miðvikudagur, 20. júlí 2016

það er ekki ég sem er vandamálið, heldur samhengið.


ég er ekki lengur í parís. ég er í mosfellsbæ. eftir tólf tíma ferðalag frá ítalíu, í lest, rútu og flugvél, sveif ég yfir "heimavelli" mínum – þeim sem jafnan gerir lítið fyrir geðheilsuna – og einbeitti mér af öllum kröftum að því að snúa vélinni aftur til parísar með hugarorkunni. það gekk ekki eftir. líkast til vegna þess að aðrir farþegar vélarinnar unnu svo markvisst gegn mér; uppnumdir útlendingar súpandi hveljur yfir bjartri júlínóttinni; nef og enni samlanda minna þétt upp við sporöskjulaga glugga flugvélarinnar í því sem virtist agndofa lotningu yfir fegurð vestmanneyja: "við erum komin heiiiiiimmmm!". ég lokaði augunum og lagði jakkann yfir höfuðið. frá flugvellinum að dyraþrepinu að heimili mínu gafst mér svo færi á að virða fyrir mér úrval ljótustu byggingareininga evrópu vestan megin við tjald. mér til mikilli vonbrigða höfðu húsakynni kjúklinga fyrir crackfíkla (kfc) ekki molnað til grunna á meðan ég brá mér frá. það illfygli stendur ennþá handan götunnar með allri þeirri sjónmengun sem af því hlýst. hvað get ég sagt. kona er ofurefli borin. það hefur fjölgað í fjölskyldunni. ég geri mér grein fyrir að þessa setningu megi skilja sem svo að ég hafi látið barna mig á meginlandinu. en ég er ekki átján ára. og nýja "barnið" er ekki dökkhært og brúneygt. það er gult. og fiðrað. maður þarf virkilega að fara varlega með orð. ekki nema þrír mánuðir síðan ég fór ljóðrænu offari um sólgula fugla hér á síðunni og voilà! hér sé sólgulur fugl! þetta hlýtur í alvörunni að teljast nokkuð stórkostlegt. og til merkis um ótvíræða spádómsgáfu mína ef ekki hreinlega telekinesíska hæfileika. furðulegt samt að þetta virki ekki með sama hætti á fólk. ég er búin að kalla eftir áhugaverðum, fyndnum og hjartahlýjum kærasta í umtalsvert lengri tíma en þrjá mánuði og í stuttu máli sagt hefur lítið gerst í því máli. hann heitir anton. fuglinn það er. kannski eru það örlög mín að sanka að mér því sem svarar mér ekki með orðum þegar ég yrði á það. en maður hefur þá alltaf útvarpið. í morgun fann ég meira að segja heimasíðu uppáhalds útvarpsstöðvarinnar minnar í parís. mögulega fer ég aldrei framar út úr húsi. nema einhver ætli að kosta mig til parísar. þá getum við talað saman. 

