laugardagur, 30. júní 2012

þegar maður heldur í hesta


hægri handar baugfingurinn minn er ógeðslega ljótur, stokkbólginn og marinn og pinnstífur og grænblár, að jafnaði þykir mér grænblár mjög fallegur litur, bara ekki á minni eigin húð, puttinn minn lítur út eins og eitthvað sem er dáið og er rétt að byrja að rotna, ég var svo leið yfir þessu í dag að ég keypti mér nýja eyrnalokka og fékk mér meira að segja auka gat í eyrað til að geta hengt á mig meira glingur, það lagaði lítið sem ekkert, puttinn er ennþá viðbjóðslegur, svona fer fyrir konum sem slást við hross, ég treysti mér ekki til að segja þá sögu, hún fjallar um börn og rennandi blautan regnfatnað og hesta sem eiga ekki að geta blindrokið en gera það samt, ég er ennþá að fá martraðir 

sunnudagur, 24. júní 2012

aðskotahlutur í hálsi raporterar


sumt fær maður alltaf í hausinn, til dæmis vísareikninga og óhóflega hvítvínsdrykkju, yfirleitt á maður hausverkinn skilið og sættir sig þegjandi við óþægindin af því maður kallaði þau yfir sig sjálfur (það er ekki þar með sagt að maður læri eitthvað á þeim), því miður lenda systir mín og hennar elskulegi eiginmaður reglulega í þessu, þ.e. að fá eitthvað í hausinn, nefninlega mig, hvað fólkið hefur aftur á móti gert til að verðskulda þetta afleita karma er algjörlega óskiljanlegt, það er samt sem áður afar raunveruleg (og dapurleg) staðreynd að með reglulegu millibili gerist ég hústökukona á heimili þeirra, eins og ekkert sé eðlilegra kem ég mér fyrir með tannbursta og öllu í gestaherberginu og spranga svo um á brókinni og náttkjólnum heimtandi að það sé hellt uppá með pressukönnunni en ekki rafmagnsviðbjóðnum sem býður uppá gamaldags uppáhellingu og þykjustuespressó, ég veit, þetta er hryllilegt, þó ég reyni að haga mér skikkanlega og setja í uppþvottavélina er ekkert sem breytir því að ég er glataðasta tegund sambýlings sem hugsast getur, þið vitið þessi sem borgar enga leigu, rétt áðan kláraði ég meira að segja sjampóið, aumingja fólkið, þetta kallast að hljóta hörmuleg örlög, en sum sé í minni sjálfskipuðu útlegð frá mínu eigin heimili sem alla jafna hefst á fimmtudegi og varir til mánudags drekk ég mikið sodastream og ven mig við þá hugmynd að ég sé fráskilin og einstætt foreldri, ég hugsa líka um að ég verði að finna mér nýtt húsnæði en slíkt virðist ekki liggja á glámbekk hér í bæ, vissulega óþolandi og á meðan fasteignamarkaðurinn hagar sér eins og tom cruise (þ.e. heimskulega og nákvæmlega eins og honum sýnist) neyðist maður til að níðast á góðmennsku sinna nánustu og skammast sín fyrir að vera þessi niðursetningur sem maður svo sannarlega er, ekki skrítið að ég sé að veikjast, ég á það skilið    

