þriðjudagur, 25. apríl 2017

nóg þarf að vera nóg.

ég ætla ekki að hugsa um hvað ég greiddi fyrir þessar ólífur. enda veit ég það ekki. ég spurði ekki um verð þegar ég bað um þær yfir afgreiðsluborðið ásamt sneið af mildum geitaosti og pikkluðum apríkósum. sem er gott. það borgar sig ekki að kafa of djúpt í svona hluti. þannig að nú fæ ég mér örlítið meira rauðvín og nokkrar ólífur til viðbótar þó faktískt sé ég orðin södd og ætti ekki að vera að þessu meir. mér hlýnar ekki. frá því ég fer á fætur og þar til ég leggst til svefns er mér kalt á höndum og fótum og öllu þar á milli – sama hverju ég klæðist og hvort sem gluggar standa opnir eður ei. þetta er orðinn ákveðinn fasti í tilverunni. eitthvað sem hægt er að treysta á að haldist stöðugt frá degi til dags. ullarsokkapörunum í sokkaskúffunni hefur fjölgað fjórfalt í vetur og ég er nánast alltaf í sömu peysunni – þeirri þykkustu – þó hingað til hafi það verið ákveðin afstaða í lífinu að fara helst ekki í sömu flíkina tvo daga í röð. stundum velti ég því fyrir mér hvort tíminn sé til þess gerður að við brjótum öll okkar boðorð? ... nánast allt sem ég tek mér fyrir hendur er glíma í þeirri rándýru list að dansa á fínni línu milli reglu og flæðis. að storka endurtekningunni. hinu stífa ritúali. jafnvægi þar á milli er óræður hlutur sem hvílir sjaldan í hendi og enn sjaldnar í huga. og þó það megi lifa með flestu er engum hollt að eltast við skottið á sjálfum sér. jafnvel hundar virðast heimskir í þeim leik. málið er að mér leiðist. það er hættulegt. kannski það hættulegasta í heimi. þeim sem leiðist er trúandi til að leggjast í alls kyns vitleysu; berja í vegg í þeirri von að hann megi breytast í hurð; gera alls kyns andlitsgrettur, sirkuskúnstir og bakfettur í von um að framkalla umbreytinguna utan frá og inn; liggja langtímum yfir púsluspili úr þúsund bitum sem allir eru í nákvæmlega sama lit; eyða síðustu krónunum í óútskýranlega dýrar ólífur og pikklaðar apríkósur ... ég er að bíða eftir sprengingu. í sálardjúpinu. í skynjuninni. sjálfinu. minn prívat miklihvellur. þetta þyrfti ekki að fara hátt. engin þörf á fréttatilkynningum eða opnuviðtölum. þetta yrðu náttúruhamfarir fyrir mig eina. heimurinn héldi áfram að snúast. blátt yrði áfram blátt. lóur enn falskir vorboðar. aðeins ég myndi merkja breytinguna. það væri nóg      

fimmtudagur, 20. apríl 2017

árlegt blót

það eina sumarlega við þennan dag er sítrónulíkjörinn sem ég er að dreypa á mér til hugarhægðar. jú ókei, og farið á glasbrúninni eftir rauða varalitinn minn. allt annað er viðbjóður. og ég ætla ekki að segja neitt gleðilegt. en hann er sannarlega góður. líkjörinn það er. enda ítalskur. og er að gera sitt til að róa mig niður eftir að hafa nærri orðið úti við að viðra hundinn minn. það var djarfur leikur. mögulega var ég þó aldrei jafn hætt komin og á dyraþrepinu við heimkomuna – jafn ömurlegt og frá er að segja. þar sem ég lagði ennið að glerhurðinni í blöndu af létti og örmögnun eftir barsmíðarnar frá haglélinu sem dundi á okkur ferfættlingnum í spássitúrnum fann ég mér til skelfingar að ég var of loppin á höndunum til að hleypa mér inn á mitt eigið heimili. ég ætlaði aldrei að hafa það af að koma lyklinum í skrána. og jafnvel eftir að hann small loks í –ég ætla ekki að fara út í hversu oft ég þurfti að gera hlé á þeim tilraunum til að þurrka sultardropastreymið úr nefinu á mér – leið dágóð stund þar til ég gat snúið honum og opnað. best að að elda eitthvað létt. svo maður brjálist ekki endanlega. helst eitthvað með ferskjum og basil ef hverfiskaupfélagið leyfir. sem er stórkostlega hæpið. af því ég bý ekki á ítalíu. ég ætla að fá mér meiri líkjör (af hverju er ég ekki löngu búin að drekka þessa flösku?). og bæta á varalitinn. fleira hef ég ekki að segja. þar hafið þið það. bless.  

