. hvað sá náungi er óþreytandi við sína tilbreytingarlausu iðju! ég er alltaf jafn bjargi lostin þegar ég skrifa dagsetninguna efst á blaðsíðu dagbókarinnar á morgnana og lít tvisvar á bæði símann og stikuna efst á skjá tölvunnar til að fullvissa mig um að þetta sé rétt. júnílok. hvernig fer hann að þessu? það er sumar. það er heitt. við erum í parís, for crying out loud! taktu þér frídag, maður, þú átt það inni! ég fæ mér annað hvítvínsglas og skola af kirsuberjunum sem ég hef ákveðið að hafa í forrétt. ekki getur maður nærst á kökum einum saman. þó ég eigi það sannarlega skilið miðað við þær raunir sem bíða mín á föstudag. megi kökunum rigna af frönskum himni fram að helgi. en nú hætti ég. arrêt! (ég tala enga frönsku). þvæ blúndunærfötin og legg þau til þerris í gluggakistuna. fylgist með bergfléttunni vaxa og drekk hvítvínið. og bíð eftir regninu.    

mánudagur, 19. júní 2017

því eilífðarenigmað er það eina sem ég elti.

fyrirrennari minn í marokkóska stúdíóinu hér í cité des artes virðist hafa verið nokkur áhugamaður um leyndardóma læknislistarinnar. nema hann hafi einfaldlega verið heilsuveill – dæmigert fyrir mig að gera ekki ráð fyrir hinu hagnýta gildi hlutanna – og ástands síns vegna þurft að kynna sér fyrirbæri á borð við purpuras vasculaires og hématurie af illri nauðsyn fremur en áhuga. (ég vel þessi dæmi af handahófi, ég hef ekki hugmynd um hvað þetta þýðir.) ef svo er vona ég að maðurinn hafi fengið líkn meina sinna. sem er vonandi tilfellið fyrst hann skildi þennan doðrant eftir hér í litla fataskápnum ásamt nokkrum úrklippum úr tímariti eða ferðabæklingi frá grískri eyju; hvítkölkuð hús og kúpt þök í miðjarðarhafsbláum lit, og máðri ljósmynd af blárri hurð á niðurníddum grjótvegg, að því er virðist einnig í grísku umhverfi. myndin er prentuð á kodak royal ljósmyndapappír og hefur á einhverjum tímapunkti verið fest upp með grófu teiplímbandi sem skagar út af efri brún hennar; kusk og ryk sitja í límfletinum svo hann hefur tapað allri viðloðun og myndin tollir ekki uppi núna þegar ég reyni að festa hana fyrir ofan kommóðuna þar sem ég held hún tæki sig vel út í kompaníi við skartgripaskálina og basilíkuplöntuna. ... blá bók, blá þök, blá hurð ...  það sló mig fyrst núna að að þessi litur gengur eins og blár þráður á milli „leifanna“ af þeim sem á undan mér er genginn (vonandi þó ekki á vit feðra sinna). þegar hitann lægir í eftirmiðdaginn ætla ég rölta yfir í litlu pappírsbúðina í næstu götu og vita hvort ítalirnir – sem þar selja pappír svo dýrlegan viðkomu að ég hætti mér helst ekki þar inn – geti ekki hjálpað mér með bút af góðu límbandi. það er einhver seiður í þessari bláu hurð. hún er sett saman úr þremur grófum, misbreiðum tréplönkum og á henni miðri um lóðréttan ás en örlítið hægra megin við miðju lárétt er önnur minni, gluggi réttara sagt, umlukinn á að giska fimm sentimetra breiðum karmi. málningin hefur máðst af karminum svo hann er vel greinilegur á myndinni þó hún sé fremur illa lýst – hún virðist staðsett í skuggsælu húsasundi. ég veiti því athygli að hurðarnar eru báðar lokaðar og þegar ég gaumgæfi myndina betur sé ég að eingöngu sú minni hefur á sér hún. sem er einkennilegt í ljósi þess að þeir sem mögulega gætu nýtt sér svo smáan inngang – í fljótu bragði koma mér aðeins kettir og dúfur til hugar – eru óneitanlega illa útbúnir til að hleypa sér inn einir og óstuddir; þetta er húnn af því taginu sem þarf að snúa; þeim sem í hann tekur þurfa augljóslega að vera áskapaðir gagnstæðir þumlar. en einhvern veginn finnst mér eins og þetta sé ekki endilega hurð sem mann langi til að ljúka upp. ég er nokkuð viss um að maður fái meira út úr því að geta sér til um hvað liggi henni að baki. þannig er það með suma hluti. og fólk reyndar líka ef út í það er farið. stundum finnst mér eins og nákvæmlega þetta sé lærdómurinn sem mér sé ætlað að draga af lífinu: hvenær opnar maður hurð og hvenær opnar maður ekki hurð? ég hef klúðrað þessu oftar en ég kæri mig um að muna. borgin er heit og himininn tandurhreinn og gyllingar minnismerkjanna loga hvarvetna eins og litlir, sjálfsprottnir eldar. lauf bergfléttunnar bærast varla í dag. ég hef ekki undan að kæla sódavatnið. sem er helsta ástæða þess að upp úr fimm neyðist ég til að opna flösku af góðu chablis og ballansera með ólívum. maður vill ekki ofþorna. og þurfa jafnvel að fletta upp í hinni óskiljanlegu bláu bók sér til bjargar. fyrirhyggjusemi er list sem ég hef tileinkað mér svo eftir er tekið en aðeins á afmörkuðum sviðum. og þau svið ná hvorki yfir skipulag fjármála né notkun á sólarvörn. en ég hef áhyggjur af því síðar. ég er í öðru. og eins og árangursfræðin boða þá borgar sig að gera eitt í einu og gera það vel. alla leið. slá hvergi af. þannig að. þessi bláa hurð ... 

