... þegar ég kom til baka stóð fallega klæddur karlmaður við innganginn að markaðnum. ég hafði skroppið í hraðbankann eftir lausafé og hann hafði alls ekki staðið þarna þegar ég snaraði mér út um þennan sama inngang örstuttu áður. það hefði ekki farið framhjá mér. utan þess að vera vel til fara var þetta maður af því taginu sem konur taka eftir. fallega eygður. hæfilega kæruleysislega greiddur. hann stóð þarna á sólbakaðri gangstéttinni undir bogadregnum innganginum og virti fyrir sér götulífið; geymdi hægri hendina í buxnavasanum en þá vinstri hafði hann hringað utan um stórt búnt af fúskíableikum bóndarósum innvöfðum í karamellubrúnan verksmiðjupappír. í eitt augnablik hvarflaði að mér að manninum hefði verið komið fyrir þarna sérstaklega fyrir mig. ég er í parís. svona hlutir gerast. en svo tók ég eftir kærustunni hans sem stóð skammt frá, bograndi yfir lásnum á hjólinu sínu. ég gæti ekki logið því oft að ég hafi ekki orðið vonsvikin. ég mun aldrei eignast kærasta. þessi staðreynd er að teiknast mjög skýrt upp fyrir mér hér borg ljósanna. og ástarinnar. þetta, ásamt ýmsu öðru sem ég veit ekki hvort ég eigi að hafa smávægilegar eða töluverðar áhyggjur af. eins og til dæmis því að skrítni fæðingarbletturinn á innanverðu hægra lærinu er í alvörunni frekar skrítinn og að ég hef ekki enn komið sjálfri mér í skilning um að maður skrifar ekki bók á meðan maður vaskar upp. þannig að ég bregð mér reglulega inn í búðir súkkulaðimeistara og kökugerðarmanna á flandrinu um hverfin hérna í parís. mér dettur einfaldlega ekkert frumlegra í hug. parís er svo falleg að stundum finnst mér eins og ég hljóti að missa sjónina af einmanaleika. ég fann svo sterkt fyrir þessu í dag að ég var konunni í næstu íbúð innilega þakklát fyrir að öskra á manninn sinn bróðurpartinn af eftirmiðdeginum. eða ég gef mér að þetta hafi verið maðurinn hennar sem hún brýndi svona raustina við. ég veit að þetta var ljótt af mér. konunni var mikið niðri fyrir. um stund heyrðist mér hún gráti nær. ég hef ekki hugmynd um hvað maðurinn gerði af sér. þótt hrópin í henni bærust mjög greinilega inn um opinn stofugluggann, sem vísar einmitt að stofuglugga þeirra hjónanna hver stóð sömuleiðis galopinn, skil ég því miður ekki orð í frönsku. og tala hana enn síður. í matvörubúðinni hef ég gert tilraun til að biðja afgreiðslufólkið um ýmsa einfalda hluti, eitt og annað sem mig hefur vanhagað um það sinnið, til dæmis kanil. maður segir kanill nánast nákvæmlega eins á frönsku og ítölsku (á þeirri tungu get ég gert mig prýðilega skiljanlega): canelle. ég bar þetta mjög skýrt fram við afgreiðslustúlkuna í minni fyrstu heimsókn í hverfisbúðina. þetta var einlægur gjörningur af minni hálfu. stúlkan horfði á mig allt að því slegin. líkt og ég hefði sagt eitthvað svo fjarri nokkru orði í franskri tungu að það væri hreinasta vitfyrra að ætla einhverjum að reyna að skilja mig. í framhaldinu kallar hún um alla búð eftir aðstoð. starfsfólk og viðskiptavinir eru allir sama spurningamerkið þegar ég ber kurteislega fram þessi þrjú atkvæði. fólk kemst í uppnám. hvað í veröldinni getur þessi útlenska kona verið að fara? loks réttir hávaxin kona upp hönd og kveðst tala ensku. ég bið um cinnamon. aaahh, segir konan. og endurtekur nákvæmlega það sem ég hafði í það minnsta títekið við afgreiðslustúlkuna og meðhjálpara hennar. allir fórna höndum og ranghvolfa augum. aaaahh, canelle! af hverju sagðirðu það ekki strax! frakkar geta verið óþolandi. mér er alveg sama þótt ég sé að alhæfa. það er eitthvað verulega bogið við hlustina í þessu fólki. þetta hlýtur hreinlega að eiga sér einhverja þróunarsögulega skýringu. svona líffræðilega, meina ég þá. það borgar sig ekki að reyna að gera þessu fólki til geðs. betra að láta því líða illa yfir slakri enskukunnáttu. þetta er ekki sérlega stórmannlegt af mér. ég veit það. sjálfsagt er ég bara eitthvað miður mín út af manninum með fúskíableiku bóndarósirnar í fallega brúna pappírnum. fúskíableikar bóndarósir eru uppáhalds blómin mín. það hefur aldrei neinn gefið mér svoleiðis.
sunnudagur, 26. júní 2016
miðvikudagur, 8. júní 2016
vinsamlegast forðist rask á mosa og rótum
á leiðinni upp fellshlíðina í gærmorgun var mér svo þungt um hjartarætur að líkara var að ég bæri fellið í poka á bakinu en að ég klifi það. þannig að ég tók til fótanna. hljóp þangað til mig sveið í lungun og æðakerfið virtist hafa tekið sér bólfestu í andlitinu. svo fór ég í sund. það hrökk til. suma daga þarf maður aðeins þetta einfalda; hlaupa milli lúpínubreiða; dvelja í vatni; þvo sér um hárið; standa nakin undir berum himni. og þá kemst maður út í búð að kaupa í salat. aðra daga er þetta flóknara. mig langar ekki að tala um þá daga. ég var að byrja í þúsundustu geðheilbrigðismeðferðinni. ég vona að hún virki. annars drepst ég mögulega úr depurð. sem væri töluvert leiðinlegt fyrir alla málsaðila. heimurinn er grænn núna. og brúnn. á líkama mínum eru óljós för þar sem sólarljósið komst ekki að húðinni í gegnum sundfötin. það er dáldið sniðugt og mér fannst ég ósköp falleg svona röndótt og rennblaut þegar ég striplaðist um útiklefann eftir víxlböðin og gufuna. að lifa lífi sínu einn. af því maður kann ekki annað. að lifa hvern dag eftir reglum ritúalsins. því annars liðast dagarnir í sundur. þegar það gerist eltir refurinn mig á röndum og leggst niður hvar sem ég hvíli fæturnar. hundurinn minn starfar ekki einn. um það er ég sannfærð. hann á sína samstarfsaðila þótt þeir tilheyri ekki hinni sýnilegu vídd. en þeir eru þarna. og vinna sín verk af þolinmæði. rétt í þessu rigndi og aspirnar anda inn um stofugluggann. ég sest á bænapúðann og anda með þeim. það er gott að einfalda tilveruna niður í grunneiningar; innöndun; útöndun. moka frá hjartarótunum. hleypa dálitlu súrefni að þeim. bæta vaxtaskilyrðin. án þess að hugsa of mikið um það. yfirleitt er ekki til bóta að hugsa of mikið. þetta vita hundar. hundur lætur sér alltaf nægja að klífa fellið. honum myndi aldrei detta til hugar að burðast með það á bakinu.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)