þriðjudagur, 29. desember 2015

dragðu ávalt þá ályktun að allt sé á hinni bestu leið; aflærðu af reynslunni



ég er svo gott sem hætt að kveikja rafmagnsljós. þetta er árstíðabundið en líka fagurfræðilegur fetish. það er eitthvað ómótstæðilegt við óvarinn eld í hóflegri stærð. logi er alveg lygilega passleg stærð fyrir óvarinn eld. það gætu samt hafa verið mistök að koma englaspilinu fyrir á sólbekknum í eldhúsinu. ekki svo að skilja að ljósin fari illa í glugganum eða njóti sín ekki því eitthvað skyggi á – síður en svo; spilið situr einmitt svo fallega á bekknum miðjum þaðan sem hægt er að dást að því bæði frá eldhúsinu séð og stofunni að hin mesta unun hlýst af fyrir þann sem horfir. en þetta er einmitt lykilatriði; fyrir þann sem horfir; englaspil er fyrst og fremst til ánægju þeim sem horfir á það – jú, og hlýðir á þegar klingir í við snúninginn. mistökin eru því ekki beint að hafa valið spilinu þennan stað heldur felst vandinn fremur í því hversu lágt bekkurinn sjálfur liggur; nánast niðri við gólf og þar af leiðandi í nefhæð við einu veruna á heimilinu sem ekki telst vitiborin samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum: getur ekki  dregið ályktanir fyrirfram út frá einfaldri orsakaafleiðu (þetta er logi; allir logar eru heitir; ef ég sting nefinu í logann brenni ég mig) heldur lærir aðeins með beinni reynslu og getur þá vonandi eftirleiðis forðast að álíka nokkuð endurtaki sig. ... eftir á að hyggja á þessi skilgreining reyndar við okkur bæði. jafnvel þó annað okkar eigi að teljast vitiborið. en hvað um það. við erum ekkert að velta okkur upp úr þessu. sjálfsagt jöfnum við okkur á þessu eins og öðru. það verður jú ekki af manni haft að vera í þjálfun þegar það kemur að blossum og brennimerkingum þeim sem lífið lýstur mann. enga biturð samt. maður fær bara hrukkur í kringum munninn af því að hanga í þeim leiðindagír. það stefnir í áramót. sem er öllu verra mál. okkur refnum leiðast áramót óheyrilega þó af ólíkum ástæðum sé; hann, sá sem ekki telst vitiborinn samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum, virðist geta dregið þá ályktun (þrátt fyrir sjálfan sig) að eldur af þeim toga sem fylgir sprengihvellur sé hættulegur öllum nærstöddum (samt veit hann ekkert um gaza-svæðið eða stríðið í sýrlandi); ég aftur á móti, sem telst vitiborin (þó persónulega þyki mér á stundum að um það megi deila), óttast ekki að springa í loft upp þegar klukkan slær miðnætti heldur er leiði minn einmitt frekar tengdur því – og ég vona að fólk geri sér grein fyrir að nú færi ég mig yfir í líkingamálið – hversu illa mér gangi að „sprengja upp“ tilveruna og hversdaginn ef ekki hreinlega persónu mína alla eins og hún leggur sig ... þó það hljómi kannski óþarflega dramatískt. þetta hefur ekkert með sjálfeyðingarhvöt að gera. ég er ekkert að óska mér út úr veruleikanum. alls ekki. áramótaþunglyndið er meira í ætt við gríðarsterka löngun til að umbreyta formi veruleikans – og manni sjálfum með (heiminum öllum jafnvel) sem og skúffelsi yfir því hversu treglega sá gjörningur gangi þrátt fyrir ítrekuð plön um að hrinda slíkri umbreytingu í framkvæmd. þar á ofan þoli ég auðvitað mjög illa allar skyldur við almanakið. t.d. þá sem kveður á um að strengd séu áramótaheit á því magíska augnabliki þegar tölustafirnir í ártalinu taka breytingum í samræmi við gefin lögmál og stærsta sprengjan dúndrast í loft upp og tætir í sundur himininn með litahillingum og glymjanda, púðurlyktin í loftinu eins og minning og áminning í einni og sömu andránni; minning um það sem var og áminning um það sem er og er verðandi en verður rétt bráðum það sem var eða varð aldrei. og maður er alltaf jafn ringlaður. ég er bara með of óstabílt taugakerfi fyrir þetta fyrirbæri „líðandi stund“. er ekki hægt að taka smá pásu frá þessu endalausa tifi tímans? fær maður aldrei að hvíla sig? ég held að þörfin fyrir kertaljós og óþolið fyrir rafmagnsljósi séu eitthvað tengd þessu með tif tímans. að kveikja á kerti er einhvers konar ritúal til að hægja á tímanum. kannski er það þversagnakennt en þegar allt kemur til alls er það þversögnin sem gerir flesta hluti áhugaverða. treystið mér. ég er ein andskotans risavaxin þversögn.