fimmtudagur, 15. júní 2017

að rata heim. beint af augum.

einhvern veginn er óhugsandi að vera ekki utandyra í parís. þó litla stúdíóíbúðin sem ég hef tekið á leigu næstu þrjár vikurnar sé eins indæl og hugsast getur; espressókanna, eitt rúm, eitt borð, þrír stólar, berir veggir og síðast en ekki síst tveir stórir gluggar sem má opna í heild sinni og virða fyrir sér ógnarstóra bergfléttuna á gafli hússins hinum megin við portið, þá líður mér beinlínis eins og ég sé borginni ótrú ef ég dvel of lengi inni við. ég get með engu móti skilið þá hugmynd fólks að til parísar verði maður að fara með ástinni sinni. að mínu viti er það eitt að ganga hér um göturnar slík gnægð af félagsskap að einni elsku til viðbótar væri einfaldlega ofaukið. ég held ég gæti fest rætur hérna. nærst á ætiþistlum og geitaosti og geómetríu breiðstrætanna sem þoturnar teikna speglakort af úr hvítum rákum þegar þær skjóta sér leið yfir heiðan himininn á leið sinni til ómerkari áfangastaða. ég er ekki að setja mig í stellingar. mér gengur það eitt til að punkta hjá mér einföld sannindi. maður á að segja satt. mér er vel við frönsku þjóðina. sér í lagi þann hluta hennar sem mannar þjónastéttina. allt þetta tal um ókurteisi og skítugt hár í þeirri starfsgrein er tómur leirburður sprottinn af augljósri öfund. það er einmitt eitthvað hreinskiptið við fas og framkomu fólks hérna. áreynslulaus glæsileiki sem neitar að biðjast afsökunar á sjálfum sér. enda veit ég ekki af hverju maður ætti að vera að því. sjálfsskömm er ekki pródúktívt ástand. og óákveðni er ekki kynþokkafull. ég trúi því að arkitektar borgarinnar hafi haft eitthvað álíka í huga þegar þeir gerðu hina beinu línu að fagurfræðilegu viðmiði. ég minni mig á þetta á morgnana þegar ég væflast um ranghalana í kollinum á mér og bregð fyrir mig fæti í annarri hverri hugsun; stundum er bein lína besta leiðin; maður þarf bara að rétta úr sér. miða skýrt. tálga burt hið óþarfa. sjá langt. og leggja af stað.       

þriðjudagur, 25. apríl 2017

nóg þarf að vera nóg.

