þriðjudagur, 29. desember 2009

magnað

agalega er maður eitthvað í slæmum húmor í dag, enda hafa allir flúið hús nema hundurinn, magnað hvað maður getur verið leiðinlegur, ég hugsa grínlaust að það séu ekki margir sem standa mér framar í þeim efnum, svona er maður talenteraður

fimmtudagur, 24. desember 2009

gleðileg jól

mínar innilegustu jólakveðjur til ykkar allra lömbin mín, megi kvöldið færa ykkur ljúfar stundir og ljós í hjarta

miðvikudagur, 23. desember 2009

þorláksmessuþrautir

marie antoinette liggur í bælinu með kviðverki eftir að hafa étið yfir sig af konfekti, höfuðverkurinn er líka afar slæmur enda gífurlega krefjandi að eyða allri heimildinni á visakortinu af fordæmalausri samviskusemi, stundum er lífið bara svo erfitt, inní stofu er myndarlegi eiginmaðurinn í vandræðum, jólatréð reyndist of stórt fyrir jólatréfótinn sem hingað til hefur hýst öllu smágerðari tré en það sem elskulegur tengdafaðir minn færði fjölskyldunni í gær, lítið og bústið hefur verið viðmiðið við val á jólatré hér á bæ en þetta tré er meira svona stórt og spikfeitt, ég óttast að þegar við loks klippum netið utan af gripnum muni það leggjast yfir alla stofuna og blokkera hvoru tveggja bakdyrnar og sjónvarpið sem myndi valda bæði hundi og eiginmanni verulegum óþægindum yfir hátíðarnar, litlum og loðnum finndist slæmt að komast ekki út að pissa og sá sófasjúki sem býr við takmarkað niðurhal yrði alveg ómögulegur ef hann myndi missa af magnaðri jóladagskrá ríkissjónvarpsins, ég legg allt mitt traust á að einhver fjölskyldurmeðlimur hafi keypt handa mér bók í jólagjöf, ég skríð þá undir tréð með kerti og konfektkassann og læt annað ekki koma mér við, gott plan

þriðjudagur, 22. desember 2009

ég lifi....og fitna

eins og flest annað á þessu bloggi virðast sögur af yfirvofandi dauða mínum hafa verið stórlega ýktar, í það minnsta sit ég enn hér í eldhúsinu og drekk mitt kaffi í myrkrinu, að vísu með bólginn og auman handlegg en að öðru leyti ekki svo ólík sjálfri mér, ja reyndar eru gallabuxurnar mínar eitthvað undarlega þröngar í dag en ég held að ég geti ekki lögsótt lyfjafyrirtækin fyrir það, spurning um að taka málið frekar upp við nóa og siríus, það kompaní svífst einskis í sínu gróðabraski og hvergi hægt að reka inn nefið öðruvísi en að þurfa að berja sér leið framhjá kúfuðum skálum af bústnum konfektmolum, og eins og rotta sem hefur verið skilyrt til að ýta á rauðan hnapp til að fá ostbita réttir maður út höndina og stingur uppí sig mola án þess er virðist einu sinni hugleiða það hvort mann langi í hann, óhugnalegt

