sunnudagur, 31. janúar 2016

við opnum á ný eftir að hafa endurinnréttað (samt ennþá meðvituð um dauðleikann).

vill fólk tjá sig um nýja lúkkið? ég var búin að hugsa þetta lengi og ákvað bara að hætta því. þ.e. að hugsa um þetta. hvað á heimurinn svo sem að gera við það að ég hugsi? og þar fyrir utan er eitthvað undarlegt við það að kona sem getur ekki farið í sömu fötin tvo daga í röð skrifi blogg í ellefu ár sem aldrei breytir svip – sér í lagi ef við athugum að sú kona er einhver allt önnur kona í dag en hún var fyrir ellefu árum. mér finnst þetta hreinsandi. hressandi. það er aðeins sólarhringur í að ég geti sagst hafa lifað janúar af. ég er töluvert bjartsýn á að þetta hafist. en ég er samt að reyna að lifa fallega. ekki bara lifa af. lifa ljóðinu. vera ljóðið. og þó það hendi að ég fleyti kellingar á yfirborði daganna er ég ekkert svo leið yfir því. það getur líka verið fegurð í yfirborðinu. líf sem botnfiskur er krefjandi og leiðigjarnt til lengdar og maður öðlast ekkert endilega nætursjón við það að svamla um í eigin djúpsálarmyrkri. fiskar breytast ekki bara sisvona í ketti. en í einstaka munnmælasögum geta botnfiskar breyst í flugfiska við ákveðin skilyrði. ég veit þetta af því ég samdi þessar sögur sjálf og lak þeim til réttra aðila. stundum þarf maður sjálfur að taka ábyrgð á því að koma hreyfingu á kosmosið. ég hita mitt te. vel þrjár feitar döðlur úr pappaöskjunni í ísskápnum og legg á munnþurrku á borðinu. sest í stólinn minn. ég sit alltaf í sama stólnum. hinir þrír standa auðir nema í þessi fáu skipti sem við barnið borðum kvöldverð með gamla laginu (saman við eldhúsborðið upp úr sjö). nýlega horfði ég á fyrirlestur um víðtækustu rannsókn sem gerð hefur verið á því hvað veiti fólki hamingju í lífinu. niðurstöðurnar eru fremur afdráttarlausar. og niðurdrepandi fyrir mig. það sem spilar stærstu rulluna í hamingju fólks og heilbrigði er að vera í ástríku hjónabandi. ég er að hugsa um að byrja bara að reykja. drekka hálfa rauðvín á dag og fá mér cava með morgunmatnum. og borða smjör í öll mál. ein. horfa á auðu stólana mína á meðan ég skenki mér í glasið og dreg ætandi lofttegundirnar djúpt ofan í lungun hugsandi með mér að hvað svo sem einhverjir amerískir prófessorar þykist vita þá sé því eins farið með stóla og rúm; þeir eru betri auðir en illa skipaðir.   

mánudagur, 25. janúar 2016

þegar bókstaflega allt verður táknrænt.

mér finnst þetta brjálæðislega falleg mynd. en kannski langar mig bara svona mikið í kærasta.

sunnudagur, 24. janúar 2016

óskýrir drættir (ekki í erótískum skilningi)

ef vatnið sýður ekki getur hjálpað að kveikja á hellunni. ég reyndi þetta ráð sjálf í morgun og það virkaði. svo mér þótti rétt að deila því. ég á í einhverju brasi með uppáhellingarnar á þessum niðdimmu janúarmorgnum – hvað svo sem getur valdið því. eftir þrjár klukkustundir verður þessi sunnudagur liðinn. um fjörutíu prósentum af honum varði ég í frágang á flokkuðu sorpi og í að endurskipuleggja fataskápinn í þeim tilgangi að ná fram tilfinningu fyrir tærleika. skapa skýrari mynd. mér líður betur þegar ég raða hlutum ... þessi setning hefur einhvern annarlegan undirtón ... eins og eitthvað stórkostlegt ami að mér – sem er ekki endilega tilfellið þótt það hendi mig reglulega í athöfnum daglegs lífs að ég staldra við, lít upp og minni mig á að nú sé ég komin hættulega nálægt persónu jacks nicholsons í as good as it gets. og þegar það hendir að einmitt þessi lína, sem kvikmyndin dregur titil sinn af, ómar í höfðinu á mér – eins og ég sé að mæma hinn vitfirrta á hans örvæntingarfyllsta augnbliki– þá er ljóst að grípa þarf til rótækari íhlutunar en að raða í hillur. mér gengur hörmulega að byrja að hugleiða aftur. það sést. alla vega ef fólk kíkti inní kollinn á mér. þar ríkir óreiðan ein. ekki nokkur maður að raða eða ganga frá eftir sig. ég þyrftu að ráða húshjálp í höfuðið á mér. þau heimilisstörf eru handan minnar getu. þannig að ég auglýsi. hæfniskröfur: léttlyndi og góð jarðtenging. framúrskarandi athyglisgáfa og verkvilji. þarf að geta unnið undir pressu og má alls ekki vera eða gera neitt sem er abstrakt. opið fyrir umsóknir nú þegar. laun: ánægjan yfir því að samanburðurinn er alltaf þér í hag.    