ég ætla ekki að hugsa um hvað ég greiddi fyrir þessar ólífur. enda veit ég það ekki. ég spurði ekki um verð þegar ég bað um þær yfir afgreiðsluborðið ásamt sneið af mildum geitaosti og pikkluðum apríkósum. sem er gott. það borgar sig ekki að kafa of djúpt í svona hluti. þannig að nú fæ ég mér örlítið meira rauðvín og nokkrar ólífur til viðbótar þó faktískt sé ég orðin södd og ætti ekki að vera að þessu meir. mér hlýnar ekki. frá því ég fer á fætur og þar til ég leggst til svefns er mér kalt á höndum og fótum og öllu þar á milli – sama hverju ég klæðist og hvort sem gluggar standa opnir eður ei. þetta er orðinn ákveðinn fasti í tilverunni. eitthvað sem hægt er að treysta á að haldist stöðugt frá degi til dags. ullarsokkapörunum í sokkaskúffunni hefur fjölgað fjórfalt í vetur og ég er nánast alltaf í sömu peysunni – þeirri þykkustu – þó hingað til hafi það verið ákveðin afstaða í lífinu að fara helst ekki í sömu flíkina tvo daga í röð. stundum velti ég því fyrir mér hvort tíminn sé til þess gerður að við brjótum öll okkar boðorð? ... nánast allt sem ég tek mér fyrir hendur er glíma í þeirri rándýru list að dansa á fínni línu milli reglu og flæðis. að storka endurtekningunni. hinu stífa ritúali. jafnvægi þar á milli er óræður hlutur sem hvílir sjaldan í hendi og enn sjaldnar í huga. og þó það megi lifa með flestu er engum hollt að eltast við skottið á sjálfum sér. jafnvel hundar virðast heimskir í þeim leik. málið er að mér leiðist. það er hættulegt. kannski það hættulegasta í heimi. þeim sem leiðist er trúandi til að leggjast í alls kyns vitleysu; berja í vegg í þeirri von að hann megi breytast í hurð; gera alls kyns andlitsgrettur, sirkuskúnstir og bakfettur í von um að framkalla umbreytinguna utan frá og inn; liggja langtímum yfir púsluspili úr þúsund bitum sem allir eru í nákvæmlega sama lit; eyða síðustu krónunum í óútskýranlega dýrar ólífur og pikklaðar apríkósur ... ég er að bíða eftir sprengingu. í sálardjúpinu. í skynjuninni. sjálfinu. minn prívat miklihvellur. þetta þyrfti ekki að fara hátt. engin þörf á fréttatilkynningum eða opnuviðtölum. þetta yrðu náttúruhamfarir fyrir mig eina. heimurinn héldi áfram að snúast. blátt yrði áfram blátt. lóur enn falskir vorboðar. aðeins ég myndi merkja breytinguna. það væri nóg      

fimmtudagur, 20. apríl 2017

árlegt blót

það eina sumarlega við þennan dag er sítrónulíkjörinn sem ég er að dreypa á mér til hugarhægðar. jú ókei, og farið á glasbrúninni eftir rauða varalitinn minn. allt annað er viðbjóður. og ég ætla ekki að segja neitt gleðilegt. en hann er sannarlega góður. líkjörinn það er. enda ítalskur. og er að gera sitt til að róa mig niður eftir að hafa nærri orðið úti við að viðra hundinn minn. það var djarfur leikur. mögulega var ég þó aldrei jafn hætt komin og á dyraþrepinu við heimkomuna – jafn ömurlegt og frá er að segja. þar sem ég lagði ennið að glerhurðinni í blöndu af létti og örmögnun eftir barsmíðarnar frá haglélinu sem dundi á okkur ferfættlingnum í spássitúrnum fann ég mér til skelfingar að ég var of loppin á höndunum til að hleypa mér inn á mitt eigið heimili. ég ætlaði aldrei að hafa það af að koma lyklinum í skrána. og jafnvel eftir að hann small loks í –ég ætla ekki að fara út í hversu oft ég þurfti að gera hlé á þeim tilraunum til að þurrka sultardropastreymið úr nefinu á mér – leið dágóð stund þar til ég gat snúið honum og opnað. best að að elda eitthvað létt. svo maður brjálist ekki endanlega. helst eitthvað með ferskjum og basil ef hverfiskaupfélagið leyfir. sem er stórkostlega hæpið. af því ég bý ekki á ítalíu. ég ætla að fá mér meiri líkjör (af hverju er ég ekki löngu búin að drekka þessa flösku?). og bæta á varalitinn. fleira hef ég ekki að segja. þar hafið þið það. bless.  

