laugardagur, 18. mars 2017

nótur, minnispunktar, augnabliksstef


ég geng út úr vínbúðinni með flösku af lífrænu rauðvíni í bréfpoka. eins og alltaf þegar ég reyni að koma mér á milli staða í mannmergð finnst mér eins og ég fari gegn straumi sama í hvaða átt ég ákveð að miða för minni. það leynir sér ekki að gestir litla verslunarkjarnans hafa sammælst um að nýta sér suðurinnganginn á leiðinni út. ég aftur á móti hef tekið stefnuna á þann sem veit í norður og í átt að heimili mínu þangað sem ég hyggst koma bæði sjálfri mér og fyrrnefndri flösku og þá helst hvoru tveggja í heilu lagi sé það á annað borð möguleiki. ég ýti til innkaupakerrum og smeygi mér framhjá eftirmiðdagsfjöldanum eins og skelkaður hryggleysingi í leit að öruggu skjóli. fólki virðist töluvert í mun að æða í fangið á mér. sú tilfinning er ekki gagnkvæm. fyrir vikið léttir mér ósegjanlega þegar sjálfvirka glerhurðin opnast eins og rauða hafið forðum og það eina sem verður fyrir mér er svalt loftið og hverfulir skúlptúrar snjómoksturstækjanna, síbreytilegir í umhleypingunum. ég stíg í poll af eintómum grallaraskap og gleði yfir vel heppnaðri undankomu en sú tilfinning nær þó aldrei almennilega að hreiðra um sig því mér verður hálf illt við þegar ég skyndilega átta mig á að ég held á flöskunni eins og ungabarni. hvaða ályktanir á ég að draga af svona nokkru? það er ekki vínið sem ég hef áhyggjur af. ég drekk mjög lítið. heldur hitt. að ég get ekki hugsað mér að eiga fleiri börn ... 

þú verður að breyta lífi þínu

(á rodin að hafa sagt við rilke. klassík.)

ég hef haldið því fram að sá einn þekki laun erfiðisins sem skorið hefur hjartað úr hráum ætiþistli með bitlausum hníf og smjörsteikt það á pönnu ásamt sveppum og hvítlauk. þetta er auðvitað töluvert hástemmd fullyrðing. enda neyðist ég til að éta hana ofan í mig (bókstaflega) þegar ég, stuttu eftir heimkomuna, veiði slíkt hjarta upp úr krukku merktri þekktum breskum sjónvarpskokki og get ekki annað en jánkað því að það hafi verið fyrirhafnarinnar virði að skrúfa af henni lokið. ég virði fyrir mér krukkuna. búlduleiti kokkurinn brosir vingjarlega við mér og einhvern veginn líður mér eins og ég hafi orðið undir í mínu eigin eldhúsi. ég sem svo hiklaust tel mér þá sérvisku til tekna að ég sækji helst alltaf vatnið yfir lækinn. enn ein ástæðan til að hafa horn í síðu bresku þjóðarinnar. það fólk og þeirra vonda te! ég breiði úr hjartanu á hrjúfu yfirborði hrökkkexins og legg nokkrar sneiðar af lárperu ofan á það. stökkt kexið hrekkur í sundur þegar ég bít í og á meðan ég hlusta á fræin molna milli tannanna horfi ég út um eldhúsgluggann á svart grjótið í hvítskellóttri hlíðinni og um stund finnst mér sem ég gangi þar um og heyri smágrýti og steinvölur skreppa undan skósólanum. tevatnið sýður. ég vel poka úr sólgula pakkanum og er skyndilega stödd á kryddmarkaði á austrænum slóðum. kraftmikil engiferrótin æðir upp ennisholurnar og bleiku nellikkurnar springa eins og flugeldar upp úr vasanum á eldhúsborðinu um leið og dregur frá sólu og pappírsfönixinn í glugganum fuðrar upp og verður nýr. í útvarpinu glymur klukkan  

það eitt skiptir máli að taka eftir

(... hinu smáa, á ég þá við.)