ég hef staðið mig að því að dást að gráma himinsins. ég veit ekki hvað er hlaupið í mig. það er ekki eins og ég sé ástfangin. nema af refnum auðvitað – óþarfi að yrða hið augljósa. en þetta er engu að síður staðreynd. ég þræði gangstéttar bæjarins, þaktar sandi eftir að árstíðirnar ákváðu sér til gamans að rugla í götusópurum og gangandi og skipta um stað á tímalínu almanaksins, og án þess að ég leggi mig sérstaklega eftir því get ég ekki annað en veitt því athygli hvað skýin eru skemmtileg svona löt og þung á sér, liggjandi eins og feitabollur langleiðina niður hlíðar esjunnar eins og þau séu við það að gefast upp fyrir eigin þunga og aðdráttarafli jarðar. ég stoppa og stend eins og flamingói á einum fæti á meðan ég tæmi úr grjótnámunni sem hefur myndast í gúmmískónum svo úr verður lítill hraukur á gljáandi blautu malbikinu. fugl nýtir tækifærið og hoppar þvert yfir stéttina beint fyrir framan nefið á mér. allt er á leiðinni eitthvert. allir í sínu. mér verður hugsað til fuglsins sem ég geymi í búri heima í stofu. ég held að anton sé að fitna. hann gerir ekkert annað en hanga inni hjá sér og graðga í sig hirsi og fræblöndum. hann tvístígur reyndar öðru hvoru ört þarna á prikinu sínu, eins og í veikri viðleitni til að láta líta svo út að hann stundi einhvers konar hreyfingu en það er engin leið að draga yfir það nokkra fjöður að þetta vapp er bara til málamynda. ... einhvern veginn hafði aldrei hvarflað að mér að fuglar gætu verið latir. mér virðist þó sem svo geti verið. það er sem ég segi; maður lifir til að læra. og – sé ég spurð – til að hreyfast. mér helst ekkert á þessu litla holdi sem ég hef úr að spila. það gufar upp af beinum mínum eins og vatn úr undirskál sem skilin er eftir á sólbekk á heitum degi. „ég gæti þurft að bæta meira af majónesi í mataræðið“, hugsaði ég í morgun þegar ég dró náttkjólinn yfir höfuðið og bringubeinin blöstu við í speglinum; litlir hillurekkar í brjóstinu undir ýmislegt smálegt; krukku fulla af gráti lítillar stelpu í of stórum stígvélum, bréfasafn bundið saman með bláum borða, slitinn gítarstreng. ég get horft á þetta án þess að finna til sorgar. samt get ég fundið til.
„attention needs empathy. otherwise it´s just reporting.“
(mary oliver)
túlípanarnir á eldhúsborðinu hafa sveigt hálsana en höfuð þeirra eru enn reist og vakandi, andlitin opin. silkikennd áferðin á djúpbleikum blöðunum sendir mig inn í dyngjur þúsund og einnar nætur þar sem ástir enda með hörmungum og hár kvenna er vopn á pari við óslíðrað bjúgsverð. tevatnið síður. lyktin af lakkrísrótinni stígur upp úr bollanum og mér finnst ég þurfa að þurrka þrisvar yfir borðið og raða kertastjökunum í beina línu við æðarnar í viðnum. samúræji hins stífa ritúals er óþarflega framarlega í verunni eins og er. og eins og hann er ágætur þá fæðir hann fátt nýtt af sér. hann viðheldur. á þessu tvennu er reginmunur. ég þyrfti að koma honum í heimilisbókhaldið. en einhvern veginn hefur hann ekki áhuga á slíkum störfum. agi hans lítur aðeins hinu fagurfræðilega. þegar ég kortlegg mitt innra líf og rýni í partana sem það er samansett úr tek ég fyrst af öllu eftir því að enginn þeirra getur talist sérlega sparsamur, hagsýnn eða hallur undir rúmfatalagerinn. ekki einu sinni þegar kemur að því að versla dýnu handa refnum. þetta er eiginlega óþægilega áberandi. þeim hugnast betur að dvelja í þúsund og einni nótt. nú eða pétursborg önnu kareninu þar sem loðfeldirnir liggja hvarvetna svo maður megi teygja sig eftir þeim og sveipa um sig með þóttafullri hreyfingu. ég er hætt að reyna að tala um fyrir þeim. let it be. það er sem það er. og það sem er er. svo einfalt er það. ég stend ekki í þessum handalögmálum meir. himininn er svo fallega grár. og allt er á leiðinni eitthvert.