laugardagur, 26. október 2013

fagurfræðingurinn sem var einn í heiminum

ég er heltekin af myntugrænu, helst í bland við fíkjufjólublátt, ég veit ekki hvað það þýðir, annað en það að ég hef mjög háþróað litaskyn, að eigin mati alla vega, hvernig nýti ég mér það til að búa til peninga? svar óskast, ég var að henda afgöngunum af folaldasteikinni sem ég borðaði í kvöldmat, í hvert sinn sem ég hendi afgöngum í ruslið finn ég fyrir tóminu sem hundurinn minn skildi eftir sig í lífi mínu, að öllu jöfnu hefðu afgangarnir farið í dallinn hans og hann hefði horft á mig með þessum svip sem sagði: handa mér? ætlarðu í alvöru að gefa mér þetta? svo hefði hann gúffað öllu í sig og því næst lagt höfuðið í kjöltuna á mér á meðan hann sleikti nautnalega út um, ég er ein heima að þýða orð og hlusta á blúgrass, maður verður meyr af minna tilefni

föstudagur, 25. október 2013

ever the spinster


mér er boðið í partý í kvöld, barnið er hjá föður sínum og ég hef svo sem ekkert að gera annað en að þýða orð eða hlusta á víðsjá á hlaðvarpinu og teikna, samt nenni ég ekki að fara, ég er að verða ógeðslega miðaldra, bráðum þarf ég að plokka hár úr eyrunum á mér og kaupa mér nasaklippur, og fá eitthvað við hitakófunum, kött kannski

miðvikudagur, 23. október 2013

trúnaðarmál


ef efnt væri til fegurðarsamkeppni daganna er ég ekki í nokkrum vafa um að sigurvegarinn yrði haustdagur, bjartir sumardagar eru vissulega dýrlegir – ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri staðreynd – og stilltir vetrardagar geta verið hreinn unaður með öllu sínu dansandi ljósbroti og endurskini sem blindar, en hvað sem því líður eru það viðtekin sannindi að engir dagar eru fegurri en gullnir haustdagar, þetta er ekki einu sinni sanngjarn slagur, enginn stenst gyllta guðabirtu á þessum tíma árs þegar við vitum öll að bráðum verður öll birtan búin og þó við forðumst að tala um það hugsum við það öll þegar við opnum útidyrnar á morgnana og gröfum hendurnar í vösunum svo kuldinn í loftinu grípi ekki í þær, svo skjótum við öxlunum upp að eyrum og hvíslum ofan í hálsmálið: kæri guð, ekki slökkva ljósið, ekki slökkva ljósið, ekki slökkva ljósið, þessi óvænti inngangur er einhvers konar örvæntingafull réttlæting á því að fyrr í dag – í annað skiptið í þessari viku, best að hafa þetta rétt fyrst maður er á annað borð að þessu – virti ég að vettugi fyrirmæli sjúkraþjálfarans míns og stalst út að hlaupa, ég á alls ekki að fara út að hlaupa, í bataferli mínu að nýju og betra mjóbaki eru útihlaup það sem ameríkanar myndu kalla a big no no, sem á íslensku mætti útleggja eitthvað á þá leið að við þeim liggi blátt bann, reyndar hef ég aldrei fengið nokkurn botn í það orðatiltæki ... hefur þetta eitthvað með sjálfstæðisflokkinn að gera? mér líður hálf illa yfir þessu, ég kann mjög vel við sjúkraþjálfarann minn og allan tímann sem ég hljóp hafði ég svo miklar áhyggjur af því að til mín sæist að ég hálfpartinn naut þess ekkert að hlaupa, fyrir vikið hljóp ég mjög hratt, ég sentist upp brekkur og skaust milli birkitrjánna eins og antílópa í íþróttaskóm, en sama hversu hratt hjartað hamaðist undir illa lyktandi hlaupatreyjunni (hún er úr einhverju gerviefni sem er þeim eiginleikum búið að magna svitalykt upp að mörkum þess þolanlega) og sama hversu hratt ég hreyfði fæturna yfir sölnuð lauf og gulnað gras fannst mér eins og ég gæti aldrei ferðast hraðar en kvitturinn um óhlýðni mína sem færi með hraða hljóðbylgjunnar um mosfellskt samfélag – þeim sömu hljóðbylgjum og mynduðust við árekstur fóta minna við jarðveginn – og næði að lokum eyrum míns ágæta sjúkraþjálfara, hugsanlega þar sem hann stæði grunlaus og berskjaldaður í röðinni í fiskbúðinni eða gulu grísabúllunni hvar ég hef stundum hitt hann og veit því að hugmyndin er ekki alfarið ólíkleg þó ég viðurkenni að ef maður er fyllilega raunsær þá nái þetta bull auðvitað engu tali, fátt gerir manneskjuna jafn dómgreindarlausa og taugaveiklun, að ég hafi ekki endað á tröppunum hjá manninum og hringt hjá honum bjöllunni til að játa á mig brotið er næstum óskiljanlegt, þið farið ekki með þetta lengra

