laugardagur, 26. mars 2016

aðfaranótt páskadags

ef ég ætti elsku myndi ég senda honum búnt af sólgulum blómum – lágmark tólf tylftir, það mætti ekki minna vera – með flokki sólgulra fugla sem allir sem einn þekktu aðeins eitt nafn (ég þarf ekki að taka fram hvers). ég myndi senda þá af stað inní opið morgunsárið, í blíðu logni og brothættri kyrrð, því kærleikurinn vonar allt, trúir öllu og reiknar aldrei með náttúruhamförum. en hvernig læt ég. ég á enga elsku. og sjálfsagt verður það þannig. sjálfsagt mun ég drukkna í öllum þessum blómum og sólgulu fuglarnir mínir merjast á stefnumóti við þrefalt gler. nema ... svo ólíklega fari, að þú skiljir eldhúsgluggann eftir opinn í nótt. 

föstudagur, 25. mars 2016

sál mín er sólgulur fugl – eða, alkemía, hin hversdagslega


hinn lengsti föstudagur og birtan er tærari en hún hefur verið lengi. svo lengi að ég man ekki hvenær ég sá slíka birtu síðast. mér finnst eins og hún gæti þá og þegar breyst í hvítt egg. ég veit ekki hvort þetta er rétt eða skakkt skynjað hjá mér. í dag er heimurinn að hvíla sig. fólki finnst það eiga að halda sig heima. einhverjir fara út með hundinn sinn. en ekki margir. verslunareigendur halda hurðum sínum lokuðum og ferðir strætisvagna eru stopular. sem hér í eldhúsinu gerir það að verkum að mér finnst eins og hægist á tímanum þar sem ég sit við gluggann og fylgist með engu eiga sér stað á stoppustöðinni. ég er ekki ein við þá iðju. köttur nágrannans sinnir henni sömuleiðis ofan af grindverkinu mínu. þetta er köttur af því taginu sem virðist öllum stundum fullur fyrirlitningar í garð alls og allra. við tökum það ekki til okkar, refurinn og ég. við leitum kærleikans. og kærleikurinn reiðist ekki. kærleikurinn er langlyndur. svo við beinum athyglinni annað. í gærmorgun sóttum við nokkra agnarsmáa sólgula unga í lítinn skókassa út í geymslu. við fundum þeim stað á gluggakistunni í stofunni ásamt dálitlu af eggjaskurn. þeir eru óttalega fallegir. það er eitthvað við gular fjaðrir sem fyllir mann björtum hugmyndum. kannski á ég að gera alvöru úr þessu með að fá mér gulan páfagauk. sú hugmynd blundar alltaf með mér. sem og þessi með að flúra akkeri á ökklana á mér. 

ég verð aldrei frjáls 
ef ég er ekki þegar frjáls
 drottinn vertu hjá mér

það er ekki ég sem syng þessi orð. það eru páskar. nick cave er í húsinu og sálmarnir fljúga úr hátölurunum. söngfuglinn grætur. í anda dagsins. hann biður um tólf fötur undir tár sín. tólf fögur fljóð til að bera þær. og tólf djúpar holur til að grafa þær í. ég hlusta en býðst ekki til að bera þessar fötur fyrir hann. í dag ætla ég ekki að gráta. í dag ætla ég á sveig við anda dagsins. leggja lykkju á leið mína um táradalinn. beina athyglinni annað. í dag er ég á heiðingjabrókinni. þeyti gul egg í blárri skál og renni mér í gegnum nokkrar sólarhyllingar. fylgist með því hvernig hádegisbirtan leysir upp frostflögurnar á pallinum og breytir þeim í litla tárapolla. alkemían er alls staðar. 

ég breyti í hjartaspaða 

það er ég sem segi þessi orð. ég er að galdra. það er ekki hægt að reiða sig eingöngu á orð annarra í baráttunni fyrir sínu eigin frelsi. og orð ein og sér duga ekki til. það er þörf á kraftmeira bruggi taktfastra gjörða og sólgulra hugmynda. þess vegna brýt ég skurn eftir skurn og þeyti egg. fullt hús sólgulra hugmynda. 

í húsi mínu eru margar vistaverur

þessu stal ég frá höfundi biblíunnar. ég treysti því að glæpurinn falli í skuggann af harmleiknum sem stendur yfir og er einmitt að ná hámarki akkúrat núna á þessu augnabliki. þeim sem ég er að láta eins og ég taki ekki eftir. því í dag ætla ég ekki að gráta. í dag ætla ég bara að borða egg. drekka appelsínute. kljúfa skurn. breyta tárum í sólgular fjaðrir. osfrv.

