laugardagur, 8. febrúar 2014

dag nokkurn vaknaði ég í rúmi mínu eftir órólegar draumfarir og komst að því að …



mig dreymir eitthvað undarlega mikið þessar næturnar, mestmegnis tóma þvælu að því virðist við fyrstu sýn en svo þegar ég set drauminn á blað og rýni aðeins í hann sé ég hvað hann er skýr birtingarmynd á innra lífinu, ef ég til dæmis setti draum næturinnar niður í stikkorðum væru þau svo hljóðandi (er það kannski eitt orð … ?): taugaveikluð barátta við agnarsmáa ógn, lyfta, flótti, leit, mikil ringulreið; með öðrum orðum líf mitt eins og það kemur mér fyrir sjónir, þetta með lyftuna tengist auðvitað undirvitundinni – ég er reyndar mjög lyftuhrædd og það var ekki fyrr en rétt í þessu að ég setti þann ótta í samhengi við undirvitundina og óttann við að ferja upp úr henni þann óhugnað sem þar er að finna, svona kemur allt til manns með tímanum, stundum eitthvað sem maður hefði heldur viljað að héldi sig fjarri, eins og í fyrrinótt, þá dreymdi mig dáldið óþolandi, hvað merkir það að einhver gefi manni bók í draumi? og gefandinn er einhver sem einu sinni var manni afar kær en er það ekki lengur? ég var að halda stórt boð og hafði hreint ekki óskað eftir nærveru þessa manns enda var hann mjög áhyggjufullur á svipinn þegar hann rétti mér gjöfina þó hún væri falleg og yfirleitt þyki mér fátt skemmtilegra en að fá gjafir og þá sér í lagi bækur, bókin var líka falleg, mig rámar í rauðan og bláan lit, ég varð mjög sorgmædd þegar ég rifjaði upp drauminn en í draumnum var ég alls ekki sorgmædd, mér var bara virkilega illa við að taka á móti gjöf frá þessum manni, af hverju þurfti hann að vera að gefa mér þetta? og með þennan svip? gat hann ekki bara sleppt þessu? bókin var þung og þykk, ekki ósvipuð þeirri sem kom með póstinum í vikunni; the golden notebook eftir doris lessing, pappírinn í þeirri bók er reyndar þykkari og skurðurinn á blaðsíðunum grófari en á þeirri sem ég fékk í draumnum sem var í alla staði afar vönduð, ég var ögn slegin þegar bókin hennar doris kom með póstinum, ég hélt ég hefði pantað mjög þunna bók svo þegar konan á pósthúsinu rétti mér pakka sem virtist innihalda símaskrá datt mér helst í hug að bókinni fylgdi einhver óvæntur kaupbætir, gat verið að dánarbú doris lessing væri að senda mér þakklætisvott fyrir sýndan áhuga? en svo opnaði ég pakkann og við mér blasti þessi múrsteinn sem nú liggur fyrir að lesa, og ég hef reyndar mun meiri áhuga á að lesa þennan múrstein heldur en þann sem ég fékk frá áhyggjufulla manninum í draumnum, á þeirri bók hafði ég satt að segja engan áhuga, mig langaði helst af öllu til að losa mig við hana enda hafði ég á tilfinningunni að með því að þiggja hana væri ég að skrifa undir ósýnilegan sáttmála um eitthvað sem ég hefði ekki kynnt mér að fullu en gæti hugsanlega öðlast einhverja innsýn í með því að lesa bókina, hugsanlega myndi ég þá komast að einhverju sem ég kærði mig ekki um að vita eða – það sem verra væri – neyðast til að skipta um skoðun, jafnvel viðurkenna að ég hefði haft rangt við, haft rangt fyrir mér og lesið lífið vitlaust, og það myndi ég ekki þola, það myndi ég aldrei samþykkja, svo ég hélt bara á bókinni og ákvað að ég skyldi aldrei lesa hana, fann fyrir djúpri óánægju og gremju og langað ekkert nema að skila henni, það sem fór sérstaklega í taugarnar á mér var hvað hún var falleg, mig langaði hreinlega til að kveikja í henni, en þá vaknaði ég, því miður, það hefði verið afar geðhreinsandi að kveikja í þessari bók þarna í miðju boðinu, já djöfull sem ég held að það hefði verið gott

stundum sef ég ekki neitt, og dreymir þá ekki neitt, kannski það sé ekki svo slæmt



laugardagur, 1. febrúar 2014

dingaling!