sunnudagur, 26. júní 2016

myndin ætti að vera yfirlýst en framkallast þess í stað ekki


... þegar ég kom til baka stóð fallega klæddur karlmaður við innganginn að markaðnum. ég hafði skroppið í hraðbankann eftir lausafé og hann hafði alls ekki staðið þarna þegar ég snaraði mér út um þennan sama inngang örstuttu áður. það hefði ekki farið framhjá mér. utan þess að vera vel til fara var þetta maður af því taginu sem konur taka eftir. fallega eygður. hæfilega kæruleysislega greiddur. hann stóð þarna á sólbakaðri gangstéttinni undir bogadregnum innganginum og virti fyrir sér götulífið; geymdi hægri hendina í buxnavasanum en þá vinstri hafði hann hringað utan um stórt búnt af fúskíableikum bóndarósum innvöfðum í karamellubrúnan verksmiðjupappír. í eitt augnablik hvarflaði að mér að manninum hefði verið komið fyrir þarna sérstaklega fyrir mig. ég er í parís. svona hlutir gerast. en svo tók ég eftir kærustunni hans sem stóð skammt frá, bograndi yfir lásnum á hjólinu sínu. ég gæti ekki logið því oft að ég hafi ekki orðið vonsvikin. ég mun aldrei eignast kærasta. þessi staðreynd er að teiknast mjög skýrt upp fyrir mér hér borg ljósanna. og ástarinnar. þetta, ásamt ýmsu öðru sem ég veit ekki hvort ég eigi að hafa smávægilegar eða töluverðar áhyggjur af. eins og til dæmis því að skrítni fæðingarbletturinn á innanverðu hægra lærinu er í alvörunni frekar skrítinn og að ég hef ekki enn komið sjálfri mér í skilning um að maður skrifar ekki bók á meðan maður vaskar upp. þannig að ég bregð mér reglulega inn í búðir súkkulaðimeistara og kökugerðarmanna á flandrinu um hverfin hérna í parís. mér dettur einfaldlega ekkert frumlegra í hug. parís er svo falleg að stundum finnst mér eins og ég hljóti að missa sjónina af einmanaleika. ég fann svo sterkt fyrir þessu í dag að ég var konunni í næstu íbúð innilega þakklát fyrir að öskra á manninn sinn bróðurpartinn af eftirmiðdeginum. eða ég gef mér að þetta hafi verið maðurinn hennar sem hún brýndi svona raustina við. ég veit að þetta var ljótt af mér. konunni var mikið niðri fyrir. um stund heyrðist mér hún gráti nær. ég hef ekki hugmynd um hvað maðurinn gerði af sér. þótt hrópin í henni bærust mjög greinilega inn um opinn stofugluggann, sem vísar einmitt að stofuglugga þeirra hjónanna hver stóð sömuleiðis galopinn, skil ég því miður ekki orð í frönsku. og tala hana enn síður. í matvörubúðinni hef ég gert tilraun til að biðja afgreiðslufólkið um ýmsa einfalda hluti, eitt og annað sem mig hefur vanhagað um það sinnið, til dæmis kanil. maður segir kanill nánast nákvæmlega eins á frönsku og ítölsku (á þeirri tungu get ég gert mig prýðilega skiljanlega): canelle. ég bar þetta mjög skýrt fram við afgreiðslustúlkuna í minni fyrstu heimsókn í hverfisbúðina. þetta var einlægur gjörningur af minni hálfu. stúlkan horfði á mig allt að því slegin. líkt og ég hefði sagt eitthvað svo fjarri nokkru orði í franskri tungu að það væri hreinasta vitfyrra að ætla einhverjum að reyna að skilja mig. í framhaldinu kallar hún um alla búð eftir aðstoð. starfsfólk og viðskiptavinir eru allir sama spurningamerkið þegar ég ber kurteislega fram þessi þrjú atkvæði. fólk kemst í uppnám. hvað í veröldinni getur þessi útlenska kona verið að fara? loks réttir hávaxin kona upp hönd og kveðst tala ensku. ég bið um cinnamon. aaahh, segir konan. og endurtekur nákvæmlega það sem ég hafði í það minnsta títekið við afgreiðslustúlkuna og meðhjálpara hennar. allir fórna höndum og ranghvolfa augum. aaaahh, canelle! af hverju sagðirðu það ekki strax! frakkar geta verið óþolandi. mér er alveg sama þótt ég sé að alhæfa. það er eitthvað verulega bogið við hlustina í þessu fólki. þetta hlýtur hreinlega að eiga sér einhverja þróunarsögulega skýringu. svona líffræðilega, meina ég þá. það borgar sig ekki að reyna að gera þessu fólki til geðs. betra að láta því líða illa yfir slakri enskukunnáttu. þetta er ekki sérlega stórmannlegt af mér. ég veit það. sjálfsagt er ég bara eitthvað miður mín út af manninum með fúskíableiku bóndarósirnar í fallega brúna pappírnum. fúskíableikar bóndarósir eru uppáhalds blómin mín. það hefur aldrei neinn gefið mér svoleiðis.  

miðvikudagur, 8. júní 2016

vinsamlegast forðist rask á mosa og rótum


á leiðinni upp fellshlíðina í gærmorgun var mér svo þungt um hjartarætur að líkara var að ég bæri fellið í poka á bakinu en að ég klifi það. þannig að ég tók til fótanna. hljóp þangað til mig sveið í lungun og æðakerfið virtist hafa tekið sér bólfestu í andlitinu. svo fór ég í sund. það hrökk til. suma daga þarf maður aðeins þetta einfalda; hlaupa milli lúpínubreiða; dvelja í vatni; þvo sér um hárið; standa nakin undir berum himni. og þá kemst maður út í búð að kaupa í salat. aðra daga er þetta flóknara. mig langar ekki að tala um þá daga. ég var að byrja í þúsundustu geðheilbrigðismeðferðinni. ég vona að hún virki. annars drepst ég mögulega úr depurð. sem væri töluvert leiðinlegt fyrir alla málsaðila. heimurinn er grænn núna. og brúnn. á líkama mínum eru óljós för þar sem sólarljósið komst ekki að húðinni í gegnum sundfötin. það er dáldið sniðugt og mér fannst ég ósköp falleg svona röndótt og rennblaut þegar ég striplaðist um útiklefann eftir víxlböðin og gufuna. að lifa lífi sínu einn. af því maður kann ekki annað. að lifa hvern dag eftir reglum ritúalsins. því annars liðast dagarnir í sundur. þegar það gerist eltir refurinn mig á röndum og leggst niður hvar sem ég hvíli fæturnar. hundurinn minn starfar ekki einn. um það er ég sannfærð. hann á sína samstarfsaðila þótt þeir tilheyri ekki hinni sýnilegu vídd. en þeir eru þarna. og vinna sín verk af þolinmæði. rétt í þessu rigndi og aspirnar anda inn um stofugluggann. ég sest á bænapúðann og anda með þeim. það er gott að einfalda tilveruna niður í grunneiningar; innöndun; útöndun. moka frá hjartarótunum. hleypa dálitlu súrefni að þeim. bæta vaxtaskilyrðin. án þess að hugsa of mikið um það. yfirleitt er ekki til bóta að hugsa of mikið. þetta vita hundar. hundur lætur sér alltaf nægja að klífa fellið. honum myndi aldrei detta til hugar að burðast með það á bakinu.     