mánudagur, 21. desember 2009

sunnudagur, 20. desember 2009

i have a flare for the dramatic

bakstur og konfektgerð í húsi mínu, enda eins gott að troða sig út af súkkulaði á meðan maður getur, nefninlega aldrei að vita nema maður verði dauður á morgun miðað við það sem stendur fyrir dyrum, þannig er mál með vexti að þar sem við mæðgur erum báðar óstaðfest og ódæmigerð eintök af svínasjúklingum hafa vinnufélagar mínir sannfært mig um að það væri hreinasta glapræði að drífa sig ekki í bólusetningu svona til að vera on the safe side, astmaveikir geti ekki leyft sér að treysta á guð og lukkuna í þessum efnum, þetta er hið vandræðalegasta mál því ég hef verið, vægt til orða tekið, ötull talsmaður þess að þetta flensulyf sé stórhættulegt eitur kokkaðu upp af útsendurum djöfulsins, a.k.a. lyfjafyrirtækum, í einhverjum afar ókristilegum tilgangi eins og til dæmis þeim að græða peninga á lífhræddu fólki, um þetta hef ég predikað hárri röddu á kennarastofunni og óspart látið í ljós vanþóknun mína þegar einhver hefur leyft sér að kvarta yfir eymslum í upphandlegg nýkominn úr sprautu, en svo bregðast krosstré sem önnur tré og það hendir besta fólk að bugast undan hópþrýstingi, ég er sem gefur að skilja lafhrædd um að ég muni í besta falli liggja fárveik öll jólin af öllum viðbjóðnum og kvikasilfrinu sem verður dælt í mig í fyrramálið og ef allt fer á versta veg verður þetta minn síðasti póstur og þetta blogg mun lifa sem vitnisburður um minn sjúka huga, ég verð svo lögð til hinstu hvílu á annan í jólum og fæ þar af leiðandi aldrei að vita hvað eiginmaðurinn keypti handa mér í jólagjöf sem er óbærileg tilhugsun, það eina góða við þetta væri auðvitað að þá þyrfti ég ekki að horfast í augu við allt spikið sem ég mun sitja uppi með eftir að hafa étið allt þetta sem ég er að fara að baka, en nóg komið af harmkvælum og svartsýnisböli, in god we trust

hosannah halleluja gloria in excelsis deo
amen

föstudagur, 18. desember 2009

tragíska jólasagan af þreyttu kennslukonunni

indæli afgreiðslumaðurinn í skífunni gaf mér "100 erlend jólalög" í verðlaun fyrir að sýna aðdáunarvert óttaleysi í eyðslu í búðinni hans, því miður er "100 erlend jólalög" glatað samansafn af lummulegum jólalögum sem hefði hæglega verið hægt að skera niður í 15, bing crosby og jackson five hafa samt komið fjölskyldunni á lappir þessa vikuna sem er ekki lítið þrekvirki enda allir dáldið búnir að týna mótiveringunni sinni og farnir að þrá gott jólafrííííí, ég kom gjörsamlega örmagna heim í gærkvöldi eftir jólaball nemenda minna sem allir virtust hafa verið sendir að heiman með ragettu í rassinum og ótæplegar sykurbirgðir til að tryggja að enginn yrði orkulaus í öllum djöflaganginum, það eina sem ég gat hugsað á leiðinni heim var thank god for alcohol!!!! þegar heim var komið reyndist maðurinn í sófanum hafa klárað allt rauðvínið svo ég varð að leggjast sorglega allsgáð og úttauguð til svefns en vaknaði samt með hausverk og bólgin augu, stuð, eins hver kona með réttu ráði hefði gert skjögraði ég beina leið svo gott sem blindandi að eldavélinni og hitaði vatn, malaði kaffið og mölbraut svo pressukönnuna.....ég endurtek, og mölbraut svo pressukönnuna!!!!!! hefst nú the action sequence: ég á tásunum inní myrkvuðu eldhúsi því ég kveiki aldrei ljós nema í ítrustu neyð (það hefur ekkert með sparnað að gera), allt í méli á gólfinu og ekkert kaffi í mínum kroppi, mér tekst að teygja mig í eldspýtustokk og kveikja á einni eldspýtu sem með einhverjum óskiljanlegum hætti flýgur logandi úr höndum mér og lendir á peysunni minni sem vel að merkja er úr fyrsta flokks gerviefni, óp og öskur, blásið og barið, blótað og kallað á jesú, barnið stendur og horfir á og lyftir annarri brúninni dáldið, "er allt í lagi með þig mamma mín", "ha já já elskan, mamma bara aðeins að klaufast, á ég að rista handa þér brauð", (skeptískur svipur) "eeehh ja ég veit nú ekki.... þetta er allt í góðu sko", ég ristaði samt brauðið og sópaði saman glerbrotunum og allir sluppu frá því ómeiddir, ég var farin að skjálfa og komin með sjóntruflanir þegar ég fann espressó könnuna sem barnið kallar alltaf múmínkönnuna (hvers vegna veit ég ekki) og hitaði kaffi án frekari teljandi vandræða, í eftirtrámanu reif ég svo upp og spilaði jólaplötuna með bob dylan sem ég hef loks ákveðið að eiga sjálf í staðinn fyrir að stinga henni í einhvern jólapakkann, þetta kostaði langdregnar rökræður við mig sjálfa en við komumst sum sé að því að það væri disknum og öllum málinu viðkomandi fyrir bestu að diskurinn héldist á heimilinu og yrði spilaður nánast samfellt til jóla, fyrir þessu voru færð margþætt og þvælin rök eins og tildæmis að ég fái ekkert í skóinn og svona ýmislegt þess háttar af viðlíka egósentrískum toga, there´s that christmas spirit folks, kúkurinn ég

