þriðjudagur, 27. júní 2017

allt hefur sinn tíma er annað orðatiltæki sem mér leiðist (svo maður vísi fram en ekki aftur í sín eigin orð)


í dag keypti ég loks tarte au citron. það hefur staðið til frá því ég kom en þrátt fyrir að bakarí séu um það bil það síðasta sem höfuðborg frakkaríkis skortir hefur mér einhvern veginn ekki orðið neitt úr neinu í þessum efnum. ég er nákvæmnismanneskja með svona hluti. og rétta kakan virtist aldrei ætla að gefa sig fram á rétta augnablikinu. satt að segja var ég að verða hálf uggandi yfir hversu treglega þessi kökubissness ætlaði að ganga hjá mér; það er ekki eins og ég sé með franskt ríkisfang; mér fannst beinlínis komin brunalykt af málinu. en á flandri mínu í dag kom ég af rælni við hjá manni sem hefur bakað kökur síðan 1685. og þó mér leiðist orðatiltækið æfingin skapar meistarann eins mikið og manni mögulega getur leiðst eitthvað (vér óþolinmóðir einfaldlega nennum þessu ekki) verð ég að segja að það hefur sannarlega skilað sér fyrir þennan tiltekna mann að halda sig svo staðfastlega að verki í öll þessi ár. sem ég efa ekki að hann hafi gert. eftir að hafa borðað þessa köku dettur mér ekki annað til hugar en að maðurinn segi satt og rétt frá um starfsaldur. í sem stystu máli sé ég ekki eftir einni einustu af þeim sjö evrum sem ég eyddi í þessa köku þó hún hafi sannarlega verið agnarsmá í sniðum og hafi þar af leiðandi horfið ofan í mig á töluvert færri mínútum en sjö. ég myndi giska á eina og hálfa. mínútan er dýr í heimi kökumeistara parísarborgar. live with it. það rignir. ef eitthvað er næstum jafn yndislegt og parís á sólríkum degi er það parís í rigningu. og af því maður er allur fyrir upplifunina (og telur ekkert eftir sér í þeim efnum) borðaði ég mína tarte au citron undir laufmiklu tré í stað þess að bíða með það þar til heim væri komið. sem ég ætla að leyfa mér að segja að hafi verið hárrétt ákvörðun. ég var orðin rennblaut í fæturna og kjóllinn límdist við mig þegar þetta fína tré varð á vegi mínum og þar sem pappaaskjan utan um kökuna virtist ekki vatnsheld og á góðri leið með að leysast upp í eitthvert deigkennt form, ekki ósvipað því sem örþunnur möndlubotn innihaldsins hafði haft fyrir baksturinn í brennheitum ofni bakarans, ákvað ég með sjálfri mér að einmitt þarna undir trénu væri rétti staðurinn til að njóta köku of such distinguished origin. um þetta hef ég ekki fleiri orð en þau að ég hafði rétt fyrir mér. maður á ekki að monta sig. það hefur stytt upp og rakinn stígur upp af götunum í síðdegismollunni. mig langar ekki heim til mín. sem eru öfugmæli. hið rétt er að mig langar ekki til míns meinta heimilis. eins og ég þreytist ekki á að benda ættingjum mínum á þegar ég slæ á þráðinn til að „minna á mig“ þá tel ég mig einmitt vera heima hjá mér. ákvörðunin um fæðingarstað minn (af hverjum sem hún var tekin) virðist hafa verið byggð á misskilningi. þetta er agalegt. ég veit ekki hvert ég á að sækja þetta mál en verð að segja að mér þykir upptaka þess brýn. þetta er einfaldlega spurning um réttlæti. hugtak sem mér skilst að sé frönsku þjóðinni tamt. svo ég fer með þetta alla leið. allez allez, justice! (ég tala enga frönsku). því miður sýnist mér þó allt útlit fyrir að réttlætið í þessu máli nái ekki fram að ganga fyrir föstudag og fyrir þær sakir muni einhver ólánsamur frakki fá verulega slæma tilfinningu fyrir ferð sinni til þess staðar sem hann hefur í einhverju óskiljanlegu stundarbrjálæði látið selja sér sem an exotic hotspot of the third degree. lygi! blekking! reykur og speglar, segi ég steyti hnefann í þá átt sem ég tel norður (ég er mjög áttavillt manneskja). hvað get ég sagt? ég er gersigruð kona. enn einu sinni hefur tíminn komið mér á óvart með sínu linnulausa áframhaldi. hvað sá náungi er óþreytandi við sína tilbreytingarlausu iðju! ég er alltaf jafn bjargi lostin þegar ég skrifa dagsetninguna efst á blaðsíðu dagbókarinnar á morgnana og lít tvisvar á bæði símann og stikuna efst á skjá tölvunnar til að fullvissa mig um að þetta sé rétt. júnílok. hvernig fer hann að þessu? það er sumar. það er heitt. við erum í parís, for crying out loud! taktu þér frídag, maður, þú átt það inni! ég fæ mér annað hvítvínsglas og skola af kirsuberjunum sem ég hef ákveðið að hafa í forrétt. ekki getur maður nærst á kökum einum saman. þó ég eigi það sannarlega skilið miðað við þær raunir sem bíða mín á föstudag. megi kökunum rigna af frönskum himni fram að helgi. en nú hætti ég. arrêt! (ég tala enga frönsku). þvæ blúndunærfötin og legg þau til þerris í gluggakistuna. fylgist með bergfléttunni vaxa og drekk hvítvínið. og bíð eftir regninu.    

