mánudagur, 19. maí 2014

dýfingar eru ekki leyfðar á grunna svæðinu


það getur verið svo auðvelt að vera til í sólskini, þá finnst manni stundum skyndilega eins og maður sé tilbúin til að taka stökkið, en með ofbirtu í augunum sér maður ekki endilega alltaf vel hvar maður kemur niður, þetta getur leitt af sér dýfingarkvíða, lömun jafnvel

sunnudagur, 11. maí 2014

gleðilegan mæðradag (þó hann sé alveg jafn misgleðilegur og aðrir dagar ársins)

geðvonda mamman var í sundi í dag, athugið að ég er hvorki að tala um sjálfa mig né um einhverja tiltekna mömmu, þetta er meira eins og samheiti yfir ákveðna gerð af mömmu sem er mjög oft í sundi, því miður, þetta er hræðileg kona, ég lá á bekknum í útiklefanum og hafði nýlokið við að þerra mig og bera á mig lífræna kremið með sítruslyktinni þegar ég heyrði í henni geltið: stefán! hættu þessu fikti, láttu lyklana vera, liggðu ekki svona í gólfinu barn, hvað er þetta drengur, stattu upp, ekki leika þér með hárblásarann! það er eiginlega alveg sama hvað stefán finnur sér til dundurs, hann á að hætta því öllu, næst er honum skipað að þurrka á sér hárið, samt ekki með hárblásaranum þó hann sé í boði fyrir alla aðra í klefanum, stefán byrjar að væla, ég ligg enn þarna á bekknum og sé því ekki það sem fram fer í klefanum fyrir innan þó ég heyri greinilega orðaskil og af þeim ræð ég að stefán sé ekki að þurrka á sér hárið eða farist það allavega mjög hægt úr hendi því nú geltir móðir hans sem aldrei fyrr að hann eigi ekki að vera með þetta (?) og koma sér í nærbuxurnar, og hætta þessum hlaupum, og ekki vera með þetta (?), líklega er stefán orðinn mjög ringlaður í því hvað hann eigi að gera fyrst (hætta að hlaupa eða hætta að vera með þetta (?) eða klæða sig í nærbuxurnar), honum gengur í það minnsta hvorki né rekur í að verða við gargi móður sinnar – eðlilega, ekki myndi ég gera neitt af viti ef mamma mín stæði öskrandi á mig allsbera og varnarlausa í votta viðurvist, ég er steinhætt að fá eitthvað út úr verunni í útiklefanum og er auk þess við það að fá krabbamein af meðvirkni með aumingja stefáni sem getur hreint ekki átt sjö dagana sæla heima hjá sér ef þetta er það sem honum er boðið uppá fyrir opnum tjöldum í sundklefanum og það á sjálfan mæðradaginn, ég ligg samt áfram, hálfpartinn af því ég þori ekki innfyrir af ótta við mömmu hans stefáns, ég á það nefninlega sjálf til að dunda eitthvað með hárblásarann, þó ekki til að þurrka á mér hárið (þessir hárblásarar fara víst mjög illa með hárið á fólki, ég læt mitt bara þorna alveg fríhendis) heldur til að þurrka mér á milli tánna svo ég fái ekki fótasvepp, stóru stelpurnar í eldri borgara sundhópnum kenndu mér það (alveg án þess að öskra á mig) en ég er næstum viss um að mömmu hans stefáns muni ekki finnast það tilhlýðileg notkun á hárblásara svo ég ligg áfram og fylgist með því hvernig stefán er með einhverjum hætti gargaður í fötin og dreginn gólandi út úr klefanum, þá fyrst hætti ég mér innfyrir og læði mér í nærbuxurnar

stuttu eftir að ég kem heim hringir dyrabjallan, það er samfylkingin, þau vilja færa mér bækling um stefnu flokksins í málefnum barna, ég tek við bæklingnum og þegar ég þakka þeim fyrir flýgur í gegnum kollinn á mér að spyrja hvað þau ætli sér að gera varðandi mömmu hans stefáns, hann sé örugglega einhvers staðar með kringluolnboga og súrefnisskort af ekka og guð má vita hvað annað verra, en sem betur fer sé ég að mér í tæka tíð, ég þarf líkast til að stofna minn eigin stjórnmálaflokk til að koma þessu málefni að, þessu og „bönnum dónalega liðið í röðinni á kassanum í bónus“, það fólk er náskylt mömmu hans stefáns; meinvörp í mannslíki segi ég og skrifa undir í hástöfum

sunnudagur, 4. maí 2014

svo það sé fært til bókar


þá eru aspirnar farnar að ilma, það fann ég greinilega í gær þegar ég gekk yfir göngubrúna hér í mosfellsbæ (einhverjum óskáldlegasta stað veraldar) og varð uppnumin af andagift og ást til lífsins, hvað hringrásin er mikil huggun, ég segi ekki nema það

fimmtudagur, 1. maí 2014

konur! gerum óraunhæfar kröfur! það er vor sjálfsagði réttur (eða bara gleðilegan fyrsta maí)