sunnudagur, 16. apríl 2017

páskaliljan


í dag ætlaði ég að umpotta og vera öll upp á við. spírall í átt að sólu. það átti að vera minn sporbaugur. í dag væri sólarhátíð í mínu nafni. og ég væri hætt að gráta. öll mín tár hefðu orðið eftir á götunum í parís; þar væru pollarnir enn að þorna og andlit látbragðsleikaranna hefðu tekið að sér sorgina í svip mínum. hún ætti annað heimili núna. en hér í eldhúsinu mínu skini sól. himininn væri heiður. og gluggarnir nýþvegnir. eitthvað á þessa leið ómuðu þankar mínir í morgun þegar ég fór fram úr og smeygði fótunum í græna hælaskó í tilefni dagsins. ... suma daga er óvenju langur vegur genginn frá fótaferð til náða.

föstudagur, 14. apríl 2017

passíusálmur númer hringur og svört mýkt og uppgjöf í dufti (föstudagur hinn lengsti).


svartur pipar og svart kaffi. gul blóm. blár himinn. þó svartur sé stef dagsins ómar vonin í bakgrunninum eins og strokið sé yfir örgrannan fiðlustreng í fagurbláum fjarska. í dag má ekki gera að gamni sínu. en það má vona. og við vonum. vonum allt, þreyjum allt og trúum öllu. og opnum lófann mót því sem vill verða. ég set vatn í hraðsuðuketilinn og vel þátt úr sarpi útvarpsins sem eðli dagsins samkvæmt fjallar um frelsisbaráttu blökkumanna. 

free at last. free at last. thank god almighty, we are free at last.

skyldi nokkru sinni hafa gengið á jörðinni sá maður sem fannst hann fyllilega frjáls? verðum við nokkurn tímann frjáls? frjáls undan eigin ótta og þrám, óskilgreindum söknuði og svartri svipu. ég mala kaffið. hringiða kvarnarinnar breytir svörtum baununum í mjúkt duft sem litar sjóðandi vatnið og leysir úr læðingi djúpan ilm. 

það er hægt að breyta hörku í mýkt,

hugsa ég og opna eldhússkápinn í leit að skál undir ilminn. líkast til er hreyfingin of hröð og kraftmikil og ég ekki með athyglina við það sem ég geri því hurðin opnast á nefbroddinn á mér svo bein og brjósk kveinka sér. eitthvað lekur niður á efri vörina. dimmrauður dropi fellur á hvíta borðplötuna og annar í kjölfarið og þannig áfram þar til ég næ að koma rifrildi af eldhúsbréfi fyrir í flóðgáttinni og loka fyrir strauminn. það var þá dagurinn til að láta sér blæða. ég kími með sjálfri mér og læt vatn flæða úr krananum í lófann og skola burt blóðinu með þremur blautum strokum. 

wade in the water. wade in the water, children, wade in the water.
god´s gonna trouble the water.

ég drekk kaffið og ekkert dregur úr bláma himinsins. ef áfram heldur sem horfir verð ég komin undir bert loft áður en ég veit af. á stofugólfinu liggja tveir svartir hundar. annar er minn eiginn, sá sem ber hvítan krans um hálsinn, hinn er gestkomandi yfir hátíðirnar og ekki mönnum sinnandi af söknuði eftir húsbændum sínum. 