sunnudagur, 16. apríl 2017

páskaliljan


í dag ætlaði ég að umpotta og vera öll upp á við. spírall í átt að sólu. það átti að vera minn sporbaugur. í dag væri sólarhátíð í mínu nafni. og ég væri hætt að gráta. öll mín tár hefðu orðið eftir á götunum í parís; þar væru pollarnir enn að þorna og andlit látbragðsleikaranna hefðu tekið að sér sorgina í svip mínum. hún ætti annað heimili núna. en hér í eldhúsinu mínu skini sól. himininn væri heiður. og gluggarnir nýþvegnir. eitthvað á þessa leið ómuðu þankar mínir í morgun þegar ég fór fram úr og smeygði fótunum í græna hælaskó í tilefni dagsins. ... suma daga er óvenju langur vegur genginn frá fótaferð til náða.

föstudagur, 14. apríl 2017

passíusálmur númer hringur og svört mýkt og uppgjöf í dufti (föstudagur hinn lengsti).


svartur pipar og svart kaffi. gul blóm. blár himinn. þó svartur sé stef dagsins ómar vonin í bakgrunninum eins og strokið sé yfir örgrannan fiðlustreng í fagurbláum fjarska. í dag má ekki gera að gamni sínu. en það má vona. og við vonum. vonum allt, þreyjum allt og trúum öllu. og opnum lófann mót því sem vill verða. ég set vatn í hraðsuðuketilinn og vel þátt úr sarpi útvarpsins sem eðli dagsins samkvæmt fjallar um frelsisbaráttu blökkumanna. 

free at last. free at last. thank god almighty, we are free at last.

skyldi nokkru sinni hafa gengið á jörðinni sá maður sem fannst hann fyllilega frjáls? verðum við nokkurn tímann frjáls? frjáls undan eigin ótta og þrám, óskilgreindum söknuði og svartri svipu. ég mala kaffið. hringiða kvarnarinnar breytir svörtum baununum í mjúkt duft sem litar sjóðandi vatnið og leysir úr læðingi djúpan ilm. 

það er hægt að breyta hörku í mýkt,

hugsa ég og opna eldhússkápinn í leit að skál undir ilminn. líkast til er hreyfingin of hröð og kraftmikil og ég ekki með athyglina við það sem ég geri því hurðin opnast á nefbroddinn á mér svo bein og brjósk kveinka sér. eitthvað lekur niður á efri vörina. dimmrauður dropi fellur á hvíta borðplötuna og annar í kjölfarið og þannig áfram þar til ég næ að koma rifrildi af eldhúsbréfi fyrir í flóðgáttinni og loka fyrir strauminn. það var þá dagurinn til að láta sér blæða. ég kími með sjálfri mér og læt vatn flæða úr krananum í lófann og skola burt blóðinu með þremur blautum strokum. 

wade in the water. wade in the water, children, wade in the water.
god´s gonna trouble the water.

ég drekk kaffið og ekkert dregur úr bláma himinsins. ef áfram heldur sem horfir verð ég komin undir bert loft áður en ég veit af. á stofugólfinu liggja tveir svartir hundar. annar er minn eiginn, sá sem ber hvítan krans um hálsinn, hinn er gestkomandi yfir hátíðirnar og ekki mönnum sinnandi af söknuði eftir húsbændum sínum. 

munurinn á hundi og manni er sá að hundur veit hvers hann saknar

þessi setning kemur til mín þegar ég skil skurnina frá egginu og sker það í tvennt svo gul rauðan blasir við í hvítum belgnum. ég sáldra salti í sárið og mala piparinn. svört kornin gefa frá sér lágværa bresti þegar ég krem þau í mortelinu með hringlaga hreyfingu sem smám saman verður hraðari og átakaminni eftir því sem svarti mulningurinn í litlu myllunni í hendi mér verður duftkenndari og ljósari eins og mold eftir óvenju langt og þurrt sumar. eitthvað þyrlast upp og kitlar mig í aumt nefið. þó mér finnist ég hafa lesið það einhvers staðar að í sumum menningarsamfélögum boði það ógæfu að bæla niður hnerra kæfi ég litlu sprenginguna í fæðingu af ótta við að opna aftur fyrir flóðið. eitt rautt haf er nægur dagskammtur að kljúfa fyrir konu sem er ekki með fullan nætursvefn í taugakerfinu og þarf á því að halda að komast út að hlaða það ljósi. eitt sinn spurði ég dáleiðarann minn, 

er hægt að læra að láta sig sofna?

og hún svaraði, 

já. en maður verður að vilja sofna.

