laugardagur, 29. júní 2019

ef heilanum á mér væri stungið inn í MIR skanna á meðan ég horfi á nýja eldhúsið mitt ...

þá liti myndin af honum svona út. nýja eldhúsið er vægast sagt fínt. vægast sagt. mér finnst ég eiginlega þurfa að bjóða öllum heiminum í mat – jafnvel þótt það þýði að ég þurfi að bjóða karókí-nágrannanum líka og leyfa honum að syngja eftir matinn. við höfum mjög ólíkan tónlistarsmekk. fjölskylda mín ber ábyrgð á þessu. þ.e. eldhúsinu. ekki sönghæfileikum og lagavali karókí-nágrannanns. skrapatólið sem ég – með því að beita öllum tiltækum verkfærum jákvæðrar sálfræði – kallaði eldavél og rotnandi rústirnar af ódýrri ikeainnréttingu frá 1993 voru orðin mínum nánustu slíkur þyrnir í sál og huga að þau afbáru þetta hreinlega ekki lengur. það var sama hvernig ég spyrnti við fótum, fólk var fast fyrir. og vildi fórna fé og frítíma og líkamlegri heilsu til að forða mér úr þessum aðstæðum. ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. þetta er vandræðalegt. best að elda bara eitthvað. 

og lesa. vinnu minnar vegna ver ég allt of björtum kvöldustundum í að hámlesa enskar ungmennabókmenntir. afar misgóður litteratúr það. ég væri ekki að þessu ef starf mitt krefðist þess ekki af mér. svo ég geðheilsujafna með ali smith. ef þið hafið ekki lesið neitt eftir ali smith skuluð þið byrja strax. hún gerir svipaða hluti fyrir heilann í manni og nýtt eldhús. pow! ... nú byrjar karókí-nágranninn. nema hann hefur ákveðið að sleppa karókí-undirspilinu í kvöld og er sjálfur að spila á gítarinn. hann hóstar eiginlega meira en hann syngur. þetta er mjög ljótur hósti. hljómar ekki eins og flensuhósti. og passar illa inn í lagið þó mér heyrist þetta vera einhver hippaslagari. kannski reykir hann. hann reykir pottþétt. ég veit ekki til þess að það sé nein flensa í gangi hérna í hitabylgjunni. en hann gæti auðvitað hafað gleypt lúsmý. þau kvikindi er ég blessunarlega laus við. flugur hafa álíka mikinn áhuga á mér og karlmenn. ég vil trúa því að það tengist blóðflokk fremur en lykt. og þó ...  ég hef verið að kvarta undan því við fólk að það sé svo mikil rakspýralykt af nýja sjampóinu að mér líði næstum eins og ég sé með mann í hárinu. kannski það fæli frá lúsmý. og karlmenn, eðlilega. ég hugsa að ég kaupi þetta sjampó ekki aftur. samt er þetta frekar gott sjampó. fyrir utan lyktina. 

... ég snéri þessu við. það er ég sem hef álíka mikinn áhuga á karlmönnum og flugum. ég hef ekkert að gera við svoleiðis í nýja eldhúsið. (hvorugt).


laugardagur, 25. maí 2019

nei, það má ekkert lengur



... eftir að hafa gengið frá háskólanum í reykjavík niður í miðbæ og þaðan upp endilangan laugarveg stóð ég í léttu leiðsluástandi fyrir utan hlemm og svitnaði í tweed-kápunni á meðan ég beið eftir almenningsvagni nr. 15. malbikið sem hafði fengið yfir sig eitthvað í ætt við hitaskúr andaði frá sér dáleiðandi mistri ekki ólíku því sem steig upp af líkama mínum undir kápunni eftir röska gönguna. einhverjir gæddu sér á skyndibita í sólinni og áhugasamur mávur vappaði milli gangstéttarhellna. hlemmur mathöll er vinsælt stopp í hádeginu. hjá fólki jafnt sem fiðruðum - líkt og bsí og bæjarins beztu. 

ég er í miðri hugsun um umbreytingarmátt birtu og skýja þegar ég tek eftir að farþegi í kyrrstæðum strætisvagni beinir að mér myndavél. ég greini ekki andlitið í gegnum skyggða rúðuna en get þó staðhæft með sjálfri mér að þetta sé karlmaður á miðjum aldri með sólgleraugu og vatnsgreitt ljóst hár. í huganum fletti ég upp öllum sem ég þekki og gætu heyrt undir lýsinguna en fæ enga samsvörun. ég get líka staðhæft að því miður er þetta ekki stjörnu-sævar. enda sá ég nýverið tilkynningu utan á dv um að hann sé kominn með kærustu. þar fór það.