mánudagur, 19. júní 2017

því eilífðarenigmað er það eina sem ég elti.

fyrirrennari minn í marokkóska stúdíóinu hér í cité des artes virðist hafa verið nokkur áhugamaður um leyndardóma læknislistarinnar. nema hann hafi einfaldlega verið heilsuveill – dæmigert fyrir mig að gera ekki ráð fyrir hinu hagnýta gildi hlutanna – og ástands síns vegna þurft að kynna sér fyrirbæri á borð við purpuras vasculaires og hématurie af illri nauðsyn fremur en áhuga. (ég vel þessi dæmi af handahófi, ég hef ekki hugmynd um hvað þetta þýðir.) ef svo er vona ég að maðurinn hafi fengið líkn meina sinna. sem er vonandi tilfellið fyrst hann skildi þennan doðrant eftir hér í litla fataskápnum ásamt nokkrum úrklippum úr tímariti eða ferðabæklingi frá grískri eyju; hvítkölkuð hús og kúpt þök í miðjarðarhafsbláum lit, og máðri ljósmynd af blárri hurð á niðurníddum grjótvegg, að því er virðist einnig í grísku umhverfi. myndin er prentuð á kodak royal ljósmyndapappír og hefur á einhverjum tímapunkti verið fest upp með grófu teiplímbandi sem skagar út af efri brún hennar; kusk og ryk sitja í límfletinum svo hann hefur tapað allri viðloðun og myndin tollir ekki uppi núna þegar ég reyni að festa hana fyrir ofan kommóðuna þar sem ég held hún tæki sig vel út í kompaníi við skartgripaskálina og basilíkuplöntuna. ... blá bók, blá þök, blá hurð ...  það sló mig fyrst núna að að þessi litur gengur eins og blár þráður á milli „leifanna“ af þeim sem á undan mér er genginn (vonandi þó ekki á vit feðra sinna). þegar hitann lægir í eftirmiðdaginn ætla ég rölta yfir í litlu pappírsbúðina í næstu götu og vita hvort ítalirnir – sem þar selja pappír svo dýrlegan viðkomu að ég hætti mér helst ekki þar inn – geti ekki hjálpað mér með bút af góðu límbandi. það er einhver seiður í þessari bláu hurð. hún er sett saman úr þremur grófum, misbreiðum tréplönkum og á henni miðri um lóðréttan ás en örlítið hægra megin við miðju lárétt er önnur minni, gluggi réttara sagt, umlukinn á að giska fimm sentimetra breiðum karmi. málningin hefur máðst af karminum svo hann er vel greinilegur á myndinni þó hún sé fremur illa lýst – hún virðist staðsett í skuggsælu húsasundi. ég veiti því athygli að hurðarnar eru báðar lokaðar og þegar ég gaumgæfi myndina betur sé ég að eingöngu sú minni hefur á sér hún. sem er einkennilegt í ljósi þess að þeir sem mögulega gætu nýtt sér svo smáan inngang – í fljótu bragði koma mér aðeins kettir og dúfur til hugar – eru óneitanlega illa útbúnir til að hleypa sér inn einir og óstuddir; þetta er húnn af því taginu sem þarf að snúa; þeim sem í hann tekur þurfa augljóslega að vera áskapaðir gagnstæðir þumlar. en einhvern veginn finnst mér eins og þetta sé ekki endilega hurð sem mann langi til að ljúka upp. ég er nokkuð viss um að maður fái meira út úr því að geta sér til um hvað liggi henni að baki. þannig er það með suma hluti. og fólk reyndar líka ef út í það er farið. stundum finnst mér eins og nákvæmlega þetta sé lærdómurinn sem mér sé ætlað að draga af lífinu: hvenær opnar maður hurð og hvenær opnar maður ekki hurð? ég hef klúðrað þessu oftar en ég kæri mig um að muna. borgin er heit og himininn tandurhreinn og gyllingar minnismerkjanna loga hvarvetna eins og litlir, sjálfsprottnir eldar. lauf bergfléttunnar bærast varla í dag. ég hef ekki undan að kæla sódavatnið. sem er helsta ástæða þess að upp úr fimm neyðist ég til að opna flösku af góðu chablis og ballansera með ólívum. maður vill ekki ofþorna. og þurfa jafnvel að fletta upp í hinni óskiljanlegu bláu bók sér til bjargar. fyrirhyggjusemi er list sem ég hef tileinkað mér svo eftir er tekið en aðeins á afmörkuðum sviðum. og þau svið ná hvorki yfir skipulag fjármála né notkun á sólarvörn. en ég hef áhyggjur af því síðar. ég er í öðru. og eins og árangursfræðin boða þá borgar sig að gera eitt í einu og gera það vel. alla leið. slá hvergi af. þannig að. þessi bláa hurð ... 