dingalingaling! húllumhæ! hver hringir bjöllu? kom þetta kannski að innan? eða að ofan? eða út úr draumi? dingalingalingaling, nei það kemur að utan, nánar tiltekið frá dyrabjöllunni sem ég var yfir höfuð búin að gleyma að væri til því það hringir henni aldrei neinn, en nú er henni hringt og ekki bara einu sinni og með þeim hætti sem hefðbundið fólk myndi gera sér að góðu heldur oft í röð og ákaft eins og sá sem ber ábyrgð á hringingunni sé ekki að öllu leiti sáttur við viðbragðssnerpu þeirra sem inni liggja láréttir og rúmklæddir undir sæng, þegar ég átta mig á að hér sé verið að gera rúmrusk og ræs í húsi mínu stekk ég fram í anddyrið og ríf upp útidyrahurðina og viti menn hér er mættur herrmundur ellibjé í sínum sjúskuðu kuldastígvélum – þeim hinum sömu og mér þykja hörmulega ljót og langar til að henda þó ég þori ekki að nefna það af ótta við að móðir hans bendi mér á að ég sé afskiptasamt snobbhænsn og leiðindakelling en í því gæti konan haft eitt og annað fyrir sér, sjálfur virðist litli maðurinn alls ósnortinn af ljótleika stígvéla sinna, hann sparkar þeim einfaldlega af sér svo þau fljúga af fótum hans og hafna hér og þar í forstofunni um leið og hann rífur sig úr úlpunni og spyr „hvar er amma?“, einhvern veginn hafa hlutirnir þróast þannig að amma er uppáhalds en ekki ég sem mér finnst ekki endilega verðskuldað eða eins og það eigi að vera þó ég hafi ekki hátt um það við litla manninn, menn verða bara að fá að eiga sínar ömmur í friði, verra þótti mér þegar ég nýlega rakst á teikningu eftir hinn unga upprennandi listamann e.b.; listaverk þar sem markvisst var unnið með samspil fígúrutífrar teikningar og texta en á blaðið hafði hann teiknað það sem ég túlkaði sem sjálfsmynd og skrifað í kring nöfn allra sem honum þykja bestir, í stuttu máli sagt voru þar nöfn allra í heiminum nema mitt eigið, líka nafn hundsins, þetta sveið smá, maður má sín lítils gagnvart heiðarleika smáfólks, ég hugga mig við að í staðinn er ég töluvert uppáhalds hjá litlu músinni systur hans sem skondrast nú inn um dyrnar einnig klædd kuldastígvélum þó til allrar lukku séu hennar til muna smartari en þau sem ellibjé brúkar til að stappa á drulluklessum og þræða sullupolla, mitt aldraða ömmusysturhjarta verður allt mun hressara og sprækara þegar músin krýnir mig með dýrindis prinsessuennisbandi og leyfir mér að kyssa kinnina eins og mér sýnist, ég tek gleði mína og læt það hvorki á mig fá né segi neitt þegar kveikt er á barnatímanum þar sem hinn hryllilegi sveppi fer hamförum í að vera drengjum þessarar þjóðar slæm fyrirmynd og karlmönnum yfir höfuð til skammar, ég hef af því stórkostlegar áhyggjur að í hvert skipti sem sveppi opni munninn deyji tugir taugabrauta í heilum þeirra vesalings barna sem með honum fylgjast og hafa sökum reynsluleysis og trúgirni ekki vit á að bera hönd fyrir höfuð sér, meðfram því að fylgjast með sveppa leika mismunandi tilbrigði við stefið „ég er heimsins mesti hálfviti“ og háma í sig eftirlætisfæðu ellabjé (transfitumettað örbylgjupoppkorn með gulu bíósalti, nokkurs konar stórmarkaðsútgáfu af kjarnorkuúrgangi) hamast þau systkinin á uppáhalds stofustássinu hennar ömmu: gríðarstórum og (svo maður segi satt og rétt frá) ógnarljótum fjölþjálfa sem hún festi nýverið kaup á því ýmis teikn eru á lofti um að þau afinn séu – svo ég noti orðalag ömmunnar – „eiginlega í mjög vondu formi“, það sama virðist ekki hægt að segja um ellabjé og músina sem fara í loftköstum á tækinu að því virðist án þess að hreyfa þind – ef þannig má að orði komast, ég þakka mínu sæla fyrir að á heimilinu sé eitthvað sem vegi upp á móti slikkeríishirslunum sem geta satt að segja stundum – og þá sér í lagi þegar smáfólkið er væntanlegt í heimsókn – svipað fullmikið til rekka í heildsölu sem sérhæfir sig í hvítum sykri, nei heyrðu mig! nú er fasistinn að taka völdin í þessari færslu, best að hætta leik þá hæst hann stendur og snúa sér að öðru, og haga sér þá kannski í samræmi við þær skyldur sem ég geri ráð fyrir að fylgir prinsessuennisbandi eins og því sem ég nú ber á höfði mínu, ef ég er eðalborin hlýt ég að hafa einhverjum gylltum hnöppum að hneppa einhvers staðar í staðinn fyrir að liggja hérna á náttkjólnum og raupa þetta, fjandinn hafi það, hvað gera eðalbornir á laugardegi? setja á sig varalit og fara í hælaskó áður en þeir rigsa niður laugarveginn og veifa til múgsins? gæti hugsast, gæti hugsast