föstudagur, 23. janúar 2015

andalúsía = að anda ljósi

það er janúar, er einhverju við það að bæta? er maður ekki bara alltaf jafn gapandi stúmm yfir þessari  fáránlegu árlegu uppákomu, mér blöskrar alla vega alltaf jafn yfirgengilega þegar síminn vekur mig á morgnana og ég átta mig á að það sé í alvörunni aftur ætlast til þess að ég fari á fætur og komi mér út úr húsi, sem íslendingur ætti maður að geta sótt um bætur til sólkerfisins fyrir að vera mismunað um sjálfsögð lífsgæði sökum búsetu, ég er ekki frá því að þetta hafi hugsanlega haft einhver áhrif á þá ákvörðun mína að eyða mánuði í andalúsíu í sumar, í andalúsíu hefur aldrei neinn dáið úr myrkri eða kulda, þar borðar fólk appelsínur í öll mál og málar húsin sín með birtu (ég er meðvituð um nástöðuna í þessari setningu en nenni ekki að elta við það ólar), þar fyrir utan er leigusali minn, miguel, hinn huggulegasti maður, í það minnsta ef eitthvað er að marka prófílmyndina hans – sem þarf reyndar alls ekki að vera ... en það er aukaatriði, aðalatriðið er að mín físíska staðsetning á hnettinum mun færast í þá átt sem er eðli mínu ... eðlileg skulum við bara segja, ég finn ekki betra orð, ég sé fyrir mér að allt appelsínuátið í bland við þá ofgnótt af sólarljósi sem héraðið býður uppá verði til þess að ég ummyndist í mennskan sjálfhlaðandi ljósgjafa og snúi heim í betrumbættri útgáfu, auk þess las ég mér til um það nýlega að rannsóknir hafi hreinlega fært fyrir því sönnur að ferðalög örvi sköpunargáfuna, enda hef ég fyrir löngu komist að því að mér gengur best að hugsa á hreyfingu, sér í lagi þegar ég sé til við það sem ég er að gera