fimmtudagur, 21. júní 2012

maður lúsast þetta í gegnum dagana

hér í gluggakistunni blómstrar plantan sem ég veit ekki hvað heitir yndislegum hvítum blómum, flati kaktusinn stækkar eins og eitthvað á vaxtarörvandi hormónum og elsti pálminn minn bætir við sig nýjum blöðum í staðinn fyrir þessi sölnuðu og lúnu, ástareldurinn virðist liggja fyrir dauðanum en það er örugglega að mestu metafórískt ástand, ég tala mikið þegar ég vökva blómin og verð glöð á einhvern mjög raunverulegan hátt þegar þau dafna vel, líklega verð ég alltaf fyrst og síðast húsamús, mér líkar heimilisdútl og ég þoli illa að hafa ljótt í kringum mig, enn síður þoli ég plebbalegan mat í mínu eldhúsi og því til sönnunar var ég rétt í þessu að kyngja síðasta bitanum af smjörmjúkum laxi og salati með grænum eplum, karamelluseruðum hnetum og trönuberjum, agalegt hreint hvað maður verður svangur af því að vera útivinnandi, þegar ég segi útivinnandi meina ég það ekki í merkingunni „á vinnumarkaði“ heldur bókstaflega, þ.e. að vinna undir berum himni, ég teymi hamingjusöm börn á hestbaki fleiri kílómetra á dag innan um lúpínubreiður og biðukollur og vona að garnagaulið í mér skemmi ekki upplifunina fyrir smáfólkinu, á hestbaki vill maður heyra í lóunni, ekki meltingarfærum annarra, á kvöldin er ég svo örmagna í litlu fótunum mínum að ég ligg að mestu fyrir og les, að meðaltali held ég lesturinn út í 12.23 mínútur áður en ég sofna svefni sem ekkert gæti vakið mig af, eðlilega kemst ég því ekkert áfram í bókinni minni, það er aðeins eitt sem ég geri hægar þessa dagana en að lesa og það er að skrifa, annars hreyfi ég mig yfirleitt frekar hratt, og mikið

mánudagur, 11. júní 2012

hvað gengur manni eiginlega til?

stundum velti ég því fyrir mér að eyða þessu bloggi, sér í lagi þegar ég heyri fólk úthúða bloggum sem innantómri sjálfsdýrkun og upphafningu á eigin persónu og lífi, maður fer hjá sér, er ég virkilega svona sjálfssjúk, svona uppnuminn yfir minni eigin tilvist og hlutverki, svona sannfærð um að líf mitt sé svo gríðarlega merkilegt að það hreinlega verði að vera fyrir allra augum (til glöggvunar eru heimsóknir á þessa síðu í kringum þrjátíu á dag, sjálfsagt öll frá fjölskyldumeðlimum, það eru nú öll svakalegheitin, öll tryllingslega athyglin fyrir mig að baða mig í), en gott og vel, auðvitað eru öll skrif af þeim toga sem hér fara fram einhvers konar sviðsetning á eigin lífi, rétt eins og þegar við förum út í búð eða kynnum okkur fyrir öðru fólki í afmælisveislu hjá kunningja, allt er einhvers konar sviðsetning, við veljum hvað við sýnum af sjálfum okkur í hvert skipti sem við mætum öðru fólki, þegar ég heyri hneykslast á þeirri gervimennsku sem það sé að skrifa um eigið líf spyr ég mig iðulega hvers vegna ég sé að dedúa við þessa síðu, hver sé eiginlega tilgangurinn? í upphafi var þetta auðvitað slys, ég bjó þessa síðu til fyrir slysni af því ég er svo ótrúlega léleg í öllu sem viðkemur tölvum, ég ætlaði bara að skrifa komment á bloggið hennar fíu en bjó óvart til þennan litla frankenstein, í framhaldinu hafði þetta meira með það að gera að búa til boðlega litapallettu, linkarnir gátu til dæmis alls ekki verið í þessum ljóta bláa lit sem þeir voru upphaflega í, svo lærðist mér að maður gæti sett hér inn myndir, ég borða með augunum jafnt sem munninum og gat ekki staðist það að fara að sanka að mér myndum sem svöluðu minni sjúklegu fíkn í fegurð, lengi vel skipti þetta meira máli en það sem hér var bullað í orðum, seinna fór ég að finna skrifunum rödd, og já hún liggur nálægt minni eigin, stundum finnst mér hún meira mín eigin en sú sem heyrist þegar ég opna munninn, mér líkar illa að opna munninn innan um fólk og tala um sjálfa mig líkt og ég geri hér, almennt líkar mér ekki athygli, mér líkar ekki að láta horfa á mig, mér líkar ekki að vera krafin svara, mér líka ekki að vera í kastljósi af neinum toga, ég hef gengist við því á fullorðinsárum að vera feimin, ég ber það kannski ekki alltaf með mér og maður kemur sér upp ákveðnum leiðum til að fela slíkt, skrif eru ágæt leið til að nálgast sjálfan sig og opinberast öðrum en dyljast um leið, allt sem ég skrifa á þessa síðu segir mér eitthvað um mig sem manneskju, og já mér finnst oft ákveðin líkn í því að annað fólk lesi það og finni kannski til samsömunar, nú eða finnist þetta allt bara fyndið og fáránlegt, ég myndi aldrei telja það eftir mér að skemmta fólki með mínum eigin plebbaskap, það er heiður og oft eru þessi skrif ágæt leið til að taka lífið ekki eins alvarlega, stundum les ég yfir gamlar færslur og finnst þær hreinasta hörmung, hvað í veröldinni var ég að hugsa þegar ég sendi þetta frá mér segi ég stundum, en þetta blogg er ekki staður til að taka hluti of alvarlega, þetta blogg er hversdagshjal, ég er veik fyrir fegurðinni í hversdagsleikanum þó á köflum þrái ég sirkuslíf í fjarlægum löndum á fjarlægum tíma, og rétt eins og dagarnir er það sem fer hingað inn bæði gott og vont og allt þar á milli, við þráum öll að framkallast, að færa hið innra út, koma við heiminn, og stundum er það að skrifa miða leið til að framkallast, eru blogg ekki einhvers konar flöskuskeyti? ... en kannski er þetta tóm athyglissýki líka, kannski er ég bara óseðjandi athyglissjúk, það skildi þó ekki vera