þriðjudagur, 10. maí 2016

skynjuð hreyfing


héðan frá séð virðist sjónarspilið löturhægt. nánast eins og það gerist aðeins því sá sem horfir veit á hverju má eiga von. endurtekningin er öllum lærimeisturum lúmskari. suma morgna er loftið svo sláandi kalt að maður týnir tíma og rúmi. við erum stödd efst á bláu spiladósinni, þeirri sem snýst um möndul sinn. hér blómstra engin kirsuberjatré og fólk á stöðugt von á næstsíðustu snjókomunni. í dag gekk ég fram á þúfu af tærbleiku blóðbergi í fellshlíðinni ... eða var það lambagras? ég get aldrei greint á milli með góðri vissu. enda hefði sú vitneskja litlu breytt. engu reyndar um hversu fallega litur blómsins talaði við himininn og jarðveginn. mér varð svo um að mér skrikaði fótur í lausamölinni og rann nokkurn spöl niður hlíðina hraðar en mér þótti óhætt. ég hugleiddi að setja steinvölur í vasana. styrkja jarðsambandið. en fugl fældist upp við fætur mér og ég leiddist út í aðrar vangaveltur – ef fugl lætur berast með vindi, flýgur hann þá eða fýkur? ég veit fátt um fugla. eins og ég veit fátt um flest. ég tel smáaurana á botni handtöskunnar og gullin í brjóstvasanum. af hvoru tveggja á ég mismikið til skiptanna. öðru sáldra ég milli fingranna þar sem ég stend. hinu gæti ég með öllum skilningsvitum. og hef hugann við umbreytinguna. þá sem gerist löturhægt. þannig að hún er vart greinanleg. og í raun ekki til nema sem grunur. það verður að duga. í bili.

fimmtudagur, 21. apríl 2016

skil – vetur/sumar/líf/dauði (– brothljóð)það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna og sest upp í rúminu er að stinga nefinu í hálsakotið á hundinum. lyktin af honum er mildasta leiðin inn í daginn. við föðmumst nokkra stund áður en ég tek endanlega ákvörðun um að fara á fætur og smeygi mér í mjúka, bláa bómullarbolinn yfir náttkjólinn. núorðið þarf ég yfirleitt ekki að fara í ullarsokkana. það vorar. morgnarnir eru undurbjartir. ég tipla berfætt út á pallinn til að hleypa hundinum út í garð og hristi höfuðið þegar hann biðlar til mín með augunum að koma með. hann biður mig þessarar sömu bónar á hverjum degi. ég hristi alltaf höfuðið. en á morgun mun hann samt reyna aftur. af því vonin er rammasta taugin. hvort sá sem vonar er maður eða hundur gildir einu. ég blanda sítrónuvatnið og drekk það í einum teyg með hörfræolíunni áður en ég strýk yfir gólfið og kalla á hundinn að láta kött nágrannans í friði. úr hátölurunum heyri ég tom waits halda því lágstemmt fram að ekkert geti haldið aftur af vorinu. eitthvað í laglínunni vekur með mér þá tilfinningu að hann sé að tala um eitthvað meira en venjuleg árstíðarskipti. og að það tengist að einhverju leyti því sem ég var að segja um vonina. ég get ekki gert upp við mig hvort ég eigi að vera honum sammála. stundum er eins og tilveran sé úr örþunnu gleri. ég greiði svefnflókann úr hárinu með fingrunum og borða bát af appelsínu með járnmixtúrunni samkvæmt læknisráði. appelsína og járn ganga víst sérstaklega vel í efnasamband í líkamanum. ég hef ákveðið að ástæðan sé sú að járnið leysist samstundis upp í ljósinu frá appelsínunni, sem líka nefnist glóaldin, og streymi þannig mun hraðar en ella út í blóðrásina. ég hef ekkert fyrir mér í þessu. en mér finnst skýringin sennileg. einföld og eðlileg. jafn einföld og eðlileg og sú staðreynd að mér þykja appelsínur góðar og að það veitir mér hugarró að strjúka yfir gólfið fyrir morgunmat. út um eldhúsgluggann merki ég breytingar á öspunum. þær eru næstum ósýnilegar auganu en ég greini þær samt. tom virðist vera að segja satt. ég verð að hætta að efast um alla hluti. það stíflar orkuflæðið. þess vegna er ég alltaf þreytt. þrátt fyrir birtuna og járnið og appelsínurnar ... nákvæmlega núna, núna á meðan ég horfði út um eldhúsgluggann, niðursokkin í hugsanir um mitt eigið magnleysi, flaug þrastapar á rúðuna með háum skelli ... ég ætla að skrifa þetta aftur ... það flaug þrastapar á eldhúsgluggann rétt í þessu, ekki einn þröstur, heldur tveir. par. kannski hjón. þau liggja þarna á pallinum mínum. innan um allt rotnaða laufið sem ég ætlaði að grafa í dag. tveir snúnir hálsar. blóðugur goggur. krepptir fætur. skyndilega hefur dagurinn breytt um tón. að grafa rotnað lauf er eitt. að grafa spörfugla er örlítið annað. mig langar ekki að skrifa neitt meira. það er sem ég segi. stundum er tilveran lítið annað en örþunnt gler.    