munurinn á hundi og manni er sá að hundur veit hvers hann saknar

þessi setning kemur til mín þegar ég skil skurnina frá egginu og sker það í tvennt svo gul rauðan blasir við í hvítum belgnum. ég sáldra salti í sárið og mala piparinn. svört kornin gefa frá sér lágværa bresti þegar ég krem þau í mortelinu með hringlaga hreyfingu sem smám saman verður hraðari og átakaminni eftir því sem svarti mulningurinn í litlu myllunni í hendi mér verður duftkenndari og ljósari eins og mold eftir óvenju langt og þurrt sumar. eitthvað þyrlast upp og kitlar mig í aumt nefið. þó mér finnist ég hafa lesið það einhvers staðar að í sumum menningarsamfélögum boði það ógæfu að bæla niður hnerra kæfi ég litlu sprenginguna í fæðingu af ótta við að opna aftur fyrir flóðið. eitt rautt haf er nægur dagskammtur að kljúfa fyrir konu sem er ekki með fullan nætursvefn í taugakerfinu og þarf á því að halda að komast út að hlaða það ljósi. eitt sinn spurði ég dáleiðarann minn, 

er hægt að læra að láta sig sofna?

og hún svaraði, 

já. en maður verður að vilja sofna.

þetta var ekki svarið sem ég vonaðist eftir. samt veit ég ekki eftir hverju ég vonaðist. sjálfsagt einhverju sem hlutaðist ekki um vilja minn. flesta daga veit ég ekki vel hvað ég vil sjálfri mér. fjórtándi apríl. það er eitthvað fallegt við dagsetninguna. setning dagsins. hátíðarsetning. jarðsetning. apríl er fegursta mánaðarheitið. og fjórtán er fallegasta talan. tvisvar sinnum sjö – sá tími sem það hefði tekið guð að skapa heiminn og eyða honum svo í öfugri röð. byrja á manninum. og enda á að slökkva ljósin á eftir sér. finna sér nýtt áhugamál. fyrir utan gluggann fara kettirnir í hverfinu í eltingarleik, grunlausir um að í dag megi ekki gera að gamni sínu. ég strái pipar yfir eggið, svartar stjörnur yfir gula sól, og borða það í fjórum bitum. klára svart kaffið og klæði mig í skóna. kem mér út um dyrnar og inn í bláan og gulan daginn með tvo svarta hunda. og loka á eftir mér.    

miðvikudagur, 12. apríl 2017

í hinu kollektíva samhengi

einhver andskotans heimspekingur (örugglega susan sontag) sagði eitthvað á þá leið að það hvernig við eyðum dögunum verði óhjákvæmilega að því hvernig við eyðum lífinu (pottþétt susan sontag, þetta hljómar nákvæmlega eins og eitthvað sem hún hefði sagt ... eða hannah arendt, þessar stelpur eyddu dögunum – og þar með lífinu – í að segja allt mögulegt óþægilegt fyrir okkur hin). og þá verður maður víst að spyrja sig: „verð ég ánægð með það á dánarbeðinu að hafa eytt dögunum – og þar með lífinu – í sundferðir og göngutúra?“ ég geri ekki ráð fyrir að ég yrði beinlínis óánægð með þann lífsferil en ég efa að hann dygði til (... til hvers?). vandinn er bara sá að á meðan að á þeim stendur, göngutúrunum og sundferðunum, hvarflar ekki að manni að neitt gæti verið ákjósanlegri nýting á þessum takmarkaða tíma sem maður hefur úr að spila. því fer sem fer. dag eftir dag. ég er fjörutíu og eins árs. á hverjum morgni horfi ég á hendur mínar og minni mig á þessa einföldu staðreynd. í höfðinu hef ég skrifað uppsagnarbréf til ákveðinna afla í lífi mínu. en aðeins í höfðinu. ekki með höndunum. samt horfi ég á hendurnar á mér hvern morgun. og minni mig á safn daganna. stöðuna á almanakinu. og það smáa sem allir hlutir eru að endingu gerðir úr. bilið á milli þeirra þarf að fylla af ást. og stíga öðru hverju eitt skref til baka. fyrir heildarmyndina. í henni liggur merkingin. sú sem að endingu dugar til. 

mánudagur, 3. apríl 2017

í sem stystu máli


framleiðsla orða það sem af er dagsins er neikvæð tala – ég þurrka út fremur en að slá inn. setti þar á ofan of mikið súraldin á blómkálið. borðaði samt yfir mig. ég er lasin. ég finn ekki hálstöflurnar. og einhver hefur klárað hunangið.

sunnudagur, 2. apríl 2017

sjónaukinn er kviksjá sem snýst. snýst snýst of hægt. hægt hægt og allt flýgur hjá.


