þriðjudagur, 28. september 2010

meðalmennskan er að eyðileggja líf mitt

skilaboðin á tepokanum mínum í morgun voru "let love drive you to excellence", það gekk ekki eftir

mánudagur, 27. september 2010

fólk með einn í extróvert fær enga samúð

ég hef eytt næstum öllum deginum í ömurlega gagnslausa hluti eins og að láta fólk koma mér úr jafnvægi (vá hvað guð hlýtur að vera fúll út í mig), ég fór á fætur með viðkvæmu hliðina utanyfir hlífðarbúninginn í morgun og eftir það gat leiðin ekki legið annað en niður á við, að vera í viðkvæma skapinu í vinnunni þar sem maður passar sig vandlega á að láta hvergi glitta í veika bletti er óhemju orkufrekt og framkallar svo mikla slímmyndun í höfðinu að maður hugsar ekkert af viti en veltir sér þeim mun meira upp úr öllum hugsanlega mögulegum neikvæðum útkomum allra hluta, miðað við hvað þetta tekur mikið á líkamlega get ég bara vonað að þetta sé alveg ofboðslega grennandi og vegi þannig upp á móti því hvað viðkvæma hliðin (öðru nafni auminginn) lætur manni finnast maður feitur og ruglaður og yfir höfuð ekki veraldartækur einstaklingur (líkt og að vera ekki skólatækur nema bara í miklu víðari skilningi), í augnablikinu kenni ég barninu þumalputtareglur í stafsetningu til að ég þurfi ekki að horfast í augu við það að ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætla að skrifa um fyrir næsta ritlistartíma og að öllum líkindum verður það eitthvað virkilega vandræðalegt nema ég verði svo heppin að músan mín helli mig svo fulla að ég steingleymi að hafa áhyggjur af öðru fólki og öllum þessum orðum og leiðindum sem af þeim hljótast, mig vantar eyðibýlið mitt

sunnudagur, 26. september 2010

hux hux

hvaða reglur má brjóta?

hvað má grínast með?

hvenær er refsiverð háttsemi til góðs?

þriðjudagur, 21. september 2010

vinsamlegast takið mig úr umferð.......einhver?

tímaþröng og krefjandi verkefni ganga yfirleitt treglega í efnasamband og fyrir vikið óttast ég að þegar ég les söguna mína fyrir ritlistarhópurinn minn á morgun telji fólkið að ég sé ein af þessum ógæfusömu einstaklingum sem halda til á umferðareyjum þessa dagana og næra sig á sveppum, sem ég geri ekki þó það hvarfli stundum að mér að ég gangi í svefni og belgi mig út af einhverju sljóvgandi, eins og til dæmis í gærmorgun þegar ég uppgötvaði mér til hrellingar að ég var á leiðinni út úr dyrunum í leggingsbuxunum á röngunni og kjólnum öfugum, það bætti stöðuna lítið að snúa kjólnum við því framhliðin reyndist útbíuð í kökukremi og deigklessum sem hefði hæglega mátt ímynda sér að væri eitthvað annað og verra án þess að ég segi meira en fólki er frjálst að fabúlera frá sér allt vit ef það getur skemmt sér við það, ég var orðin svo sein að eitt andartak hvarflaði það að mér að vera bara í flíkinni öfugri og reyna bara að passa að snúa aldrei baki í fólk en sem betur fer sá ég að mér og fór inná bað og mígbleytti pilsið á kjólnum og náði sullinu úr, af tvennu illi var þá skárra að líta út eins og ég hefði pissað á mig fyrir allan peninginn, ætli félagsmálastofnun bjóði fullorðnu fólki uppá aðstoð við að klæða sig á morgnana svo það verði sér ekki ítrekað til minnkunar og eigi á hættu að vera rekið úr vinnunni vegna gruns um að vera á kafi í sniffi og sveppaáti?