föstudagur, 15. apríl 2016

að gefa kosmosinu það sem því ber.þrá

leita að berjum á bjargbrún
svimandi hæð

kyngi lofthræðslunni og læt
eftir mér að
horfa á þig

hugsa um ber og bragð
þegar þú setur tunguna í
munnvikið

koss
berjakoss og bragð
af safa

mig langar stöðugt
ekki stundum
stöðugt

móki á brúninni
hálfrænulaus af ást
hlustin sprungin

raddbylgjan skellur á húðinni
og viljinn gefur sig
                   eins og sölnað sprek

föstudagur, 1. apríl 2016

sá sem snýr höfði til sólar ...

mig langaði til að smíða minn eigin málshátt til að kyrja yfir eggjunum. hann hefur ekki skilað sér. en ég er vongóð. brátt lýkur þessum degi. ég óttast að ég hafi aðhafst fátt sem máli skiptir. bæði í stóra samhenginu og því persónulega. sem kannski er eitt og hið sama þegar allt kemur til alls. í dag tók ég saman páskaskrautið. gulu túlípanarnir standa ennþá upp úr vasanum á eldhúsborðinu eins og niðurlútir logar með græna vængi. það veldur mér ekki teljandi leiða. úti magnast birtan. á morgun byrja ég upp á nýtt. autt blað. önnur tilraun. til að vænta og örvænta. vonandi í nokkuð jöfnum hlutföllum.  

laugardagur, 26. mars 2016

aðfaranótt páskadags

ef ég ætti elsku myndi ég senda honum búnt af sólgulum blómum – lágmark tólf tylftir, það mætti ekki minna vera – með flokki sólgulra fugla sem allir sem einn þekktu aðeins eitt nafn (ég þarf ekki að taka fram hvers). ég myndi senda þá af stað inní opið morgunsárið, í blíðu logni og brothættri kyrrð, því kærleikurinn vonar allt, trúir öllu og reiknar aldrei með náttúruhamförum. en hvernig læt ég. ég á enga elsku. og sjálfsagt verður það þannig. sjálfsagt mun ég drukkna í öllum þessum blómum og sólgulu fuglarnir mínir merjast á stefnumóti við þrefalt gler. nema ... svo ólíklega fari, að þú skiljir eldhúsgluggann eftir opinn í nótt. 

föstudagur, 25. mars 2016

sál mín er sólgulur fugl – eða, alkemía, hin hversdagslega


hinn lengsti föstudagur og birtan er tærari en hún hefur verið lengi. svo lengi að ég man ekki hvenær ég sá slíka birtu síðast. mér finnst eins og hún gæti þá og þegar breyst í hvítt egg. ég veit ekki hvort þetta er rétt eða skakkt skynjað hjá mér. í dag er heimurinn að hvíla sig. fólki finnst það eiga að halda sig heima. einhverjir fara út með hundinn sinn. en ekki margir. verslunareigendur halda hurðum sínum lokuðum og ferðir strætisvagna eru stopular. sem hér í eldhúsinu gerir það að verkum að mér finnst eins og hægist á tímanum þar sem ég sit við gluggann og fylgist með engu eiga sér stað á stoppustöðinni. ég er ekki ein við þá iðju. köttur nágrannans sinnir henni sömuleiðis ofan af grindverkinu mínu. þetta er köttur af því taginu sem virðist öllum stundum fullur fyrirlitningar í garð alls og allra. við tökum það ekki til okkar, refurinn og ég. við leitum kærleikans. og kærleikurinn reiðist ekki. kærleikurinn er langlyndur. svo við beinum athyglinni annað. í gærmorgun sóttum við nokkra agnarsmáa sólgula unga í lítinn skókassa út í geymslu. við fundum þeim stað á gluggakistunni í stofunni ásamt dálitlu af eggjaskurn. þeir eru óttalega fallegir. það er eitthvað við gular fjaðrir sem fyllir mann björtum hugmyndum. kannski á ég að gera alvöru úr þessu með að fá mér gulan páfagauk. sú hugmynd blundar alltaf með mér. sem og þessi með að flúra akkeri á ökklana á mér. 