þriðjudagur, 15. desember 2009

þetta veðurfar í desember er bara perraskapur, mér hugnast ekki trópísk jól frekar en annað sem minnir mann á hlýnun jarðar og drukknandi ísbirni, svo situr þetta lið þarna útí köben og miðar að því er virðist ekkert áfram, ég er að hugsa um að senda mail á obama og spyrja hann hvort að hann haldi virkilega að fólk geti beðið endalaust eftir jólasnjónum!!! desemberverkin ganga hægt (maður er svo latur í þessum hita) þó jólagjafainnkaup séu svo gott sem búin og peningarnir mínir líka, best að leggjast í að upphugsa leiðir til að vera alltaf líkt og fyrir einskæra tilviljun staddur heima hjá vinum og vandamönnum á matmálstímum, helst af öllu mömmu sinni eða öðrum sem hafa sífelldar áhyggjur af því að maður nærist ekki nógu vel og sé alveg að falla úr hor.......svona þegar ég pæli í því telur sá listi líklega engan nema mömmu mína, reyndar verð ég að telja mér það til tekna að heimilið er orðið afar jólalegt (að frátöldum öllum skálunum með súrri mjólk og linu kornflexi sem þekja eldhúsborðið því dætur mína halda að uppþvottvélin líkt og pabbi gegni engu nema mömmu) og ást mín á silúettum og öllu sem dinglar (maðurinn minn þennst allur út af monti þegar ég tala um ást mína á öllu sem dinglar) ætti ekki að fara framhjá neinum sem visiterar þessi dægrin, kíktu bara í heimsókn, ég helli uppá og hækka í sifurkórnum

laugardagur, 12. desember 2009

.....sagði stúlkan við bókina

miðvikudagur, 9. desember 2009

...svo sem vér og fyrirgefum...

ég má í alvöru talað ekki klikka á jólakortunum eitt árið í viðbót, það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því hvað maður kemst upp með að móðga sama fólkið mörg ár í röð, það getur ekki talist neitt annað en mesta undur að stór hópur vina og ættingja haldi enn sambandi við mig og hafi ekki veitt vikunni forsíðuviðtal þar sem getuleysi mitt í jólakortaskrifum er rakið í smáatriðum og fordæmt sem það andfélagslega níðingsverk sem það vissulega er, fyrir dyrum er svo piparkökubakstur og fleira álíka hátíðlegt, það er þó deginum ljósara að komi ég einhverntíman höndum yfir hálfvitann sem skemmtir sér við það á næturna að reykspóla hring eftir hring á hringtorginu hér fyrir utan hjá mér, eins og sé hann staddur á jólaballi hjá rallíklúbbi reykjavíkur og réttnýbúið að tendra tréð og píanistinn í viðbragðsstöðu, þá mun ég hugsanlega gera eitthvað mjög, mjög ójólalegt!

"No human had ever seen an adult giant squid alive, and though they had eyes as big as apples to scope the dark of the ocean, theirs was a solitude so profound they might never encounter another of their tribe. The melancholy of this situation washed over Sai. Could fulfillment ever be felt as deeply as loss?" (the inheritance of loss, kiran desai)

........................stundum er ég risasmokkfiskur

þriðjudagur, 8. desember 2009

laugardagur, 5. desember 2009

privacy please!!!