föstudagur, 17. september 2010

gríðarlega mikilvægar upplýsingar

haustgöngutúrar með hundinum mínum eru afbragð, jafnvel þó ég hafi hryllilegar áhyggjur af því að dýrið sé með þvagleka og það sé aldrei töff að ganga um með kúk í poka, best er að hafa með sér bók og lesa einhvers staðar útí móa þangað til maður er orðinn tilfinningalaus í rasskinnunum og nennir ekki lengur að reyna að hemja blaðsíðurnar sem slást í allar áttir eða öskra á hundinn sem þefar uppi hvert einasta fuglshræ á svæðinu og nuddar sér af ástríðu upp úr rotnunaróþefnum, kemur svo og klínir sér upp við mann til að deila með manni ilminum og skilur lítið í því að athæfið veki ekki hjá manni mikinn unað, ég ætla að fá mér einn svona göngutúr nákvæmlega núna og hafa með mér mitt splunkunýja eintak af to kill a mockingbird sem ég viðurkenni hér með opinberlega (því hálfur heimurinn les auðvitað þetta gríðarlega mikilvæga málgagn sem þetta blogg er) að hafa ekki lesið og já ég skammast mín, ég játa einnig að hafa í dag gert marga púkalega hluti eins og að sækja um afsláttarmiða í amerísku risaoutleti hvar ég hyggst kaupa fjall af jólagjöfum þegar ég visitera nýja heiminn í næsta mánuði, mér hefur sjaldan fundist ég meiri íslendingur

fimmtudagur, 16. september 2010

skýring á fjarvistum

er vægt til orða tekið mjög upptekin við að klára bókmennta og kartöflubökufélagið og drekka sódavatn uppí rúmi, ég er heltekin af þessari bók sem er ekkert minna en dásamlega skemmtileg og fögur og þá sjaldan sem ég splæsi í pissupásu gleymi ég mér við að fantasera um að kaupa kvikmyndaréttinn að henni, ég myndi þá leikstýra henni og leika aðalhlutverkið ásamt því að velja í hana tónlist (svona eins og ég væri kvenkyns útgáfa af charlie chaplin, heimsins mesti multítasker í kvikmyndagerð), hvað segi þið er ekki einhver til í að einhenda sér í verkið með mér? við myndum svelta og fólk myndi hlægja að okkur en guð it would be worth it!

laugardagur, 11. september 2010

there is a crack in everything....... that´s how the light gets in (l.cohen)

ég mundi rétt í þessu að það er ellefti september, ég ætla að biðja guð um gefa öllum auka skammt af kærleika og umburðarlyndi í dag, ég er nefninlega ekki á því að guð sé ranghugmynd, ég hef svo sem ekki hugmynd um hvað guð er, ég bara finn hann alls staðar

