laugardagur, 25. maí 2019

nei, það má ekkert lengur



... eftir að hafa gengið frá háskólanum í reykjavík niður í miðbæ og þaðan upp endilangan laugarveg stóð ég í léttu leiðsluástandi fyrir utan hlemm og svitnaði í tweed-kápunni á meðan ég beið eftir almenningsvagni nr. 15. malbikið sem hafði fengið yfir sig eitthvað í ætt við hitaskúr andaði frá sér dáleiðandi mistri ekki ólíku því sem steig upp af líkama mínum undir kápunni eftir röska gönguna. einhverjir gæddu sér á skyndibita í sólinni og áhugasamur mávur vappaði milli gangstéttarhellna. hlemmur mathöll er vinsælt stopp í hádeginu. hjá fólki jafnt sem fiðruðum - líkt og bsí og bæjarins beztu. 

ég er í miðri hugsun um umbreytingarmátt birtu og skýja þegar ég tek eftir að farþegi í kyrrstæðum strætisvagni beinir að mér myndavél. ég greini ekki andlitið í gegnum skyggða rúðuna en get þó staðhæft með sjálfri mér að þetta sé karlmaður á miðjum aldri með sólgleraugu og vatnsgreitt ljóst hár. í huganum fletti ég upp öllum sem ég þekki og gætu heyrt undir lýsinguna en fæ enga samsvörun. ég get líka staðhæft að því miður er þetta ekki stjörnu-sævar. enda sá ég nýverið tilkynningu utan á dv um að hann sé kominn með kærustu. þar fór það.

ég sný mér snöggt undan en finn mig fljótt aftur í sömu stöðu, þegar vagninn tekur af stað og beygir inn rauðarárstíg þar sem hann nemur aftur staðar á umferðarljósum; að vera myndefni ókunnugs manns að mér óforspurðri og í mína óþökk. ég sný mér aftur undan og einbeiti mér að fuglinum sem virðist ekki deila ónotum mínum yfir uppákomunni enda undirlagður af annars konar áhyggjum; ekkert útlit er fyrir að arða af asíska réttinum sem maðurinn sem hann situr um snæðir úr pappabakka muni falla af plastgaflinum og hafna á gangstéttinni þar sem hverfandi líkur eru á að um hann verði slegist. 

mér tekst að bægja frá mér ergelsinu yfir óskammarfeilni tiltekinna karlmanna með því að sökkva mér ofan í rökræður við sjálfa mig um hvort það sé siðferðislega rétt að fóðra dýr á fæðu sem gerir þeim ekki gott? jafnvel þótt þau betli og okkur þyki skemmtilegt að fylgjast með þeim japla á einhverju sem kemst illa upp í þau? ætti ekki að hvíla yfir því sama stigma og að gefa smábarni sælgæti? eða öldruðum alsælu? ... nei, þetta með aldraða er ekki gott dæmi. gamalt fólk á að fá að gera það sem því sýnist. það er búið að vinna fyrir því. en ég stend með þessu um smábörnin. og dýrin, held ég. alla vega hvað varðar franskbrauð. það á ekki að gefa neinum franskbrauð. ÞAÐ jafnast á við að gefa smábarni alsælu. eða stera. 

sem sagt. niðurstaða. til tilbreytingar.