húm, annað uppáhaldsdesemberorð, húúúúúúmmmmmmmm

ég vaknaði einmitt í morgunhúminu á hótel selfossi hvar ég eyddi nóttinni eftir að hafa drukkið fullmikið rauðvín í jólapartýi hjá vinnustað eiginmannsins, við hjónin erum sammála um að það sé prýðis sport fyrir þreytta foreldra að gista á hótelherbergi annað veifið þó það verði að segjast eins og er (og nú vona ég að ég gangi ekki fram af viðkvæmum) að veggirnir á þessu tiltekna hótelherbergi voru svona í þynnra lagi og fengu þann úrskurð að geta varla talist fok(k)heldir, kannski að það sé betur einangrað á hótel venus

fimmtudagur, 3. desember 2009

ég hef borið ljúgvitni.....slíkt er refsivert

hvað gerir maður við klístrað lyklaborð (svo virðist sem það sé eftir allt saman nokkuð haldbær ástæða fyrir því að fólki er ráðlagt að vera ekki að brölta með vökva nálægt tölvunni sinni, who knew and why didn´t he tell me!!!!!), entertakkinn festist niðri með ljótum smelli í hvert skipti sem ég ýti á hann og lyftist svo löturhægt upp líkt og það kosti hann ofurmannlegt átak að losa sig úr viðjum ace safans sem þornaði undir honum og virðist vera kominn til að vera, af öllu því sem hægt er að sulla yfir tölvuna sína (og nóg er úrvalið) varð ég að velja ávaxtasafa, efni sem hefur algjörlega yfirnáttúrulega viðloðunarhæfni og lætur ekki í minni pokann fyrir neinu nema vel heitu vatni, einhvernveginn fæ ég það bara ekki af mér að hella sjóðandi vatni yfir eplið mitt, en hvað um það, mig plaga önnur og alvarlegri mál, þau naga mig inn að beini og svifta mig svefni, valda mér hugarvíli og angist í vöku og magnast með hverjum degi sem færir 11. desember nær mér og kyndir þar af leiðandi undir þeirri umræðu sem ég kvíði allt árið um kring og tek úti fyrir að þurfa að eiga við litlu manneskjun mína, jú mikið rétt, það sem um er rætt er hin vafasama, umdeilda og já jafnvel meinta tilvist jólasveinsins, sjálf gekk ég í gegnum vægast sagt trámatíserandi lífsreynslu þessu tengda þá sirka fimm, sex ára gömul sem ég tel fullvíst að hafi markað afstöðu mína til málsins og vel hugsanlega skaðað mig sem manneskju fyrir lífstíð, hefst nú frásögnin: einhverntíman nálægt jólum hafði ég sofnað í rúmi foreldra minna eins og ég gerði gjarnan á þessum aldri því tillitsleysi gagnvart hjónalífi foreldra sinna er börnum eðlislægt og ég var þar engin undantekning, mér hefur verið tjáð að hegðun mín í svefni á þessu árum hafi helst minnt á spriklandi kolkrabba slíkur var erillinn í útlimum mínum, þessa nótt sem aðrar steinsvaf ég í miðju rúminu eins sá sem þekkir ekkert nema sakleysið og á sér einskis ills von, himnarnir gera nefninlega ekki boð á undan sér áður en þeir hrynja yfir mann af óbærilegum þunga, um nóttina rumska ég svo við það að foreldrar mínir koma uppí, ég bæri ekki á mér en núna þegar ég skoða þetta atvik í baksýnisspeglinum sé ég að það hefði ég betur gert, margt hefði farið öðruvísi, rétt í þann mund sem móðir mín teygir sig í lesljósið til að slökkva fyrir svefninn segir faðir minn (sem var ígildi guðs í mínu lífi og eina mannveran á jörðinni sem var algjörlega yfir alla gagnrýni hafinn) "varstu búin að setja eitthvað í skóinn hjá henni" ................................................. svo mörg voru þau orð, hvílíkt áfall, hvílík svik, hvílíkt samsæri, allur heimurinn með foreldra mína í fararbroddi hafði tekið höndum saman í þeim tilgangi að bulla mig fulla um einhverja jólakalla með úttroðna poka af dóti handa góðum og hlíðnum börnum (við þurfum auðvitað ekkert að fara útí það hversu ósanngjörn þessi krafa er að allir séu tiplandi um á spariskónum útí eitt þegar tilveran er öll á hvolfi yfir næturheimsóknum gjafmildra sérvitringa), en sem sagt þarna lá ég í rúminu og gat mig hvergi hrært þó hjartað ólmaðist eins og væri það landsliðsfyrirliðinn í adhd sem hafði gleymt að taka lyfin sín þennan daginn, áfallið var slíkt að þessa örlagaríku nótt þegar alheimssamsærið luktist upp fyrir mér og ekkert varð framar samt og áður, lofaði ég sjálfri mér að ég skildi aldrei aldrei skrökva barnið mitt fullt af þessari eða annarri viðlíka vitleysu og í mörg ár stóð ég með þeirri sannfæringu minni, það er að segja þangað til ég eignaðist barn, fyrst er þetta nefninlega voða sætt, bara saklaust gaman, svo byrja þau á leikskóla og ekki getur maður verið foreldrið sem eyðilagði jólin fyrir öllum börnunum á deildinni því krakkinn manns ljóstraði því upp í sögustund að mamma hafi sagt að það séu ekki til neinir jólasveinar, það séu bara foreldrarnir sem setji í skóinn og kaupi allt draslið í bónus í þokkabót, svo líða árin og málið gerir einhvernveginn ekkert nema vinda uppá sig og þetta verður sífáránlegra, hvernig sprengir maður sápukúluna? spurningarnar verða tíðari og ágengari og maður stendur sig að því að fara undan í flæmingi, hvernig á ég að koma mér útúr þessu án þessa að eiga á hættu að barnið verði bróðurpartinn af fullorðinsárum sínum að greiða úr alls kyns complexum og verði einn af þessum ógæfusömu einstaklingum sem glíma allt sitt líf við massív trust issues og guð má vita hvað, mér er ekki skemmt, ég get ekki beðið eftir þeim degi þegar þessu líkur og ég get haldið jól með flekklausa samvisku og þurfi ekki að standa í því að éta allan andskotann sem er skilinn eftir útí glugga handa þessu liði og skrifa svarbréf með falsaðri rithönd þar sem ég þakka fyrir góðgætið og hrósa barninu fyrir frábæra hegðun í jólamánuðinum og minni hana á mikilvægi þess að bursta tennurnar og æfa sig að lesa, í alvöru talað þetta er mig lifandi að drepa, ég get þetta ekki mikið lengur, ég biðst vægðar

