sunnudagur, 18. september 2016

það vindur ofan af keflinu en styttist í þræðinum


... en allt byrjar í miðjum klíðum. maður er alltaf í miðjum klíðum. það dregur úr mér allan mátt. stundum tel ég mig vera fyllilega meðvitaða um framvinduna og hafa alla þræði í hendi mér en áður en ég veit af og án þess að ég fái nokkuð við ráðið máist sú kennd út og vettvangur daglegra athafna fer aftur að minna á ógnarstóra vinnustofu þar sem öllum hlutum virðist ranglega fyrirkomið. það er á þessu stigi sem heimsókn frístundamálara í söluherferð vekur svo harkaleg viðbrögð að seinna, mögulega strax og ég loka hurðinni, mun ég sjá eftir því ...         

miðvikudagur, 14. september 2016

að láta sig málið varða

nei, nú fer ég þarna út og segi vindinum að hætta að djöflast í trjánum. 

laugardagur, 10. september 2016

það er sem ég segi


hrossaflugurnar hríðfalla í gluggakistunni. það virðist ekki í mínum höndum að bjarga þeim. yfirleitt standa bakdyrnar opnar megnið af deginum svo ef þær hefðu einhvern raunverulegan áhuga á að forða sér ætti þeim að vera hægt um vik að flögra út í haustrakann. en þær velja að deyja í gluggakistunni minni. dag eftir dag kem ég að enn einum andvana líkamanum þegar ég aðgæti rakastigið á hortensíunni og nóvemberkaktusnum. undantekningarlaust liggur sá látni á hliðinni; afkáralega langir fæturnir – þurrir og stökkir í dauðanum – og fíngerðir vængirnir sem standa beint upp úr búknum gera það að verkum að viðkomandi á bágt með að liggja á bakinu. jafnvel þótt hann glaður vildi. sem ég dreg reyndar í efa að nokkur vilji tilheyri hann ekki menginu homo sapiens. mannfólk getur vissulega legið á bakinu án þess að það komi niður á virðuleika þess en mér dettur ekki í hug ein einasta dýrategund, hvað þá skordýr, sem kemst vel frá því að snúa kviðnum upp í loft. sú líkamsstaða hefur undantekningalaust í för með sér algjört tap á reisn. og uppgjöf. og einmitt þess vegna finnst mér eitthvað fallegt við það þegar ég finn hrossaflugurnar liggjandi á hliðinni í „kistunni“. eins og þær hafi valið að leggjast til svefns einmitt þarna fremur en að gefast upp fyrir lífinu. sjálfsagt er ég að lesa of mikið í þetta. ég reyni að hafa það fyrir reglu að lesa frekar of mikið í en of lítið. oftúlkanir gera lífið áhugaverðara. og eru holl hreyfing fyrir heilann.

þriðjudagur, 6. september 2016

an intelligence that incorporates hiddenness into making its point.


á fimmta degi í flensu finnur maður sig á þeim stað að hugleið guð. ég er hrifin af þessari yrðingu hér ofar. hún fangar eitthvað um auðmýkt og yfirvegaðan ásetning sem mér finnst mikilvægt í samhengi við hugmyndina um skapara heildarskipulagsins. ég heyrði þessa setningu í uppáhalds hlaðvarpinu mínu í morgun. ég smíðaði hana sem sagt ekki sjálf – svo það sé á hreinu. mér hefur aldrei tekist að yrða neitt vitrænt um guð. eðlilega ekki. samt líður held ég ekki sá dagur að ég hugsi ekki um guð. en að hugsa er ekki það sama og að skilja. og þó ég hugsi linnulaust um allt mögulegt þá veit ég mjög fátt. nánast ekki neitt. sér í lagi ekki um guð. ég er bara venjuleg manneskja sem dreymir um að minnka kolefnisfótsporið mitt og fá einhvern örlítinn botn í það áður en ég dey hvernig pláneturnar fara að því að svífa um af slíkri stillingu og þokka að það kemur engan veginn heim og saman við stærð þeirra. og mig langar óskaplega til að skilja strengjafræði. sem ég geri alls ekki. miðað við hversu lítið ég veit um þá grein eðlisfræðinnar – sem sumir vilja meina að sé hreinasta póesía – ætti ég í raun ekki að hafa neitt um hana að hugsa. samt held ég að ég hugsi um strengjafræði á hverjum degi rétt eins og ég hugsa um guð á hverjum degi. og oftast á þeim nótunum að ef mér takist að skilja þau lögmál sem að baki henni liggja muni leyndardómur tilveru minnar ljúkast upp fyrir mér og öll mín mál leysast farsællega. með öðrum orðum; ég muni finna guð. þetta verður dálítið þráhyggukennt á köflum. ég hef jafnvel velt fyrir mér að táldraga einhverja menn uppi í háskóla mér til framdráttar í þessu máli. en sem betur fer hef ég ekki látið verða af því. sem betur fer þeirra vegna á ég þá við.  