ég sný mér snöggt undan en finn mig fljótt aftur í sömu stöðu, þegar vagninn tekur af stað og beygir inn rauðarárstíg þar sem hann nemur aftur staðar á umferðarljósum; að vera myndefni ókunnugs manns að mér óforspurðri og í mína óþökk. ég sný mér aftur undan og einbeiti mér að fuglinum sem virðist ekki deila ónotum mínum yfir uppákomunni enda undirlagður af annars konar áhyggjum; ekkert útlit er fyrir að arða af asíska réttinum sem maðurinn sem hann situr um snæðir úr pappabakka muni falla af plastgaflinum og hafna á gangstéttinni þar sem hverfandi líkur eru á að um hann verði slegist. 

mér tekst að bægja frá mér ergelsinu yfir óskammarfeilni tiltekinna karlmanna með því að sökkva mér ofan í rökræður við sjálfa mig um hvort það sé siðferðislega rétt að fóðra dýr á fæðu sem gerir þeim ekki gott? jafnvel þótt þau betli og okkur þyki skemmtilegt að fylgjast með þeim japla á einhverju sem kemst illa upp í þau? ætti ekki að hvíla yfir því sama stigma og að gefa smábarni sælgæti? eða öldruðum alsælu? ... nei, þetta með aldraða er ekki gott dæmi. gamalt fólk á að fá að gera það sem því sýnist. það er búið að vinna fyrir því. en ég stend með þessu um smábörnin. og dýrin, held ég. alla vega hvað varðar franskbrauð. það á ekki að gefa neinum franskbrauð. ÞAÐ jafnast á við að gefa smábarni alsælu. eða stera. 

sem sagt. niðurstaða. til tilbreytingar. 

fimmtudagur, 25. apríl 2019

skammgóður vermir


sólríkur sumardagurinn fyrsti og fólk baðar sig í svifrykinu. einhverjir klæðast léttri yfirhöfn og flestir eru húfulausir. þetta hlýtur að boða kaldasta sumar í manna minnum. og vænkandi hag flugfélaga. með tilheyrandi ugg í brjósti. ég er að velta því fyrir mér hvernig því yrði tekið ef ég færi að feta í fótspor gretu thunberg. einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að það vekti ekki sömu lukku ef ég, fjörutíuogaðverðafjögurra ára kennslukona, hætti að mæta í vinnuna og segði fljúgandi fólki til syndanna. ég held að engum þætti það þroskað. ég sé fyrir mér félagslega útskúfun og holskeflu af háðsglósum á samfélagsmiðlum. fullorðið fólk má ekki vera of róttækt. um að gera að vera meðvitaður en vinsamlegast koma með raunhæfar lausnir. og alls ekki þykjast vera eitthvað betri en annað fólk. það fer aldrei vel niður. þannig að ég held bara áfram að flokka ruslið mitt og halda mig á mottunni og líða eins og skraddara djöfulsins. ég verð að treysta gretu fyrir þessu máli. mér er nú þegar boðið í alveg nógu fá partý. 


laugardagur, 23. mars 2019

hvorki sá besti né versti. heldur hinn síendurtekni.


ég veit ekki hvað hefur gengið á í höfuðstöðvum unesco þegar ákveðið var að hafa alþjóðlegan dag hamingjunnar og alþjóðlegan dag ljóðsins í einni og sömu vikunni en leiði að því líkur að gríðargóð stemning hafi verið í húsinu. eðlilega höfum við heimilisfólkið vart komist til vinnu sökum hátíðarhalda. maður lætur ekki sitt eftir liggja þegar heimsbyggðin tekur sig saman og fagnar grunnstoðum mannsandans. þrátt fyrir umhverfisangistina og brotnu hurðina á eldhúsinnréttingunni og postulínstönnina sem kostaði mig hálf mánaðarlaun og niðurstöðurnar úr styrkleikaprófinu sem ég tók á netinu. ég hefði kannski átt að láta það eiga sig. þ.e. að taka þetta próf. þetta er víst frekar marktækt próf. og því ansi deprímerandi fyrir minn prívat mannsanda að það segi mér að sá eiginleiki sem ég sé slökust í sé vonin. ekki beint í takt við vikuna - one inevitably feels like a failure. 

