laugardagur, 30. nóvember 2013

gjössovel

ég eyddi fimm klukkutímum í þögn og hugleiðslu undir esjurótum í dag og am feeling particularly generous, samt er ég pínulítið að grenja þó ég viti ekki yfir hverju, kannski þarf ég bara að hætta að hlusta á presley syngja silent night og borða eitthvað almennilegt, ég veit ekki af hverju ég er að hlusta á presley, þann hinn sama og ég hef haft þó nokkra andúð á í gegnum árin af því hann hafði svo óþolandi  vælulegan munnsvip, ég er að skrifa senu um þetta í nóvelluna mína, tveir fullorðnir karlmenn – báðir kennarar – sitja inni í brúnum volvo af árgerðinni ´92 og reykja viceroy og þrátta um gildi presley sem listamanns, í einhverjum skilningi grunar mig að þetta sé uppjör á milli okkar presley, maður má ekki fara í gegnum lífið og hafa fólk fyrir rangri sök, það er engan veginn í anda jesúbarnsins, á morgun er fyrsti í aðventu, maður minn hvað ég ætla að bauna jólamyndum hingað inn næstu vikur, ég hef djúpa þörf fyrir desember og jól og hugleiðingar um vonina og kraftaverkið og nýtt upphaf, amen, ég þarf líka að skrifa 99 birtingarhæf orð um ljós og myrkur fyrir jólabók ritlistarnema sem kemur út eftir andartak (áhersla á andartak), þú ætlar einmitt að kaupa þá bók því hún verður svo agalega skemmtileg, ég veit bara ekki vel hvað ég ætti að skrifa um, þemað ljós og myrkur kallar hættulega mikið á það sem ég vil kalla „hinn kalmanska orðaforða“ og ætti ekki að reyna í heimahúsum af öðrum en sveitunga mínum kalman, það sem flækir málið enn frekar er að mér er svo agalega uppsigað við tvíhyggjuna þessa dagana, ég held að hún sé hreinlega krabbameinsvaldandi, kannski enda ég sem búddisti og einbeiti mér að engu nema reynslunni, svo svindla ég auðvitað á jólum og tilbið jesúbarnið, búddah brosir örugglega bara að því, búddah er svo lygilega ligeglad náungi, þessi týpa sem allir vilja eiga fyrir nágranna en enginn vill vera giftur, allavega ekki ég, til þess er hann of skaplaus, svona maður myndi gera mig geðveika, ekki það að ég sé að leita mér að manni, stundum hef ég verið agalega svag fyrir hugmyndinni um aðventuástmann, einhvern til að hitta á kaffihúsi í desembermyrkrinu og ræða við um mína erkifjendur fyrirgefninguna og æðruleysið, svo gufar hann einhvern veginn upp eftir nýárið án allra eftirmála, sjálfsagt er aðventurástmaðurinn lítið annað en aum birtingarmynd hinnar mannlegu þrár eftir tengingu við guð, sú þrá leiðir manneskjuna útí ótrúlegustu hluti, til dæmis útí það að hlusta á presley 

