ég hjó dánu höfuðin af fúskíableiku liljunni en leyfði þessum tveim sem ekki höfðu opnað sig að standa. það hljómar eins og lygi en er engu að síður sannleikur að ég hafði vart fleygt afskorningunum í lífræna sorpið þegar hin tvö eftirlifandi tóku að rétta úr sér og myndast við að slíta krónblöðin hvert frá öðru. þegar ég kom fram í morgun höfðu þau þanið sig út eins og litfagrir lúðrar í móttökunefnd mér til heiðurs. ég læt þetta ekki stíga mér til höfuðs. alla vega ekkert að ráði. líkast til er það einfaldlega eins með liljur og menn að stundum eru bara of mörg höfuð á einum og sama búknum.
við erum að horfa fram hjá því að það rignir á fyrsta í aðventu og að okkur vantar kerti í englaspilið. en kransinn er tilbúinn. hann er gerður úr grannri marggreindri grein, fínlegur og fagurgrænn og minnir örlítið á þyrnikórónu krists án þess þó að vekja of mikil hugrenningatengsl við sársauka – það er ekki meiningin að skyggja á fagnaðarerindið með gáleysislegri notkun á kristilegum táknum. það logar á spádómskertinu. loforðinu um hinn mesta kærleika hefur verið sleppt út í andrúmsloftið og við höfum náð samkomulagi um að treysta því að allt rati til ljóssins, konur, refir og villuráfandi bænir. og um það greindi ég reyndar skýrt teikn í fyrradag á leið til vinnu. að venju var ég á hraðferð en þar sem loftið var öllu kaldara en ég hafði gert ráð fyrir staldraði ég við á dyraþrepinu til að setja á mig kanínukransinn. sem ég smokra úfnum feldinu yfir hnútinn á hnakkanum lyfti ég höfðinu til að hagræða kransinum betur við eyrun og sé þá, svo ég hrópa upp yfir mig af fögnuði, að úrverkið hafði um nóttina komið fyrir á himninum skáhallri mánasigð, líkastri skínandi vöggu, og yfir henni, eins og barni sem veit að það verður gripið, sólbjartri stjörnu í stærra lagi. nú getur vel verið að einhverjum þyki maður lifa með skáldlegasta móti en ég er engu að síður á því að ef slík sýn að morgni dags er ekki fyrirboði þá veit ég ekki hvað.
á meðan við tínum til smáfugla og köngla og títuber til að hafa með kransinum hugsum við að það væri óneitanlega skemmtilegra að eiga tiltæka biblíu á heimilinu. sér í lagi þessa rauðu í flaueliskápunni. hún er ekki eins þunglyndisleg og sú svarta sem ég man eftir úr æsku minni. við ákveðum að hafa tónlist með kransagerðinni fyrst við eigum enga biblíu og gerumst svo bíræfin að kveikja á útvarpinu. anton er í banastuði þessa dagana. þá á ég við stuði af því taginu sem gæti þá og þegar banað okkur refnum. við vogum okkur ekki að svo mikið sem gjóa augunum í áttina að jólaplötunum. í útvarpinu er einmitt að fara í loftið lokaþátturinn í röð sem við höfum undanfarið fylgst með af áhuga og fer nokkuð nákvæmlega ofan í saumana á lífi og list mozarts. anton virðist geta hlustað á mozart án þess að finnast hann nauðsynlega þurfa að prjóna eitthvað við tónsmíðarnar. mér aftur á móti getur ekki annað en þótt það örlítið niðurdrepandi að hlusta á frásagnir af afrekum undrabarnsins þegar mér sjálfri, fertugri manneskjunni, hefur ekki enn tekist að ná lágmarksfærni í einföldum aðgerðum eins og að leggja saman þvottagrindina án þess að klemma á mér fingurna svo ég tali nú ekki um að hengja grenigrein í glugga þannig að hún virðist svífa í lausu lofti. á þessu heimili snúast jólaskreytingarnar að stórum hluta um að storka þyndaraflinu og eiga það því til að vera full verkfræðilegs eðlis. mozart er ágætis mótvægi í þeirri glímu. einhvern veginn hafðist þetta samt og það tiltölulega slysalaust ef frá er talið að ég kom stólfæti aðeins of harkalega fyrir á vísitánni og stakk mig í þumalinn með blómavírnum. þetta síðartalda er aðventuklassíker.
annars vorum við lygilega hófsöm í grenikaupunum í ár. eyddum ekki nema þrjúþúsundogfimmhundruð krónum í blómabúðinni. eða ég, það er að segja. refurinn beið heima og ber enga ábyrg á þessu. hann veigrar sér orðið við heimsóknum í blómabúðina. indælu hjónin sem reka búðina eiga labradortík í, hvernig á ég að orða þetta, umtalsverðri yfirvigt sem hefur ásett sér, þannig að ekki er um að villast, að vinna ástir refsins. þetta gerir hann taugaóstyrkan. eðlilega. hreyfingar dömunnar eru álíka fínlegar og hún sjálf. þannig að oftast nær snýst veran í blómabúðinni upp í það að hann æðir um með stórgerðan aðdáandann á hælunum og reynir að finna sér undankomuleið, smeygjandi sér á milli rósabúnta og leirpotta og glerfígúra, sveiflandi fjöðrinni ótt og títt svo allt umhverfis rambar á vonarvöl og ég hef ekki undan við að forða okkur frá óþarfa fjárútlátum. sem eins og ég kom inná áðan eiga ekki að vera nein þessa aðventuna. þar með talið er að láta það alfarið eiga sig að kaupa hreindýrahorn á refinn eins og ég impraði á að gæti verið skemmtilegt í ár. taka mynd og senda sem jólakort og kveðju á feisbúkk. hann var ósammála. þetta snertir á, eins og hann orðar það, „réttinum til að halda sjálfsvirðingunni yfir hátíðirnar“. ég á ekkert svar við þessu. þannig að við kaupum bara nýtt slifsi. höfum það svart. einfalt. elegant. það getur einhver annar tekið það að sér að vera trúðurinn þessi jól.