reyndar voru niðurstöðurnar úr þessu prófi almennt séð vonbrigði. minn mesti styrkleiki er víst the appreciation of beauty and excellence. sem eru mér engar fréttir. en hvað í fjandanum á ég að gera við það? benda fólki á að nýja lífræna rauðvínið í áfengisversluninni sé hreint afbragð og á ótrúlega góðu verði miðað við gæði og að nýju blokkirnar sem eru að rísa við eina af aðalumferðaræðum bæjarins séu illa staðsettar og ekki líklegar til að auka lífsgæði verðandi íbúa? how, oh how, can one be of use? ég var meira að vonast eftir einhverju eins og framkvæmdarorka eða útsjónarsemi (sem er reyndar ekki á listanum ... kannski þarf bara að eiga eitthvað við þennan lista). eitthvað í þá veruna hefði í það minnsta blásið mér í brjóst nægum krafti til að gera eitthvað í þessu með hurðina á eldhúsinnréttingunni. hún fór af hjörunum einhvern tímann í haust. eða í sumar. ég man það ekki. það er alla vega mjög langt síðan og mamma mín hefur krónískar áhyggjur af þessu. mamma mín er á spáni í splunkunýju íbúðinni sinni þar sem allar hurðir og hjarir eru í toppstandi og  vel slegnar golfflatir við hvert fótmál þannig að það er frekar leiðinlegt að ástandið á heimili örverpisins sé að svipta hana svefni. hún hefur meira að segja boðist til að kaupa handa mér nýja innréttingu. ég hef ákveðið að ég sé ekki nægur þurfalingur til að þiggja það. maður verður að halda í þennan snefil af mannlegri reisn sem maður hefur enn úr að spila. með eða án hurða og hjara. ég er alla vega ekki tannlaus lengur. það er eitthvað.

kannski ætti ég að útskýra þetta betur. þetta með tannleysið, það er að segja. ekki nokkur maður hefði  getað logið því að mér til lengdar hvað brotinn jaxl geti gert sjálfsmynd vel menntaðrar fjörutíu og þriggja ára gamallar konu. síðustu fjórar vikurnar, frá því hversdagslega andartaki þegar ég stakk nokkrum pekanhnetum upp í mig eftir spretthlaupin og gufubaðið og fann eitthvað bresta í munninum á mér - eitthvað sem augljóslega var ekki hneta - hefur mér liðið líkt og ég sé bæði heimilis- og atvinnulaus og hafi jafnvel verið það lengi - tilfinning sem átti lítið annað eftir en að styrkjast þegar ég áttaði mig á hvað þetta myndi kosta mig. og að ég fengi að öllum líkindum fljótlega hryggskekkju af því að tyggja alltaf bara öðrum megin. þannig að ég ákvað að þetta væri fínn tími til að prófa þessar föstur sem allir eru að stunda en ég sjálf hafði ekki treyst mér út í af þeirri augljósu ástæðu að mér þykir betra að borða en að borða ekki. en í ljósi aðstæðna leit þetta út fyrir að vera tilvalið. ekki síst þar sem föstur eiga að hafa undraverð áhrif á þarmaflóruna og geðheilbrigðið (hvort tveggja á mínu áhugasviði). við fyrsta kast virtist þetta því a triple win deal: tannleysisvænt, ódýrt og heilsueflandi. og þetta gekk ágætlega. þar til ég varð svöng. þá féll allt um sjálft sig. samt er sjálfsagi ofarlega á styrkleikalistanum samkvæmt prófinu sem ég tók á netinu. líkast til er ekkert að marka þetta próf. en mér líst nokkuð vel á nýju postulínstönnina. ég var dálítið feimin við hana fyrst en eftir því sem við kynnumst betur verð ég æ sannfærðari um að þetta muni allt blessast og að bráðum muni mér aftur líða eins og atvinnuöryggi mitt sé gott og staða mín á fasteignamarkaði sterk. þrátt fyrir brotnu hurðina. og gagnslausa styrkleika. haltu í hestana þína kona. enga græðgi.

en. alla vega. áfram veginn. annan hring. 
(og reynum að hafa gaman af því.)