fimmtudagur, 21. apríl 2016

skil – vetur/sumar/líf/dauði (– brothljóð)



það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna og sest upp í rúminu er að stinga nefinu í hálsakotið á hundinum. lyktin af honum er mildasta leiðin inn í daginn. við föðmumst nokkra stund áður en ég tek endanlega ákvörðun um að fara á fætur og smeygi mér í mjúka, bláa bómullarbolinn yfir náttkjólinn. núorðið þarf ég yfirleitt ekki að fara í ullarsokkana. það vorar. morgnarnir eru undurbjartir. ég tipla berfætt út á pallinn til að hleypa hundinum út í garð og hristi höfuðið þegar hann biðlar til mín með augunum að koma með. hann biður mig þessarar sömu bónar á hverjum degi. ég hristi alltaf höfuðið. en á morgun mun hann samt reyna aftur. af því vonin er rammasta taugin. hvort sá sem vonar er maður eða hundur gildir einu. ég blanda sítrónuvatnið og drekk það í einum teyg með hörfræolíunni áður en ég strýk yfir gólfið og kalla á hundinn að láta kött nágrannans í friði. úr hátölurunum heyri ég tom waits halda því lágstemmt fram að ekkert geti haldið aftur af vorinu. eitthvað í laglínunni vekur með mér þá tilfinningu að hann sé að tala um eitthvað meira en venjuleg árstíðarskipti. og að það tengist að einhverju leyti því sem ég var að segja um vonina. ég get ekki gert upp við mig hvort ég eigi að vera honum sammála. stundum er eins og tilveran sé úr örþunnu gleri. ég greiði svefnflókann úr hárinu með fingrunum og borða bát af appelsínu með járnmixtúrunni samkvæmt læknisráði. appelsína og járn ganga víst sérstaklega vel í efnasamband í líkamanum. ég hef ákveðið að ástæðan sé sú að járnið leysist samstundis upp í ljósinu frá appelsínunni, sem líka nefnist glóaldin, og streymi þannig mun hraðar en ella út í blóðrásina. ég hef ekkert fyrir mér í þessu. en mér finnst skýringin sennileg. einföld og eðlileg. jafn einföld og eðlileg og sú staðreynd að mér þykja appelsínur góðar og að það veitir mér hugarró að strjúka yfir gólfið fyrir morgunmat. út um eldhúsgluggann merki ég breytingar á öspunum. þær eru næstum ósýnilegar auganu en ég greini þær samt. tom virðist vera að segja satt. ég verð að hætta að efast um alla hluti. það stíflar orkuflæðið. þess vegna er ég alltaf þreytt. þrátt fyrir birtuna og járnið og appelsínurnar ... nákvæmlega núna, núna á meðan ég horfði út um eldhúsgluggann, niðursokkin í hugsanir um mitt eigið magnleysi, flaug þrastapar á rúðuna með háum skelli ... ég ætla að skrifa þetta aftur ... það flaug þrastapar á eldhúsgluggann rétt í þessu, ekki einn þröstur, heldur tveir. par. kannski hjón. þau liggja þarna á pallinum mínum. innan um allt rotnaða laufið sem ég ætlaði að grafa í dag. tveir snúnir hálsar. blóðugur goggur. krepptir fætur. skyndilega hefur dagurinn breytt um tón. að grafa rotnað lauf er eitt. að grafa spörfugla er örlítið annað. mig langar ekki að skrifa neitt meira. það er sem ég segi. stundum er tilveran lítið annað en örþunnt gler.    

föstudagur, 15. apríl 2016

að gefa kosmosinu það sem því ber.



þrá

leita að berjum á bjargbrún
svimandi hæð

kyngi lofthræðslunni og læt
eftir mér að
horfa á þig

hugsa um ber og bragð
þegar þú setur tunguna í
munnvikið

koss
berjakoss og bragð
af safa

mig langar stöðugt
ekki stundum
stöðugt

móki á brúninni
hálfrænulaus af ást
hlustin sprungin

raddbylgjan skellur á húðinni
og viljinn gefur sig
                   eins og sölnað sprek

föstudagur, 1. apríl 2016

sá sem snýr höfði til sólar ...

mig langaði til að smíða minn eigin málshátt til að kyrja yfir eggjunum. hann hefur ekki skilað sér. en ég er vongóð. brátt lýkur þessum degi. ég óttast að ég hafi aðhafst fátt sem máli skiptir. bæði í stóra samhenginu og því persónulega. sem kannski er eitt og hið sama þegar allt kemur til alls. í dag tók ég saman páskaskrautið. gulu túlípanarnir standa ennþá upp úr vasanum á eldhúsborðinu eins og niðurlútir logar með græna vængi. það veldur mér ekki teljandi leiða. úti magnast birtan. á morgun byrja ég upp á nýtt. autt blað. önnur tilraun. til að vænta og örvænta. vonandi í nokkuð jöfnum hlutföllum.