miðvikudagur, 20. júlí 2016

það er ekki ég sem er vandamálið, heldur samhengið.


ég er ekki lengur í parís. ég er í mosfellsbæ. eftir tólf tíma ferðalag frá ítalíu, í lest, rútu og flugvél, sveif ég yfir "heimavelli" mínum – þeim sem jafnan gerir lítið fyrir geðheilsuna – og einbeitti mér af öllum kröftum að því að snúa vélinni aftur til parísar með hugarorkunni. það gekk ekki eftir. líkast til vegna þess að aðrir farþegar vélarinnar unnu svo markvisst gegn mér; uppnumdir útlendingar súpandi hveljur yfir bjartri júlínóttinni; nef og enni samlanda minna þétt upp við sporöskjulaga glugga flugvélarinnar í því sem virtist agndofa lotningu yfir fegurð vestmanneyja: "við erum komin heiiiiiimmmm!". ég lokaði augunum og lagði jakkann yfir höfuðið. frá flugvellinum að dyraþrepinu að heimili mínu gafst mér svo færi á að virða fyrir mér úrval ljótustu byggingareininga evrópu vestan megin við tjald. mér til mikilli vonbrigða höfðu húsakynni kjúklinga fyrir crackfíkla (kfc) ekki molnað til grunna á meðan ég brá mér frá. það illfygli stendur ennþá handan götunnar með allri þeirri sjónmengun sem af því hlýst. hvað get ég sagt. kona er ofurefli borin. það hefur fjölgað í fjölskyldunni. ég geri mér grein fyrir að þessa setningu megi skilja sem svo að ég hafi látið barna mig á meginlandinu. en ég er ekki átján ára. og nýja "barnið" er ekki dökkhært og brúneygt. það er gult. og fiðrað. maður þarf virkilega að fara varlega með orð. ekki nema þrír mánuðir síðan ég fór ljóðrænu offari um sólgula fugla hér á síðunni og voilà! hér sé sólgulur fugl! þetta hlýtur í alvörunni að teljast nokkuð stórkostlegt. og til merkis um ótvíræða spádómsgáfu mína ef ekki hreinlega telekinesíska hæfileika. furðulegt samt að þetta virki ekki með sama hætti á fólk. ég er búin að kalla eftir áhugaverðum, fyndnum og hjartahlýjum kærasta í umtalsvert lengri tíma en þrjá mánuði og í stuttu máli sagt hefur lítið gerst í því máli. hann heitir anton. fuglinn það er. kannski eru það örlög mín að sanka að mér því sem svarar mér ekki með orðum þegar ég yrði á það. en maður hefur þá alltaf útvarpið. í morgun fann ég meira að segja heimasíðu uppáhalds útvarpsstöðvarinnar minnar í parís. mögulega fer ég aldrei framar út úr húsi. nema einhver ætli að kosta mig til parísar. þá getum við talað saman.