ég stend mig að því að vera farin að miðjusetja meira og minna alla hluti á heimilinu. hingað til hef ég frekar hallast að því að vinna með þríhyrningsformið og mynda litlar þriggja eininga þyrpingar innbyrðis ólíkra hluta sem aðeins kallast á að litlu leyti í lögun og lit, en ég er eitthvað svo to the point á nýja árinu að ég færist sífellt nær hugmyndinni um the centerpiece eins og það kallast svo skemmtilega á engilsaxnesku – og ég finn sem stendur enga almennilega þýðingu á ... þið heyrið að húsamúsin slær hvergi slöku við. ég veit ekki hvernig þetta verður þegar baðherbergið verður tilbúið og ég fæ heilt herbergi í viðbót undir pottaplöntur og kertastjaka. ég er að hugsa um að fá mér stóran fígus í sturtubotninn. jafnvel þó rýmið sé gluggalaust. ég skutla honum bara reglulega fram á gang til að ljóstillífa og öðru hvoru út á pall að draga andann þegar vorar. það er eitthvað svo exótískt og endurnærandi við stórar plöntur í nálægð við rennandi vatn. maður hreinlega tilflyst um nokkrar breiddargráður. það er ljóst að ég verð að gera alvöru úr þessu. ég hef verið hertekin af hugmynd; hættulegasta fyrirbæri veraldar! nú sef ég ekki fyrr en þetta er orðið að veruleika. þetta nær engri átt hvað daginn lengir. ég kveikti á kertunum þegar við refurinn komum heim eftir síðdegisgönguna upp úr fimm, vel að merkja í fullri dagsbirtu, og það er fyrst núna, klukkustund síðar, sem skuggamyndirnar eru að byrja að læðast upp veggina. ég helli rauðvíni í glas og tek mér andartak í að íhuga lánsemi mína. í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég geta sagt að þetta geti ekki annað en farið sérlega vel. mér liggur við að segja að ég sé hreinlega dæmd til góðs gengis. í það minnsta miða ég ör minni skýrt í þá átt. í stóru sem smáu. en aðallega í því að skrifa þessa bók. í augnablikinu liggja einhverjir kaflar á víð og dreif í skjalahirslum tölvunnar minnar eins og afhoggnir limir lífvana líkama, hver á sínum krók í kjötvinnslustöðinni, og ég veit satt að segja ekkert hvað ég á að gera í málinu. en það hlýtur að skýrast. eins og allt hlýtur að skýrast.
unravel
klippti ég út úr gömlu tímariti á áramótunum og kom fyrir á draumaspjaldinu í grennd við annað orð,
poem.
unravel.
birstu mér.
þetta kemur
í ljós. öllu vindur
fram.
líkt og rennandi vatni og tíma og söng fugla.
öllu vindur fram.
að hinni einu
mögulegu
miðju.