mánudagur, 22. janúar 2018

lífi mitt í ljóði



Elegía

Fullvaxin spegilmynd
gegnumlýst
í röntgengeislum
nýársdags.

Brotið kjúkubein
á baugfingri vinstri handar,
brak bernskunnar
ryðgað milli bringspalanna.

Höfuðkúpan
loftþéttur kúpull
úr gleri,
lagður yfir safn stillimynda; 

            augu föður míns í baksýnisspeglinum á gömlum trabant snemma á níunda áratugnum.
            Hendur hans að herða gjörðina utan um ávalan kvið hestsins, úfinn í vetrarfeldinum, áður en hann lyftir mér á bak.
            Risavaxinn líkami þyrlunnar þar sem við stöndum hönd í hönd í opnu flugskýlinu þaðan sem sér í hafið.
            Heiðursvörður við fánaklædda líkkistu á hafnarbakkanum á hryssingslegum degi í nóvember.   

/.../


Að lifa lífi sínu einn.
(Vakna
vaka
sofna
sofa)
og grafa spörfugla gærdagsins
án hluttekningar,
því nándin
er dýpsta
sárið.

Rafglóandi taugabrautir          
- göng
í gegnum tímann -
rangt tengdar
við sjálfið;

hvern dag horfi ég á hendur mínar 
– líflínan
morkin gúmmíteygja, trosnuð í báða enda –
og minni mig á
ártalið;
frumurnar
sem skipta sér;
aldur
tanna minna og beina;
barnið sem varð fullorðið.

Í sjónjaðrinum björgunarþyrlan.