þetta var ekki svarið sem ég vonaðist eftir. samt veit ég ekki eftir hverju ég vonaðist. sjálfsagt einhverju sem hlutaðist ekki um vilja minn. flesta daga veit ég ekki vel hvað ég vil sjálfri mér. fjórtándi apríl. það er eitthvað fallegt við dagsetninguna. setning dagsins. hátíðarsetning. jarðsetning. apríl er fegursta mánaðarheitið. og fjórtán er fallegasta talan. tvisvar sinnum sjö – sá tími sem það hefði tekið guð að skapa heiminn og eyða honum svo í öfugri röð. byrja á manninum. og enda á að slökkva ljósin á eftir sér. finna sér nýtt áhugamál. fyrir utan gluggann fara kettirnir í hverfinu í eltingarleik, grunlausir um að í dag megi ekki gera að gamni sínu. ég strái pipar yfir eggið, svartar stjörnur yfir gula sól, og borða það í fjórum bitum. klára svart kaffið og klæði mig í skóna. kem mér út um dyrnar og inn í bláan og gulan daginn með tvo svarta hunda. og loka á eftir mér.    

miðvikudagur, 12. apríl 2017

í hinu kollektíva samhengi

einhver andskotans heimspekingur (örugglega susan sontag) sagði eitthvað á þá leið að það hvernig við eyðum dögunum verði óhjákvæmilega að því hvernig við eyðum lífinu (pottþétt susan sontag, þetta hljómar nákvæmlega eins og eitthvað sem hún hefði sagt ... eða hannah arendt, þessar stelpur eyddu dögunum – og þar með lífinu – í að segja allt mögulegt óþægilegt fyrir okkur hin). og þá verður maður víst að spyrja sig: „verð ég ánægð með það á dánarbeðinu að hafa eytt dögunum – og þar með lífinu – í sundferðir og göngutúra?“ ég geri ekki ráð fyrir að ég yrði beinlínis óánægð með þann lífsferil en ég efa að hann dygði til (... til hvers?). vandinn er bara sá að á meðan að á þeim stendur, göngutúrunum og sundferðunum, hvarflar ekki að manni að neitt gæti verið ákjósanlegri nýting á þessum takmarkaða tíma sem maður hefur úr að spila. því fer sem fer. dag eftir dag. ég er fjörutíu og eins árs. á hverjum morgni horfi ég á hendur mínar og minni mig á þessa einföldu staðreynd. í höfðinu hef ég skrifað uppsagnarbréf til ákveðinna afla í lífi mínu. en aðeins í höfðinu. ekki með höndunum. samt horfi ég á hendurnar á mér hvern morgun. og minni mig á safn daganna. stöðuna á almanakinu. og það smáa sem allir hlutir eru að endingu gerðir úr. bilið á milli þeirra þarf að fylla af ást. og stíga öðru hverju eitt skref til baka. fyrir heildarmyndina. í henni liggur merkingin. sú sem að endingu dugar til. 

mánudagur, 3. apríl 2017

í sem stystu máli


framleiðsla orða það sem af er dagsins er neikvæð tala – ég þurrka út fremur en að slá inn. setti þar á ofan of mikið súraldin á blómkálið. borðaði samt yfir mig. ég er lasin. ég finn ekki hálstöflurnar. og einhver hefur klárað hunangið.

sunnudagur, 2. apríl 2017

sjónaukinn er kviksjá sem snýst. snýst snýst of hægt. hægt hægt og allt flýgur hjá.