heilsið ellabjé

þetta er ellibjé, ég hef nefnt hann á nafn oftar en einu sinni á þessari síðu og er lengi búin að ætla að skrifa um hann pistil, ellibjé er þriggja ára systurdóttursonur minn eða kannski er einfaldara að segja að ég sé ömmusystir ellabjé (sem eitt og sér er með ólíkindum) og hann er mér afar kær, jafnvel þó hann sé rangnefndur (ég er búin að ákveða að það sé orð) því af einhverjum ástæðum mér óskiljanlegum ákvað móðir hans allsgáð og ótilneydd að nefna hann í höfuðið á bróður mínum (þessi frásögn er að verða svona ég er afi minn) en ekki mér (?!), ég er ennþá að reyna að skilja hvers vegna konan hafi ekki áttað sig á að það lægi beinast við að nefna drenginn krumma, en gleymum því, ellibjé er svo fallegur að manni líður eins og maður sé úr mauki að innan þegar maður horfir á hann, frá því hann var pínulítill hefur hann haft svo undarlega angurvært og fjarrænt blik í augunum sínum að það er alltaf eins og hann eigi sér leyndarmál, eins og hann viti eitthvað sem við hin áttum okkur ekki á og hann ætlist ekki til að við skiljum, hann sóar yfirleitt ekki orðum þó hann eigi orð yfir flesta hluti (eins og stórfenglegt og í kveðjskyni) og hann nagar á sér neglurnar og borar í nefið á sér af meiri einbeitni en ég hélt að þriggja ára barn gæti búið yfir, ellabjé finnst ekkert í heiminum eins gott og sælgæti (sérstaklega haribohlaup) nema þá kannski góð bók og púsl sem gjarnan mega á einn eða annan hátt tengjast leiftur mcqueen, sælgætissýkina og bókafíknina erfði hann frá móður sinni því pabbi hans er meiri áhugamaður um eðalhráefni eins og truffluolíu og kryddjurtir en hvítan sykur (ef ég tryði ykkur fyrir því hvað hann á margar flöskur af truffluolíu myndu þið halda að ég væri að ljúga) enda einhver besti kokkur á landinu, ef þú ert á flúðum skaltu fara á hótelið þar og spyrja hvort pabbi hans ellabjé sé á vakt í eldhúsinu, þú munt ekki yðrast þess, trúðu mér, en þó ellibjé sé ekki sammála pabba sínum um hvaða fæðutegundir megi flokka sem delicatessen er hann samt ótrúlega líkur honum, sérstaklega þegar maður sér hann aftan frá á nærbuxunum, þá er hreinlega erfitt að sjá muninn ef frá er talinn augljós stærðarmunurinn, fyrir einu og hálfu ári eignaðist ellibjé systur (vegna þess að stundum henda erfiðir hlutir gott fólk) og á myndinni hér fyrir ofan (sem pabbi hans tók vegna þess að sumt fólk er hæfileikaríkt á fleiru en einu sviði, sensar einhver öfund?) er hann einmitt að fá nýfædda boðflennuna í fangið, að lífi manns sé umturnað með innrás agnarsmárrar kraftmúsar (hún er aldrei kölluð annað en litla músin) sem er ekki bara svívirðilega sæt heldur líka nógu óforskömmuð til að bjóða manni byrginn og snúa mann niður á hárinu er auðvitað miklu meira en hægt er að leggja á einn lítinn mann og stundum ræðir ellibjé það af hreinskilni hvort hann eigi ekki bara að búa hjá ömmu og afa, ég hef boði honum að búa hjá mér en hann horfir bara á mig með leyndarmálaaugunum sínum og segir "neeeeei kannski bara seinna", þá bendi ég honum gjarnan á augljósa kosti við ráðahaginn eins og hengirúmið og kastalann í garðinum en hann svarar bara með því að hneigja hökuna örlítið og horfir á mig lengi án þess að segja orð, maður gæti grenjað, í staðinn reyni ég að fara í helgarheimsóknir til hans á flúðir og er iðullega fagnað eins og eftirsóttustu manneskju í heimi, barnið er gengdarlaust gestrisið og bíður mér háum rómi að gista í margar margar vikur í rúminu sínu og leika með allt dótið og bækurnar og púslin og guð má vita hvað, hvað get ég sagt, ég elska ellabjé

fimmtudagur, 9. september 2010

hvar er glamúrinn?

af hverju er ég með svona margar bólur, hmmmm kannski vegna þess að næturkremið sem ég var að kaupa er eins og hamsatólg, ég er orðin svo mikil kelling að ég nota næturkrem í ofanálag við að safna matarstelli, hver hefði trúað þessu

þriðjudagur, 7. september 2010

mér finnst ég þurfa að drepa eitthvað

us department of homeland security meinar mér að fylla út umsókn um vegabréfsáritun á heimasíðunni sinni, það er sama hvað ég reyni mér er hvergi hleypt inná síðuna þar sem umsóknareyðublaðið er að finna, ég er búin að vera að reyna þetta í tvo klukkutíma og það næsta sem ég hef komist umsókninni er að tvívegis hef ég fengið upp glugga þar sem mér er boðið að velja á hvaða tungumáli ég vilji lesa skjalið, ég rétt næ að færa bendilinn á íslenska og þá poppar samstundis upp gluggi sem segir mér að tími minn sé útrunninn, ég er algjörlega að tapa vitinu og þarf af beita öllum mínum viljastyrk til að láta það ekki eftir mér að sarga í sundur á mér slagæðarnar með öllum tiltækum ráðum, ég myndi láta það eftir mér að segja eitthvað ógeðslega ljótt um us department of homeland security ef ég þyrði því en held að ég geymi það þangað til ég kem heim frá boston, ef svo ólíklega vildi til að ameríkanar ákveði að hleypa mér inn í land hinna frjálsu og heimkynni hinna hugdjörfu (hlýtur að vera nett stressandi að standa undir þessum háleitu lýsingum) ætla ég ekki að hætta á að vera send beint aftur heim til íslands með stimpil á enninu upp á að teljast ótækur túristi og hugsanlegur óvinur frelsisins, það síðasta sem maður vill þegar maður sér fram á að geta heimsótt supersize bókabúðir og drekkt sér á starbucks er að láta bendla sig við niðurrifsstarfsemi og aðra almennt óameríska hegðun sem gæti komið manni í bobba, á morgun ætla ég að láta nemendur mína hlusta á bandaríska þjóðsönginn, tvisvar