að þreyta próf í háskóla íslands og vera í kjölfarið skilin eftir alein heima með engan sér til samlætis nema rauðvínsflösku og tölvuna sína getur ýtt konu út í ótrúlegustu hluti, að því komst ég í gærkvöldi þegar barnið hafði tekið saman sitt hafurtask og lagt af stað út fyrir borgarmörkin í fylgd fjölskyldumeðlima sem henni að jafnaði þykja hressilegri félagsskapur en ég, þar sem ég var ekki í nokkru einasta ástandi fyrir frekari lestur ákvað ég að finna mér kvikmynd á netinu til að stytta mér stundir yfir, það geri ég sjaldan, aðallega vegna þess að það er svo agalega fátt áhugavert í boði, en eftir endalausan lestur síðustu daga á ítölskum bókmenntatextum og fræðiefni um femínisma var ég einhvern veginn alveg til í að slaka aðeins á kröfunum og „vera opin“ fyrir því að láta koma mér á óvart, ekki svo að skilja að ég hafi verið til í að láta hvað sem er yfir mig ganga, ég skrollaði til dæmis framhjá robocop og vampire weekend – þó ég sé einhleyp og á öðru rauðvínsglasi er ekki þar með sagt að ég sé hálfviti – en staldraði að lokum við titilinn labor day: einstæð móðir hýsir strokufanga í nokkra daga og með þeim takast ástir, josh brolin og kate winslet í aðalhlutverkum … næs, hugsaði ég, soft porn for single moms, og flýtti mér að hala öllu dótinu hratt og ólöglega niður í tölvuna mína, þetta fór vel af stað, josh brolin er – eins og alheimurinn veit – sjúkt sexý mo-fo og í þokkabot mjög sólbrúnn í þessu hlutverki strokufangans sem hefur setið ranglega dæmdur (en ekki hvað) í einhverju andstyggðar fangelsi í fjölda ára, kate winslet er náttúrulega kate winslet og ekkert nema gott um það að segja, hún leikur dauðþunglynda konu sem einhver eiginmannsdula hefur yfirgefið fyrir aðra hressari og frjósamari en auminga kate hefur ekki getað átt fleiri börn eftir að frumburðurinn fæddist, sá er góður og velheppnaður drengur í alla staði, hinn afar karlmannlegi strokufangi tekur af henni og drengnum hús og fljótlega verður konunni sem og áhorfandanum morgunljóst að það er ekki nokkur ástæða til að krefjast þess að blessaður maðurinn hafi sig á brott, hann bindur hana að vísu við stól svo hún líti nú ekki út eins og vitorðsmaður ef ske kynni að löggan bankaði uppá en það er gert af svo svakalegu sensúalíteti að maður hálfpartinn fer að velta því fyrir sér af hverju fólk geri ekki meira af því að binda hvort annað niður við matarborðið, svo eldar hann handa henni og barninu, þau fylgjast furðulosin með þeirri færni og frumleika sem maðurinn sýnir við matseldina, að sjálfsögðu matar hann svo aumingjans konuna sem situr opinmynnt við borðið og er að því virðist ekki alveg rótt innra með sér, mér fannst þetta eiginlega besta atriðið (ókei ég viðurkenni það, mér fannst þetta geðveikt atriði), en hér er ekki látið við sitja, handritshöfundar myndarinnar virðast þvert á móti hafa ákveðið á þessum punkti í skrifunum að lengi geti gott bestnað og það ekkert lítið því nú ákveður hinn sólbrúni  – og þegar hér er komið sögu, nýrakaði (hvað karlmenn geta verið fallegir nýrakaðir!) – og handlagni maður að ekki veiti af því að ditta að einu og öðru í húsinu og skúra fyrir konuna gólfið, það er sumar og hitabylgja og allir mjög sveittir og maðurinn er heil ósköp heillandi dundandi sér þetta með stiga og þvegil á stuttermabolnum í hitanum, svo kemur sprengjan, nágranni nokkur er með ferskjutré í garðinum og algjörlega að drukkna í uppskerunni sem liggur undir skemmdum, eins og góðum nágranna sæmir færir hann konunni og syni hennar fulla fötu af þroskuðum ferskjum, þau hrista höfuðið í ráðaleysi yfir því hvað í veröldinni þau eigi að gera við alla þessa ávexti, þau muni aldrei komast yfir að borða ósköpin, við þessu eins og öðru kann gesturinn geðþekki ráð, hann opnar skápa, tekur út hveiti og sykur og smjör og bökuform og það er hreint engum blöðum um það að fletta að maðurinn hefur ekki sólundað tímanum sem hann varði bak við lás og slá og líkast til hefur hann sótt námskeið í bökubakstri því eins og ekkert sé sjálfsagðara tekur hann til við að kenna mæðginunum – sem vita orðið ekki hvað þetta er sem fallið hefur af himnum ofan og lent þarna í eldhúsinu þeirra – hvernig búa skuli til hina fullkomnu böku, hann hnoðar og mótar og sker og blandar með sínum fagurmótuðu höndum svo annað er erfitt en að fá vatn í munninn, í fullri hreinskilni var ég alveg að klæmaxa yfir þessu atriði (fyrirgefiði upplýsingaflæðið) og ekki laust við að mér hafi verið farið að finnast þetta komið gott af húsverkum og bakstri og akkúrat mátulegt að leysa senuna upp í funheitum ástarleik á hveitihvítu eldhúsborðinu í fallegri lýsingu, en því miður virðist lífið á köflum staðráðið í að hafa af manni það sem gott er og svo fór að í þessari senu var ekki annað hnoðað en bökudeigið, sjálfsagt hefur fyrrnefndum handritshöfundum þótt þörf á að koma með raunsæan tón í frásögnina; eins og allir viti líði varla sá dagur að ekki hendi vondir hlutir gott fólk í þessum heimi og við það verði maður bara að lifa, því fer það svo að eftir hina mögnuðu bökusenu er eins og allt liggi niður á við í sögunni og áður en maður veit af er einhver leiðinda lögreglumaður farinn að skipta sér af því sem honum kemur ekki við undir því yfirskini að hann sé að vinna vinnuna sína, meira ætla ég ekki að segja en ég fer ekki leynt með að þetta voru mér nokkur vonbrigði, eins og það sé ekki nóg að ástarlíf fólks sé allt á hliðinni hér í veruleikanum, geta hlutirnir þá í það minnsta ekki bara gengið upp í þessum helvítis bíómyndum