þokubakkinn sem hefur legið yfir framheilasvæðinu frá því í gær er enn á sínum stað og virðist reyndar, ef eitthvað er, hafa þykknað töluvert. ég man ekkert, lýk engu og finn ekki út úr einföldustu reikningsdæmum. í gærkvöldi, þar sem ég sat í gufumekkinum í heitapottinum og hvíldi auma lærvöðvana í fjörutíuogtveggja gráðu heitu vatninu, gerði ég það að gamni mínu, eins og fólk gerir, að hlýða mér yfir margföldunartöfluna. ég strandaði strax á þrisvar sinnum níu. suma daga blasir það skýrar við en aðra hversu nákvæmar þær eru, niðurstöður mínar til margra ára, þær sem ég hef gert hvað ég get til að hnekkja en ekkert orðið ágengt: 

ég er aðeins líkami. ég kann ekki að hugsa.     

en það líður að páskum. ég held mér í það hálmstrá. upprisan og það allt. annað tækifæri. ef vel er að gáð er almanakið yfirfullt af áramótum. og ég verð að breyta lífi mínu. það stendur skýrum stöfum á kápu bókarinnar sem barst mér í pósti í upphafi vikunnar og ég hef vart getað slitið mig frá nema rétt á meðan ég bregð mér í vinnuna.

you must change your life. 

þetta er ekki sjálfshjálparbók. nema maður skilgreini bækur um ævi og sambönd listamanna sem sjálfshjálparbækur. sem ég reyndar geri þegar ég hugsa út í það. og þetta er frábær bók. rodin, rilke og parís um aldamótin 1900. er hægt að hugsa sér betri remedíu við lífsleiða? ég graðga í mig hverri blaðsíðunni af annarri og spyr sjálfa mig til skiptis „hvernig í andskotanum dró þetta fólk fram lífið?“ og „hvernig fóru þessir menn að því að halda sköpunarþrekinu þegar þeir mættu engu nema höfnun?“. ég hef tilhneigingu til að dást að fólki sem þrjóskast áfram með vindinn í fangið sama hvað það kostar. jafnvel þótt það þýði almennar óvinsældir. og að þurfa að ganga í skelfilega ljótum fötum. ég ætti kannski ekki svo erfitt með að afbera óvinsældirnar en mig flökrar við tilhugsunina um að vera illa til fara. húðin á mér er ekki gerð fyrir léleg efni. ég strýk yfir kollinn á refnum og verður hugsað til sögunnar um asnann sem var þeim eiginleika gæddur að peningum rigndi út um eyrun á honum ef togað var í þau. ekki það að ég myndi skipta refnum út fyrir þennan asna. ég er ekki sálarlaus kapítalisti þó mér þyki silkiblöndur þægilegar. ég er bara að segja að fyrir fólk eins og mig sem hefði ekkert á móti því að „geta um frjálst höfuð strokið“ í hinum veraldlega skilningi kæmi sér ekki illa að hafa slíkt dýr á húsi. að vísu veit ég ekki hvar ég kæmi honum fyrir ... nema kannski helst á pallinum. en maður á auðvitað ekki að tala á svo efnislegum nótum. það er plebbaskapur.

great minds discuss ideas    

svo ég vitni í eleanor roosevelt og geri mér um leið fulla grein fyrir því að þessi fjáröflunarhugmynd um asnann telst ekki með. hún er of lágkúrurleg. ég skrifa stöðugt hægar og hægar. meðalafköst nema líklega um tuttugu orðum á dag. ég get ekki séð í hvaða samhengi það gæti talist gott dagsverk. meira að segja ég er að hugsa um að reka mig. eða setja mig á ritalín. ég er búin að prófa allt annað. þegar ég sný augunum inná við að gangverki hugans og virði tannhjólin og færiböndin fyrir mér þar sem þau erfiða við að snúast, sokkin til hálfs í seigfljótandi sýrópslög sem allt festist í, vitneskjan um aðgerðaleysi handa minna og eilíft suð hins daglega brauðs, verða ástæður þess að mér miðar ósýnilega við að breyta lífi mínu allt að því óbærilega augljósar. hljóð og mynd fara ekki saman. og þó vélbúnaðurinn hafi verið uppfærður að stórum hluta hefur húsverðinum ekki tekist að loka fyrir sýrópslekann. ég hef mínar efasemdir um þann aðili. það er í honum spillikattargen. og hann sefur í vinnunni.              