mánudagur, 5. september 2016

veröldin breytir í lauf og ég held mig á dýpinu


ég fer ekki ofan af því að enginn árstími er eins vel til þess fallinn og haustið að senda mann út að ganga í hægðum sínum með hund sér við hlið. ég tala ekki um eftir að hlaðvarpið kom til sögunnar. í gamla daga þegar ég var minni og það var ekki til neitt hlaðvarp fór ég stundum með bók út í móa og las á fallegum dögum. þetta gerði sig reyndar aldrei almennilega. mér varð svo fljótt kalt á höndunum. þetta virkaði betur sem hugmynd. en svo rann þessi svokallaði nútími upp – það umdeilda fyrirbæri – og mögulega er hann ekki jafn ömurlegur og ég hef tilhneigingu til að hafa hátt um í eyru samferðamanna minna. í það minnsta get ég einfaldlega geymt hendurnar í vösunum núna á meðan ég rölti í litabreytingunum með ýmislegt í eyrunum sem svarar þeirri kröfu að mér þyki það seriously entertaining, eins og ég kýs að kalla það, og á þá við að eitthvað sé hvoru tveggja entertaining and educational. mér finnst ég aldrei tala mig nógsamlega út um það hvað ég er skelfilega leiðinleg kona svo ég ætla að fara aðeins dýpra í þetta atriði. ég hef ekkert umburðarlyndi, eiginlega algeran ímugust, fyrir „hreinni“ skemmtan, einhverju til að „stytta sér stundir“ yfir. hlutirnir verða að hafa merkingu ef ég á að endast yfir þeim. kenna mér eitthvað. stytta sér stundir? hvers konar rugl er þetta? hefur fólk endalaust af tíma á milli handanna? ég er kannski ekki í hópi þeirra sem hugsa um dauðann í tíma og ótíma en þegar ég geri það er helst þrennt sem skelfir mig. tilhugsunin um að deyja í ljótum nærbuxum (ég hef komið inn á þetta áður), tilhugsunin um að deyja frá tölvunni minni og fólk komist yfir alla hálfskrifuðu textana mína (eiginlega sami óttinn og með nærbuxurnar) og tilhugsunin um að deyja einskis vísari. þetta síðasttalda skelfir mig mest af öllu. ég get lifað með óttanum við að deyja í ljótum nærbuxum og myndinni af fólki að ygla sig yfir stefnuleysinu í „skjalaskápnum“ en þegar ég hugsa til alls þess sem ég mun að öllum líkindum ekki komast að, sjá, lesa eða heyra áður en ég leggst lárétt í síðasta sinn ætla ég hreinlega að verða vitlaus af hræðslu. þegar þetta er sem verst finnst mér ég hreinlega vera dáin. altsvo andlega. sökum fáfræði. en ég vil helst ekki vera að tala mikið um þetta? það gerir mig taugaveiklaða. einhverju sinni nýlega ræddi ég þetta við vinkonu mína sem glímir við svipað vandamál, að þurfa alltaf að vera á dýpinu, og okkur sammæltist um að reyna framvegis að hleypa léttleikanum meira inn í líf okkar. ég hef aldrei vitað til þess að nokkur kona eða maður setti sér eins glórulaust óraunhæft markmið. ég þarf ekki að taka fram að mér hefur mistekist fullkomlega. síminn minn hefur sjaldan verið jafn fullur af hlaðvarpi um hin ýmsu tilvistarlegu og andlegu málefni. og ég ver orðið nánast öllum frítíma mínum í göngutúrum.  