ég verð aldrei frjáls 
ef ég er ekki þegar frjáls
 drottinn vertu hjá mér

það er ekki ég sem syng þessi orð. það eru páskar. nick cave er í húsinu og sálmarnir fljúga úr hátölurunum. söngfuglinn grætur. í anda dagsins. hann biður um tólf fötur undir tár sín. tólf fögur fljóð til að bera þær. og tólf djúpar holur til að grafa þær í. ég hlusta en býðst ekki til að bera þessar fötur fyrir hann. í dag ætla ég ekki að gráta. í dag ætla ég á sveig við anda dagsins. leggja lykkju á leið mína um táradalinn. beina athyglinni annað. í dag er ég á heiðingjabrókinni. þeyti gul egg í blárri skál og renni mér í gegnum nokkrar sólarhyllingar. fylgist með því hvernig hádegisbirtan leysir upp frostflögurnar á pallinum og breytir þeim í litla tárapolla. alkemían er alls staðar. 

ég breyti í hjartaspaða 

það er ég sem segi þessi orð. ég er að galdra. það er ekki hægt að reiða sig eingöngu á orð annarra í baráttunni fyrir sínu eigin frelsi. og orð ein og sér duga ekki til. það er þörf á kraftmeira bruggi taktfastra gjörða og sólgulra hugmynda. þess vegna brýt ég skurn eftir skurn og þeyti egg. fullt hús sólgulra hugmynda. 

í húsi mínu eru margar vistaverur

þessu stal ég frá höfundi biblíunnar. ég treysti því að glæpurinn falli í skuggann af harmleiknum sem stendur yfir og er einmitt að ná hámarki akkúrat núna á þessu augnabliki. þeim sem ég er að láta eins og ég taki ekki eftir. því í dag ætla ég ekki að gráta. í dag ætla ég bara að borða egg. drekka appelsínute. kljúfa skurn. breyta tárum í sólgular fjaðrir. osfrv.

mánudagur, 21. mars 2016

bálkur hrakfalla: veðurlýsingar á 21. öld


í dag var mér kalt á þann hátt að það gat ekki leitt til annars en að elda grænmetissúpu. þetta var einn af þessum dögum þegar maður virðist alltaf vera með vindinn í fangið. sama hvert maður snýr. eins og einhver ótrúlega slungin og óhagstæð gagnverkan fari í gang á milli hreyfinga manns og strauma í lofti. ég sótti reiðhjólið í geymsluna í morgun eftir það sem aðeins verður lýst sem langri og leiðinlegri vetrarvistun. einhvern veginn var töluvert erfiðara að hjóla en mig minnti. ég hugsaði með mér að þetta hlyti að skrifast á æfingaleysi; það sé ekki af ástæðulausu sem hjólreiðar teljist íþrótt. á miðri leið áttaði ég mig hins vegar á að allt loft hafði lekið úr dekkjunum. ég ákvað að skrifa þetta sömuleiðis á æfingaleysi; hver man eftir einhverju jafn efnislitlu og lofti á milli árstíða. þegar ég loksins náði á áfangastað rann upp fyrir mér að ég hafði gleymt númerinu að hjólalásnum. ég reyndi síðustu tölurnar í kennitölunni minni, árið sem lennon var skotinn og líkamsþyngd mína á sólinni í pundum. ekkert leysti lásinn úr læðingi. þetta skrifast augljóslega á æfingaleysi. ég verð að flytja eitthvert þar sem ég neyðist ekki til að leggja hjólinu mínu heilu og hálfu mánuðina. eitthvert þar sem loftstraumarnir gera sér ekki að leik að snúast gegn manni í tíma og ótíma. eitthvert þar sem fólk með líkamsfitu undir rostungsmörkum getur farið ferða sinna án þess að verða svo líkkalt að það viti næst af sér með brunasár í gómnum eftir að hafa reynt að borða sér til hita. ég viðurkenni reyndar að ég gleymdi hreinu nærbuxunum heima þegar ég fór í sundið svo ég neyddist til að hjóla heim í einni flík færra en ég kom í en ég held að þetta litla plagg sé ekki það sem skilur á milli í þessu máli. þetta er stærra vandamál en svo.    

fimmtudagur, 17. mars 2016

er eitthvað átakanlegra en dáin blóm?


mér er að takast að drepa litla nóvemberkaktusinn sem ég keypti fyrir jólin. ég kalla hann the baby jesus. sá eldri (síníorinn) þarfnast sárlega umpottunar og lítur sömuleiðis út fyrir að vera við dauðans dyr. þannig að þetta er sitthvað sem maður hefur á samviskunni. ekki eldri en maður er. 