laugardagur, 18. mars 2017

nótur, minnispunktar, augnabliksstef


ég geng út úr vínbúðinni með flösku af lífrænu rauðvíni í bréfpoka. eins og alltaf þegar ég reyni að koma mér á milli staða í mannmergð finnst mér eins og ég fari gegn straumi sama í hvaða átt ég ákveð að miða för minni. það leynir sér ekki að gestir litla verslunarkjarnans hafa sammælst um að nýta sér suðurinnganginn á leiðinni út. ég aftur á móti hef tekið stefnuna á þann sem veit í norður og í átt að heimili mínu þangað sem ég hyggst koma bæði sjálfri mér og fyrrnefndri flösku og þá helst hvoru tveggja í heilu lagi sé það á annað borð möguleiki. ég ýti til innkaupakerrum og smeygi mér framhjá eftirmiðdagsfjöldanum eins og skelkaður hryggleysingi í leit að öruggu skjóli. fólki virðist töluvert í mun að æða í fangið á mér. sú tilfinning er ekki gagnkvæm. fyrir vikið léttir mér ósegjanlega þegar sjálfvirka glerhurðin opnast eins og rauða hafið forðum og það eina sem verður fyrir mér er svalt loftið og hverfulir skúlptúrar snjómoksturstækjanna, síbreytilegir í umhleypingunum. ég stíg í poll af eintómum grallaraskap og gleði yfir vel heppnaðri undankomu en sú tilfinning nær þó aldrei almennilega að hreiðra um sig því mér verður hálf illt við þegar ég skyndilega átta mig á að ég held á flöskunni eins og ungabarni. hvaða ályktanir á ég að draga af svona nokkru? það er ekki vínið sem ég hef áhyggjur af. ég drekk mjög lítið. heldur hitt. að ég get ekki hugsað mér að eiga fleiri börn ... 

þú verður að breyta lífi þínu

(á rodin að hafa sagt við rilke. klassík.)

ég hef haldið því fram að sá einn þekki laun erfiðisins sem skorið hefur hjartað úr hráum ætiþistli með bitlausum hníf og smjörsteikt það á pönnu ásamt sveppum og hvítlauk. þetta er auðvitað töluvert hástemmd fullyrðing. enda neyðist ég til að éta hana ofan í mig (bókstaflega) þegar ég, stuttu eftir heimkomuna, veiði slíkt hjarta upp úr krukku merktri þekktum breskum sjónvarpskokki og get ekki annað en jánkað því að það hafi verið fyrirhafnarinnar virði að skrúfa af henni lokið. ég virði fyrir mér krukkuna. búlduleiti kokkurinn brosir vingjarlega við mér og einhvern veginn líður mér eins og ég hafi orðið undir í mínu eigin eldhúsi. ég sem svo hiklaust tel mér þá sérvisku til tekna að ég sækji helst alltaf vatnið yfir lækinn. enn ein ástæðan til að hafa horn í síðu bresku þjóðarinnar. það fólk og þeirra vonda te! ég breiði úr hjartanu á hrjúfu yfirborði hrökkkexins og legg nokkrar sneiðar af lárperu ofan á það. stökkt kexið hrekkur í sundur þegar ég bít í og á meðan ég hlusta á fræin molna milli tannanna horfi ég út um eldhúsgluggann á svart grjótið í hvítskellóttri hlíðinni og um stund finnst mér sem ég gangi þar um og heyri smágrýti og steinvölur skreppa undan skósólanum. tevatnið sýður. ég vel poka úr sólgula pakkanum og er skyndilega stödd á kryddmarkaði á austrænum slóðum. kraftmikil engiferrótin æðir upp ennisholurnar og bleiku nellikkurnar springa eins og flugeldar upp úr vasanum á eldhúsborðinu um leið og dregur frá sólu og pappírsfönixinn í glugganum fuðrar upp og verður nýr. í útvarpinu glymur klukkan  

það eitt skiptir máli að taka eftir

(... hinu smáa, á ég þá við.)