mánudagur, 21. desember 2015

sú sanna ást og fleiri þættir úr daglegu lífi

ég er að lesa nýju bókina hans braga ólafs. hafi fólk eitthvað lesið sér til á þessari síðu í gegnum árin eða haft af mér sjálfri einhver kynni, þó ekki væri nema mjög takmörkuð, ætti því sama fólki að vera vel ljóst hvaða taugar ég hef til skáldskapar þess hógværa höfundar. þannig að. þetta er ekki góður tími til að hringja. það eina sem ég ætla að segja um téða bók að svo stöddu er að þar til lestri hennar lýkur rúmast ekki fleira undir mistilteininum – viðbragð sem var með öllu fyrirséð og einmitt ástæða þess að tekin var um það meðvituð ákvörðun að fresta lestri bókarinnar þar til nú, þegar jólaundirbúningur er að mestu yfirstaðinn. það var því fyrst í gærkvöld að ég opnaði þetta litla lögulega bókverk þó liðlega tvær vikur séu frá því það barst mér í hendur. einhverjum gæti þótt þetta orðalag barst mér í hendur gefa til kynna að bókin hafi borist mér póstleiðis. en þannig var það reyndar ekki. bókin barst mér í hendur úr höndum þess sem skrifaði hana og því væri kannski réttast að segja að ég hefði fengið hana frá fyrstu hendi. sem dregur síst úr unaðinum við lesturinn. allt er það vel. hér á heimilinu hafa verið tendruð ljós. á stofugólfinu – því sem minnir á rjómaísbreiðu fremur en gólf – við hliðina á bókahillunni þar sem myndin af lorca í vinnugallanum (alsvo einhverju ætluðu til garðyrkju, ekki ljóðagerðar) vakir yfir af mildi og mannelsku, hef ég sömuleiðis komið fyrir smávöxnu grenitré skreyttu ýmsu glingri og glitri. af smáfuglum og mandarínum er hér yfirdrifið. sömuleiðis könglum. og einhvern ilm leggur um íbúðina sem flestir sæmilega næmir ættu að geta sammælst um að sé ekki með öllu óviðeigandi með tilliti til árstíma. hann hefur eitthvað með epli að gera. úti fennir yfir dagana. ég nærist og sef og fylgist með furðum þeim sem eiga sér stað í heimabankanum. í því „skjóli“ virðist engu óhætt. áætlanir mínar um „spari“-jól virðast ekki ætla að ganga eftir. best að ég játi það bara strax og reyni ekki að draga yfir það nokkra fjöður að ég hafi keypt í það minnsta eina gjöf handa sjálfri mér frá ímyndaða jólakærastanum. sá maður á það til að vera til vandræða. ég er samt öll skárri af kærastaveikinni eftir að ég byrjaði að lesa bókina hans braga en þess háttar slappleiki hafði hálfpartinn legið eins og mara á heimilisandanum alla aðventuna og haft af mér töluvert af ánægjunni sem jafnan fylgir biðinni eftir fæðingu barnsins. réttast sagt hef ég algjörlega  leyft höfðinu á mér að hlaupa með mig í gönur í þessu kærastamáli öllu saman. og það ekki í fyrsta skipti. en nú er þessu lokið. nú, þökk sé mínum kæra braga, getur höfuðið á mér glímt við eitthvað efnismeira og næringaríkara en gagnslausar hugmyndir um einhvern andskotans jólakærasta. eða eins og hún louise bourgois elskuleg orðar það á póstkorti sem ég hef komið fyrir á veggnum hér við eldhúsgluggann: art is a guaranty of sanity