fimmtudagur, 14. janúar 2016

vertu ljóðið

í dag hef ég valhoppað af barnslegri kæti. í dag hef ég hrópað af fögnuði. í dag fylgdist ég með hádegissólinni skerpa á fegurð ískristalla. í dag hafa mér verið boðuð hamingjutíðindi. þau bárust mér símleiðis. í dag hefur mér verið trúað fyrir leyndarmáli. í dag hef ég heyrt ískra í hjörum bjartsýninnar. í dag hef ég hermt allt það besta upp á lífið. í dag hef ég hugsað mér að endurtaka þetta allt á morgun. en núna opna ég freyðivínið.   

fimmtudagur, 7. janúar 2016

vertu ljósið

það er janúar á íslandi og ég má hafa mig alla við svo vindurinn sópi ekki undan mér fótunum. í dag var mér synjað um listamannalaun. ég tók því merkilega vel. í stundarkorn fannst mér eins og skörðótt flís vætt blásýru stingist í gegnum hjartað í mér en svo gekk hún sársaukalaust beint út um bakið. ég var orðin vinnufær á innan við fimm mínútum. eftir því sem vindinn herti þegar leið á daginn gerði skap mitt ekkert nema stillast enn frekar og upp úr sjö í kvöld, á meðan ég eltist við sundfötin mín um útiklefann þveran og endilangan, var ég komin á þann stað að sjá þetta sem teikn um eitthvað stórkostulegt sem óhjákvæmilega sé í aðsigi; úniversið leitast við að halda jafnvægi á hlutunum; neii í dag verður að fylgja já einhvern annan dag. þannig að það hlýtur til dæmis bara að vera tímaspursmál hvenær ég vinni í deluxe ástarlottóinu. nú eða bara happdrætti háskólans. mig hlakkar til.

þriðjudagur, 5. janúar 2016

to do listi 2016

1. skrifa
2. hugleiða
3. finna góðan, fyndinn, áhugaverðan og fallegan kærasta
4. fara í myndlistarnám
5. læra meiri ítölsku
6. þykja vænt um sjálfa mig
7. elda mat
8. hætta í vinnunni
9. ferðast
10. lesa

þó maður strengi ekki áramótaheit og hafi tendens til að verða að engu gagnvart því risavaxna verkefni að hefja enn eitt árið í baráttunni við sjálfan sig er ekki þar með sagt að maður sé fullkomlega stefnulaust rekald í eigin lífi. 

mánudagur, 4. janúar 2016

married to music

ég ætlaði að henda hér inn einhverju mjög djörfu. einhverju um að taka stökk og kveikja í öllu sem fyrir verður. en svo tók ég mér tak. ég er að reyna að byrja að hugleiða aftur. ef ég hægi ekki á hausnum á mér endar þetta með einni af þessum dularfullu sjálfsíkveikjum. í dag gerðist dáldið dásamlegt. ég brá mér til höfuðborgarinnar í þeim tilgangi að skipta jólagjöf, vínylplötu sem svo vildi til að ég átti fyrir á disk. ég hafði hugsað mér að skipta henni í eitthvað annað með sama listamanni enda mússíkant af magnaðasta kalíberi og mikið uppáhald í minni sál. planið var því að stoppa stutt við í plötubúðinni og hraða mér heim aftur með nýja dótið mitt spriklandi af gleði. en í plötubúðinni  gerðist einfalt mál skyndilega flókið. það er bara of mikið til af góðri mússík í heiminum. ég engdist þarna um rekkana, sá stöðugt eitthvað nýtt sem virtist sérlega útgefið fyrir mig og mig eina og ég beinlínis yrði að eignast ef ég á annað borð ætlaði að halda áfram að draga andann í dag. ási afgreiðslumaður hafði vit á að skipta sér ekki af. að lokum stóð ég uppi með hundrað kíló í hvorri hönd; tvöföld albúm með tveim sem hvor um sig hampar titlinu the million dollar throat, chet baker og elvis. og af því ég er í einu af mínum frægu peningabindindum (ég ætlaði aldrei að ná að stafsetja þetta rétt) mátti ég ekki bara kaupa bæði. sem jafnan væri mín lausn. og nú ómar chet baker hér um stofuna, þetta yndi sem hann er, með sína andrógenísku rödd og dúnmjúka blástur. ekki svo að skilja að elvis hafi verið sigraður. aldrei, gott fólk, aldrei. en ég fékk fádæma frábært albúm með elvis í jólagjöf, moody blue, sem hefur snúist linnulaust á fóninum hér í stofunni frá því það kom í hús og ég vildi ekki etja manninum út í samkeppni við sjálfan sig. og chet fer svo fallega í plötubúnkanum að elvis bara getur ekki annað en verið hress með mig. and time after time you'll hear me say that i'm so lucky to be loving you.