þokubakkinn sem hefur legið yfir framheilasvæðinu frá því í gær er enn á sínum stað og virðist reyndar, ef eitthvað er, hafa þykknað töluvert. ég man ekkert, lýk engu og finn ekki út úr einföldustu reikningsdæmum. í gærkvöldi, þar sem ég sat í gufumekkinum í heitapottinum og hvíldi auma lærvöðvana í fjörutíuogtveggja gráðu heitu vatninu, gerði ég það að gamni mínu, eins og fólk gerir, að hlýða mér yfir margföldunartöfluna. ég strandaði strax á þrisvar sinnum níu. suma daga blasir það skýrar við en aðra hversu nákvæmar þær eru, niðurstöður mínar til margra ára, þær sem ég hef gert hvað ég get til að hnekkja en ekkert orðið ágengt: 

ég er aðeins líkami. ég kann ekki að hugsa.     

en það líður að páskum. ég held mér í það hálmstrá. upprisan og það allt. annað tækifæri. ef vel er að gáð er almanakið yfirfullt af áramótum. og ég verð að breyta lífi mínu. það stendur skýrum stöfum á kápu bókarinnar sem barst mér í pósti í upphafi vikunnar og ég hef vart getað slitið mig frá nema rétt á meðan ég bregð mér í vinnuna.

you must change your life. 

þetta er ekki sjálfshjálparbók. nema maður skilgreini bækur um ævi og sambönd listamanna sem sjálfshjálparbækur. sem ég reyndar geri þegar ég hugsa út í það. og þetta er frábær bók. rodin, rilke og parís um aldamótin 1900. er hægt að hugsa sér betri remedíu við lífsleiða? ég graðga í mig hverri blaðsíðunni af annarri og spyr sjálfa mig til skiptis „hvernig í andskotanum dró þetta fólk fram lífið?“ og „hvernig fóru þessir menn að því að halda sköpunarþrekinu þegar þeir mættu engu nema höfnun?“. ég hef tilhneigingu til að dást að fólki sem þrjóskast áfram með vindinn í fangið sama hvað það kostar. jafnvel þótt það þýði almennar óvinsældir. og að þurfa að ganga í skelfilega ljótum fötum. ég ætti kannski ekki svo erfitt með að afbera óvinsældirnar en mig flökrar við tilhugsunina um að vera illa til fara. húðin á mér er ekki gerð fyrir léleg efni. ég strýk yfir kollinn á refnum og verður hugsað til sögunnar um asnann sem var þeim eiginleika gæddur að peningum rigndi út um eyrun á honum ef togað var í þau. ekki það að ég myndi skipta refnum út fyrir þennan asna. ég er ekki sálarlaus kapítalisti þó mér þyki silkiblöndur þægilegar. ég er bara að segja að fyrir fólk eins og mig sem hefði ekkert á móti því að „geta um frjálst höfuð strokið“ í hinum veraldlega skilningi kæmi sér ekki illa að hafa slíkt dýr á húsi. að vísu veit ég ekki hvar ég kæmi honum fyrir ... nema kannski helst á pallinum. en maður á auðvitað ekki að tala á svo efnislegum nótum. það er plebbaskapur.

great minds discuss ideas    

svo ég vitni í eleanor roosevelt og geri mér um leið fulla grein fyrir því að þessi fjáröflunarhugmynd um asnann telst ekki með. hún er of lágkúrurleg. ég skrifa stöðugt hægar og hægar. meðalafköst nema líklega um tuttugu orðum á dag. ég get ekki séð í hvaða samhengi það gæti talist gott dagsverk. meira að segja ég er að hugsa um að reka mig. eða setja mig á ritalín. ég er búin að prófa allt annað. þegar ég sný augunum inná við að gangverki hugans og virði tannhjólin og færiböndin fyrir mér þar sem þau erfiða við að snúast, sokkin til hálfs í seigfljótandi sýrópslög sem allt festist í, vitneskjan um aðgerðaleysi handa minna og eilíft suð hins daglega brauðs, verða ástæður þess að mér miðar ósýnilega við að breyta lífi mínu allt að því óbærilega augljósar. hljóð og mynd fara ekki saman. og þó vélbúnaðurinn hafi verið uppfærður að stórum hluta hefur húsverðinum ekki tekist að loka fyrir sýrópslekann. ég hef mínar efasemdir um þann aðili. það er í honum spillikattargen. og hann sefur í vinnunni.