að borða súpuna beint upp úr pottinum af því maður nennir ekki að vaska upp litla leirskál og matskeið í hefðbundinni stærð hlýtur að teljast til þess sem sumt fólk kýs að kalla leti. sjálf kalla ég þetta hagkvæmni; síkvikan vilja til einfalda líf sitt og vera skilvirkari við heimilisstörfin. sem er dyggð. ég þreif fifties ísbúðina í dag. hér skín allt svo stirnir á. ég finn fyrir djúpri ánægju með vel unnin störf. stolti jafnvel. glerið í svalahurðinni lét ég að vísu eiga sig af tilfinningaástæðum. kámið eftir nefið á refnum sem skrapp í helgarferð út fyrir bæjarmörkin fór svo í hjartað á mér að ég fékk mig ekki til að pússa það með míkrófíbernum; múltípörpös klútnum sem mamma gaf mér einhvern tímann og er svo magnaður að maður þarf ekki annað en vatn með honum til að ná hámarksárangri. ég reyni að nota eins lítið af kemískum efnum og ég kemst upp með. held mig mest við edikið og sítrónuna. þetta tvennt fleytir manni langt við hversdagsverkin. ef ekki hreinlega alla leið. ég er með sjó í hárinu. sjóböð eru mér þerapjútísk skemmtun á laugardögum. að velkjast um í öldugangi og brimi á veðrasömum degi er einhver besta núllstilling sem hægt er að hugsa sér. áður en ég fer útí reyni ég að taka einbeitta ákvörðun um hvað ég ætli að skilja eftir í vatninu; móral yfir eigin meðalmennsku, depurðina, vonbrigði af margvíslegum toga, væl, löngun í það sem gerir mér ekki gott, efann ... eða hvað annað sem af einum eða öðrum orsökum er sérstaklega knýjandi þá stundina. vaða svo beint af augum og finna vatnsborðið færast upp eftir líkamanum. þegar það nær upp fyrir sólarplexus, sem samsvarar um það bil sjötíu prósentum af hæð minni sem aftur samsvarar nokkurn veginn innra vatnsmagninu, er tímabært að lyfta fótum frá botni og taka fáein sundtök. útlimirnir kólna hratt þegar blóðrásin hringar sig um líffærin. lungun verða á stærð við meðalstórt lífrænt epli. á þeirri stundu er gott að öskra kröftuglega. og reyna að berjast ekki á móti. leyfa saltlegi og sandi að þvo mann með valdi. snúa svo til baka tær og sterkur. og hjóla á barinn.
sunnudagur, 20. september 2015
þriðjudagur, 15. september 2015
tilraun til að skrifa tæmandi lista yfir það sem ber á milli
það gerir gæfumuninn að lesa þvottaleiðbeiningarnar
það gerir gæfumuninn að borða úr öllum fæðuflokkum
það gerir gæfumuninn að gráta sig reglulega í svefn
það gerir gæfumuninn að elska ástina
– jafnvel þó ástin sé ekki endurgoldin
það gerir gæfumuninn að hlusta á van á vínyl
það gerir gæfumuninn
að greina á milli þess sem er
og þess sem er ekki
um þetta munar verulega
það munar um samkennd vina þinna
það munar um hverja krónu
– þegar verslað er með hjörtu og aðrar hreinar afurðir –
það munar um salt í sárið
það munar um varalitinn
og sáravatnið
það munar um að segja satt
það munar um að halda nákvæmt bókhald
yfir fjölda augntillita og hljómfall í rödd
það gerir gæfumuninn að fylgjast með fréttum
það gerir gæfumuninn að skilja
muninn á því sem er tilfallandi
og því sem er raunverulegt
teikn;
stundum eru tveir samsíða líkamar aðeins þetta:
tveir samsíða líkamar
en hvorki myndhverfing tölunnar ellefu
né stoðir undir stærri heim
það gerir gæfumuninn að geta talið upp á tíu
þegar þú fyllist löngun til að taka upp símann
og velja rangt númer
það gerir gæfumuninn að læra af reynslunni
það gerir gæfumuninn að neita sér um réttinn
til rangra ákvarðana
það gerir gæfumuninn að freista einskis
sem gæti virst eitt
en verið
annað
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)