mánudagur, 21. mars 2016

bálkur hrakfalla: veðurlýsingar á 21. öld


í dag var mér kalt á þann hátt að það gat ekki leitt til annars en að elda grænmetissúpu. þetta var einn af þessum dögum þegar maður virðist alltaf vera með vindinn í fangið. sama hvert maður snýr. eins og einhver ótrúlega slungin og óhagstæð gagnverkan fari í gang á milli hreyfinga manns og strauma í lofti. ég sótti reiðhjólið í geymsluna í morgun eftir það sem aðeins verður lýst sem langri og leiðinlegri vetrarvistun. einhvern veginn var töluvert erfiðara að hjóla en mig minnti. ég hugsaði með mér að þetta hlyti að skrifast á æfingaleysi; það sé ekki af ástæðulausu sem hjólreiðar teljist íþrótt. á miðri leið áttaði ég mig hins vegar á að allt loft hafði lekið úr dekkjunum. ég ákvað að skrifa þetta sömuleiðis á æfingaleysi; hver man eftir einhverju jafn efnislitlu og lofti á milli árstíða. þegar ég loksins náði á áfangastað rann upp fyrir mér að ég hafði gleymt númerinu að hjólalásnum. ég reyndi síðustu tölurnar í kennitölunni minni, árið sem lennon var skotinn og líkamsþyngd mína á sólinni í pundum. ekkert leysti lásinn úr læðingi. þetta skrifast augljóslega á æfingaleysi. ég verð að flytja eitthvert þar sem ég neyðist ekki til að leggja hjólinu mínu heilu og hálfu mánuðina. eitthvert þar sem loftstraumarnir gera sér ekki að leik að snúast gegn manni í tíma og ótíma. eitthvert þar sem fólk með líkamsfitu undir rostungsmörkum getur farið ferða sinna án þess að verða svo líkkalt að það viti næst af sér með brunasár í gómnum eftir að hafa reynt að borða sér til hita. ég viðurkenni reyndar að ég gleymdi hreinu nærbuxunum heima þegar ég fór í sundið svo ég neyddist til að hjóla heim í einni flík færra en ég kom í en ég held að þetta litla plagg sé ekki það sem skilur á milli í þessu máli. þetta er stærra vandamál en svo.    

fimmtudagur, 17. mars 2016

er eitthvað átakanlegra en dáin blóm?


mér er að takast að drepa litla nóvemberkaktusinn sem ég keypti fyrir jólin. ég kalla hann the baby jesus. sá eldri (síníorinn) þarfnast sárlega umpottunar og lítur sömuleiðis út fyrir að vera við dauðans dyr. þannig að þetta er sitthvað sem maður hefur á samviskunni. ekki eldri en maður er. 

miðvikudagur, 16. mars 2016

of lengi hefur mér liðið eins og hjarta mitt sé fullt af dánum blómum


að undanskildu rotnaða laufinu sem liggur í litlum hrúgum hér og hvar á pallinum mínum er hann algjörlega auður. svo auður að það væri hæpið að sá sem ekki vissi betur myndi láta sér detta til hugar að fyrir aðeins örfáum dögum lá á honum stærðar klakabunki, nokkurs konar vetrarmara, sem virtist komin til að vera. en nú er hann auður. og ekki nóg með að hann sé auður – hann er baðaður sól. þetta er að gera ýmislegt fyrir mig. 

laugardagur, 12. mars 2016

ást er: a) stærri en þrenningin ( = stærsta eining alheimsins) b) alls óskyld hinu mælanlega ( = hinn mikli leyndardómur)

tólfti dagur þriðja mánaðar og ísing og umhleypingar bregða fyrir mig fæti. mér er ekki hægt um að komast leiðar minnar. kannski er öruggast að hætta að mæta til vinnu. nægur er lífsháskinn samt. ég eyddi nóttinni á þrjú fimmtán vaktinni. merkilegt hvernig líf manns er alltaf að fara í hundana þegar maður liggur andvaka á milli korter yfir þrjú og hálf sex. á þeim tíma sólarhringsins vinnur fátt með manni. á þrjú fimmtán vaktinni er maður óumflýjanlega örsmátt brum á nötrandi grein; ófullburða útgáfa af því sem vænst var; nokkurs konar sýnishorn af manneskju – það er sama á hvað er litið, það er langt í land. svo staulast maður á lappir þegar klukkan hringir, líkastur marbletti af sjálfum sér, og er megnið af deginum að hrista af sér þá tilfinningu að líf manns hafi farið forgörðum. mögulega hefur þetta eitthvað með það að gera að ég graðga í mig lífrænum döðlum og kókosflögum líkt og hvort tveggja megi týna af trjám nágrannans. drekk meira rauðvín en gott getur talist. sef stopult. innst inni veit ég að mig langar í eitthvað en get ekki komið fyrir mig hvað það er. suma daga grunar mig að það sé ást. aðra, fullvissa. enn aðra, skýr hugsun. sem kannski er allt samofið:

skýr hugsun og fullvissa
 um ástina;
ástina til lífsins;
ástina til að skapa;
ástina til að elska 