í dag af öllum dögum ákvað ég að fara út að hlaupa og svifrykið situr svo í augabrúnunum og svitaholunum að fólk gæti auðveldlega tekið mig í misgripum fyrir samkvæmisdansara

laugardagur, 4. september 2010

athugið

í dag vil ég framar öllu benda fólki á að tvær dásamlegar konur sem ég er svo fáránlega heppin að eiga fyrir systur og mágkonu hafa stofnað skemmtilegasta og frumlegasta fyrirtæki sem hægt er að hugsa sér og ég mæli með að þú kynnir þér það hér, maður bara roðnar yfir því hvað maður er simpill og óspennandi í samanburðinum, annars bið ég fólk bara að muna að god is on your side and wants you to dance

mynd: yvette inufio

fimmtudagur, 2. september 2010

morningmadness

6.30 vekjaraklukkan (a.k.a. síminn) hringir, mér tekst að slökkva á henni án þess að opna augun eða henda öllu niður af náttborðinu (5 stig)

6.43 ligg enn hreyfingarlaus með lokuð augu og finnst eins og líkami minn sé ekki á mínu valdi, get alls ekki hreyft mig og velti fyrir mér hvort ég geti mögulega hafa lamast í svefni (kannski af völdum ofnæmis, ég er ofnæmissjúklingur)

6.46 sest upp við dogg og skjögra í svefnmóki fram á klósett, sit óþarflega lengi dofinn á klósettinu með lokuð augu og líður einhvern veginn eins og ég sé í snjógalla með skíðagleraugu, hvítlaukurinn frá því kvöldið áður virðist hafa lækkað vökvamagn líkama míns niður í tvö prósent svo ég pissa bara pínulítið og leggst svo í kranann

6.51 kemst til nokkurrar meðvitundar eftir að hafa látið kalt vatn renna á hendurnar á mér, þvæ kaffikönnuna og mala kaffið, finn til mikillar óþreyju eftir að drekka kaffið strax og dett í þá vitleysu að stara á könnuna á hellunni eins og þá hellist hraðar uppá (það sama hendir mig oft í strætóskýlum)

7.00 geri fyrstu tilraun til að vekja barnið, hún misheppnast, kveiki á útvarpinu og þvæ mér í framan (5 stig), vek barnið aftur, hún horfir á mig eins og henni gæti ekki staðið meira á sama um hver ég sé og hvað mér sé á höndum þarna við rúmgaflinn

7.15 barnið er enn í bælinu og ég átta mig á því að bæði leikfimipokinn og fiðlubækurnar eru týndar, hleyp um á náttkjólnum og sný öllu við á heimilinu, blóta mikið, byrja að hrópa á barnið (mínus tuttugu stig)

7.30 finn loksins bækurnar á fáránlegum stað (tíu stig) og fæ það upp úr barninu að leikfimipokinn sé í skólanum, finn til föt á barnið sem neitar að klæða sig annars staðar en undir sænginni, átta mig á að barnið á enga hreina sokka (mínus fimm stig)

7.35 drekk of mikið kaffi of hratt á meðan ég tek til morgunmat og nesti og góla á barnið of mörg skilaboð í einu: kláraðu að klæða þig, greiddu hárið (rifist um nauðsyn þess að greiða hár, ég æsi mig, mínus tuttugu stig), finndu teygju, komdu að borða, mundu fiðlutímann klukkan tvö

7.38 barnið er enn ógreitt á klósettinu og ég eins og vitleysingur um hausinn, fatta að ég hef gleymt bæði rakakreminu og snyrtibuddunni í vinnunni (fooooookkkk!, mínus fimmtíu stig), ég er sveitt af kaffidrykkju og hamagangi, klæði mig og greiði á mér hárið sem stoðar lítið

7.44 kem barninu til að borða sem það gerir á hraða þess sem hefur enga tilfinningu fyrir hugtakinu tími

7.55 legg af stað í vinnuna í bullandi mínus, lít út eins og sveitt vörtusvín og er strax komin með hausverk