sunnudagur, 4. september 2016

... en það er haust. og bráðum verða laufin eins og brúnn pappír


ég ætla að skrifa það hér, svo það standi einhvers staðar, að þetta salvíute sem ég hitaði rétt í þessu er með því verra sem ég hef bragðað um ævina. eina ástæðan fyrir því að ég læt mig hafa það að drekka þennan hrylling er sú að ég er mikið lasin og allt tekyns uppurið í skápunum. hingað til hef ég haldið því fram að þessi hefðbundnu ensku te, melrose og earl grey, séu þau verstu í heimi – og ein og sér ástæða til hafa horn í síðu engilsaxneskra (þó skulum við vel merkja að sá ættbálkur hefur ýmislegt á samviskunni) – en svo virðist sem ég hafi haft bresku þjóðina fyrir rangri sök. þetta salvíute kemur frá þýskum framleiðanda sem ég hef oft átt viðskipti við og yfirleitt farsæl enda merkir hann allar sínar vörur lífrænt vottaðar og virðist í því máli segja satt og rétt frá. en ég óttast að nú verði breyting á. ég er ekki viss um að ég hafi lyst á að skipta við þetta fyrirtæki oftar, svo hryllilegt er þetta te. í því máli toppar eitt annað. ofan á þurrkinn og beiskjuna sem situr eftir á tungunni stendur skýrum stöfum utan á pokanum að innihaldið sé útrunnið. ég hef nýlega keypt þetta te. þetta er ótækt. samt neyðist ég til að koma þessu ofan í mig með einhverjum ráðum. ég á engra kosta völ. það er ekki eins og ég eigi kærasta sem ég geti sent út í búð eftir almennilegu tei. og refurinn fengi ekki afgreiðslu þó hann sé allur að vilja gerður. mér skilst reyndar að salvía sé mjög hreinsandi. en jafnvel þó mér hafi sjaldan legið jafn mikið á að komast í bað þá langar mig minna en ekkert til að klára úr tekatlinum í þeirri von að hárið á mér verði hreint. þegar ég mölvaði allt út af baðherberginu utan salernis og handlaugar – án þess að eiga fyrir endurbótunum – sá ég það ekki fyrir að þessi staða gæti komið upp; að ég yrði svo fársjúk að ég kæmist ekki út af heimilinu í fleiri daga til að nýta mér steypiböð sundlauga. þetta er ófremdarástand. það þyrfti að verða að minnsta kosti 100% breyting á útliti mínu svo ég færi að minna þó ekki væri nema örlítið á sjálfa mig. mér til hugarhægðar les ég dulnefnin hans braga ólafs. elsku maðurinn var svo indæll að senda mér þá bók í pósti nú á dögunum í þakkargjöf fyrir pennavináttu okkar á vef rithöfundasambandsins. gjöfin beið mín í póstkassanum eitt síðdegið þegar ég kom heim úr vinnunni og eins og innihaldið eitt og sér hefði ekki nægt til að kæta mig upp úr skónum um ókomna tíð þá hafði því verið smeygt í dásamlegt brúnt umslag; umslag af allra mest sjarmerandi sort; umslag af því taginu sem lætur manni líða eins og maður sé að lifa gamla tíma þegar heimurinn var snauðari af óþarfa og fólk gerði oftar eitthvað fallegt – eins og til dæmis að senda svo gott sem ókunnri manneskju bók í pósti í dásamlegu brúnu umslagi. kannski er þetta full rómantísk afstaða. mér hættir til að fara dáldið langt með hlutina. en ég kann því samt betur en að fara of stutt. hvað varðar passlega þá hef ég aldrei kunnað á neitt sem er passlegt. eiginleg skil ég ekki merkingu þess orðs.