miðvikudagur, 16. mars 2016

of lengi hefur mér liðið eins og hjarta mitt sé fullt af dánum blómum


að undanskildu rotnaða laufinu sem liggur í litlum hrúgum hér og hvar á pallinum mínum er hann algjörlega auður. svo auður að það væri hæpið að sá sem ekki vissi betur myndi láta sér detta til hugar að fyrir aðeins örfáum dögum lá á honum stærðar klakabunki, nokkurs konar vetrarmara, sem virtist komin til að vera. en nú er hann auður. og ekki nóg með að hann sé auður – hann er baðaður sól. þetta er að gera ýmislegt fyrir mig. 

laugardagur, 12. mars 2016

ást er: a) stærri en þrenningin ( = stærsta eining alheimsins) b) alls óskyld hinu mælanlega ( = hinn mikli leyndardómur)

tólfti dagur þriðja mánaðar og ísing og umhleypingar bregða fyrir mig fæti. mér er ekki hægt um að komast leiðar minnar. kannski er öruggast að hætta að mæta til vinnu. nægur er lífsháskinn samt. ég eyddi nóttinni á þrjú fimmtán vaktinni. merkilegt hvernig líf manns er alltaf að fara í hundana þegar maður liggur andvaka á milli korter yfir þrjú og hálf sex. á þeim tíma sólarhringsins vinnur fátt með manni. á þrjú fimmtán vaktinni er maður óumflýjanlega örsmátt brum á nötrandi grein; ófullburða útgáfa af því sem vænst var; nokkurs konar sýnishorn af manneskju – það er sama á hvað er litið, það er langt í land. svo staulast maður á lappir þegar klukkan hringir, líkastur marbletti af sjálfum sér, og er megnið af deginum að hrista af sér þá tilfinningu að líf manns hafi farið forgörðum. mögulega hefur þetta eitthvað með það að gera að ég graðga í mig lífrænum döðlum og kókosflögum líkt og hvort tveggja megi týna af trjám nágrannans. drekk meira rauðvín en gott getur talist. sef stopult. innst inni veit ég að mig langar í eitthvað en get ekki komið fyrir mig hvað það er. suma daga grunar mig að það sé ást. aðra, fullvissa. enn aðra, skýr hugsun. sem kannski er allt samofið:

skýr hugsun og fullvissa
 um ástina;
ástina til lífsins;
ástina til að skapa;
ástina til að elska 

kannski er þetta allt eitt og hið sama; ást er allt; allt er ást. gerum okkur grein fyrir því. á hverjum degi segi ég við sjálfa mig: veldu af elsku, ekki ótta. svaraðu af elsku, ekki ótta. breyttu af elsku, ekki ótta. þetta er lykilatriði. það er lægð úti við sjóndeildarhringinn. á morgun gæti öllu ringt niður. það er allt í senn möguleiki og hótun. allt eftir afstöðu þess sem horfir. út um eldhúsgluggann sé ég til ferða langferðabifreiða fullra af ferðamönnum. skilti bensínstöðva og skyndibitakeðja. lágreistan stórmarkað prýddan stálklæðningu og flötu þaki. þessu fylgir ákveðinn annarleiki. í það minnsta fyrir þann sem er að reyna að lifa ljóðinu. og velja af elsku. og lifa af þrjú fimmtán vaktina. frá því ég flutti inn hef ég verið að hugleiða að senda bæjarstjórninni bréf þess efnis að ég krefjist tafarlausra úrbóta á þeirri ópóetísku umgjörð sem hversdagslífi mínu er gefin. ég myndi setja mál mitt fram af festu og stillingu (þó mér sé ekki þannig innan brjósts). ég myndi til dæmis forðast að tala um “kapítalísk öfl„ og þess háttar. sem hljómar alltaf áróðurskennt og öfgafullt. þess í stað myndi ég reyna að höfða bæði til hins praktíska (hinn skynsami samfélagsþegn) og hins fagurfræðilega (hinn umhyggjusami samfélagsþegn) og leggja til þá lausn að garðyrkjufræðingi bæjarins yrði falið það verkefni (atvinnuskapandi = praktískt) að reisa sjónmúr úr sígrænum gróðri milli heimilanna í hverfinu og hins opinbera (fagurfræðilegt = umhyggja) með skírskotun í réttinn til einkalífs. að sjálfsögðu myndi barátta mín ekki skila neinum árangri. svo ég hef ráðgert atlögu af öðrum toga. og öllu meira listræns eðlis. nefninlega að koma fyrir, svo eftir yrði tekið, merkjasendingu á við þessa hér ofar ... eða neðar: 

< 3

hljóðlát handsprengja. heimasmíðuð. til að minna á. fólk gæti svo látið teiknið ganga. ég held að þetta gæti orðið fallegur gjörningur. að slá inn jöfnu þess ómælanlega á veggi verðmiðanna. af elsku. ekki ótta.        

föstudagur, 4. mars 2016

eitthvað hefur bleytt í sandinum í stundarglasinu.