fimmtudagur, 15. júní 2017

að rata heim. beint af augum.

einhvern veginn er óhugsandi að vera ekki utandyra í parís. þó litla stúdíóíbúðin sem ég hef tekið á leigu næstu þrjár vikurnar sé eins indæl og hugsast getur; espressókanna, eitt rúm, eitt borð, þrír stólar, berir veggir og síðast en ekki síst tveir stórir gluggar sem má opna í heild sinni og virða fyrir sér ógnarstóra bergfléttuna á gafli hússins hinum megin við portið, þá líður mér beinlínis eins og ég sé borginni ótrú ef ég dvel of lengi inni við. ég get með engu móti skilið þá hugmynd fólks að til parísar verði maður að fara með ástinni sinni. að mínu viti er það eitt að ganga hér um göturnar slík gnægð af félagsskap að einni elsku til viðbótar væri einfaldlega ofaukið. ég held ég gæti fest rætur hérna. nærst á ætiþistlum og geitaosti og geómetríu breiðstrætanna sem þoturnar teikna speglakort af úr hvítum rákum þegar þær skjóta sér leið yfir heiðan himininn á leið sinni til ómerkari áfangastaða. ég er ekki að setja mig í stellingar. mér gengur það eitt til að punkta hjá mér einföld sannindi. maður á að segja satt. mér er vel við frönsku þjóðina. sér í lagi þann hluta hennar sem mannar þjónastéttina. allt þetta tal um ókurteisi og skítugt hár í þeirri starfsgrein er tómur leirburður sprottinn af augljósri öfund. það er einmitt eitthvað hreinskiptið við fas og framkomu fólks hérna. áreynslulaus glæsileiki sem neitar að biðjast afsökunar á sjálfum sér. enda veit ég ekki af hverju maður ætti að vera að því. sjálfsskömm er ekki pródúktívt ástand. og óákveðni er ekki kynþokkafull. ég trúi því að arkitektar borgarinnar hafi haft eitthvað álíka í huga þegar þeir gerðu hina beinu línu að fagurfræðilegu viðmiði. ég minni mig á þetta á morgnana þegar ég væflast um ranghalana í kollinum á mér og bregð fyrir mig fæti í annarri hverri hugsun; stundum er bein lína besta leiðin; maður þarf bara að rétta úr sér. miða skýrt. tálga burt hið óþarfa. sjá langt. og leggja af stað.