þriðjudagur, 1. desember 2009

glimmergrýlan er komin á ról

ja þá sjaldan að maður þegir....hafi það farið framhjá fólki þá er kominn desember og ég er að skreyta, aðventukransinn er positivly divine og eplailmolían ávanabindandi, hef með klækjum orðið mér úti um stóra birkigrein og bíð nú eftir að the handsome devil hengi hana í loftið fyrir mig svo hana megi hlaða fögru glingri, krummastelpur eru veikar fyrir fögru glingri...en fólk var kannski búið að geta sér til um það nema það sé þeim mun tornæmara, hef þegar eitt svívirðilegum upphæðum í blómaval og rænt öllum könglum í næsta nágrenni án þess að kenna hið minnsta til í minni samviskulausu samvisku, geri ekki nokkra tilraun til að hemja stjórnsemi mína og sjúklega tendensa til að vera viðurstyggilega anal þegar það kemur að því að finna hekluðu snjókornunum og trétindátunum hinn fullkomna stað í hillum heimilisins, hef áður reynt að benda sjálfri mér á að þetta sé nú kannski ekki svona mikið mál, kannski sé ekki ástæða til að taka þessa hluti svona alvarlega en hef hingað til ekki átt erindi sem erfiði svo best að sleppa því bara að reyna að skammast sín og halda sig við það sem maður er góður í, að mörgu leyti er ég bara fokkóþolandi á þessu árstíma og hef svo ekki einu sinni manndóm í mér til að gera eitthvað í því heldur trúi því statt og stöðugt að ég sé einfaldlega fagurfræðilega hæfari en annað fólk til að taka svona ákvarðanir, hafi fólk aðra skoðun á málinu mun ég ekki hlusta á hana heldur sniðganga þann hinn sama fram yfir þrettándann

uppáhaldsdesemberorð: glitrandi, glimmer, englahár, dingaling, ilmur, rökkuró, betlehembarnið, grýlukerti
hef einsett mér að reyna í mánuðinum að finna tækifæri til þess að nota þau öll í sömu setningunni