samkvæmt tarrotspánni á marsmánuður að vera fullur af magík. ég bara bíð. og þar sem janúar átti að innihalda einhverja karlpersónu (óvænt innslag í þáttinn einsetukona situr við gluggann - beðið eftir bréfi) sem þó láðist að dúkka upp, hefur sjálfsagt gleymt sér við skemmtan eða önnur störf, er ástandið bið mér ekki algjörlega framandi. ég klára úr rauðvínsglasinu. hundurinn sefur. ég vanda mig. alla daga. reyni eins og ég get að lifa fallega. þó stundum langi mig það ekkert. stundum langar mig bara að vera slóði. liggja í bælinu og skeyta engu um það sem heimurinn væntir af mér; sé það átta klukkustunda vinnudagur, viðræðuhæfni eða samstæðir sokkar, allt vil ég láta það lönd og leið, láta reka á reiðanum (á morgun segir sá lati og einhvern veginn er eins og vísifingurinn á mér stækki umtalsvert), leyfa lífi mínu að drabbast niður og sjálfri mér með þar til hvort tveggja verður lítið annað en þokukennd mynd af því sem það eitt sinn var. en ég geri það ekki. ég held aftur af mér. ég held í horfinu. en að halda í horfinu er ekki það sama og að lifa. það er meira eins og æfing í því að lifa. ég er meðvituð um þetta. og bráðum hætti ég að æfa mig. bráðum hætti ég líka að beyta hjartavöðvanum vitlaust. vöðvi má aldrei að toga í átt að festum. þá getur hann slitnað. hann verður alltaf að toga í átt að upptökum sínum. þetta er grunnatriðið í þjálffræði ... einhvern veginn hef ég flust úr magíkinni yfir í lífeðlisfræði. kannski ekki um svo langan veg að fara – what a piece of work is man. og talandi um þá kórónu sköpunarverksins; hvað tefur manninn? (ath! hér er ekki talað almennt, hér er ekki rætt um hið mannlega ástand). við hvað dvelur sá sem beðið er eftir fyrir opnu hafi og hjarta? ég hef lagt á borð. keypt blóm. vandað mig. og ekki ligg ég í bælinu. ég er hér. hvað í fjandanum er maðurinn að drolla?    

sunnudagur, 31. janúar 2016

við opnum á ný eftir að hafa endurinnréttað (samt ennþá meðvituð um dauðleikann).

vill fólk tjá sig um nýja lúkkið? ég var búin að hugsa þetta lengi og ákvað bara að hætta því. þ.e. að hugsa um þetta. hvað á heimurinn svo sem að gera við það að ég hugsi? og þar fyrir utan er eitthvað undarlegt við það að kona sem getur ekki farið í sömu fötin tvo daga í röð skrifi blogg í ellefu ár sem aldrei breytir svip – sér í lagi ef við athugum að sú kona er einhver allt önnur kona í dag en hún var fyrir ellefu árum. mér finnst þetta hreinsandi. hressandi. það er aðeins sólarhringur í að ég geti sagst hafa lifað janúar af. ég er töluvert bjartsýn á að þetta hafist. en ég er samt að reyna að lifa fallega. ekki bara lifa af. lifa ljóðinu. vera ljóðið. og þó það hendi að ég fleyti kellingar á yfirborði daganna er ég ekkert svo leið yfir því. það getur líka verið fegurð í yfirborðinu. líf sem botnfiskur er krefjandi og leiðigjarnt til lengdar og maður öðlast ekkert endilega nætursjón við það að svamla um í eigin djúpsálarmyrkri. fiskar breytast ekki bara sisvona í ketti. en í einstaka munnmælasögum geta botnfiskar breyst í flugfiska við ákveðin skilyrði. ég veit þetta af því ég samdi þessar sögur sjálf og lak þeim til réttra aðila. stundum þarf maður sjálfur að taka ábyrgð á því að koma hreyfingu á kosmosið. ég hita mitt te. vel þrjár feitar döðlur úr pappaöskjunni í ísskápnum og legg á munnþurrku á borðinu. sest í stólinn minn. ég sit alltaf í sama stólnum. hinir þrír standa auðir nema í þessi fáu skipti sem við barnið borðum kvöldverð með gamla laginu (saman við eldhúsborðið upp úr sjö). nýlega horfði ég á fyrirlestur um víðtækustu rannsókn sem gerð hefur verið á því hvað veiti fólki hamingju í lífinu. niðurstöðurnar eru fremur afdráttarlausar. og niðurdrepandi fyrir mig. það sem spilar stærstu rulluna í hamingju fólks og heilbrigði er að vera í ástríku hjónabandi. ég er að hugsa um að byrja bara að reykja. drekka hálfa rauðvín á dag og fá mér cava með morgunmatnum. og borða smjör í öll mál. ein. horfa á auðu stólana mína á meðan ég skenki mér í glasið og dreg ætandi lofttegundirnar djúpt ofan í lungun hugsandi með mér að hvað svo sem einhverjir amerískir prófessorar þykist vita þá sé því eins farið með stóla og rúm; þeir eru betri auðir en illa skipaðir.   

