fimmtudagur, 25. apríl 2019

skammgóður vermir


sólríkur sumardagurinn fyrsti og fólk baðar sig í svifrykinu. einhverjir klæðast léttri yfirhöfn og flestir eru húfulausir. þetta hlýtur að boða kaldasta sumar í manna minnum. og vænkandi hag flugfélaga. með tilheyrandi ugg í brjósti. ég er að velta því fyrir mér hvernig því yrði tekið ef ég færi að feta í fótspor gretu thunberg. einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að það vekti ekki sömu lukku ef ég, fjörutíuogaðverðafjögurra ára kennslukona, hætti að mæta í vinnuna og segði fljúgandi fólki til syndanna. ég held að engum þætti það þroskað. ég sé fyrir mér félagslega útskúfun og holskeflu af háðsglósum á samfélagsmiðlum. fullorðið fólk má ekki vera of róttækt. um að gera að vera meðvitaður en vinsamlegast koma með raunhæfar lausnir. og alls ekki þykjast vera eitthvað betri en annað fólk. það fer aldrei vel niður. þannig að ég held bara áfram að flokka ruslið mitt og halda mig á mottunni og líða eins og skraddara djöfulsins. ég verð að treysta gretu fyrir þessu máli. mér er nú þegar boðið í alveg nógu fá partý.