sunnudagur, 3. janúar 2016

ég gleymdi að segja gleðilegt ár – and now for something completely different


hélt ég uppá áramótin? já. sprengdi ég sprengju? já. mátti þá minnstu muna að slys yrðu á fólki og tjón á eignum? já. strengdi ég áramótaheit? nei. og nú að öðru. við flutningana hreinsaði ég svo úr bókahillunum að fólk þyrfti að fara aftur til þýskalands nasismans til að finna því fordæmi. þetta var beinlínis ofbeldisfull aðgerð. stundum fæ ég bakþanka (var rétt af mér að láta x.x.x flakka?). en ég varast að hleypa mér of langt í slíkum vangaveltum. þaðan er of stutt yfir í að ég viti næst af mér í góða hirðinum að prútta um kaup á pappír sem ég fyrir örskotsstundu hafði töluvert fyrir að losa mig við (hvað það væri hallærislegt! og einmitt eitthvað sem mér væri trúandi til). en í raun sé ég ekki eftir neinu. ég veit ég hefði aldrei opnað þessar bækur framar. sambönd manns við höfunda eru lítt frábrugðin öðrum ástarsamböndum; þau lifa ekki öll af ferðina inní sólarlagið. inngönguskilyrðin í nýju bókahillurnar voru ekki samin svo þangað mætti smeygja sér bakdyramegin. algjör elítismi væri mögulega viðeigandi orðasamband í þessu samhengi. nú í vikunni var einmitt viðtal í útvarpinu við einn af höfundunum sem ég, þrátt fyrir nokkuð löng og að mestu ánæguleg kynni, sendi til fremur kuldalegrar vistar í pappakassa merktum bandarískum niðursuðuvörum og kom fyrir í skítugum gámi innan um sjúskuð skópör og ólýsanlega ljóta lampaskerma. ég lá hérna í konunglega bláa sófanum mínum þaðan sem ég horfi beint „í andlitið“ á bókahillunni og drakk mitt undursamlega kaffi þegar annar umsjónarmanna eftirlætis útvarpsþáttarins míns tilkynnti að nú hæfist viðtal við téðan höfund. mér þótti þetta óþægilegt. að heyra manninn tala af innlifun um skáldskapinn sinn vitandi af þessum sama skáldskap í fremur óvirðulegum aðstæðum dró dáldið úr ánægjunni sem ég vanalega upplifi yfir kaffi og útvarpi. sérstaklega þar sem maðurinn er samsveitungur minn og við sækjum sömu líkamsræktarstöð. ég get því þá og þegar átt von á að ramba í fangið á honum óforvarendis. ég held ég muni aldrei losna við þá tilfinningu að ég hafi gert manninum eitthvað. jafnvel þó hann sjálfur sé þess algörlega grunlaus. sem betur fer. þetta er fínasti náungi. og nú að enn öðru (þessu algjörlega óskildu). um það bil það eina sem angrar mig á nýja heimilinu er loftræstirörið á baðherberginu. þetta er kannski ekki nógu nákvæmt orðalag. það er ekki beinlínis rörið sjálft sem er mér til ama heldur lyktin sem berst um það frá nærliggjandi íbúðum og veitir mér fullmiklar upplýsingar um hversdagsathafnir nágranna minna. í augnablikinu leggur svo sterkan ilm af mýkingarefni hér inn í eldhúsið að sú staðreynd að ég eigi ekki þvottavél virðist með öllu ótrúleg ef ekki hreinlega lygileg. ég veit ekki hvort mér tekst að festa svefn í nótt með öll þessi lofnarblóm í vitunum. þetta er samt ekki alltaf svona gott. baðherbergisathafnir nágranna minna einskorðast ekki við þvott á taui. því miður. ég ætla ekki að ræða þetta frekar. á morgun ber mér að mæta til vinnu. að því tilefni opnaði ég rauðvínsflösku af dýrustu sort í kvöld. þetta er það sem í mínu fagi er nefnt mótþróaþrjóskuröskun og birtist með margvíslegum hætti í allri minni framgöngu í ytri veruleikanum. til dæmis í einbeittum ásetningi í að stimpla mig alltaf einni mínútu of seint inn á morgnana. það tel ég alveg passlega óhlýðið. akkúrat temmilegt.       

laugardagur, 2. janúar 2016

óðurinn til gleðinnar


ludwig in da house og snjóbirtan er blindandi á öðrum degi á nýju ári. degi sem einhverjir verja í að telja dauða hluti og taka stöðuna. en ekki ég. ég kann ekki að telja og kýs að vera á hreyfingu, að iða í skinninu, að geta ekki beðið eftir þessu sem er alltaf í þann mund að fara að gerast; næsta andartaki, næsta andardrætti. ég klappa saman lófunum og hoppa á staðnum. af ásetningi. það er daglegt verk að sparka tennurnar úr depurðinni. never a dull moment. hækka í ludwig. dúndra mér í skræpóttu silkibuxurnar og fer yfir strikið í að assessorísera. einhver þarf að vera frávikið í þessu hvíta heimi. djöfulinn hafi það, it might as well be me.