sunnudagur, 20. október 2013

þaðan og hingað

síðustu daga hef ég þvælst um í hringstiganum, stundum farið meira niður en upp – sem er aldrei beint markmiðið – og stundum ekki litið út um glugga tímunum saman – sem er ekki gott þótt það sé álíka slæmt að gleyma sér of mikið við að mæna á það sem er fyrir utan, þá hættir manni til að detta í samanburðinn, ég skrifa lítið sem ekki neitt, það er eins og það sé eitthvert þak eða skilrúm á milli brjóstsins og höfuðsins, ég set niður einhverjar setningar og finnst eins og ég  þrýsti á seiga, þykka himnu ... í dag er sjötugsafmæli föður míns og í næsta mánuði eru þrjátíu ár frá því hann hvarf úr lífi mínu, þrír og sjö gera níu, þrjár heilagar tölur, að því tilefni er ég að erfiða við að skrifa inní leifturmyndasafnið mitt, einhver textabrot byggð á minningum mínum um hann, það gengur hægt, aðallega af því ég man svo ósköp lítið, þegar ég las minnisbók sigurðar pálssonar á dögunum varð ég svo þakklát því sem hann skrifar um minnið, um að mest megnis muni maður andrúmsloft; tilfinningu; skynjun, það er einmitt þetta sem ég er að reyna að smíða úr orð, án þess þó að hugsa það út í hörgul hvort þau séu nákvæm eftirmynd af veruleikanum, minnið er svo merkilegur skáldskapur, veruleiki út af fyrir sig, og það er alltaf innri veruleikinn sem er hinn raunverulegi, hitt er umdeilanlegt



Andvari

Í upphafi var heimur. Það voru strá og það voru móar. Það var gul birta og lágar hæðir og moldarvegur með holum sem stundum fylltust af vatni. Nokkur hesthús og girðingar hér og hvar. Það var svolítið grasbarð sem var búið þitt og gola sem talaði við þig. Það var enginn skuggi og ekkert tóm. Aðeins himinn, gul birta og gola í gulum stráum, grasbarð og lágar hæðir. Og þú. Þú í rauðri peysu með hvítum bekk og buxum sem líkast til eru forugar á hnjánum. Í loftinu er angan af vori og fyrir aftan þig heyrir þú í hrossum að kljást og hófum að róta í möl. Og þú veist af honum bak við hesthúsið að sýsla með reiðtygin og að bráðum kemur hann og kallar.   
         Það var heimur og þú varst í honum.

bogi eða ör ...



... og maður er alltaf að leita að hreinum tón, þessum eina rétta, það er lamandi iðja að leita sannleikans og eiga bágt með að taka því hvað veruleikinn er samsettur, að vera alltaf í þessari togstreitu milli blæbrigða og grunnlita, þá endar maður stundum bara í svörtu, og er það ekki tóm sjálfseyðingarhvöt að vera stöðugt að reyna að finna hinn hreina þráð; komast að niðurstöðu; sjá hina endanlegu heildarmynd, þegar maður í raun hatar kyrrstöðuna og óttast hana meira en allt? mér skilst að þetta liggi allt í stjörnukortinu, ég er með svo erfiða spennulínu – heilar hundrað og átttatíu gráður – á milli þess að þrá frelsi en þurfa um leið ákveðinn fasta, öryggi, í þokkabót komst ég að því nýverið – mér til herfilegra vonbrigða, verð ég að viðurkenna – að þvert á það sem ég hafði áður talið er staðreyndin víst sú að ég noti bæði heilahvelin jafnt, aðeins þrettán prósenta slagsíða til hægri, og ég sem hef verið svo sannfærð um það allt mitt líf að ég sé hrein hægra hvels kona, nei, alas, alas! maður virðist hvorki fugl né fiskur heldur einhvers staðar mitt á milli, hvað gerir skepna með hvoru tveggja sporð og vængi? þrýfst hún annars staðar en á hinum svarta fleti?

laugardagur, 12. október 2013

eldur! eldur!

ég er að lesa önnu kareninu, af hverju hefur enginn sagt mér prívat og persónulega hvað það er dásamleg bók? ætlast fólk til þess að maður taki orðinu á götunni sem gefnu bara af því það hefur verið í umferð í meira en hundraðogfimmtíu ár? hér með legg ég í það minnsta mitt af mörkum til að koma því umbúðalaust á framfæri að það eru alveg fínar ástæður fyrir því að fleiri en tveir hafa nennt að lesa þessa bók síðastliðna öld og gott betur, dásamlegur tónn og kristalskýr stíll og margslungið persónugallerí sem ég get ekki annað en haft áhuga á þótt hálfpartinn þoli ég ekkert þeirra, í stuttu máli lifi ég mig svo inn í sögusviðið og atburðarásina alla að þegar ég skríð uppí á kvöldin og teygi mig í bókina finnst mér hálfpartinn eins og ég þurfi að hafa mig sérstaklega til, ef ég byggi ekki með öðru fólki – sem hugsanlega gæti fyllst áhyggjum – myndi ég liggja í bælinu allan daginn í loðfeldinum mínum með þung dramatísk gerviaugnahár og uppsett hár, það væri æðislegt, því miður má ég næstum aldrei vera að því að skreppa til rússlands þó ég glöð vildi því mín er vænst á ítalíu alla daga og ekki vill maður bregðast fólki, það er ekki nema svona rétt fyrir háttinn sem ég get stundum leyft mér að hoppa uppí lestina og gnísta tönnum yfir því hvað vronsky er ömurlega hégómlegur – páfugl af verstu sort og ég hef alveg sérstakan ímugust á þeirri manngerð enda ríkir almenn sátt um það í öllum siðuðum samfélögum að slíkir náungar séu einhvers konar meinvörp í mannslíki – og ég þoli bara ekki tilhugsunina um að hin viðkunnalega anna muni fyrr eða síðar gefa þeirri mannleysu hjarta sitt, andskotinn! af hverju elska konur á öllum tímum og þvert á menningarheima menn sem eru þeirra ekki verðir? hvað er það? andskotinn hvað þetta fer í taugarnar á mér!