föstudagur, 22. nóvember 2013

einhvern veginn verður kona að tjá sig


ég er alein heima, einu sinni talaði ég oft fjálglega um það hvað mér þyki gott að vera ein heima, það var áður en hundurinn minn dó og ég áttaði mig á því að ég hef eiginlega aldrei verið ein heima, núna finnst mér það ekkert sérstaklega gott, og alls ekki þegar ég verð myrkfælin, sem er næstum alltaf, ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ég þurfi ekki að finna mér elskhuga fyrst ég eigi engan hund lengur og neyðist til að deila barninu með þeim sem gat það með mér, verst hvað karlmenn eru óáhugaverðar skepnur, hundar eru miklu meira spennandi, og ekki næstum því jafn miklir egóistar, nei almáttugur ég veit ekki hvaða bull þetta er í mér, í hvaða vasa ætti ég svo sem að finna tíma fyrir elskhuga? á kvöldin þegar ég er komin uppí? þá þarf ég að lesa, bunkinn á náttborðinu er ekki að fara neitt nema síður sé, á næstunni mun hann þvert í mót fara vaxandi enda hafa þau vigdís gríms og eiríkur guðmunds bæði gert mér þann bjarnargreiða nýverið að senda frá sér eitt og annað sem er stillt upp í gluggum hverrar einustu bókabúllu í bænum og mig hreinlega klæjar í olnbogabótina og hársvörðinn af spenningi og óþreyju, ég get svarið það, maður tjúnast allur upp inní sér og veit varla hvar maður eigi að hafa hendurnar, í gær til dæmis þegar ég slysaðist inn í mál og menningu (til að borða salat, ég sver ég var ekki að kaupa neitt úr pappír) og rétt gjóaði augunum í átt að staflanum af 1983 1983 1983 1983 …  flaug í gegnum huga minn – mjög hratt, þetta hefði aldrei orðið að veruleika – að stinga henni ofan í mína djúpu dökku handtösku og láta nægja að biðja eirík fyrirgefningar í hljóði, sem betur fer er ég á mjög krefjandi námskeiði í gjörhygli og iðka hugleiðslu í næstum klukkutíma á dag svo þar fæ ég tækifæri til að anda mig niður og koma böndum á allan æsinginn og þráhyggjuhugsanirnar og stelsýkina, kannski finnst fólki ég vera að flækja málin óþarflega, ég hefði bara getað keypt mér bókina og sleppt maríubænunum en málið er að ég þykist vera að spara … kannski hefði ég átt að skáletra þykjast …  af öllu því sem ég er óútskýranlega léleg í er sparnaður algjörlega spaðaásinn minn, trompið uppí erminni, my magictrick eins og los americanos myndu segja, einhvern veginn virðast hugmyndir mínar um sparnað vera algjörlega þvert á það sem almennt gerist meðal borgaralega þenkjandi manna og kvenna, þegar ég til dæmis kaupi mér bók eða eyrnalokka eða buxur úr hundrað prósent kínversku silki finnst mér ég vera að græða svo rosalega að það samsvari í rauninni sparnaði, nokkurs konar öfugur sparnaðu skiljiði? …  ekki? jæja, hver með sínu lagi þá, en aftur að því að vera einn heima og myrkfælinn, „foreldrar“ mínir – þ.e. min store sös og hendes mand – flýja jafnan heimilið (og mig þá um leið) um helgar til að trappa sig niður á sveitasetrinu sínu enda eru þau bæði – ólíkt mér – fólk sem slítur sér út í afar mikilvægum ábyrgðarstörfum hjá afar mikilvægum fyrirtækjum úti í bæ, með öðrum orðum eru þau svona fólk sem lætur hjól atvinnulífsins snúast, ég er vonlaus í þess háttar vélaverkfræði, í dag reyndar gengu þau svo langt (eða keyrðu öllu heldur) að flýja til akureyrar, fólk er tilbúið til að leggja ýmislegt á sig til að forðast samvistir við mig, skýlir sér svo á bak við afsakanir á borð við þær að „maður verði að rækta sambandið“ og eitthvað, eins og það sé við hæfi að ræða svona við fráskilda manneskju! ég get svarið fyrir það fólk er eitthvað undarlegt, en allt í góðu ég held mér upptekinni við að stunda hot yoga og hugleiðslu, drekka lífrænt rauðvín og tala við sjálfa mig á mínu eigin bloggi, kannski ég ætti að kommenta á sjálfa mig … og svara kommentinu, það eru allri hættir að kommenta hérna, hvað í andskotanum er að ykkur?  

þriðjudagur, 12. nóvember 2013

nunna spyr …

nákvæmlega hvað á fólk við þegar það spyr hvort maður trúi á ástina . . .  ég skil ekki spurninguna, er þetta spurning um trú? ég get annað hvort trúað eða trúað ekki á tilvist guðs vegna þess að ég get ekki fært sönnur fyrir því hvort guð sé til eða ekki, ég veit aftur á móti að ástin (fyrst skrifaði ég guð, freudian typo!) er til, ég hef orðið vitni að þeirri tilteknu kennd bæði í eigin lífi og annarra, þannig að þegar fólk spyr hvort maður trúi á ástina getur það varla verið að spyrja að því hvort maður viðurkenni að hún fyrirfinnist í brjósti manna yfirleitt, . . . svo um hvað er spurt? hvort maður trúi því að ástin sigri allt? ef svo er hlýtur hver maður með hjartað í brjóstinu og höfuðið á herðunum að svara spurningunni neitandi, maður þarf hvorki að horfa lengi í kringum sig né inná við til að sjá að ástin sigrar hreint ekki allt en það er aftur á móti ýmislegt sem sigrar ástina (einbeitingarskortur, brauðstrit, leti, tíminn, fyllerí, egóismi, óhreint leirtau, klisjukenndar hugmyndir um the task at hand, óþolinmæði, vanabundin hegðun, tilætlunarsemi, heimskulegar stjórnmálaskoðanir . . . ég gæti haldið endalaust áfram), stundum þegar ég þræði rekkana í matvörubúðinni eða mæti á uppákomur í skóla dóttur minnar laumast ég til að virða fyrir mér pörin í kringum mig og einhvern veginn getur mér ekki annað en fundist að fólk sé upp til hópa hundleitt og vonsvikið og þreytt, helst hallast ég að því að ástin sé einhvers konar brella sem við notum til að þurfa ekki að takast á við okkur sjálf, blekking til að komast í burt frá sjálfum sér, nema maður kemst ekki upp með það nema í afar stuttan tíma, og þá situr maður uppi með sjálfan sig, er ekki eitthvað ömurlegt við þetta allt saman? eitthvað örvæntingarfullt? ekki það að maður vilji hljóma beiskur og bitur, sem ég er hreint ekki, en í augnablikinu halla ég mér allavega frekar að guði en ástinni, að  hinum eina sanna kærleiksstríðsmanni, ástin fær að njóta vafans      

laugardagur, 2. nóvember 2013

manifesto


lengst af ævi minnar hef ég trúað því að lífið ætli mér ekki góða hluti; að heimurinn kæri sig ekki um að ég sé hluti af honum, ég trúi því ekki lengur
                                             
                                                         ég skal verða heil 

þetta hljóðaði inní vitundina rétt í  þessu

               í gegnum mig skal ganga 

                              súla
                                
                úr órofnu ljósi
                        (ljómandi og skýr)

                  ég skal virkja rafmagnið í 

                               taugafrumunum

                   og spinna úr því  
                                               glóandi
                                                              þráð 

                                                                     á milli mín 
                                                                     og                                                                             heimsins