kannski er þetta allt eitt og hið sama; ást er allt; allt er ást. gerum okkur grein fyrir því. á hverjum degi segi ég við sjálfa mig: veldu af elsku, ekki ótta. svaraðu af elsku, ekki ótta. breyttu af elsku, ekki ótta. þetta er lykilatriði. það er lægð úti við sjóndeildarhringinn. á morgun gæti öllu ringt niður. það er allt í senn möguleiki og hótun. allt eftir afstöðu þess sem horfir. út um eldhúsgluggann sé ég til ferða langferðabifreiða fullra af ferðamönnum. skilti bensínstöðva og skyndibitakeðja. lágreistan stórmarkað prýddan stálklæðningu og flötu þaki. þessu fylgir ákveðinn annarleiki. í það minnsta fyrir þann sem er að reyna að lifa ljóðinu. og velja af elsku. og lifa af þrjú fimmtán vaktina. frá því ég flutti inn hef ég verið að hugleiða að senda bæjarstjórninni bréf þess efnis að ég krefjist tafarlausra úrbóta á þeirri ópóetísku umgjörð sem hversdagslífi mínu er gefin. ég myndi setja mál mitt fram af festu og stillingu (þó mér sé ekki þannig innan brjósts). ég myndi til dæmis forðast að tala um “kapítalísk öfl„ og þess háttar. sem hljómar alltaf áróðurskennt og öfgafullt. þess í stað myndi ég reyna að höfða bæði til hins praktíska (hinn skynsami samfélagsþegn) og hins fagurfræðilega (hinn umhyggjusami samfélagsþegn) og leggja til þá lausn að garðyrkjufræðingi bæjarins yrði falið það verkefni (atvinnuskapandi = praktískt) að reisa sjónmúr úr sígrænum gróðri milli heimilanna í hverfinu og hins opinbera (fagurfræðilegt = umhyggja) með skírskotun í réttinn til einkalífs. að sjálfsögðu myndi barátta mín ekki skila neinum árangri. svo ég hef ráðgert atlögu af öðrum toga. og öllu meira listræns eðlis. nefninlega að koma fyrir, svo eftir yrði tekið, merkjasendingu á við þessa hér ofar ... eða neðar: 

< 3

hljóðlát handsprengja. heimasmíðuð. til að minna á. fólk gæti svo látið teiknið ganga. ég held að þetta gæti orðið fallegur gjörningur. að slá inn jöfnu þess ómælanlega á veggi verðmiðanna. af elsku. ekki ótta.        

föstudagur, 4. mars 2016

eitthvað hefur bleytt í sandinum í stundarglasinu.

samkvæmt tarrotspánni á marsmánuður að vera fullur af magík. ég bara bíð. og þar sem janúar átti að innihalda einhverja karlpersónu (óvænt innslag í þáttinn einsetukona situr við gluggann - beðið eftir bréfi) sem þó láðist að dúkka upp, hefur sjálfsagt gleymt sér við skemmtan eða önnur störf, er ástandið bið mér ekki algjörlega framandi. ég klára úr rauðvínsglasinu. hundurinn sefur. ég vanda mig. alla daga. reyni eins og ég get að lifa fallega. þó stundum langi mig það ekkert. stundum langar mig bara að vera slóði. liggja í bælinu og skeyta engu um það sem heimurinn væntir af mér; sé það átta klukkustunda vinnudagur, viðræðuhæfni eða samstæðir sokkar, allt vil ég láta það lönd og leið, láta reka á reiðanum (á morgun segir sá lati og einhvern veginn er eins og vísifingurinn á mér stækki umtalsvert), leyfa lífi mínu að drabbast niður og sjálfri mér með þar til hvort tveggja verður lítið annað en þokukennd mynd af því sem það eitt sinn var. en ég geri það ekki. ég held aftur af mér. ég held í horfinu. en að halda í horfinu er ekki það sama og að lifa. það er meira eins og æfing í því að lifa. ég er meðvituð um þetta. og bráðum hætti ég að æfa mig. bráðum hætti ég líka að beyta hjartavöðvanum vitlaust. vöðvi má aldrei að toga í átt að festum. þá getur hann slitnað. hann verður alltaf að toga í átt að upptökum sínum. þetta er grunnatriðið í þjálffræði ... einhvern veginn hef ég flust úr magíkinni yfir í lífeðlisfræði. kannski ekki um svo langan veg að fara – what a piece of work is man. og talandi um þá kórónu sköpunarverksins; hvað tefur manninn? (ath! hér er ekki talað almennt, hér er ekki rætt um hið mannlega ástand). við hvað dvelur sá sem beðið er eftir fyrir opnu hafi og hjarta? ég hef lagt á borð. keypt blóm. vandað mig. og ekki ligg ég í bælinu. ég er hér. hvað í fjandanum er maðurinn að drolla?