sunnudagur, 10. júní 2012

maður er svo umhleypingasamur


áður fyrr tók ég allt sem ég skrifaði með blýanti í minnisbók svo alvarlega að ég skrifaði helst ekki neitt, aftur á móti gat ég skrifað hvað sem er í tölvuna með delete takkann innan seilingar, einhverra hluta vegna hefur þetta snúist við, nú æli ég hverju sem er í minnisbókina mína (skammarlegt frá að segja þar sem hún er fáránlega falleg, skreytt skrautlegum þykkblöðungum og á allt það besta skilið) en set ekki niður staf í tölvunni nema ég meini það algjörlega, það þarf auðvitað ekki að taka það fram að þetta gildir ekki um þetta blogg, það er áfram sá óritskoðaði tilfinningalegi ælupoki sem það hefur alltaf verið, ágætt, annars er ég öll út úr korti í dag ... sem og aðra daga, ást út í úniversið

miðvikudagur, 6. júní 2012

hér er hugsað upphátt



er eitthvað betra en þorskur í lime og kóriander? ég reyni að borða ekki yfir mig, drekk hvítvín með sólberjum og vanillu og fæ mér dáldið af svörtu súkkulaði með kirsuberjum á eftir, hundurinn grenjar, barnið sullar kokteilsósu yfir fiskinn og ég reyni að láta á engu bera, velti því fyrir mér hvort ég eigi að innleiða punktinn á þetta blogg (það má greiða atkvæði hér), ég drekk mikið d-vítamín í gegnum húðina, sólbrúnn kroppur, deprímeruð sál, hamingjan hleðst ekki jafn hratt upp í líkamanum og melantóníið í húðinni, hvað er það sem maður raunverulega þráir? að vera glöð svara ég alltaf þegar sálarlæknirinn spyr, en af hverju er maður alltaf svona svangur? svangur í lífið, svangur í fegurð, svangur í ást og guð og tilgang, ég trúi á guð, en stundum á ég svo erfitt með að treysta honum, treysta því að hann sjái um mig, treysta því að hann hafi hugsað fyrir öllu og ekki gleymt neinu, ekki heldur mér, stundum er eins og fjarlægðin milli þess sem er innra með manni og þess sem er þarna úti sé svo endalaus og ófær að það taki því ekki einu sinni að reyna, til hvers að synda yfir ólgusjó og opið haf? til hvers að opna hjarta sitt þegar veröldin virðist full af þungavinnuvélum og vörubílum? til hvers að trúa á ástina? ég maka kókosolíu í hárið og ligg í gufubaðinu, hugsa um líkamann, líkami minn er allt sem ég er, allt rúmast innan hans, samt hjarnar sálin ekki við þó ég hlúi svona vel að honum, sannar það mál þeirra sem boða aðskilnað sálar og líkama, ég á erfitt með þá tvenndar hugsun, efni og andi, stenst það? ... þetta er ekki mjög fókuseruð færsla, en þær eru það svo sem sjaldnast