sunnudagur, 4. janúar 2015

af almennri nekt og hinum albesta ásetningi

enn einu sinni hefur almanakið með öll sín frammígrip og manipúleringar hreyft við yfirskriftinni að tímanum og ruglað með því talnablinda hæggenga sveimhuga og annað berskjaldað fólk með ofvaxið hægra heilahvel, ég fipast á hverjum morgni þegar ég dagset dagbókarfærsluna undir flöktandi kertaloganum og lágum tónum duke ellington (þeim hógværu frumefnum) og verð að stroka út töluna fjóra fyrir fimm – sem er ekki góð byrjun á flæðiskrifum og þeim frjálsu hugrenningum sem miðað er að og maður vonast eftir að ná tengslum við í morgunhúminum áður en meðvitundin tekur með öllu yfir og minnir mann á hvaða dagur er og til hvers er ætlast af manni, mín er vænst í vinnu á morgun (!), mér er orðfátt ... síðustu dögum hef ég varið í nærandi félagsskap hundsins og rásar eitt, þar er hver dásemdin af annarri á dagskrá svo ég klappa og hoppa hérna í eldhúsinu og hrópa „jibbíkóla, maður!“ að hundinum sem satt að segja má ekki við svona æsandi uppákomum, allur uppí loft í taugakerfinu og kemst ekki út að pissa eftir loftárásirnar síðustu daga, sú sena öll leiddi af sér þá niðurlægingu að í nótt fór smá á gólfið, dýrið hefur varla getað horft í augun á mér í dag, það kostaði töluvert tiltal að fá hann út úr forstofunni eftir atvikið, elsku hjartað, ég sannarlega elska hundinn minn, hann telst það allra besta sem henti mig á nýliðnu ári og nú bið ég fólk vel að merkja að ég bæði gaf út mína fyrstu bók og komst til míns heima í parísarborg á árinu sem leið, og hvað hugsar kona nú í upphafi þess sem mannfólkið hefur kosið að kalla ár, að einhverju leyti er ég ákaflega bjartsýn – allt er gott og allt verður gott, að einhverju leyti er ég ákaflega klofin – fyrir þann sem auðveldlega missir sjónar á hugsun sinni (er hægt að taka svona til orða? „að missa sjónar á hugsun sinni ... ?) og þjáist af hliðarverkunum hins ofvirka hugar; er eðlislægt að vaða úr einu í annað og líður stöðugt eins og allir hlutir gerist samtímis á einu og sama augnablikinu og af jafnmiklum styrk, á það ekki góðri lukku að stýra að ætla sér tvenns konar tilvist, annars vegar að sinna sínu starfi af ást og alúð – sem maður svo sannarlega vill, hins vegar að vera sá innhverfi og örgeðja listamaður sem maður svo sannarlega er, einhvern veginn virðist þetta hinn fullkomni veruháttur til að ein manneskja megi framkallast þannig sem best verður lýst með orðunum „úr fókus“, ég skal ekki segja, tarrotspáin býður mér að vinna hvað mest ég má, það er svo túlkunaratriði að hverju skuli vinna, í augnablikinu vinn ég aðallega að því að ná réttu hlutfalli á milli sítrónu og chiliolíu út á basil og tómatapastað, kona þarf að nærast þó hún lesi eins og vitlaus manneskja, og hvað hefur maður lesið, jú, englaryk guðrúnar evu sem flæðir fram eins og þýð og fögur á, ég get helst lýst þessari bók með því að það er einhver ofsalega falleg birta í henni, hlý og elskurík og umfaðmandi, ljóðameistari minn sigurður pálsson olli sömuleiðis ekki vonbrigðum (enda var enginn að búast við því) og tókst með undraverðum hætti að vekja með mér bæði trú á hjónabandið og áhuga á reykjavík sem var en hvort tveggja hefði ég talið algerlega ógerlegt mennskum manni, líkt og í fyrri endurminnigabókunum tveim þykir mér fallegast hvað hann sýnir sjálfum sér mikla væntumþykju og virðir fölskvalaust þá hugmynd að það sé forgangsverk hverrar manneskju að skapa sjálfa sig í eigin mynd, amen, ástarmeistari oddnýjar eirar er eldur í líki orða sem kveikir í líkama, sál og huga svo ekki séu höfð um það fleiri orð! g.e. er svo auðvitað g.e. og við vitum öll hvað það þýðir (sestu og lestu og lærðu að skrifa á íslensku eins og alminnileg manneskja), aðrir sem gista á náttborðinu eru ammrískur pælari um heilahvelin og sköpunargáfuna og elskan mín hann ágústínus, mér fannst tímabært að endurlesa játningarnar svo ég gaf sjálfri mér þær í jólagjöf ásamt suður-ameríska jólakærastanum (athugið, ekki eiginlegur kærasti með bringuhár og typpi heldur risavaxið sjal úr ull og silki sem heldur þétt utan um mig við lesturinn, þetta gerir sitt, maður hefur slakað svo á kröfunum), og kannski er orðið játning einmitt leiðarstef inn í nýja almanakið ... skyndilega átta ég mig á samsetningu orðsins almanak – almennt nakinn ... þetta kallar á gagngera endurskoðun, en já, játningar, altso hreinsandi heiðarleiki í eigin garð, eitthvað kemur skýrleikinn þarna við sögu jafnt sem forvitnin, eitt getur illa án annars verið, og þegar maður hefur tilhneigingu til að týnast í þoku og drunga og hafa ekki áhuga á öðru en því sem er of stórt í sniðum til að mannlegar hendur geti leikið um það svo vel megi vera (ég nefni ástina, tímann, guðshugmyndina, listina, lystarleysið og annað tilfallandi) er eins gott að finna sér ljómandi vörður til að styðjast við á leiðinni frá einum tímapunkti  almennrar nektar til annars, ergo; ég ætla að kaupa mér plötuspilara


*athugið myndbirtingin er villandi, hér er hvergi minnst á brauð, enda borða ég ekki brauð, það fer svo illa í hugsunina, myndin er eingöngu hugsuð í yfirfærðum skilningi, altso sem hugmyndin um að búa til af örlæti eitthvað nýtt sem bæði nærir og gleður