staðan: jólatréð er enn á pallinum; dáið. erikurnar frá því í vor eru enn í leirpottunum, einnig úti á palli; dánar. pallurinn sjálfur er dauðvona sökum vanrækslu; í þurrki er ég of upptekin í náttúruskoðun og sundi til að bera á hann; það er bannað að bera á pallinn sinn í vætu. og einhvern veginn eru lögmál náttúrunnar á þann veg að með hverjum þurrkadegi styttist í vætuna. það hef ég reynt á eigin sál. eftir margra mánaða augnþurrk féll ég loks saman á jógadýnunni nýverið og grét eins og umkomulaus brjóstmylkingur. það hlaut að koma að því. nú get ég eiginlega ekki hætt. né gert upp við mig hvort er betra. og nákvæmlega þess vegna leyfist mér á laugardagskvöldi að drekka ótæplega hvítvín með fiskinum og salatinu og hlusta á dánarfregnirnar og wicked games með chris isaak. ég er ung kona – staðhæfing sem í ljósi þess sem hér ofar er ritað hljómar í besta falli dapurlega; máttleysislegt uppreisnaróp; vantrúa andvarp. hljóðlát einvera er orðin mér svo inngróið ástand að suma daga kemur það mér beinlínis í opna skjöldu að líta í spegil og fá þar staðfest að ég hafi tvö sett af hvorum útlim, tvö augu, tvö brjóst ... fjúkið af öspunum smeygir sér í gegnum rifuna á eldhúsglugganum og ertir í mér augun og ég gríp nokkrum sinnum andann á lofti áður en ég hnerra með hávaða í olnbogabótina svo hundinum bregður. skjalið í tölvunni er stopp í tuttuguogfjögurþúsundfjögurhundruðsjötíuogþremur sundurlausum orðum. þakrennan er farin í sundur um sig miðja. flísalögnin á baðherberginu hefur svo gott sem staðið í stað frá páskum og ég horfi enn aðeins í eina átt. ég hef ekki lausn á neinu þessara verkefna. ég hef frekar lítið verksvit. og virðist hafa siglt í þrot. ergo; staðan.