laugardagur, 5. desember 2015

blað og blek fara ekki saman nema fyrir tilverkan utan að komandi krafta

ég er á öðrum brúsa af uppþvottalegi frá því ég flutti inn. sem og annarri tannkremstúpu. tólftu tilraun til að byrja að hugleiða aftur og milljónasta kálpokanum. skráninga- og röðunaráráttan er á tilfinnanlega slæmu stigi. hugsanlega hefur það eitthvað með of mikla einangrun að gera. the unfed mind devours itself. það er eitthvað mjög sjúklegt við það að skrifa aldrei neitt nema lista yfir daglegar athafnir og svefnvenjur. mig hvorki dreymir né verkjar. jafnvel pottaplönturnar eru hálf uppburðarlitlar. að indjánafjöðrinni frátalinni virðast þær allar vera staðráðnar í að þorna upp. nóvemberkaktusinn er að vísu að myndast við að blómstra en ég hef á tilfinningunni að það sé fremur af hlýðni en löngun. í nótt féll snjór. birtan er bláleit. úti geysar óveður og óreiðan í höfðinu á mér er alger. tætingslegar hugsanir sem spírala í allar áttir á svimandi ferð. þar koma listarnir inn. þeir eru ákveðin leið til að vera pródúktívur í algjörlega ópródúktívu ástandi. stundum í eftirmiðdaginn ákveð ég að byrja ég á nýrri skáldsögu (all oft reyndar þegar ég hugsa út í það). ég tek meðvitaða ákvörðun um að gleyma því sem liggur fyrir, líkt og það hafi alveg óvart dottið úr mér að ég sé með sjöþúsund ritunarverkefni í töskunni, ég eigi hund sem viðri sig ekki sjálfur og einhver hafi étið allt út úr skápunum og þannig vandamálavætt nestisbox morgundagsins. allt læt ég þetta lönd og leið. sest niður. skrifa einhverjar línur. upphafssenu kannski. nostra töluvert við lýsingar á smáatriðum og finn fyrir einhverri stemningu bak við orðin. andrúmslofti jafnvel. í það minnsta einhverju sem heldur athygli minni nógu lengi til að ég dvelji við það nokkra stund án þess að veita því eftirtekt að myrkrið hrannast upp fyrir utan gluggana. einhverju síðar stend ég upp. teygi úr mér. fer kannski út með hundinn eða í súpermarkaðinn. elda eitthvað fyrir einn. og þegar ég sný mér aftur að tölvunni hef ég undantekningalaust steinhætt við að skrifa þessa sögu. þetta gengur ekki. það er yfirdrifið að dagsbirtan dragi lappirnar. óþarfi að raungera þann gjörning í eigin daglega lífi. það eru fimm dagar í skilafrest í ljóðasamkeppni jóns úr vör. klukkan tifar. ég hef fimm daga til skrifa hið fullkomna ljóð (eða eru þetta hamarshögg?) er eitthvað sem getur ekki farið úrskeiðis í þessu máli? enginn af listunum mínum getur talist verulega gott ljóð og þó ég eigi að minnsta kosti eitt töluvert áleitið ástarljóð á lager þá finn ég ekki rétta titilinn á það. og þar sem hann er búinn að vera týndur í þrjú ár hlýtur það að teljast í hæpnara lagi að hann finnist fyrir fimmtudag. álíka hæpið og að ég skrifi þessa skáldsögu. kannski ég komi mér bara út í óveðrið. leyfi storminum að finna mig. kannski ber hann mig eitthvert og ég vakna sem skáldsagnapersóna í rauðum skóm á grænu engi. og tala í ljóðum. ekki listum.