mánudagur, 25. janúar 2016

þegar bókstaflega allt verður táknrænt.

mér finnst þetta brjálæðislega falleg mynd. en kannski langar mig bara svona mikið í kærasta.

sunnudagur, 24. janúar 2016

óskýrir drættir (ekki í erótískum skilningi)

ef vatnið sýður ekki getur hjálpað að kveikja á hellunni. ég reyndi þetta ráð sjálf í morgun og það virkaði. svo mér þótti rétt að deila því. ég á í einhverju brasi með uppáhellingarnar á þessum niðdimmu janúarmorgnum – hvað svo sem getur valdið því. eftir þrjár klukkustundir verður þessi sunnudagur liðinn. um fjörutíu prósentum af honum varði ég í frágang á flokkuðu sorpi og í að endurskipuleggja fataskápinn í þeim tilgangi að ná fram tilfinningu fyrir tærleika. skapa skýrari mynd. mér líður betur þegar ég raða hlutum ... þessi setning hefur einhvern annarlegan undirtón ... eins og eitthvað stórkostlegt ami að mér – sem er ekki endilega tilfellið þótt það hendi mig reglulega í athöfnum daglegs lífs að ég staldra við, lít upp og minni mig á að nú sé ég komin hættulega nálægt persónu jacks nicholsons í as good as it gets. og þegar það hendir að einmitt þessi lína, sem kvikmyndin dregur titil sinn af, ómar í höfðinu á mér – eins og ég sé að mæma hinn vitfirrta á hans örvæntingarfyllsta augnbliki– þá er ljóst að grípa þarf til rótækari íhlutunar en að raða í hillur. mér gengur hörmulega að byrja að hugleiða aftur. það sést. alla vega ef fólk kíkti inní kollinn á mér. þar ríkir óreiðan ein. ekki nokkur maður að raða eða ganga frá eftir sig. ég þyrftu að ráða húshjálp í höfuðið á mér. þau heimilisstörf eru handan minnar getu. þannig að ég auglýsi. hæfniskröfur: léttlyndi og góð jarðtenging. framúrskarandi athyglisgáfa og verkvilji. þarf að geta unnið undir pressu og má alls ekki vera eða gera neitt sem er abstrakt. opið fyrir umsóknir nú þegar. laun: ánægjan yfir því að samanburðurinn er alltaf þér í hag.    

fimmtudagur, 14. janúar 2016

vertu ljóðið

í dag hef ég valhoppað af barnslegri kæti. í dag hef ég hrópað af fögnuði. í dag fylgdist ég með hádegissólinni skerpa á fegurð ískristalla. í dag hafa mér verið boðuð hamingjutíðindi. þau bárust mér símleiðis. í dag hefur mér verið trúað fyrir leyndarmáli. í dag hef ég heyrt ískra í hjörum bjartsýninnar. í dag hef ég hermt allt það besta upp á lífið. í dag hef ég hugsað mér að endurtaka þetta allt á morgun. en núna opna ég freyðivínið.   

fimmtudagur, 7. janúar 2016

vertu ljósið

það er janúar á íslandi og ég má hafa mig alla við svo vindurinn sópi ekki undan mér fótunum. í dag var mér synjað um listamannalaun. ég tók því merkilega vel. í stundarkorn fannst mér eins og skörðótt flís vætt blásýru stingist í gegnum hjartað í mér en svo gekk hún sársaukalaust beint út um bakið. ég var orðin vinnufær á innan við fimm mínútum. eftir því sem vindinn herti þegar leið á daginn gerði skap mitt ekkert nema stillast enn frekar og upp úr sjö í kvöld, á meðan ég eltist við sundfötin mín um útiklefann þveran og endilangan, var ég komin á þann stað að sjá þetta sem teikn um eitthvað stórkostulegt sem óhjákvæmilega sé í aðsigi; úniversið leitast við að halda jafnvægi á hlutunum; neii í dag verður að fylgja já einhvern annan dag. þannig að það hlýtur til dæmis bara að vera tímaspursmál hvenær ég vinni í deluxe ástarlottóinu. nú eða bara happdrætti háskólans. mig hlakkar til.

þriðjudagur, 5. janúar 2016

to do listi 2016

1. skrifa
2. hugleiða
3. finna góðan, fyndinn, áhugaverðan og fallegan kærasta
4. fara í myndlistarnám
5. læra meiri ítölsku
6. þykja vænt um sjálfa mig
7. elda mat
8. hætta í vinnunni
9. ferðast
10. lesa

þó maður strengi ekki áramótaheit og hafi tendens til að verða að engu gagnvart því risavaxna verkefni að hefja enn eitt árið í baráttunni við sjálfan sig er ekki þar með sagt að maður sé fullkomlega stefnulaust rekald í eigin lífi.