þriðjudagur, 21. febrúar 2017

filterinn fæðist í auganuég hef staðið mig að því að dást að gráma himinsins. ég veit ekki hvað er hlaupið í mig. það er ekki eins og ég sé ástfangin. nema af refnum auðvitað – óþarfi að yrða hið augljósa. en þetta er engu að síður staðreynd. ég þræði gangstéttar bæjarins, þaktar sandi eftir að árstíðirnar ákváðu sér til gamans að rugla í götusópurum og gangandi og skipta um stað á tímalínu almanaksins, og án þess að ég leggi mig sérstaklega eftir því get ég ekki annað en veitt því athygli hvað skýin eru skemmtileg svona löt og þung á sér, liggjandi eins og feitabollur langleiðina niður hlíðar esjunnar eins og þau séu við það að gefast upp fyrir eigin þunga og aðdráttarafli jarðar. ég stoppa og stend eins og flamingói á einum fæti á meðan ég tæmi úr grjótnámunni sem hefur myndast í gúmmískónum svo úr verður lítill hraukur á gljáandi blautu malbikinu. fugl nýtir tækifærið og hoppar þvert yfir stéttina beint fyrir framan nefið á mér. allt er á leiðinni eitthvert. allir í sínu. mér verður hugsað til fuglsins sem ég geymi í búri heima í stofu. ég held að anton sé að fitna. hann gerir ekkert annað en hanga inni hjá sér og graðga í sig hirsi og fræblöndum. hann tvístígur reyndar öðru hvoru ört þarna á prikinu sínu, eins og í veikri viðleitni til að láta líta svo út að hann stundi einhvers konar hreyfingu en það er engin leið að draga yfir það nokkra fjöður að þetta vapp er bara til málamynda. ... einhvern veginn hafði aldrei hvarflað að mér að fuglar gætu verið latir. mér virðist þó sem svo geti verið. það er sem ég segi; maður lifir til að læra. og – sé ég spurð – til að hreyfast. mér helst ekkert á þessu litla holdi sem ég hef úr að spila. það gufar upp af beinum mínum eins og vatn úr undirskál sem skilin er eftir á sólbekk á heitum degi. „ég gæti þurft að bæta meira af majónesi í mataræðið“, hugsaði ég í morgun þegar ég dró náttkjólinn yfir höfuðið og bringubeinin blöstu við í speglinum; litlir hillurekkar í brjóstinu undir ýmislegt smálegt; krukku fulla af gráti lítillar stelpu í of stórum stígvélum, bréfasafn bundið saman með bláum borða, slitinn gítarstreng. ég get horft á þetta án þess að finna til sorgar. samt get ég fundið til.

                      „attention needs empathy. otherwise it´s just reporting.“ 
                                                                                                            (mary oliver)

túlípanarnir á eldhúsborðinu hafa sveigt hálsana en höfuð þeirra eru enn reist og vakandi, andlitin opin. silkikennd áferðin á djúpbleikum blöðunum sendir mig inn í dyngjur þúsund og einnar nætur þar sem ástir enda með hörmungum og hár kvenna er vopn á pari við óslíðrað bjúgsverð. tevatnið síður. lyktin af lakkrísrótinni stígur upp úr bollanum og mér finnst ég þurfa að þurrka þrisvar yfir borðið og raða kertastjökunum í beina línu við æðarnar í viðnum. samúræji hins stífa ritúals er óþarflega framarlega í verunni eins og er. og eins og hann er ágætur þá fæðir hann fátt nýtt af sér. hann viðheldur. á þessu tvennu er reginmunur. ég þyrfti að koma honum í heimilisbókhaldið. en einhvern veginn hefur hann ekki áhuga á slíkum störfum. agi hans lítur aðeins hinu fagurfræðilega. þegar ég kortlegg mitt innra líf og rýni í partana sem það er samansett úr tek ég fyrst af öllu eftir því að enginn þeirra getur talist sérlega sparsamur, hagsýnn eða hallur undir rúmfatalagerinn. ekki einu sinni þegar kemur að því að versla dýnu handa refnum. þetta er eiginlega óþægilega áberandi. þeim hugnast betur að dvelja í þúsund og einni nótt. nú eða pétursborg önnu kareninu þar sem loðfeldirnir liggja hvarvetna svo maður megi teygja sig eftir þeim og sveipa um sig með þóttafullri hreyfingu. ég er hætt að reyna að tala um fyrir þeim. let it be. það er sem það er. og það sem er er. svo einfalt er það. ég stend ekki í þessum handalögmálum meir. himininn er svo fallega grár. og allt er á leiðinni eitthvert.