sunnudagur, 29. janúar 2017

hvarfpunkturinn verður aðeins greindur úr fjarlægð. miðið er ekki endilega að hverfa inn í hann.


ég stend mig að því að vera farin að miðjusetja meira og minna alla hluti á heimilinu. hingað til hef ég frekar hallast að því að vinna með þríhyrningsformið og mynda litlar þriggja eininga þyrpingar innbyrðis ólíkra hluta sem aðeins kallast á að litlu leyti í lögun og lit, en ég er eitthvað svo to the point á nýja árinu að ég færist sífellt nær hugmyndinni um the centerpiece eins og það kallast svo skemmtilega á engilsaxnesku – og ég finn sem stendur enga almennilega þýðingu á ... þið heyrið að húsamúsin slær hvergi slöku við. ég veit ekki hvernig þetta verður þegar baðherbergið verður tilbúið og ég fæ heilt herbergi í viðbót undir pottaplöntur og kertastjaka. ég er að hugsa um að fá mér stóran fígus í sturtubotninn. jafnvel þó rýmið sé gluggalaust. ég skutla honum bara reglulega fram á gang til að ljóstillífa og öðru hvoru út á pall að draga andann þegar vorar. það er eitthvað svo exótískt og endurnærandi við stórar plöntur í nálægð við rennandi vatn. maður hreinlega tilflyst um nokkrar breiddargráður. það er ljóst að ég verð að gera alvöru úr þessu. ég hef verið hertekin af hugmynd; hættulegasta fyrirbæri veraldar! nú sef ég ekki fyrr en þetta er orðið að veruleika. þetta nær engri átt hvað daginn lengir. ég kveikti á kertunum þegar við refurinn komum heim eftir síðdegisgönguna upp úr fimm, vel að merkja í fullri dagsbirtu, og það er fyrst núna, klukkustund síðar, sem skuggamyndirnar eru að byrja að læðast upp veggina. ég helli rauðvíni í glas og tek mér andartak í að íhuga lánsemi mína. í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég geta sagt að þetta geti ekki annað en farið sérlega vel. mér liggur við að segja að ég sé hreinlega dæmd til góðs gengis. í það minnsta miða ég ör minni skýrt í þá átt. í stóru sem smáu. en aðallega í því að skrifa þessa bók. í augnablikinu liggja einhverjir kaflar á víð og dreif í skjalahirslum tölvunnar minnar eins og afhoggnir limir lífvana líkama, hver á sínum krók í kjötvinnslustöðinni, og ég veit satt að segja ekkert hvað ég á að gera í málinu. en það hlýtur að skýrast. eins og allt hlýtur að skýrast. 

unravel

klippti ég út úr gömlu tímariti á áramótunum og kom fyrir á draumaspjaldinu í grennd við annað orð, 

poem

unravel

birstu mér. 

þetta kemur 
í ljós. öllu vindur 
fram. 
líkt og rennandi vatni og tíma og söng fugla. 
öllu vindur fram. 
að hinni einu 
mögulegu 
      miðju.        

fimmtudagur, 12. janúar 2017

ég hef ekki verið hérna áður

afsakið afskiptaleysið. ég er í vinnunni. þessi heimur byggir sig ekki sjálfur. það var orðin töluverð þörf á endurbótum og fyrstu dagar ársins hafa verið erilsamir. en ég er öll sem ný. það fylgdi því einhver magískur kraftur að kveðja gamla árið. ár hinna endanlegu vonbrigða og dauða. ár hinna djúpu umskipta og nýrra spegla. ár sálumessunnar og skjalahirslunnar. heilabreytingarmeðferðin hefur gengið vonum framar. árangurinn er raunverulegur. ég er að ljúka við endurflokkunina og miðar stöðugt áfram við lagfæringarnar á rafmagninu; taugakerfið hefur náð jarðtengingu og leiðnin milli ennisstöðvarinnar og rótarlássins er að verða stöðug í báðar áttir. skammhlaup eru fátíð og valda engum teljandi skaða. ég er að hugsa um að að ganga svo langt að halda því fram með nokkurri vissu að bölvuninni hafi verið aflétt. bæði þeirri fimm ára og þeirri þrjátíu og þriggja ára. ég geri ráð fyrir að geta snúið mér að nýjum verkefnum við næstu árstíðaskipti. það er með ólíkindum hvað daginn lengir hratt. með þessu áframhaldi verður orðið albjart horna á milli áður en maður nær að átta sig á því. fólk gæti sólbrunnið ef það er ekki vel vakandi. ekki að ég fari að hafa áhyggjur af óvarinni húð. ytra byrgði mitt er víst með allra sterkasta móti. „mjög gott, mjög gott“, sagði húðdoktorinn í gær á meðan hann yfirfór líkama minn með skæru vasaljósi og einhverju sem ég gat mér til um að væri sambland af stækkunargleri og smásjá. „álagsþolin og liturinn með því besta sem gerist. þú ert mjög heppin með húð“. svo setti hann á sig stærðar glerauga og skar burt útstæða fæðingarblettinn á hálsinum á mér – þann sem glöggt smáfólk hefur stundum kallað vörtu – og kom honum fyrir í litlu sívalningslaga glasi til frekari athugunar. svona rétt til öryggis. aldrei of varlega farið. þetta var mjög nákvæmur læknir. yfirsást ekki þumlungur. ég held að líkami minn hafi aldrei verið gaumgæfður af viðlíka einbeitni. sem er í sjálfu sér kannski örlítið sorglegt, þegar ég hugsa út í það. ég þakkaði doktornum fyrir og gekk út og undir himininn af auknu öryggi og vaxandi óttaleysi. að undanförnu hef ég orðið æ meðvitaðri um að ég geng á jörðinni. þessi tilfinning helltist yfir mig að morgni nýársdags á spásseringu okkar refsins eftir sjávarlínunni. allt í einu skynjaði ég þetta kristalskýrt. ég geng á jörðinni. það beinlínis þéttust í mér beinin. hryggsúlan varð að þykkum tótem og fótatak mitt fékk fyllri hljóm. á stundum líður mér eins og ég gæti kramið mola af málmgrýti í lófa mínum. duftið sæti í lófalínunum eins og aurugar ár fullar af óvæntu gliti. ég er hvorki tunglóð né með egglos. þetta er stöðug líðan. hreint ekki slæm. ég gæti vel lifað með þessu.